Hoppa yfir valmynd
28.02. 2024 Utanríkisráðuneytið

Nýr samstarfssamningur við Alþjóðaráð Rauða krossins undirritaður í Genf

Anna Jóhannsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, ásamt Robert Mardini, framkvæmdastjóra ICRC, eftir undirritun samningsins. - mynd

Íslensk stjórnvöld undirrituðu í gær nýjan samstarfssamning um stuðning Íslands við Alþjóðaráð Rauða krossins (International Committee of the Red Cross, ICRC) til næstu þriggja ára. Anna Jóhannsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands ásamt Robert Mardini, framkvæmdastjóra ICRC. Samkvæmt samningnum munu framlög íslenskra stjórnvalda til ICRC nema 30 milljónum króna árlega á tímabilinu 2024-2026.

 Stuðningur alþjóðaráðsins snýr ekki síst að lagalegri vernd og aðstoð við fórnarlömb vopnaðra átaka á grundvelli mannúðarlaga. Með fyrirsjáanlegum og áreiðanlegum framlögum til næstu þriggja ára leggur Ísland sitt af mörkum til brýnustu mannúðarverkefna stofnunarinnar, segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.

Stofnunin er skilgreind sem samstarfsaðili í mannúðaraðstoð í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024-2028. Auk samningsins sem undirritaður var í dag eiga íslensk stjórnvöld í samstarfi við Rauða krossinn á  Íslandi (RKÍ) á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu og styðja verkefni ICRC og IFRC (Alþjóðaráð Rauða hálfmánans) gegnum rammasamninga við RKÍ. Tilkynnt var um 25 m.kr. viðbótarframlag til RKÍ þann 30. janúar sl., vegna viðbragða ICRC við þeirri neyð sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta