Hoppa yfir valmynd
03.11. 2023 Utanríkisráðuneytið

Börn eru fórnarlömb átakanna, segir Barnaheill

Ljósmynd: Barnaheill - Save the Children - mynd

Alþjóðasamtökin Save the Children - Barnaheill kalla eftir tafarlausu vopnahléi í Palestínu og Ísrael og fara fram á að skref verði tekin til að vernda líf barna. „Börn eru fórnalömb átakanna og eru í mikill hættu á að slasast eða láta lífið. Fjöldi þeirra barna sem hafa látist í árásunum síðastliðnar þrjár vikur er meiri en fjöldi þeirra barna sem hafa látist árlega í vopnuðum átökum á heimsvísu síðan árið 2019,“ segir í frétt Barnaheilla.

Þar kemur fram að frá 7. október hafi að minnsta kosti 3.324 börn látið lífið í átökunum, þar af 3.195 börn á Gaza, 33 á Vesturbakkanum og 29 í Ísrael. „Börn eru um 40% af öllum þeim sem hafa látið lífið í átökunum og enn eru um þúsund barna saknað. Því má ætla að tölurnar séu mun hærri í raun. Þá er mikill fjöldi barna slasaður og hættan á því að börn láti lífið af völdum áverka hefur aldrei verið meiri. Fjölmörg sjúkrahús eru ekki lengur starfhæf vegna rafmagnsleysis og umsáturs af hálfu ríkisstjórnar Ísraels sem hindrar innflutning á nauðsynlegum sjúkragögnum,“ segir í fréttinni.

Barnaheill lýsa yfir miklum áhyggjum af auknu mannfalli vegna áframhaldandi aðgerða ísraelskra hersveita og kalla því eftir tafarlausu vopnahléi. Mikill skortur sé á nauðsynjum á svæðinu, samtökin hafi komið einum vörubíl með 45.000 vatnsflöskum inn á Gaza og von sé á annarri sendingu á næstu dögum. „Hvert tækifæri til að veita aðstoð á svæðinu er mikilvægt en þessar sendingar mæta á engan hátt þeirri miklu þörf sem er á svæðinu.Vatn, matur, eldsneyti og sjúkragögn eru af mjög skornum skammti og skortur á eldsneyti gerir dreifingu á nauðsynjum erfitt fyrir. Stór hluti íbúa Gaza treystir á mannúðaraðstoð en lokað hefur verið fyrir þær helstu leiðir sem voru notaðar til að veita aðstoð. Því hefur ákallið um hjálp aukist enn frekar,“ segja Barnaheill.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta