Ísland styður við kyn- og frjósemisheilbrigði í Úganda
Ísland er bakhjarl tveggja nýrra verkefna um kyn- og frjósemisheilbrigði í Úganda með sérstakri áherslu á tvö héruð í landinu. Verkefnin eru unnin í samstarfi við annars vegar sendiráð Hollands í Kampala og hins vegar alþjóðlegu félagasamtökin Ipas.
Aðstæður hvað varðar kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi eru krefjandi í Úganda. Hver kona eignast að jafnaði 5,4 börn á lífsleiðinni og um helmingur þjóðarinnar er undir átján ára aldri. Þunganir unglingsmæðra, mæðradauði og kynferðis- og kynbundið ofbeldi eru alvarleg og algeng vandamál.
„Áskoranir á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðismála eru miklar í Úganda og afleiðingar þeirra bitna ekki síst á konum og stúlkum sem eiga erfitt uppdráttar í samfélögum þar sem þær eru undirskipaðar körlum. Með samstarfi annars vegar við Holland og hins vegar Ipas-samtökin um þessi málefni styður Ísland Úganda við að takast á við þessar áskoranir. Þetta skiptir miklu máli því þær eru ein helsta rót margra þeirra vandamála sem þjóðfélagið glímir við,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Kynfræðsla, uppbygging og starfsmenntun
Verkefnið sem Ísland styður í samstarfi við Holland er liður í stærra verkefni sem kallast Heroes for Gender-Transformative Action. Markmið þess eru meðal annars að valdefla ungt fólk og konur á barneignaraldri til að taka upplýstar ákvarðanir um eigið kyn- og frjósemisheilbrigði og bæta aðgang að þjónustu á þessu sviði, svo og úrræðum gegn kynferðis- og kynbundnu ofbeldi.
Stuðningur Íslands beinist sérstaklega að Kalangala-héraði við Viktoríuvatn, sem var á sínum tíma samstarfshérað Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu. Þar verður stutt við alhliða kynfræðslu í fimmtán grunnskólum sem sérstaklega er sniðin að þörfum ungmenna með fötlun. Þá verður unnið að uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu á eyjunum. Um þúsund stúlkum verður boðið upp á HPV-bólusetningar og 1.500 konur fá skimun fyrir leghálskrabbameini. Þá stendur til að tryggja 300 þolendum kynbundins ofbeldis starfsmenntun til að bæta möguleika þeirra til framfærslu.
Framlag Íslands til þessa verkefnis nemur 700 þúsund bandaríkjadölum og er verkefnatíminn tvö ár. Samtökin Amref Health Africa, Cordaid og MIFUMI annast framkvæmdina.
„Ísland lyfti grettistaki á sínum tíma á Kalangala-eyjum, ekki síst á vettvangi fullorðinsfræðslu og innviðauppbyggingu á sviði skólamála. Ástand heilbrigðismála, ekki síst er varðar kyn- og frjósemisheilbrigði, er hins vegar bágborið á eyjunum og því mikið verk að vinna. Það er sérstaklega áríðandi að fólk með fötlun fái viðeigandi þjónustu á þessu sviði sökum þess hversu jaðarsettur sá hópur er í þjóðfélaginu,“ segir Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala.
Stuðningur við konur sem gengist hafa undir þungunarrof
Verkefnið með alþjóðlegu félagasamtökunum Ipas snýst um að bæta umönnun og þjónustu við konur sem gengist hafa undir þungunarrof í Tororo-héraði í austurhluta landsins. Löggjöf um þungunarrof er mjög ströng í Úganda og er aðgerðin aðeins heimiluð ef þungunin ógnar lífi móður eða er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells. Þetta leiðir til þess að fjöldi þungunarrofa er gerður við hættulegar aðstæður utan heilbrigðisstofnana. Þó að löggjöf um þungunarrof sé ströng þá snýr hún að framkvæmdaraðilum, en ekki konum sem sækja slíka þjónustu. Bætt umönnun snýst því um aukna fræðslu og þekkingu á meðal heilbrigðisstarfsfólks, lögreglu og leiðtoga í samfélögum til að tryggja að konur í viðkvæmri stöðu fái örugga þjónustu.
Verkefnið sem Ísland styður við mun meðal annars bæta aðbúnað á fjórtán heilsugæslustöðvum í héraðinu, auk fræðslu starfsfólks, lögreglu og leiðtoga í samfélögum á gildandi lögum um þungunarrof og réttindi og skyldum sem þeim fylgja. Ennfremur á að vinna gegn smánun og fordómum og auka skilning á þýðingu þess að konur í viðkvæmri stöðu fái örugga þjónustu. Loks verður stutt við fræðslu og málafylgju á landsvísu í tengslum við stefnumótun er varðar þjónustu við konur og stúlkur sem gangast undir þungunarrof, í samræmi við tilmæli heilbrigðisyfirvalda í landinu.
Ísland styður við Ipas í Malaví í sambærilegu verkefni og hefur það samstarf gefist vel. Verkefnið í Úganda er til eins árs og er heildarframlag Íslands samstals 300 þúsund bandaríkjadalir.