UNCESCO skólarnir orðnir rúmlega tuttugu
Menntaskólinn að Laugarvatni er orðinn UNESCO-skóli en þeim hefur fjölgað hratt á síðustu misserum. Í síðustu viku varð Menntaskólinn í Reykjavík UNESCO skóli og um miðjan mánuðinn bættist Fjölbrautarskóli Snæfellinga í hópinn. Alls eru UNESCO-skólar hér á landi því orðnir 21 talsins, einn leikskóli, sjö grunnskólar og 13 framhaldsskólar.
Menntaskólinn á Laugarvatni fagnaði þessum tímamótum í sögu skólans með því að vekja athygli á alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi sem haldinn er árlega 25. nóvember. Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla, heimsækir skólann á næstunni og heldur kynningu fyrir starfsfólk og nemendur skólans um UNESCO-skóla og heimsmarkmiðin.
Verkefnið er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu og styður við framgang aðgerðar 8 í menntastefnu stjórnvalda, raddir unga fólksins – virkt nemendalýðræði á öllum skólastigum, auk þess að styðja við stefnu um barnvænt Ísland og að efla lýðræðis- og mannréttindamenntun.