Hoppa yfir valmynd
01.06. 2023 Utanríkisráðuneytið

Hjálparstarf kirkjunnar í Úganda: Heimsfaraldurinn bítur

Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins sem býr við nístandi skort með því að reisa múrsteinshús sem eru útbúin grunnhúsbúnaði. Ljósmynd: HK - mynd

HIV smituðum fækkar meðal íbúa á verkefnasvæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda. Þar hafa samtökin aðstoðað um tuttugu ára skeið smitaða einstaklinga, alnæmissjúka, auk aðstandenda þeirra og eftirlifendur í tveimur sveitarhéruðum, Rakai og Lyantonde. Unnið er í samstarfi við grasrótarsamtökin Rakai Community Based AIDS Organization, (RACOBAO) sem sprottin eru upp úr hjálparstarfi Lútherska heimssambandsins á svæðinu. Heildarframlag Hjálparstarfsins til verkefnisins árið 2022 var 20,5 milljónir króna og þar af var framlag utanríkisráðuneytisins 16,3 milljónir króna.

„Sú jákvæða þróun hélt áfram á árinu 2022 að HIV smitum fækkar meðal íbúa á þessum verkefnasvæðum Hjálparstarfsins. Greinileg merki eru um færri smit á meðal þungaðra kvenna. Nýsmit á meðal ungra barna og hvítvoðunga eru nú fátíð,“ segir í frétt á vef Hjálparstarfsins.

Dr. Moses Nkinaika, þakkar þessa jákvæðu þróun þeim verkefnum sem lúta að því að berjast gegn HIV/AIDS og þeirri þjónustu sem var sett á fót og er enn í boði á verkefnasvæðunum. Þeirra á meðal verkefni Hjálparstarfsins þar sem m.a. er lögð áhersla á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning, að því kemur fram í ítarlegri stöðuskýrslu frá RACOBAO.

Heimsfaraldurinn bítur

„Það skyggir hins vegar á þessar góðu fréttir að árið 2022 glímdi almenningur jafnt sem stjórnvöld í Úganda enn við áhrif heimsfaraldursins sem m.a. kom fram í ótímabærri þungun ungra stúlkna. Ástæða þessa er einföld; fullorðnir karlmenn notfæra sér neyð stúlknanna sem hafa lítil sem engin fjárráð. Á hluta verkefnasvæðisins, í Lyantonde, voru færðar til bókar 2.372 þungaðar unglingsstúlkur á síðustu átta mánuðum ársins. Margar stúlkur misstu öryggisnet sitt í heimsfaraldrinum sem byggði oft á sambandi við kennara eða skólastjórnendur,“ segir í fréttinni.

Þar segir enn fremur að margar stúlkur gangi í hjónaband allt of ungar og þoli hvers kyns kynbundið ofbeldi. „Hjónabönd ungra stúlkna grundvallast oftar en ekki á aukinni fátækt vegna heimsfaraldursins þar sem foreldrar þeirra hafa fá eða engin önnur úrræði en að gefa dætur sínar barnungar í hjónaband til að verða sér úti um peninga fyrir nauðþurftum. Í Rakaí má finna 128 slík tilfelli stað á aðeins sex mánuðum þar sem stúlkur á grunnskólaaldri voru gefnar í hjónaband, segir í skýrslu RACOBAO.“

Bætt lífsskilyrði

„Skjólstæðingar verkefnisins í Rakai og Lyantonde eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein, en líka HIV smitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sára fátækt.

Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins sem býr við nístandi skort með því að reisa múrsteinshús sem eru útbúin grunnhúsbúnaði og eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti. Reistir eru kamrar við hlið húsanna, fólkið fær fræðslu um samband hreinlætis og smithættu og hvernig bæta má hreinlætisaðstöðu.

Aðgengi fólksins að hreinu vatni er aukið með því að koma upp stórum vatnssöfnunartönkum við hlið íbúðarhúsanna. Þetta er afar mikilvægt og ekki síst í því ljósi að þegar börnin þurfa ekki að fara eftir vatni um langan veg, hafa þau tíma til að sækja skólann. Hættan á kynferðislegri misnotkun minnkar einnig þegar stúlkur þurfa ekki að fara fjarri heimilinu eftir vatni í morgunsárið.“

Vítahringurinn rofinn

Í fréttinni kemur fram að fólkið fái auk þess geitur, verkfæri, fræ og útsæði til grænmetisræktunar, allt í þeim tilgangi að auka fæðuval og möguleika fjölskyldnanna til að afla sér tekna. „Með fjölbreyttari fæðu verður heilsa fjölskyldnanna betri og með meiri tekjum aukast líkur á að börnin geti sótt skóla og fengið menntun. Með aukinni menntun minnka líkur á að stúlkur verði gefnar barnungar í hjónaband og eignist börn á unglingsaldri. Með stuðningi er vítahringur fátæktar rofinn.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta