Hoppa yfir valmynd
19.05. 2023 Utanríkisráðuneytið

Úkraína: Fjármunir frá Íslandi nýttust vel

Tetyana Kudina, fyrir miðju, ásamt stjórnarmeðlimum og starfsfólki UN Women á Íslandi og úkraínskum samstarfskonum sínum. - mynd

UN Women á Íslandi fékk á dögunum heimsókn frá Tetyönu Kudina, verkefnastýru hjá UN Women í Úkraínu. Tetyana var stödd á Íslandi í tengslum við Kynjaþingið 2023 sem fram fór í Veröld á laugardag. Tetyana sagði okkur frá þeim verkefnum sem hún og samstarfsfólk hennar hafa unnið að síðastliðið ár og fór jafnframt yfir þau verkefni sem hægt var að styrkja með fjármagni frá Íslandi.

UN Women hefur verið starfandi í Úkraínu frá árinu 2015 og komið þar að margvíslegum verkefnum. Aðalskrifstofur stofnunarinnar eru staðsettar í Kiev, en skrifstofan var rýmd í upphafi stríðs og sinnti starfsfólk vinnu tímabundið frá öðrum stöðum ýmist innan Úkraínu eða utan. Flest snéri starfsfólkið þó aftur til starfa í Kiev í júní í fyrra.

Verkefnin breyttust eftir að stríð braust út

Að sögn Tetyönu hafa áherslur UN Women í Úkraínu breyst talsvert í kjölfar stríðsins og flokkast nú flest verkefnin sem neyðar- og mannúðaraðstoð. UN Women opnaði nýverið skrifstofu í borginni Dnipro í austur Úkraínu, nærri þeim svæðum þar sem mestu átökin eiga sér stað. Þá starfrækir UN Women einnig skrifstofu í Lviv, í vesturhluta Úkraínu.

Tetyana segir að skipta megi verkefnum UN Women í Úkraínu upp í þrjár meginstoðir. „Sú fyrsta er mannúðar- og neyðaraðstoð, en fyrir ári síðan höfðum við ekki komið að slíkum verkefnum áður. Núna er UN Women aftur á móti orðið hluti af mannúðarteymi Sameinuðu þjóðanna (IASC) sem er gríðarlega mikilvægt. Önnur meginstoðin tengist kynjajafnrétti og verkefnum sem miða að því að auka pólitíska þátttöku kvenna svo og samvinnu við stjórnvöld. Þriðja stoðin er það sem mætti kalla snemmtæka íhlutun (e. early recovery), og eru það verkefni sem styðja við uppbyggingu samfélagsins eftir stríð. Það gerum við til dæmis með því að styðja við lítil kvenrekin fyrirtæki, með því að veita konum starfsþjálfun og með því að veita sálræna- og lagalega aðstoð til kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í tengslum við stríðið,“ útskýrir Tetyana.

Fjármagn frá Íslandi nýttist vel

Frá því að stríðið braust út fyrir rúmu ári síðan, hefur verkefnum UN Women í Úkraínu fjölgað og þörfin eftir fjármagni aukist samhliða því. UN Women í Úkraínu hefur veitt 2,2 milljónum bandaríkjadala í neyðaraðstoð í landinu og hafa fjármunirnir nýst um 35 þúsund konum. UN Women á Íslandi sendi 26 milljónir til Úkraínu í fyrra, en þessir fjármunir söfnuðust meðal annars í gegnum neyðarherferð landsnefndarinnar. Tetyana segir fjármunina sem koma frá landsnefndum gríðarlega mikilvæga. Það fjármagn sé ekki bundið ákveðnum verkefnum og gefi UN Women í Úkraínu svigrúm til að bregðast hratt og örugglega við neyðinni þar sem hún var stærst.

„Fjármagnið frá Íslandi var ekki bundið neinum skilmálum sem þýddi að við gátum veitt því þangað sem þörfin var mest. Eftir því sem leið á stríðið varð þörfin og ákallið eftir sálrænni- og lagalegri aðstoð meiri og fjármagnið gerði okkur til dæmis kleift að bregðast við því ákalli,“ útskýrir Tetyena.

Félagasamtök mikilvægur samstarfsaðili

Líkt og í öðrum löndum starfar UN Women í Úkraínu mjög náið með frjálsum félagasamtökum. Tetyana segir slíka samvinnu gera UN Women kleift að bregðast hratt við og ná til jaðarsettra hópa.

„Það er í gegnum frjálsu félagasamtökin sem við höfum getað veitt svo mikla neyðaraðstoð til kvenna. Þau búa yfir þekkingunni og reynslunni og geta brugðist hratt og örugglega við á tímum neyðar.“

UN Women hefur fjármagnað starfsemi um 22 kvenrekinna félagasamtaka í Úkraínu. Þessi félagasamtök reka m.a. athvörf fyrir konur með fatlanir, veita konum sem misst höfðu heimili sín atvinnutækifæri og starfsþjálfun og sinna konum með HIV. Tetyana tekur fram að með stuðningi til félagasamtaka sé hægt að nálgast fólk á svæðum sem nú eru undir stjórn Rússa og þurfa nauðsynlega á aðstoð að halda.

„Ég get ekki ítrekað nógu oft hversu mikilvægt það er að opinberar stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar styðji við frjáls félagasamtök þegar neyð skellur á. Þegar stríðið hófst í Úkraínu lamaðist allt og áherslur stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins voru fyrst um sinn á viðbragði við nýjum veruleika. Á meðan á þessu stóð voru það frjáls félagasamtök, drifin áfram að miklu leyti af sjálfboðaliðum, sem brugðust við neyðinni og komu fólki til aðstoðar. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þau hafi stuðning í formi fjármagns og leiðsagnar frá okkur á tímum sem þessum.“

Nánar á vef UN Women

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta