Hoppa yfir valmynd
17.10. 2023 Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld fjármagna nýja fæðingardeild sem rís í Makanjira

Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðukona sendiráðs Íslands í Lilongwe, ásamt Lazarus Chakwera, forseta Malaví við athöfnina í gær. - mynd

Forseti Malaví, ásamt ráðherrum og starfsfólki sendiráðs Íslands í Lilongwe, tók í gær fyrstu skóflustunguna að nýrri fæðingardeild sem mun rísa á afskekktu svæði Mangochi-héraðs fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda.

Þetta var gleðileg athöfn þar sem miklum og góðum árangri af heilbrigðisverkefnum þróunarsamvinnu Íslands í Malaví til áratuga var fagnað. 

Langar ferðir eftir brýnni fæðingaraðstoð úr sögunni

Nýja kvennadeildin, sem tekur til starfa á næsta ári, rís við sveitasjúkrahúsið í Makanjira og mun gjörbreyta aðstæðum kvenna og barna í Mangochi-héraði. Ungbarna- og mæðradauði á þessu svæði er með því hæsta sem gerist í Malaví, en til þessa hafa barnshafandi mæður neyðst til að aka ríflega 100 kílómetra leið, eftir torfærnum vegi sem er ófær nokkra mánuði á ári, á aðalspítala héraðsins til að sækja brýna fæðingaraðstoð.

Íbúar Makanjira, sem telja yfir 200 þúsund, hafa lengi beðið eftir þessari þjónustu en kvennadeildin verður fullbúin tveimur skurðstofum, rannsóknarstofu, röntgenaðstöðu, nýbura- og fyrirburadeild og með rennandi vatni og rafmagni.

Um er að ræða talsverða fjárfestingu af hálfu Íslands, en kostnaður við byggingu fæðingardeildarinnar nemur um 340 milljónum króna.

Áþreifanlegur árangur af stuðningi Íslands

Verkefnið er hluti af umfangsmikilli þróunarsamvinnu Íslands í Mangochi-héraði, þar sem áhersla hefur verið lögð á að bæta mæðra- og ungbarnaheilsu á afskekktum svæðum. Á síðustu tuttugu árum hefur Ísland m.a. byggt kvennadeild við Mangochi spítala sem þjónustar 1,4 milljónir íbúa, og fjármagnað stærstu heilsugæsluna í héraðinu auk 28 minni heilsugæslustöðva á afskekktum svæðum, 15 fæðingarheimili, 10 biðstofur fyrir verðandi mæður og 38 heimili fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Húsakostirnir eru allir með rennandi vatni og rafmagni, sem er alls ekki sjálfgefið á þessum slóðum, og yfir 100 heilbrigðisstarfsfólk hefur verið ráðið á heilsugæslurnar.

Þessi heildræni stuðningu Íslands við uppbyggingu heilsuinnviða í Mangochi-héraði hefur skilað miklum og áþreifanlegum árangri. Þannig hefur dregið úr barnadauða (undir fimm ára) um 53 prósent á síðustu 10 árum, og einnig úr ungbarnadauða eða um 47 prósent á sama tímabili. Þá hefur mæðradauði sömuleiðis dregist saman um 31 prósent á síðasta áratug. Um einstakan árangur er að ræða, en í Mangochi-héraði eru um 70 þúsund fæðingar á ári, samanborið við um 4.400 fæðingar árlega á Íslandi.  

Gjörbreytir lífi fjölskyldna og mun bjarga lífum

Forseti Malaví, Lazarus Chakwera, þakkaði íslenskum stjórnvöldum kærlega fyrir veittan stuðning við athöfnina í gær. Hann kvaðst þess fullviss að kvennadeildin komi til með að gjörbreyta lífi fjölskyldna í Makanjira og hét því um leið að setja vegaframkvæmdir í forgang til að auka aðgengi íbúa að annarri grunnþjónustu. Þá vakti forsetinn athygli á því að Ísland, með um þriðjung af íbúafjölda Mangochi-héraðs, hefði verið sárafátækt land fyrir um 70 árum en væri nú í aðstöðu til að taka þátt í lífsbjargandi verkefnum í tvíhliða þróunarsamvinnu. 

Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðukona sendiráðs Íslands í Malaví,  þakkaði í ræðu sinni fyrir gott samstarf við héraðsyfirvöld, sem væri grunnurinn að þeim góða árangri sem hefur náðst. „Þróunarsamvinna Íslands byggist á náinni samvinnu við innlend stjórnvöld sem tryggir eignarhald og sjálfbærni verkefna,“ sagði Inga Dóra í ræðu sinni. „Nýleg úttekt sýnir að árangur hefur náðst í öllum þáttum þróunarsamvinnu Íslands og Mangochi héraðs og sýnir mikilvægi þess að áfram verði byggt á þessum góða árangri í frekara samstarfi við stjórnvöld í Malaví.”

  • Framkvæmdir við nýju fæðingardeildina í Makanjira eru hafnar. - mynd
  • Lazarus Chakwera, forseti Malaví, tekur fyrstu skóflustunguna að nýju fæðingardeildinni í Makanjira. - mynd
  • Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðukona sendiráðs Íslands í Lilongwe, ásamt Lazarus Chakwera, forseta Malaví, við hornstein fæðingardeildarinnar. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta