Hoppa yfir valmynd
30.05. 2023 Utanríkisráðuneytið

Konur í Afríku fæða sífellt færri börn

Breyttar mannfjöldaspár fyrir Afríku. Ljósmynd frá Malaví: gunnisal - mynd

Talið er að 1,4 milljarður manna búi í Afríkuríkjum og samkvæmt mannfjöldaspám fyrir nokkrum árum áttu Afríkubúar að verða 3,4 milljarðar um næstu aldamót. Þessi fjölgun um tvo milljarða manna í álfunni leiddi til svartra skýrslna um að álag á takmarkaðar náttúruauðlindir gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir umheiminn. Í Evrópu var óttast að milljónir Afríkubúa myndu flýja fátækt, stríð og hundur og leita norður á bóginn. Aðrir óttuðust að loftslagið þyldi ekki þessa mannfjölgun í álfunni og hnattræn hlýnun myndi verða stjórnlaus. Margt bendir til þess að þessar spár gangi ekki eftir, að minnsta kosti ekki að öllu leyti.

Stóru breyturnar í þessu samhengi eru annars vegar færri dauðsföll barna og hins vegar færri fæðingar. Barnadauði hefur alltaf verið mikill í mörgum Afríkuríkjum og hver kona hefur að jafnaði átt mörg börn til að tryggja framtíð fjölskyldunnar, í von um að sum barnanna lifi og annist síðar á lífsleiðinni foreldrana og aðra aldraða fjölskyldumeðlimi. Á síðustu áratugum hefur betri heilbrigðisþjónusta, bólusetningar og hagvöxtur dregið mjög úr barnadauða, og þar af leiðandi leitt af sér fólksfjölgun. En nú virðist fæðingartíðnin í fjölda Afríkuríkja lækka og nýjar mannfjöldaspár gera ráð fyrir að hún lækki meira og hraðar en fyrri spár gáfu til kynna.

Á síðasta ári endurskoðaði Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, spá um fólksfjölgun í Afríku sunnan Sahara. Í fjölmennasta landi Afríku, Nígeríu, þar sem áætlað er að 213 milljónir manna búi í dag, áætlaði UNFPA fyrir nokkrum árum að íbúum myndi fjölga í um 900 milljónir á næstu sjötíu árum. Nú er áætlað að fjölgin nemi 550 milljónum íbúa. Á meðan nígerískar konur fæddu að meðaltali 5,8 börn árið 2016, er þessi tala fimm árum síðar komin niður í 4,6 börn.

Þróunin er sú sama í mörgum öðrum Afríkuríkjum, samkvæmt tölum úr rannsóknum bandarísku þróunarsamvinnustofnunarinnnar, USAID, The Demographic and Health Surveys (DHS). Fyrir tuttugu árum fæddu konur í Úganda að meðaltali tæplega sjö börn en fjöldinn er nú kominn niður í um fimm. Í Malí hefur fæðingartíðni lækkað úr 6,3 í 5,7 á undanförnum árum og í Gambíu hefur hún lækkað úr 5,6 í 4,4. Í Senegal hefur fæðingartíðni lækkað í 3,9 og í Gana lækkaði hún úr 4,2 í 3,8 á aðeins þremur árum. Á meðan kenískar konur fæddu að meðaltali 6,7 börn árið 1989 er fæðingartíðni nú komin niður í minna en 3.3. Í Norður-Afríku hefur fæðingartíðni helmingast úr sex börnum í þrjú frá árinu 1980. Níger er enn með hæstu fæðingartíðni í heimi en þar hefur hún líka lækkað úr 7,6 í 6,2 börn á síðustu tíu árum.

Byggt á grein í Panoramanyheter

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

1 Engin fátækt
2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta