Hoppa yfir valmynd
17.11. 2023 Utanríkisráðuneytið

Endurnýjun samstarfssamnings við UNESCO um þróunarsamvinnu

Elín R. Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneytinu, og Julien Pellaux, skrifstofustjóri hjá Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) undirrituðu samninginn.  - mynd

Nýr samningur við Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um áframhaldandi stuðning Íslands við þróunarsamvinnuverkefni stofnunarinnar var undirritaður í höfuðstöðvum UNESCO í París í gær. Samningurinn kveður á um stuðning til fimm ára með árlegu framlagi sem nemur 51 milljón króna, en samningar til fleiri ára veita stofnunum fyrirsjáanleika og eru því í takt við bestu alþjóðlegu starfsvenjur.

„Það er afar ánægjulegt að geta fest þetta góða samstarf í sessi og undirstrika um leið áframhaldandi áherslu Íslands á tjáningarfrelsi, frjálsa fjölmiðlun, menntun og málefni hafsins í þróunarsamvinnu og lykilhlutverk UNESCO í þeim efnum. Langtímastuðningur við þessa ólíku málaflokka er ekki síst mikilvægur á tímum aukinnar spennu í alþjóðamálum,“ segir Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra.

Samningurinn byggir á góðu samstarfi Íslands og UNESCO um þróunarsamvinnuverkefni sem hófst árið 2019. Í honum felst stuðningur við fjögur verkefni sem falla einkar vel að áherslum Íslands í þróunarsamvinnu hvað varðar lýðræði og borgaraleg réttindi sem og eflingu grunninnviða og menntunar.

Tvö verkefnanna snúa að frjálsri fjölmiðlun og tjáningarfrelsi með því að tryggja öryggi blaðafólks og efla fjölmiðlaumhverfi í fátækari löndum  (Multi-Donor Programme on Freedom of Expression and Safety of Journalists og International Programme for the Development of Communication). Þriðja verkefnið (CapED - Capacity Development for Education) snýr að eflingu menntunarkerfa, meðal annars í gegnum þjálfun kennara og auknu aðgengi að iðnmenntun í fátækustu ríkjunum. Þar að auki mun nýi samstarfssamningurinn við UNESCO fela í sér stuðning við verkefni Alþjóðahaffræðinefndar UNESCO en fyrr á árinu hlaut Ísland sæti í framkvæmdastjórn nefndarinnar til loka árs 2025.

Elín R. Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneytinu, og Julien Pellaux, skrifstofustjóri hjá Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) undirrituðu samninginn. 

Norðurlönd og UNESCO eiga árlegt samráð um þróunarsamvinnuverkefni stofnunarinnar til að veita ráðgjöf og eftirlit. Ísland tók sæti í framkvæmdastjórn UNESCO í nóvember 2021 og sinnir samhæfingu á meðal Norðurlandanna um málefni stofnunarinnar.

  • Endurnýjun samstarfssamnings við UNESCO um þróunarsamvinnu - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta