Hoppa yfir valmynd
13.02. 2024 Utanríkisráðuneytið

Kynningarfundur um samstarf við atvinnulífið í þróunarríkjum

Íslandsstofa, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, stendur fyrir kynningarfundi um samstarf við atvinnulífið í þróunarríkjum fimmtudaginn 15. febrúar næstkomandi kl. 9:30. Fundurinn fer fram í húsakynnum Íslandsstofu, 4. hæð Grósku. Rafræn þátttaka er einnig möguleg. 

Fundinum er ætlað að beina sjónum íslensks atvinnulífs og sérfræðinga að samstarfsmöguleikum í þróunarríkjum og mikilvægi þess að byggja upp efnahag fátækari ríkja. Einkageirinn getur lagt gríðarmikið af mörkum til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem eru sameiginleg markmið okkar allra. Með því að renna styrkari stoðum undir atvinnu- og viðskiptalíf í þessum löndum geta íslensk fyrirtæki og sérfræðingar jafnframt eflt samkeppnishæfni sína á framtíðarmörkuðum. Fundurinn er liður í fundaröð um atvinnulífsuppbyggingu í þróunarsamvinnu.

Skráning á fundinn er hér.

Meðal efnis verður:

1. Almenn kynning á tæknilegri aðstoð íslenskra sérfræðinga í þróunarsamvinnu (ráðgjafalistum fyrir sérfræðinga).

2. Kynning á samningi við Development Aid, gagnagrunni sem verður aðgengilegur öllum íslenskum fyrirtækjum og felur m.a. í sér:

  • Upplýsingar um alþjóðleg viðskiptatækifæri (útboð)
  • Upplýsingar um fjármögnunarmöguleika um allan heim (styrki
  • Upplýsingaöflun og greiningu á framlaga- og fjármögnunarstofnunum
  • Rafrænn vettvangur fyrirtækjastefnumóta
  • Greiningartæki til að meta hugsanlega samstarfsaðila og samkeppnisaðila
  • Upplýsingar fyrirtæki sem hafa komist á úrtakslista fyrir útboð þau sem hafa unnið útboðin.
  • Upplýsingar um fyrirtæki og einstaklinga sem sæta refsiaðgerðum (black listed).

3. Kynning á Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins um þróunarsamvinnu sem opnað hefur á ný, fyrir styrkumsóknir íslenskra fyrirtækja.

4. Spurningar og svör 

Þann 1. mars verður haldinn fundur um ráðgjafalista fyrir sérfræðinga í sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda, verndun hafs og vatna og verður sá fundur auglýstur sérstaklega á næstu dögum. Kynningarfundir fyrir sérfræðinga á öðrum áherslusviðum verða haldnir síðar á árinu. 

Vakin er athygli á því að opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu. Frekari upplýsingar má nálgast hér.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að senda tölvupóst á [email protected].

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta