Hoppa yfir valmynd
29.11. 2023 Utanríkisráðuneytið

Óháð úttekt staðfestir áþreifanlegan árangur Íslands í Malaví

Áratugalangt samstarf Íslands við Mangochi-hérað í Malaví hefur skilað áþreifanlegum árangri fyrir íbúa héraðsins, að því er fram kemur í nýrri óháðri úttekt sem unnin var af alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu GOPA. Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðukona sendiráðs Íslands í höfuðborginni Lilongwe, segir úttektina staðfesta að héraðsnálgunin beri árangur. Nú njóta yfir 54 þúsund heimili Mangochi-héraðs góðs af bættri heilbrigðisþjónustu, sem hafa verið byggð upp á vegum Íslands, en megininntak verkefna Íslands í héraðinu snýr að mæðra- og ungbarnavernd, menntamálum og vatns- og hreinlætismálum.

„Það er afskaplega ánægjulegt að fá óháða úttekt í hendurnar sem staðfestir það sem við höfum lengi vitað, að verkefnin sem Ísland hefur styrkt undanfarna áratugi skili sér í raunverulegum breytingum fyrir íbúa þessa fátæka héraðs og í raun undraverðum árangri þegar kemur að heilbrigði og lífslíkum,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. 

Nýburadauði minnkað um 47 prósent og 300 þúsund manns fengið aðgang að hreinu vatni

Stuðningur Íslands hefur meðal annars falið í sér byggingu tveggja stórra sjúkrahúsa, tuttugu svæðisheilbrigðisstofnana og 22 heilsugæsla og smærri heilsupósta í 60 þorpum héraðsins, en þessir smærri heilsupóstar gegna mikilvægu hlutverki í heilsuvernd í nærumhverfi íbúa. Þessi uppbygging á stóran þátt í því að frá árinu 2017 hefur tilfellum nýburadauða fækkað um 47 prósent í héraðinu og mæðradauða um 31 prósent. Þá njóta nú yfir 300 þúsund manns góðs af auknu aðgengi að heilnæmu vatni vegna verkefna Íslands í Mangochi.

Inga Dóra segir héraðsnálgun Íslands í þróunarsamvinnu sem og árangurinn af henni ennfremur hafa vakið verðskuldaða athygli meðal annarra framlagsríkja og alþjóðastofnana. Í héraðsnálgun felst náið samstarf við héraðsstjórnir að uppbyggingu innviða og getu til að bæta grunnþjónustu við íbúa. Slík nálgun hefur marga kosti fyrir smáa samstarfsaðila líkt og Ísland, þar sem framlag okkar nær samlegðaráhrifum í gegnum ólíka geira, og fámennt landateymi nær að vinna samstíga með starfsfólki héraðsstjórnar til að hámarka árangur af okkar framlagi. Héraðsnálgun Íslands hefur reynst árangursrík í að efla getu héraðstjórnvalda, skilað sýnilegum árangri og vekur vaxandi áhuga annarra framlagsríkja.

Árangur við krefjandi aðstæður

Í úttekt GOPA er bent á að innleiðing verkefna í Mangochi-héraði hafi verið takmörkum háð árin 2020-2021, einkum vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Inga Dóra segir að það hafi verið töluverð áskorun að halda framkvæmdum af þessari stærðargráðu gangandi á tímum heimsfaraldurs. Þá hafi önnur áföll sömuleiðis skekið Malaví á verkefnatímanum líkt og þurrkar og flóð og þá hafi Ísland reynt eftir fremsta megni að aðstoða Malaví við að fást við hremmingarnar. 

Sautján tillögur til úrbóta eru lagðar fram í úttekt GOPA. Inga Dóra telur að þær komi til með að reynast gagnlegar við að bæta héraðsnálgun Íslands enn frekar og móta áframhaldandi stuðning Íslands og verkefnalok í héraðinu. Þar sé Ísland nú á hvers manns vitorði eftir langvarandi stuðning, sem haldi áfram að nýtast fólkinu í þessu fátæka héraði til frambúðar. 

Hér má nálgast lokaúttekt GOPA á héraðsverkefni Íslands í Mangochi héraði 2017-2023 (á ensku).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta