Hoppa yfir valmynd
30.10. 2023 Utanríkisráðuneytið

Athvarf fyrir þolendur kynbundins ofbeldis rís í Buikwe

Fyrsta skóflustungan. - mynd

Fulltrúar Buikwe-héraðs í Úganda og sendiráðs Íslands í Kampala tóku fyrir helgi fyrstu skóflustunguna að athvarfi fyrir þolendur kynbundins ofbeldis í héraðinu. Degi áður voru samningar um framkvæmdir undirritaðir í sendiráðinu að undangengnu útboði.

Ekkert slíkt athvarf er í héraðinu og þurfa þolendur því oft að fara langan veg til að komast í öruggt skjól frá kvölurum sínum. Framkvæmdir við bygginguna eru þegar hafnar. Vonast er til að þeim verði lokið á fyrstu vikum ársins 2024 og athvarfið geti þá hafið starfsemi.

Bygging er liður í jafnréttisverkefni íslenskra stjórnvalda í samvinnu við héraðsyfirvöld sem miðar meðal annars að því að takast á við kynbundið og kynferðislegt ofbeldi í strandbyggðum héraðsins. Rétt eins og víða annars staðar í landinu er kynbundið misrétti viðvarandi og útbreitt í Buikwe og kynbundið ofbeldi og kynferðisofbeldi sömuleiðis. Áreiðanlegar vísbendingar eru um að slíkt ofbeldi hafi aukist meðan á COVID-19 faraldrinum stóð og í kjölfar hans. Þannig sýna kannanir að önnur hver kona í Úganda verði fyrir líkamlegu ofbeldi eða kynferðisofbeldi af hálfu maka og næstum allar konur (95%) verði fyrir slíku ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni, annað hvort í nánu sambandi eða af hendi annarra. 

Buikwe er annað tveggja samstarfshéraða Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu í Úganda, hitt er Namayingo. Verkefni Íslands í héruðunum tveimur eru einkum á sviði menntamála og vatns- og hreinlætismála. Kynjajafnrétti, mannréttindi og umhverfismál eru þverlæg áhersluatriði í þróunarsamvinnu í Úganda.

  • Eftir undirritun samninga. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta