Undirritun samninga við þrjá styrkþega Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífsins
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra undirritaði í gær samninga við þrjá styrkþega Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífsins, en þetta var í tólfta sinn sem styrkjum úr sjóðnum er úthlutað. Verkefnin hafa það sammerkt að stuðla að sjálfbærni og félagslegum framförum í þróunarríkjum. Eftirfalin verkefni fengu styrki:
Warm heart ehf. hlýtur 30.000.000 kr. styrk til verkefnis sem miðar að því að efla starfsemi Matenda Coffee Farms Ltd., sem er fjölskyldurekið fyrirtæki í Malaví og koma kaffi þeirra í sölu og dreifingu erlendis. Einnig á að auka sjálfbærni framleiðslunnar og bæta markaðssetningu fyrirtækisins, einkum utan Malaví.
Pólar toghlerar ehf. fá styrk upp á 26.398.800 kr. til verkefnis sem miðar að því að nútímavæða fiskveiðar fyrir Indlandshafsströndum Kenía. Búa á út þilbáta sem geta veitt lengra frá landi og hafa meiri haffærni en núverandi bátar í strandveiðaflota Kenía. Verkefnið er yfirgripsmikið og með fjölda samstarfsaðila.
Anna Rósa grasalæknir ehf. fær16.705.680 kr. styrk til að kenna konum í Palabek flóttamannabúðum í Úganda að búa til lækningavörur og smyrsl úr jurtum í nærumhverfi þeirra. Ætlunin er að þjálfa 500 konur árlega en verkefnið er til þriggja ára. Þá er stefnt að því að þjálfa valdar konur sem leiðbeinendur við að viðhalda og dreifa þekkingunni.