Hoppa yfir valmynd
12.04. 2024 Utanríkisráðuneytið

Aldrei meira fé verið varið til þróunarsamvinnu

Skólastofa í Mangochi-héraði í Malaví. Ísland og Malaví fagna í ár 35 ára samstarfsafmæli í þróunarsamvinnu. - myndÆgir Þór Eysteinsson

Þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC) birti í gær bráðabirgðatölur um framlög til opinberrar þróunaraðstoðar (ODA) á síðasta ári. Þar kemur fram að samanlögð framlög DAC-ríkja hafa aldrei verið hærri, en þau jukust um 1,8 prósent að raunvirði á árinu 2023 miðað við árið á undan, og námu um 224 milljörðum bandaríkjadala. Framlög Íslands til þróunarsamvinnu á árinu 2023 námu 0,36 prósentum af vergum þjóðartekjum (VÞT) samanborið við 0,34 prósent árið á undan. Að meðaltali veita aðildarríki DAC 0,37 prósentum af VÞT til málaflokksins.

„Nýju tölurnar frá DAC endurspegla því miður vaxandi þörf og neyð á heimsvísu. Fjöldi vopnaðra átaka, hækkun á verði matvæla og annarra nauðþurfta, náttúruhamfarir og loftslagsbreytingar eru á meðal þess sem veldur og þá er víða ástæða til að hafa áhyggjur af þróun mannréttindamála. Ísland er á meðal þeirra ríkja sem hafa hækkað framlög til þróunarsamvinnu til þess að mæta þessari þörf og leggur sem fyrr áherslu á mannréttindi, jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftslagsmál í sínum stuðningi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.  

Hækkun framlaga til þróunarsamvinnu á síðustu tveimur árum má að miklu leyti rekja til stuðnings aðildarríkja DAC við Úkraínu í kjölfar innrásarstríðs Rússlands. Þannig nam stuðningurinn alls 40,5 milljörðum bandaríkjadala á síðasta ári sem er hæsta upphæð framlaga til þróunarsamvinnu sem hefur runnið til eins ríkis á einu ári.  

Auk stuðnings við Úkraínu má rekja aukningu framlaga til mannúðaraðstoðar sem og kjarnaframlaga til alþjóðastofnana. Hlutfall framlaga DAC-ríkja sem varið hefur verið innanlands til móttöku flóttafólks og hælisleitenda hefur á sama tíma minnkað úr 14,7 prósentum í 13,8 prósent.  

Þá hækkuðu framlög til fátækustu ríkjanna (Least Developed Countries - LDCs)  úr 30,7 milljörðum árið 2022 í 31,6 milljarða bandaríkjadala á liðnu ári, sem er viðsnúningur frá árinu á undan þegar um umtalsverða lækkun var að ræða. Í þessum ríkjum nema framlög til þróunarsamvinnu um tveimur þriðju af erlendri fjármögnun og eru því lykilþáttur í fjármögnun sjálfbærrar þróunar í þessum ríkjum. 

OECD-DAC er samstarfsvettvangur OECD-ríkja sem veita framlög til þróunarsamvinnu  samkvæmt sameiginlegum viðmiðum og stuðlar að faglegu aðhaldi. Alls eiga 32 af 38 aðildarríkjum OECD sæti í nefndinni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta