Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Berglindi ekki hleypt á fund Gunnars og Helmut Schmidt

Berglind Ásgeirsdóttir var í sendinefnd Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1979. Hún hóf störf i utanríkisþjónustunni það sama ár. Auk Berglindar eru á myndinni Héðinn Finnbogason, Ívar Guðmundsson, Ingimar Jónsson, Bragi Níelsson, Árni Grétar Finnsson, Kornelíus Sigmundsson og Tómas Á.Tómasson. - mynd

Berglind Ásgeirsdóttir sem meðal annars hefur gegnt embætti sendiherra í París og Moskvu, hóf störf  í utanríkisþjónustunni árið 1979. Árin 1981-1984 starfaði hún sem sendiráðsritari í sendiráði Íslands í Bonn, sem á þeim tíma var höfuðborg Vestur-Þýskalands. Á þessum tíma voru mjög fáar konur diplómatar. Átti það ekki einungis við um Ísland eins og glögglega kemur fram í frásögn Berglindar af fundi Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra með Helmut Schmidt kanslara Vestur-Þýskalands árið 1982.

Berglind átti að vera viðstödd fundinn ásamt Pétri Eggerz sendiherra og var henni falið að skrifa fundargerð. Sú fundargerð var aftur á móti aldrei rituð þar sem Berglindi var ekki hleypt á fundinn.

„Frú Schmidt bauð mökum (lesist  eiginkonum) til tesamsætis á meðan fundurinn fór fram. Eiginkona Péturs var ekki með honum en eiginmaður minn, Gísli Ágúst Gunnlaugsson, kom með mér og hugðist fara í makaboðið ásamt Völu Ásgeirsdóttur, eiginkonu Gunnars,“ segir Berglind.

„Íslenski hópurinn kom saman að húsnæði kanslarans og vorum við Gísli öftust. Við stilltum okkur þannig upp að ég gæti farið beint inn á fundinn, en þá var ég stöðvuð og bent á að fara í hina áttina. Ég sagði að þetta væri einhver misskilningur ég væri að fara með mínum forsætisráðherra á fund og að maðurinn minn væri að fara að hitta frú Schmidt, en það var alveg sama hvað ég sagði eða gerði, mér var ekki hleypt inn á fundinn,“ segir Berglind.

Eiginmanni hennar, Gísla Ágústi, var hins vegar nánast ýtt inn á fundinn. „Eins og ég nefndi áður var mér ætlað að taka niður nótur á fundinum og skrifa frásögn. Gísli var ekki viðbúinn slíku og því er ekki til nein frásögn í sendiráðinu af þessum markverða fundi. En það er ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar í jafnréttisbaráttunni á 38 árum,“ segir Berglind.

Morgunblaðið greindi frá fundinum þann 16. maí 1982 í viðtali við Gunnar Thoroddsen en þar kemur fram að þeir Helmut Schmidt hafi rætt ítarlega varnarmál og væntanlegan leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta