Hoppa yfir valmynd
24.05. 2024 Utanríkisráðuneytið

Jafnréttisskóli GRÓ útskrifar 23 nemendur frá 14 löndum

Tuttugu og þrír nemendur, fjórtán konur og níu karlar, útskrifuðust frá Jafnréttisskóla GRÓ í dag, í sextándu útskrift skólans frá því hann tók til starfa árið 2009. Útskriftarnemendurnir koma að þessu sinni frá fjórtán löndum: Úganda, Suður-Afríku, Gana, Keníu, Palestínu, Indlandi, Malaví, Bosníu Hersigóvínu, Sri Lanka, Nepal, Pakistan og í fyrsta skiptið frá Madagaskar, Liberíu og Rúanda.   

Hópurinn kom til landsins í byrjun janúar og hafa nemendurnir síðan lokið sex þverfaglegum námskeiðum á sviði jafnréttismála. Tvenn verðlaun kennd við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og verndara Jafnréttisskólans, voru veitt við athöfnina. Annars vegar í flokki hagnýtra verkefna, sem féllu Ramatu Issah frá Gana í skaut, og hins vegar í flokki rannsóknarverkefna sem veitt voru Mihitha Basnayake frá Sri Lanka. 

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ, fluttu ávörp við útskriftina. Ólöf Garðarsdóttir, sviðsforseti Hugvísindasviðs, Nína Björk Jónsdóttir forstöðumaður GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, og Védís Ólafsdóttir verkefnisstjóri við skólann afhentu prófskírteini og viðurkenningagripi. Elizabeth Achola Mang'eni frá Kenía flutti lokaávarp fyrir hönd nemenda, Enas Dajani frá Palestínu las ljóð eftir Mahmoud Darwish og Hameeda Syed frá Indlandi flutti frumsamið ljóð um nemendahópinn. Útskriftin fór fram í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, við Háskóla Íslands.  

Jafnréttisskólinn heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands en hann er hluti af GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Jafnréttisskólinn stendur árlega fyrir fimm mánaða diplómanámi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum og veitir auk þess styrki til doktorsnáms. GRÓ skólarnir fjórir, Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn eru mikilvægur þáttur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta