Hoppa yfir valmynd
11.04. 2023 Utanríkisráðuneytið

Jákvæð niðurstaða í jafningjarýni á þróunarsamvinnu Íslands

Mynd úr heimsókn utanríkisráðherra til Malaví, samstarfslands Íslands í þróunarsamvinnu, í desember 2022. - myndGunnar Salvarsson

Jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands var tekin fyrir á fundi nefndarinnar í París fyrir helgi. Niðurstöðurnar eru afar jákvæðar fyrir Ísland en þar kemur meðal annars fram að með skýrri og einbeittri nálgun á tiltekin málefnasvið, stofnanir og samstarfslönd, hafi Ísland nýtt styrkleika sína í þróunarsamvinnu og hámarkað framlag sitt til málaflokksins þrátt fyrir smæð.

„Það er sannarlega ánægjulegt að fá það staðfest af Þróunarsamvinnunefnd OECD að Ísland hafi með nálgun sinni og starfsaðferðum hámarkað framlag sitt til málaflokksins. Það er lykilatriði fyrir lítið ríki eins og Ísland að halda áherslum skýrum og setja áfram í forgrunn að þátttaka okkar sé virðisaukandi í hinu stóra samhengi. Á sama tíma er gagnlegt að fá ábendingar um hvernig við getum enn frekar eflt starfið, og við munum leggja áherslu á að koma tilmælunum til framkvæmdar á næstu misserum. Jafningjarýnin er enn fremur kröftugt innlegg inn í yfirstandandi stefnumótunarvinnu, en ég mun leggja fram þingsályktun um þróunarsamvinnustefnu til næstu fimm ára á haustþingi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Í skýrslunni er starf í þágu kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna nefnt sem dæmi um málaflokk þar sem Ísland hefur látið til sín taka á alþjóðlegum vettvangi og í tvíhliða starfi. Sökum þess hve Ísland nýtur mikils trúverðugleika á því sviði og skýrrar nálgunar sé sýnileiki og árangur af starfinu umtalsvert meiri en fjárframlög gefa til kynna. Nálgun Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu hlaut einnig mikið lof, enda hafi stuðningur við tiltekin héruð í samstarfsríkjunum reynst árangursrík leið til að koma stuðningi Íslands beint til fátækra samfélaga og eignarhald heimamanna sé því sterkt. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að samstarfsaðilar beri Íslandi vel söguna, enda hafi mikil áhersla verið lögð á að bæta verklag og vinna í takt við bestu starfsvenjur, en samstarfsaðilar frá Úganda og Malaví greindu frá samstarfinu við Ísland á fundinum.

Í skýrslunni er auk þess fjallað um áskoranir og tækifæri til að efla starfið enn fremur, svo sem hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu, heildræna árangursstjórnun, landaáætlanir, samræmingu stefnumála í þágu sjálfbærrar þróunar, stefnumótun í umhverfis- og loftslagsmálum, starfsemi GRÓ þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, starfsmannamál og samræmingu innan ráðuneytisins. 

Jafningjarýni er fastur liður í störfum DAC, en í henni felst ítarleg greining á starfi Íslands, skipulagi, áherslum, framkvæmd og starfsháttum. Niðurstöðurnar eru teknar saman í skýrslu sem birt verður opinberlega innan nokkurra vikna og gefin út á heimasíðu OECD og utanríkisráðuneytisins. Er þetta í annað sinn sem sinn sem þróunarsamvinna Íslands er rýnd á forsendum jafningjarýni en síðast fór slík úttekt fram árið 2017. 

Fyrirhugaður er opinn kynningarfundur um niðurstöður skýrslunnar 2. júní næstkomandi, en nánari upplýsingar verða kynntar síðar. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta