Hoppa yfir valmynd
10.12. 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland eykur stuðning sinn við Alþjóðaframfarastofnunina

Í lok viðræðna um 21. endurfjármögnun IDA.  - myndIDA

Íslensk stjórnvöld hækka framlög til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) um 24 prósent, en viðræðum vegna 21. endurfjármögnunar stofnunarinnar, sem á sér stað þriðja hvert ár, lauk á föstudaginn í Seúl. Framlög Íslands byggja á samþykktri fjármálaáætlun Alþingis en framlögin eru hluti af framlögum Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Viðræðurnar skiluðu sögulegri niðurstöðu er aðildarríkin veittu framlagaáheit til IDA sem nema 23,7 milljörðum bandaríkjadala og gerir IDA kleift að veita fátækustu ríkjum heims um 100 milljarða dala stuðning á tímabilinu 2026 til 2028.

„Ísland hefur átt aðild að IDA frá upphafi, eða frá árinu 1960, og hefur stofnunin alla tíð gegnt lykilhlutverki í þróunarsamvinnu Íslands. IDA er meðal árangursríkustu stofnananna sem vinna að þessum mikilvæga málaflokki, en hver dalur sem við veitum stofnuninni skilar sér í fjórum dölum til lántökuríkjanna. Hækkun framlaga Íslands til IDA mun nýtast vel enda hefur þörf fátækustu ríkjanna fyrir stuðning farið hratt vaxandi á síðustu árum meðal annar  vegna afleiðinga heimsfaraldursins, efnahagsþrenginga, vaxandi átaka og óstöðugleika,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

IDA er sú stofnun Alþjóðabankans sem veitir 78 fátækustu ríkjum heims stuðning í formi hagstæðra lána, styrkja og ráðgjafar.

Áherslur stofnunarinnar samræmast vel áherslum íslenskra stjórnvalda í þróunarsamvinnu, þar á meðal hvað varðar uppbyggingu mennta- og heilbrigðisinnviða, aðgang að grunnþjónustu, kynjajafnrétti og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga meðal annars með nýtingu endurnýjanlegrar orku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta