Hoppa yfir valmynd
19.04. 2023 Utanríkisráðuneytið

Nýtt samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Kamuzu háskólans í Malaví

Tadala K. Phiri, lengst til hægri, ásamt leiðbeinendum sínum og samstarfsfólki, t.f.v. Baxter H Kachingwe, Sveinbjörn Gizurarson, Helga Helgadottir, Sigríður Ruth Th Barker, MS-nemi við HÍ sem heimsótti KUHeS og Frider Chimimba. Ljósmynd: HÍ - mynd

Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og Heilbrigðisvísindasvið Kamuzu-háskólans (KUHeS) í Malaví hafa hafið samstarf um framhaldsnám. Fyrsti nemandinn, Tadala K. Phiri, var á dögunum tekinn inn í lyfjafræðideild KUHeS. Hún skoðar virkni efna sem hafa verið í þróun við Háskóla Íslands gegn sveppasýkingum sem finnast í hitabeltislöndum.

Í frétt á vef Háskóla Íslands segir að KUHeS hafi á undanförnum árum unnið að því að byggja upp framhaldsnám í lyfjavísindum, tveggja ára námi til M.Phil-prófs frá lyfjafræðideild sviðsins. Þau tímamót urðu á dögunum að fyrsti nemandinn, Tadala K. Phiri, var tekinn in í námið. Námið fer fram við lyfjafræðideildir KUHeS og HÍ og í samstarfi við tvö íslensk fyrirtæki, Hananja, sem vinnur að þróun nýrra lyfja, og Capretto, sem þróar lækningatæki. 

Í náminu leggur Tadala sérstaka áherslu að greina stofna sem finnast í hitabeltislöndum og valda sveppasýkingum í húð, og leiðir til að vinna gegn þeim. Til að greina þessa sveppi prófar hún að nýta lítið tæki sem nefnist Raman, sem byggist á leisitækni, ekki ósvipað leisihitamæli. Markmiðið er að þróa einfalda aðferð til þess að greina þá stofna sem valda sveppasýkingum í Malaví og í framhaldinu kanna hvort örverudrepandi efni sem finna má í brjóstamjólk megi nýta til að útrýma slíkum sýkingum.

Rannsóknir þeirra Halldórs Þormars og Þórdísar Kristmundsdóttur, sem bæði eru prófessorar emeritus við HÍ, hafa sýnt að brjóstamjólk hefur einstaka eiginleika til að ráða niðurlögum sjúkdómsvaldandi veira, baktería og sveppa. Verkefnið er unnið í bænum Mangochi í Malaví og fer hluti vinnu Tadala fram við Mangochi District Hospital og hluti verkefnisins verður unninn við Háskóla Íslands. Mangochi hérað er helsta samstarfshérað íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og Íslendingar stuðlað að bættri lýðheilsu á margvíslegan hátt í héraðinu á undanförnum árum og áratugum.

Þetta samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Kamuzu-háskóla nýtur stuðning Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins sem miðar meðal annars að því að styðja við stúdenta- og starfsmannaskipti milli háskóla. Fyrirtækið Hananja styður einnig verkefnið.  

Leiðbeinendur Tadala í meistaranáminu verða þau Frider Chimimba og Baxter H. Kachingwe frá KUHeS og Helga Helgadottir, Ingibjörg Hilmarsdóttir og Sveinbjörn Gizurarson, sem starfa við lyfjafræði- og lækndadeildir Háskóla Íslands. Sá síðastnefndi hefur um árabil unnið með vísindamönnum í Malaví, meðal annars að þróun nýrra lyfja og uppbyggingu lyfjaverksmiðju í landinu í gegnum Hananja, en Sveinbjörn er framkvæmdastjóri félagsins auk þess að vera prófessor við lyfjafræðideild.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta