Hoppa yfir valmynd
17.07. 2023 Utanríkisráðuneytið

Þingsályktunartillaga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands komin í Samráðsgátt

Þingsályktunartillaga um stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu hefur verið lögð fram í Samráðsgátt. Samkvæmt lögum skal utanríkisráðherra leggja fram tillögu um stefnu í alþjóðlegum þróunarmálum fimmta hvert ár, en stefnan sem nú er lögð fram nær til tímabilsins 2024-2028. Í gegnum samráðsgátt óskar utanríkisráðuneytið nú eftir athugasemdum eða hugmyndum almennings og annarra hagaðila um stefnuna.

Stefnan byggist á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, Parísarsamkomulaginu um aðgerðir til að takast á við og bregðast við loftslagsbreytingum og öðrum alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að. Lagt til að framlög til þróunarsamvinnu hækki úr 0,35 prósentum af vergum þjóðartekjum árið 2024 í 0,46 prósent af vergum þjóðartekjum árið 2028.

Áherslur stefnunnar taka mið af þeim áskorunum sem fátækari ríki heims standa frammi fyrir og þeim styrkleikum og sérþekkingu sem Ísland hefur fram að færa. Áherslurnar koma skýrt fram í fjórum málefnasviðum:

  1. Mannréttindum og jafnrétti kynjanna.
  2. Mannauði og grunnstoðum samfélaga.
  3. Loftslagsmálum og náttúruauðlindum
  4. Mannúðaraðstoð og störfum í þágu friðar og stöðugleika.

Þá eru mannréttindi og jafnrétti kynjanna annars vegar og umhverfis- og loftslagsmál hins vegar þverlæg málefni sem samþætt eru í allri þróunarsamvinnu.

Framkvæmd stefnunnar fer fram í gegnum tvíhliða þróunarsamvinnu, samstarf við fjölþjóðlegar stofnanir, félagasamtök, GRÓ þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, aðila atvinnulífs og fræðasamfélagið.

Umsögnum um stefnuna skal skilað í Samráðsgátt eigi síðar en 18. ágúst næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta