Hoppa yfir valmynd
19.05. 2023 Utanríkisráðuneytið

Unnið að bættum veðurmælingum og aðgengi að veðurspám í Malaví

Jórunn Harðardóttir, í miðjunni, ásamt fulltrúum íslenska sendiráðsins, Ingu Dóru Pétursdóttur og Sigurði Þráni Geirssyni. - mynd

Veðurstofa Malaví vinnur að því í samstarfi við systurstofnanir á Íslandi og í Noregi að byggja upp veðurathugunarnet og bæta veðurþjónustu í landinu. Í ljósi tíðari ofsaveðra í þessum heimshluta skiptir þessi vinna höfuðmáli til að bæta spár um veður og aðra upplýsingagjöf til landsmanna. Jórunn Harðardóttir rannsóknarstjóri á Veðurstofu Íslands tók á dögunum þátt í vinnufundi í Malaví ásamt fulltrúum heimamanna og Norðmanna.

Á fundinum var annars vegar unnið að verkefni sem kallast á ensku „Institutional Support and Capacity Building for Weather and Climate Services“ þar sem norska og malavíska veðurstofan vinna í sameiningu að bættri veðurþjónustu í Malaví, meðal annars með uppsetningu snjallsímaforrits um veðurspár. Hins vegar voru tekin fyrstu skrefin innan svokallaðs SOFF verkefnis en sú skammstöfun stendur fyrir „Systematic Observations Financing Facility“ og vísar til fjölþjóðlegs sjóðs sem hefur það meginmarkmið að byggja upp veðurathugunarnet í þróunarríkjum og eyþróunarríkjum (SIDS). Í Malaví standa veðurstofur Malaví, Noregs og Íslands ásamt Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP, að SOFF verkefninu, með aðstoð Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Áætlað er að SOFF uppbyggingu ljúki í Malaví í lok næsta árs.

Ísland var eitt fyrsta ríki heims til þess að leggja fram fjármagn til SOFF og greiðir um sjötíu milljónir króna til sjóðsins á árunum 2022 til 2024.

„Víðtækari og tímanlegri veðurathuganir, sem eru notaðar er inn í alþjóðleg veðurspálíkönum, skipta sköpum til að bæta hnattrænar veðurspár sem eru forsenda þess að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um snemmbúnar viðvaranir fyrir allan heiminn árið 2027," segir Jórunn. Hún telur augljósan samfélagslegan ávinning að SOFF verkefninu fyrir Malaví, en ekki síður á alþjóðavísu þar sem árlegur fjárhagslegur ávinningur af bættu hnattrænu veðurathuganakerfi er talinn í hundruð milljarða króna.  

  • Frá vinnufundinum í Malaví. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta