Hoppa yfir valmynd
18.09. 2024 Utanríkisráðuneytið

Enduruppbygging Úkraínu og nýsköpun í þróunarsamvinnu í brennidepli á fundi þróunarsamvinnuráðherra Norðurlandanna

Lotte Machon, ráðuneytisstjóri þróunarsamvinnu í danska utanríkisráðuneytinu, Ville Tavio, viðskipta- og þróunarsamvinnuráðherra Finnlands, Benjamin Dousa, þróunarsamvinnu- og viðskiptaráðherra Svíþjóðar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, og Bjørg Sandkjær, ráðuneytisstjóri þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneyti Noregs. - myndStina Gullander/Utanríkisráðuneyti Svíþjóðar

Nýsköpun í þróunarsamvinnu, stuðningur við enduruppbyggingu Úkraínu, græn orkuskipti í þróunarríkjum og lýðræðisþróun í Austur-Evrópu voru meðal viðfangsefna á fundi þróunarsamvinnuráðherra Norðurlandanna sem fram fór í Stokkhólmi í dag. Benjamin Dousa, nýskipaður  þróunarsamvinnuráðherra Svíþjóðar, tók þar á móti norrænum starfssystkinum sínum en fundurinn er liður í formennsku Svíþjóðar í norrænu samstarfi.

„Þróunarsamvinna er einn lykilþátta í utanríkisstefnu Íslands en vegna örra breytinga í heimsmálum hafa mörg viðfangsefni hennar orðið sífellt pólitískari og samtengd öryggismálum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Norðurlöndin hafa um árabil lagt mikla áherslu á þróunarsamvinnu og verið í fararbroddi á ýmsum sviðum, til dæmis þegar kemur að áherslu á jafnrétti kynjanna sem forsendu sjálfbærrar þróunar. Þá er nýsköpun í þróunarsamvinnu einnig forsenda aukinnar skilvirkni og lykilatriði að framlög skili sér til fátækustu ríkjanna þar sem þörfin er mest.“ 

Ráðherrarnir nýttu fundinn meðal annars til að skoða norræna samstarfsfleti í orkumálum, einna helst í tengslum við aðkomu einkageirans að fjármögnun orkuskipta. Þá voru fólksflutningsmál rædd í samhengi þróunarsamvinnu og lagði utanríkisráðherra áherslu á stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu þar sem undirstrikað er að vaxandi óstöðugleiki í heiminum virði engin landamæri.

Norræn samstaða um stuðning við Úkraínu var undirstrikuð og rædd voru sameiginleg norræn verkefni við enduruppbyggingu landsins. „Við erum samtaka um bráðnauðsynlega enduruppbyggingu Úkraínu og þá er sérstaklega mikilvægt að efla orkuinnviði landsins, sem eru illa farnir sökum kerfisbundinna árása Rússlands, og það áður en vetur ber að garði,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Fyrirhugaðar kosningar í Georgíu og Moldóvu, auk stöðunnar í Belarús, voru einnig til umræðu í samhengi lýðræðisþróunar í Austur-Evrópu og kom Jerzy Pomianowski, framkvæmdastjóri félagasamtakanna European Endowment for Democracy (EED), til fundar við ráðherrana. Íslensk stjórnvöld hafa stutt samtökin frá 2021 en þau veita stuðning við grasrótarsamtök varðandi lýðræðisþróun í Austur-Evrópu sem og grannríkjum Evrópu og tilkynnti utanríkisráðherra um endurnýjun samninga við EED á fundinum.

„Norðurlöndin hafa stutt dyggilega við vegferð Georgíu og Moldóvu í átt að efnahagslegum og lýðræðislegum umbótum frá því að ríkin öðluðust sjálfstæði á ný. Það skiptir máli að styðja við EED enda mikilvægt að standa með grasrótarsamtökum í lýðræðisþróun, sérstaklega í ljósi aukins þrýstings og upplýsingaóreiðu af höndum rússneskra stjórnvalda og tilkynntum við um endurnýjaðan stuðning til samtakanna,“ segir Þórdís Kolbrún.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta