Hoppa yfir valmynd
08.09. 2023 Utanríkisráðuneytið

Metfjöldi barna á flótta í Suður-Ameríku og Karíbahafi

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Metfjöldi barna er nú á flótta í Suður-Ameríku og Karíbahafinu. Samkvæmt velferðarviðvörun UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, eru börn á flótta á svæðinu óvíða fleiri í heiminum. Þrjú svæði eru sérstaklega nefnd í greiningu UNICEF, Darién frumskógurinn milli Kólumbíu og Panama, Venesúela, og norðurhluti Mið-Ameríku og Mexíkó.

Samkvæmt Garry Conille, framkvæmdastjóra UNICEF í Suður-Ameríku og Karíbahafinu, eru sífellt fleiri börn á flótta í þessum heimshluta, þau eru yngri en áður og frá fleiri löndum, jafnvel ríkjum Afríku og Asíu. „Aukið ofbeldi, óstöðugleiki, fátækt og loftslagsáhrif valda því að sífellt fleiri börn eru á flótta. Á ferð þeirra eru þau berskjölduð fyrir sjúkdómum, ofbeldi, og misnotkun og jafnvel þó þau komist á áfangastað er öryggi þeirra fjarri því tryggt,“ segir Conille.

Árið 2021 flúðu minnst 29 þúsund börn í gegnum hættulegan Darien-frumskóginn. Árið 2022 hækkaði sú tala upp í 40 þúsund börn og það sem af er ári hafa yfir 60 þúsund börn, helmingur þeirra undir fimm ára aldri, flúið gegnum frumskóginn.

Upplýsingar frá bandarísku toll- og landamæragæslunni gefa einnig til kynna að meira en 149 þúsund börn hafi farið yfir landamærin yfir til Bandaríkjanna árið 2021, 155 þúsund börn árið 2022 og á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hafa meira en 83 þúsund börn náð að landamærunum.

Um allan heim eru börn um 13 prósent alls fólks á flótta en á svæðinu í Suður-Ameríku og Karíbahafinu eru börn um 25 prósent þeirra sem eru á flótta sem er hæsta hlutfall í heimi.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur af miklum krafti með samstarfsaðilum og stjórnvöldum á svæðinu til þess að stuðla að öruggum fólksflutningaleiðum, bjóða upp á mannúðaraðstoð og veita börnum nauðsynlega þjónustu.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna heldur áfram að hvetja aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til þess að tryggja réttindi, öryggi og velferð fólks og barna á flótta, meðal annars með því bæta aðgengi að nauðsynlegri þjónustu á svæðinu, setja af stað aðgerðir sem sporna gegn ofbeldi, tryggja menntunarmöguleika fyrir börn, ungt fólk og fjölskyldur, stækka öruggar flóttaleiðir fyrir börn og fjölskyldur, og efla fjölskyldusameiningarferli í aðildarlöndunum.  

 

 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
16. Friður og réttlæti
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta