Hoppa yfir valmynd
15.06. 2023 Utanríkisráðuneytið

Metár í neyðarstöfnunum UNICEF – ársskýrsla landsnefndar komin út ​

Forsíðumynd ársskýrslu UNICEF - mynd

Aðeins ein landsnefnd UNICEF í heiminum safnaði hlutfallslega hærri framlögum en sú íslenska árið 2022 en Íslendingar eiga sem fyrr heimsmet í hlutfallslega flestum Heimsforeldum. Síðasta ár var metár hjá landsnefnd UNICEF á Íslandi, aldrei fyrr hefur jafnmikið safnast í neyðarsafnanir í þágu barna um allan heim. Tekjur jukust um 17,4 prósent milli ára og þegar upp var staðið var rúmlega 745 milljónum króna ráðstafað til verkefna UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á árinu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu UNICEF á Íslandi fyrir árið 2022 sem birtist í gær. „Það er ekki hægt annað en að standa auðmjúk gagnvart þeim árangri sem náðist á síðasta ári því þar endurspeglast ótrúlegur stuðningur fólks, fyrirtækja og stjórnvalda við réttindi barna. Fjárframlög í neyðarsafnanir slógu öll met og með framlögum Heimsforeldra tryggðum við jafnframt dýrmæt framlög í verkefni sem ekki ná í fréttirnar, þar með taldar reglubundnar bólusetningar, menntun og aðgengi að hreinu vatni og næringu. Þá erum við ekki síður stolt af öflugu réttindastarfi okkar á Íslandi, með sveitarfélögum, skólum og stjórnvöldum - og opnun UNICEF Akademíunnar - til að tryggja að öll þekkjum við réttindi barna,“ segir Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF.

Metár í neyðarsöfnunum

„Sá atburður sem umfram allt annað setti mark sitt á árið 2022 var stríðið í Úkraínu og þar stóð hvorki á hjálpsemi né samkennd landsmanna. Langstærsta hlutfall þeirrar fjárhæðar sem safnaðist í neyðarsafnanir UNICEF á Íslandi var vegna Úkraínu eða alls 184.744.382 krónur,“ segir UNICEF í frétt.

Þótt ástandið í Úkraínu hafi fengið mikla athygli stóð UNICEF á Íslandi fyrir mörgum öðrum neyðarsöfnunum árið 2022, meðal annars vegna mannúðarkrísu á Afríkuhorninu, jarðskjálfta í Afganistan og líkt og fyrri ár, var safnað fyrir börn í Sýrlandi og Jemen. Þegar árið 2022 var gert upp höfðu alls safnast 206.685.407 krónur í allar neyðarsafnanir UNICEF á Íslandi á árinu.

Framlög í heimsklassa

Tekjur UNICEF á Íslandi á árinu 2022 námu 1.000.816.025 krónum, sem er 17,4% aukning frá árinu áður, og hafa tekjurnar aldrei verið meiri. Rétt rúmlega 60% af tekjunum komu frá Heimsforeldrum, mánaðarlegum styrktaraðilum UNICEF, sem voru um 25 þúsund í fyrra. Þessi mikli stuðningur íslensku þjóðarinnar við markmið UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um réttindi fyrir öll börn skilaði sér í því að framlag landsnefndar UNICEF á Íslandi var hlutfallslega næsthæst allra landsnefnda á árinu. Þessi stuðningur og velvild sýnir fyrst og fremst það mikla traust sem UNICEF nýtur meðal almennings, fyrirtækja og stjórnvalda til góðra verka í þágu velferðar og réttinda barna um allan heim.

Landsnefnd UNICEF á Íslandi ráðstafaði alls 672.610.115 krónum til alþjóðlegra verkefna UNICEF auk þess sem ráðstafað var til innlendra verkefna og réttindagæslu 72.753.259 krónum.

Alls námu því framlög UNICEF á Íslandi til verkefna UNICEF um allan heim 745.363.374 krónum árið 2022, eða 77,1% af hverri krónu sem gefin var til landsnefndarinnar.

Af hverjum 100 krónum sem gefnar voru til UNICEF á Íslandi árið 2022 fóru 4 krónur í stjórnun, 5 krónur í kynningarmál og 14 krónur í að safna næstu 100 krónum til að hjálpa enn fleiri börnum sem á þurfa að halda.

Eftirtektarverður stuðningur íslenska ríkisins

UNICEF getur þess sérstaklega í frétt um ársskýrsluna að íslenska ríkið teljist til fyrirmyndarstyrktaraðila UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á heimsvísu vegna bæði hárra kjarnaframlaga, sem námu 150 milljónum króna árið 2022, og mikils stuðnings miðað við höfðatölu. UNICEF er skilgreind sem ein af lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins í marghliða þróunarsamvinnu Íslands og er samstarf íslenska ríkisins og UNICEF til fyrirmyndar. „Auk kjarnaframlaga til UNICEF lætur íslenska ríkið einnig til sín taka í samstarfi við UNICEF í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Framlög íslenska ríkisins til verkefna UNICEF í Úkraínu, Kenía, Úganda, Síerra Leóne og Palestínu námu, að kjarnaframlögum meðtöldum, alls rúmum 784 milljónum króna á síðasta ári. Við færum íslenskum stjórnvöldum hjartans þakkir fyrir hönd þeirra ótal barna sem njóta góðs af þessum stuðningi sem við getum öll verið stolt af.“

  • Á myndinni eru meðlimir í stjórn UNICEF á Íslandi: Hjörleifur Pálsson, Guðrún Hálfdánardóttir, Tatjana Latinovic, Edda Hermannsdóttir, formaður stjórnar, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri, Gunnar Helgason, Jón Magnús Kristjánsson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir. Á myndina vantar Jökul Inga Þorvaldsson, Guðrúnu Pétursdóttur og Hjördísi Freyju Kjartansdóttur. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta