Fulltrúar Íslands viðstaddir útskriftarathöfn vegna fæðingarfistils í Síerra Leóne
Þrjátíu og tvær ungar konur útskrifuðust frá Aberdeen Women‘s Centre (AWC) spítalanum í Síerra Leóne á dögunum eftir vel heppnaðar aðgerðir sem laga fæðingarfistil. Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Síerra Leóne, var viðstödd útskriftarhátíðina ásamt tveimur öðrum fulltrúum utanríkisráðuneytisins en íslensk stjórnvöld hafa frá árinu 2019 stutt fjárhagslega við verkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) um að útrýma fæðingarfistli í landinu.
Fæðingarfistill myndast oft hjá unglingsstúlkum við að fæða börn en þess eru einnig dæmi að barnungar stúlkur fái fæðingarfistil eftir kynferðislegt ofbeldi. Afleiðingarnar eru bæði líkamlegar og félagslegar. Mikill líkamlegur sársauki fylgir fæðingarfistli, til dæmis þegar hann myndast milli ristils og legganga, með þeim afleiðingum að stúlkurnar hafa ekki lengur stjórn á þvaglátum eða hægðum sem veldur þeim oft mikilli skömm og leiðir til félagslegrar útskúfunar. Konurnar sem nú voru útskrifaðar höfðu dvalið á spítalanum frá því í júní þar sem þær nutu umönnunar bæðir fyrir og eftir aðgerðirnar ásamt því að fá ýmiskonar hagnýta þjálfun.
Stjórnvöld í Síerra Leóne hafa lagt mikla áherslu á það að útrýma fæðingarfistli í landinu og hleypti heilbrigðisráðherra landsins, Dr. Austin Demby, fimm ára landsáætlun gegn fæðingarfistli af stokkunum í vor. UNFPA, með fjárstuðningi frá Íslandi, veitti stjórnvöldum tæknilega aðstoð við gerð áætlunarinnar sem miðar að því að auka forvarnir gegn fæðingarfistli, efla umönnnum fyrir sjúklinga, styrkja samstarf milli hagsmunaraðila, tryggja fjármagn og efla eftirlit með það að leiðarljósi að útrýma fæðingarfistli í Síerra Leóne. Samhliða kynningunni á landsáætluninni var stofnað aðgerðarteymi framkvæmdaraðila sem koma að fæðingarfistilsverkefnum í Síerra Leóne.
Til þess að styðja við viðleitni stjórnvalda í Síerra Leóne hefur íslenska utanríkisráðuneytið frá 2019 fjárhagslega stutt verkefni UNFPA sem vinnur að markmiði stjórnvalda um að útrýma fæðingarfistli í Síerra Leóne. Lögð er áhersla á að styrkja forvarnir, meðal annars með vitundarvakningu um skaðlegar hefðir sem geta aukið líkurnar á því að konur þrói með sér fæðingarfistil, og að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis, þar á meðal aðgengi að aðgerðum til að lækna fæðingarfistil. Einnig fá konur og stúlkur félagslega valdeflingu eftir að aðgerðin hefur farið fram.
Saga hinnar 24 ára gömlu Siu Bonsu
Við útskriftarhátíðina sagði hin 24 ára gamla Sia Bonsu frá reynslu sinni af fæðingarfistli. Hún hafði 16 ára gömul gengið í gegnum erfiða fæðingu þar sem að barnið hennar fæddist andvana. Sia varð svo fyrir frekara áfall þegar í ljós kom að fæðingin hafði leitt til þess að hún hafði þróað með sér fæðingarfistil.
„Ég glímdi við mikinn og langvarandi þvagleka sem varð þess valdandi að barnsfaðir minn yfirgaf mig. Eftir að hafa gengið í gegnum kennaranám og hafið störf sem kennari lenti ég í því einn daginn að nemendur kvörtuðu yfir þvaglykt í kennslustofunni. Ég upplifði mikla skömm þar sem samfélagið hæddist að mér. Foreldrum mínum fannst ástandið á mér vera vandræðalegt“
Sia heyrði í fyrsta skipti um fæðingarfistilsaðgerðir á AWC í gegnum umræður sem áttu sér stað á útvarpsstöð í Kono, heimahéraðinu hennar í Síerra Leóne. Umræðurnar mörkuðu upphafið að bataferli hennar og ferðaðist hún til Freetown í apríl 2023 til þess að heimsækja spítalann.
„Hjúkrunarfræðingur fullvissaði mig um að hægt væri að lækna fæðingarfistil. Sem betur fer sneri ég aftur til AWC til þess að gangast undir aðgerðina. Miðstöðinni, með stuðningi styrkaraðila, hefur tekist að lækna mig án þess að ég hafi sjálf þurft að borga krónu!“
Sia minntist á að fjölmargar aðrar konur í Síerra Leóne glímdu við fæðingarfistil: „Ég lít á sjálfa mig sem sendiherra sem getur rætt við þessar konur um mikilvægi þess að leita sér meðferðar við fæðingarfistli en til þess að það skili árangri þurfum við allan þann stuðning sem við getum fengið. Ég hvet því stuðningsaðila til þess að viðhalda stuðningi sínum til þess að létta lund allra þeirra kvenna sem glíma við fæðingarfistil í Síerra Leóne.“