Góð reynsla af heimili fyrir bágstaddar stúlkur í Kenía sem Ísland styrkir
Niðurstöður nýrrar úttektar á vegum utanríkisráðuneytisins, sem framkvæmd var af Verkís verkfræðiskrifstofu, benda til að verkefnið Haven Rescue Home í Kenía, sem utanríkisráðuneytið styrkti með nýliðastyrk fyrir frjáls félagasamtök um fjórar milljónir króna árið 2021, hafi skilað haldbærum árangri.
Haven Rescue Home er heimili í Naíróbí fyrir bágstaddar stúlkur 18 ára og yngri, sem eru ýmist barnshafandi eða mæður ungra barna, og er rekið af Önnu Þóru Baldursdóttur. Heimilið var stofnað árið 2015 með það að markmiði að skapa öruggt umhverfi og styðja við ungar stúlkur og börn þeirra.
Ráðuneytið hefur nú birt áðurnefnda úttekt þar sem finna má áhugaverðar sögur um afdrif stúlkna sem hafa dvalið á heimilinu og sýna fram á haldbæran árangur af starfinu. Í úttektinni eru jafnframt settar fram sex tillögur til úrbóta.
„Við fögnum þessum árangri auðvitað sérstaklega. Hann sýnir glögglega hvernig stuðningur frá Íslandi getur skipt sköpum fyrir lítið og mikilvægt verkefni eins og heimilið hennar Önnu Þóru í Naíróbí,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. „En fyrst og fremst er þetta vitnisburður um dýrmætt framtak íslensks eldhuga sem brennur fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín.“
Á heimilinu búa nú 15 stúlkur á aldrinum 12-18 ára með fimm börn sín, en alls hafa 75 stúlkur fengið vist á heimilinu frá árinu 2017. Verkefnið fellur vel að stefnuáherslum Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, og er samþætt við staðbundin kerfi, s.s. barnaverndaryfirvöld.