Hoppa yfir valmynd
21.12. 2023 Utanríkisráðuneytið

Tveir nýir grunnskólar afhentir í Úganda

Sveinn H. Guðmarsson, verkefnastjóri í sendiráði Íslands í Kampala, afhenti skólana fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. - mynd

Tveir nýir grunnskólar sem byggðir voru fyrir íslenskt þróunarfé hafa verið afhentir yfirvöldum í Namayingo-héraði í Úganda. Á dögunum voru ný salernishús tekin í notkun í sjö skólum til viðbótar. 

Það var hátíðleg stund þegar fulltrúar sendiráðs Íslands í Kampala afhentu yfirvöldum og skólastjórnendum í Namayingo, öðru af samstarfshéruðum Íslands í Úganda, nýjar byggingar í grunnskólunum í Dowhe og Busiula í vikunni. Þegar framkvæmdir hófust í septemberbyrjun voru skólarnir svo illa farnir að af þeim stafaði hætta fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Rúmlega 1.600 drengir og stúlkur stunda nám við skólana. Börnin eru nú í jólafríi en þegar þau koma aftur bíða þeirra nýjar og betri kennslustofur. 

Auk kennslustofanna fylgja skólunum ný eldhús fyrir skólamáltíðir, sem búin eru orkusparandi eldunaraðstöðu, og salerni með sturtum og brennsluofnum fyrir tíðavörur. Með slíkri aðstöðu er spornað við brottfalli unglingsstúlkna úr skólum en blæðingar þykja ennþá feimnismál og skammarefni. Þá eru bæði skólabyggingar og salerni hönnuð með þarfir fatlaðs fólks í huga. Loks fylgja skólunum íbúðir fyrir skólastjóra og yfirkennara en fjarvistir starfsfólks sem þarf um langan veg að fara í vinnu eru hamlandi þáttur í skólastarfi í landinu. 

Í nóvember afhenti sendiráð Íslands í Kampala yfirvöldum í Namayingo ný salernishús í sjö grunnskólum í héraðinu og tryggðu þar með þúsundum stúlkna og drengja aðgengi að hreinni og öruggri salernisaðstöðu. Hjólastólaaðgengi er við öll húsin sem eru líka búin salernum, sturtum og brennsluofnum fyrir tíðavörur. 

Afhending skólabygginganna í Dowhe og Busiula marka lok yfirstandandi samstarfs Íslands og Namayingo. Á grundvelli þess hafa alls átta nýir skólar verið byggðir, vatns- og hreinlætisaðstaða í byggðarlögum stórbætt og ráðist í ýmsar aðgerðir á sviði loftslagsmála og kynjajafnréttis. Viðræður standa nú yfir um næsta fasa samstarfsins sem gert er ráð fyrir að nái yfir tímabilið 2024-2026. 

Namayingo er fátækt hérað í suðausturhluta Úganda. Þar búa um 215 þúsund manns og um 70 prósent þeirra eiga heima í fiskveiðiþorpum við Viktoríuvatn. Grunnþjónusta er þar af skornum skammti og styrkir Ísland héraðið með verkefnum í strandbyggðunum á sviði menntunar og vatns- og hreinlætismála, ásamt stofnanauppbyggingu. Framkvæmd verkefnanna er undir forystu héraðsyfirvalda með stuðningi og eftirliti af hálfu Íslands. Þau eru skipulögð í samræmi við þróunaráætlun Úganda, þróunarsamvinnustefnu Íslands og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

 
  • Tveir nýir grunnskólar afhentir í Úganda - mynd úr myndasafni númer 1
  • Tveir nýir grunnskólar afhentir í Úganda - mynd úr myndasafni númer 2
  • Tveir nýir grunnskólar afhentir í Úganda - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta