Hoppa yfir valmynd
14.09. 2023 Utanríkisráðuneytið

Börn tvöfalt líklegri en fullorðnir til að búa við matarskort

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Á heimsvísu eru börn rúmlega 50 prósent þeirra sem búa við sárafátækt, þrátt fyrir að vera aðeins þriðjungur jarðarbúa. Börn eru meira en tvöfalt líklegri en fullorðnir til þess að skorta mat, hreinlætisaðstöðu, skjól, heilbrigðisþjónustu og menntun sem þörf er á til þess að lifa og dafna. Samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og Alþjóðabankans, býr eitt af hverjum sex börnum á heimsvísu við sárafátækt. Alls eru 333 milljónir barna sem komast af með minna en 300 krónur á dag, eða 2,15 Bandaríkjadali, en á árunum 2013 til 2022 voru það um 383 milljónir barna. Þótt árangur hafi náðst og börnum fækkað lítillega í þessum hópi hægði heimsfaraldur COVID-19 mjög á framförum.  

Skýrslan – Global Trends in Child Monetary Poverty According to International Poverty Lines – kemur út í aðdraganda fundar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem hefst í næstu viku í höfuðstöðvum samtakanna í New York. Þar koma helstu þjóðarleiðtogar heims saman og ræða meðal annars þróun og framtíð heimsmarkmiðanna. Alþjóðabankinn skilgreinir sárafátækt sem einstaklinga sem lifa á innan við 2,15 dölum á dag, eða sem nemur um 300 krónum miðað við núverandi gengi.  

Fyrsta markmið heimsmarkmiðanna er að binda enda á fátækt fyrir árið 2030. Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að það muni ekki nást án aukinna aðgerða. Líkt og Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF segir, hefur alþjóðasamfélaginu tekist að lyfta milljónum barna upp úr fátækt en samt sem áður hafa áföll líkt og COVID-19, loftslagsbreytingar og efnahagslegar niðursveiflur dregið úr framförum.  

„Enn eru milljónir barna sem búa við mikla fátækt. Við getum ekki brugðist þessum börnum heldur þarf að tryggja þeim aðgang að nauðsynlegri þjónustu, þar á meðal menntun, heilbrigðisþjónustu, og félagslega vernd. Að binda enda á sárafátækt er stefnumótandi ákvörðun stjórnvalda,“ segir Russell.  

Skýrslan sýnir einnig fram á að 40 prósent barna sunnan Sahara í Afríku búi við sárafátækt. Ástæður sem liggja þar að baki eru til dæmis hröð fólksfjölgun, heimsfaraldurinn, átök og loftslagshamfarir.  

Luis-Felipe Lopez-Calva framkvæmdastjóri hjá Alþjóðabankanum segir nú sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að öll börn eigi skýra leið út úr fátækt og hafi jafnan aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu, næringu, félagslegri vernd og öryggi. Hann segir skýrsluna brýn áminningu um að ekki megi tapa baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði og að málefni barna þurfi að vera í forgrunni. 

Nánar á vef UNICEF

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

1 Engin fátækt

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta