Hoppa yfir valmynd
07.09. 2023 Utanríkisráðuneytið

Herferð Flóttamannastofnunar SÞ: Von fjarri heimahögum

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur hrundið af stað alþjóðlegri herferð sem kallast „Von fjarri heimahögum“ eða „Hope Away from Home“ til að afla stuðnings og kalla eftir skuldbindingu þjóða um að standa vörð um réttindi einstaklinga sem flýja átök, ofbeldi og ofsóknir. Herferðinni er hleypt af stokkunum á tímum fordómalausra nauðungarflutninga en 110 milljónir einstaklinga eru á flótta um heim allan og búa við vaxandi ógnir um hæli og vernd, að því er segir í frétt frá stofnuninni.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna leggur áherslu á þörf fyrir samúð, góðvild og samstöðu gagnvart þeim sem flýja mótlæti og fordæmir hindranir, takmarkanir og mismunun gagnvart þeim. Lögð er áhersla á ábyrgð alþjóðasamfélagsins að veita öryggi og vernd og tryggja að flóttafólk geti lifað með reisn. Andúð á flóttafólki, ströng inntökustefna og útlendingahatur grafa undan grundvallarréttindum til að leita öryggis víðs vegar um heiminn og neyða flóttafólk í hættulegar ferðir. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kallar eftir því að fleiri þjóðir bjóði flóttafólk ríkulega velkomið og verndi það, en í dag eru það sérstaklega lág- og meðaltekjuríki sem bera þungann af fjölda flóttamanna.

Markmið herferðarinnar er að breyta alþjóðlegri samstöðu í áþreifanlegar aðgerðir og lausnir með alþjóðlegu samstarfi, lagaumbótum og stefnubreytingum. Á næstu þremur árum ætlar Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilar að beita sér fyrir breytingum á fimm lykilsviðum, þar á meðal aðgengi að öruggu landsvæði, viðunandi aðstæðum fyrir flóttafólk og fjölgun varanlegra lausna. Herferðin kallar einnig eftir stuðningi við þjóðir og samfélög sem hafa lítið fjármagn og hýsa flóttamenn.

UNHCR er ein af áherslustofnunum Íslands í mannúðaraðstoð samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023. Ísland veitir árleg kjarnaframlög til UNHCR samkvæmt rammasamningi. Reglubundin og óeyrnamerkt framlög Íslands gera stofnuninni kleift að forgangsraða í þágu þeirra sem mest þurfa á að halda á hverjum tíma. Sem liður í eftirfylgni með þróunarsamvinnuframlagi Íslands gerðist Ísland aðili að framkvæmdanefnd UNHCR (e. Executive Committee, ExCom). Nefndin er ráðgefandi auk þess sem hún leggur mat á vinnuáætlanir UNHCR og afgreiðir fjárhagsáætlanir stofnunarinnar.

Vefur herferðarinnar

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta