Hoppa yfir valmynd
23.05. 2023 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðlegur baráttudagur gegn fæðingarfistli

Frá opnun fistúlumistöðvarinnar í Malaví fyrir hálfu ári. - mynd

Í dag, á alþjóðlegum degi baráttunnar gegn fæðingarfistli, minnir Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, á afrískan málshátt sem segir að sólaruppkoma og sólarlag eigi ekki að gerast í tvígang hjá fæðandi konu. „Því miður er talið að fæðingar hálfrar milljónar kvenna og stúlkna í Afríku sunnan Sahara, í Asíu, Arabaríkjum, Rómönsku Ameríku og Karíbahafinu standi yfir mun lengur en málshátturinn varar við – oft með skelfilegum afleiðingum,“ segir í frétt í tilefni dagsins.

UNFPA bendir á að langvarandi erfið fæðing geti leitt til andláts móður, andvana fæðingar og alvarlegra örkumla, fæðingarfistils, sem veldur meðal annars þvagleka. Konur með fæðingarfistil eru næmar fyrir líkamlegum kvillum eins og sýkingum og ófrjósemi, auk ýmissa geðrænna sjúkdóma sem leiða af fordómum og útskúfun.

ÍSLAND MIKILVIRK SAMSTARFSÞJÓÐ

Mannfjöldasjóðurinn hefur í tuttugu ár leitt alþjóðlega herferð til að binda enda á fæðingarfistil með forvörnum, ýmiss konar meðferð og málsvarnastarfi. Ísland hefur um langt árabil unnið með UNFPA að því að útrýma fæðingarfistli í samstarfslöndum, Malaví og Síerra Leóne.

Í lok síðasta árs opnaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra nýja miðstöð fæðingarfistils við fæðingardeild héraðssjúkrahússins í Mangochi héraði í Malaví. Miðstöðin veitir heildstæðan stuðning við konur og stúlkur sem þjást af fæðingarfistli og/eða hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Einnig var á þessum degi á síðasta ári gerður nýr samningur um samstarfsverkefni við UNFPA í Síerra Leóne. Það verkefni tekur á heildstæðan hátt á orsökum og afleiðingum fæðingarfistils. Á síðasta ári fóru 104 konur í skimun og 42 undirgengust skurðaðgerð. Auk þess fengu 54 konur og stúlkur kennslu og hagnýta þjálfun í klæðskurði og sápugerð sem nýtist til framfærslu í tengslum við endurhæfingu vegna fæðingarfistils.

Sjá nánar frétt frá UNFPA í Malaví

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta