Hoppa yfir valmynd
12.09. 2023 Utanríkisráðuneytið

Kennsluefni um flóttafólk komið út á íslensku

Ein af ljósmyndunum sem fylgir nýja kennsluefninu. Ljósmynd: UNHCR - mynd

Flóttamannastofnun Sameinu þjóðanna, UNHCR, hefur í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna þýtt kennsluefni um flóttafólk sem er aðgengilegt á netinu og ókeypis. Það tekur mið af mismunandi aldurshópum og býður upp á teiknimyndir, stutt myndbönd og tillögur að umræðu í kennslustofunni, hópavinnu og verkefni, en felur einnig í sér markvissa handbók fyrir kennara ásamt kennsluáætlunum. Námsefnið hefur verið þróað af UNHCR og hefur þegar verið þýtt á nokkur önnur tungumál. Félag Sameinuðu þjóðanna annaðist íslensku útáfuna.

„Við höfum heyrt frá kennurum á Íslandi að það sé veruleg vöntun á námsefni sem þessu og við erum mjög ánægð með að geta hjálpað. Vaxandi fjöldi fólks á flótta á heimsvísu er eitthvað sem við sjáum bersýnilega í íslensku samfélagi, svo að slíkt efni hefði ekki getað komið á mikilvægari tíma. Það hefur verið frábært að starfa með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í þessu ferli og við erum ánægð að geta gefið það loksins út núna þegar skólar hefjast að nýju,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

„Málefni flóttafólks eru til stöðugrar umræðu, í fréttum, á samfélagsmiðlum og við matarborðið. Því miður eru þessi mál umlukin mörgum ranghugmyndum og misskilningi,“ segir Annika Sandlund, fulltrúi Flóttamannastofnunar SÞ á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. „Börnin okkar erfa flókinn heim og því skuldum við þeim að tryggja að þau hafi réttar staðreyndir, tölur og þekkingu til að hjálpa þeim að skilja ástand og stöðu flóttamála í heiminum. Við erum afar ánægð með að geta komið þessu efni á framfæri nú í íslensku samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi,“ segir hún.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta