Einsdæmi í mannkynssögunni
Langvinnar samningaviðræður Íslendinga og Dana um íslensk skjöl og handrit sem varðveitt voru í Árnasafni og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn eru jafnan kallaðar einu nafni handritamálið sem endanlega var leitt til lykta árið 1986 er gengið var frá skiptingu síðustu handritanna á milli Íslands og Danmerkur (Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga frá A-Ö, 2015).
Segja má að afhending mikilvægra gagna hafi fyrst komist á rekspöl árið 1927 en 15. október það ár var undirritaður samningur milli Íslands og Danmerkur um gagnkvæma afhendingu úr söfnum á bókum og skjölum. Það var svo í kjölfar fulls aðskilnaðar Íslands og Danmerkur með lýðveldisstofnuninni 1944 sem fljótlega komst skriður á málið. Framkvæmd skjalaafhendingarinnar á 3ja áratug liðinnar aldar var til umræðu í athyglisverðu bréfi Sveins Björnssonar, þáverandi sendiherra í Kaupmannahöfn, dagsettu þann 14. júní 1928 og stíluðu á Tryggva Þórhallsson forsætisráðherra. Þar segir frá skjölum sem fóru heim til Íslands með skipinu Brúarfossi.
Í sjerstakri umsjá skipstjóra
„Eru skjölin í 32 kössum. Hafa þau verið látin í kassana og um þau búið í ríkisskjalasafninu hjer af mag.art Birni Þórólfssyni með aðstoð manna í ríkisskjalasafninu. Er vel um þau búið í kössunum,” ritaði Sveinn og bætti svo við í niðurlagi bréfsins: „31 kassanna hefir í dag verið komið fyrir í póstklefa “Brúarfoss“! Fer þar vel um þá og verður auk þess fyrst og best náð til þeirra, ef skipinu kynni að hlekkjast á. Einn kassinn, með pergamentsskjölum er í sjerstakri umsjá skipstjóra. Geymir skipstjóri hann í herbergi sínu á leiðinni heim,“ ritaði Sveinn Björnsson sem var einn fjölmargra sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn sem fengu málið á sitt borð á meðan skipunartíma þeirra stóð.
Bréfið sem Sveinn Björnsson ritaði Tryggva Þórhallssyni, forsætisráðherra, 14. júní árið 1928.
Í riti Péturs J. Thorsteinssonar Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál segir að á árunum 1956-1971 hafi málið „átt eftir að koma til kasta fjögurra sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Sigurðar Nordals til 1957, Stefáns Jóhanns Stefánssonar 1957-1965, Gunnars Thoroddsens 1965-1970 og Sigurðar Bjarnasonar 1970-71.” Ekki er að efa að fyrirrennarar þeirra, Jakob Möller 1945-1950 og Stefán Þorvarðsson 1950-1951, ásamt Jóni Krabbe sendifulltrúa, hafi einnig unnið málinu gagn. Dr. Gylfi Þ. Gíslason var sá ráðherra sem handritamálið mæddi mest á og vann hann að framgangi þess af mikilli atorku á fyrrnefndu tímabili með viðtölum við stjórnmálamenn í Kaupmannahöfn. Hann hóf viðræður um handritamálið við danska ráðamenn haustið 1956.
Menn treysta Sigurði
Skipan Sigurðar Nordal, þekktasta fræðimanns Íslendinga á sviði íslenskra fornbókmennta, í starf sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn árið 1951, segir sitt um mikilvægi handritamálsins, en ljóst var að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, sem lét sér mjög annt um málið, hafði við þá skipun handritamálið fyrst og fremst í huga. Í Tímariti Máls og menningar í desember mánuði 1951 segir aukinheldur: „Allir sjá hvar fiskur liggur undir steini. Endurheimt handritanna, kveður við einum rómi. Menn treysta Sigurði betur en hverjum öðrum til að flytja mál okkar svo við Dani að þeim verði ljóst að ekki sé stætt á því að vilja halda þeim fyrir Íslendingum,” skrifaði Kristinn E. Andrésson, þingmaður og ritstjóri tímaritsins.
„Þér komið færandi hendi. Vér höfum af því sagnir, að fólkið hafi þyrpzt niður að ströndinni til þess að taka á móti höfðingjum, sem komu færandi hendi með gull og gersemar. En hvað er það, sem þér nú komið til þess að færa oss? Það eru tvær bækur!“ Þannig hljóðar brot úr ávarpi þáverandi forsætisráðherra, Jóhanns Hafstein við komu handritanna 21. apríl 1971. Dagurinn var mikill hátíðisdagur á Íslandi og vel skipulagður en í frásögn úr sögusafni utanríkisráðuneytisins um vænt hátíðarhöld vegna komu Flateyjarbókar og Konungsbókar Eddukvæða var þeim lýst ítarlega.
„Þegar danska herskipið leggst að hafnarbakkanum í Reykjavík verða þjóðsöngvar Danmerkur og Íslands leiknir og Jóhann Hafstein, forsætisráðherra, og Poul Hartling, utanríkisráðherra, flytja ávörp. Kennsla verður felld niður í skólum og mælzt til þess að skrifstofum og verzlunum verði lokað milli kl. 11 og 12, meðan móttökuathöfnin fer fram við höfnina. Skátar og lögreglumenn munu standa heiðursvörð á hafnarbakkanum og gert er ráð fyrir því, að borgin verði fánum skrýdd. Gestirnir munu aka um Lækjargötu, Fríkirkjuveg og Hringbraut að Hótel Sögu þar sem þeir búa meðan þeir dveljast hér. Gert er ráð fyrir, að meðfram Lækjagötu og Fríkirkjuvegi verði raðir skólabarna með danska og íslenzka fána.“
Ekki verður annað séð en að áætlanir hafi staðist en í Morgunblaðinu daginn eftir athöfnina segir frá því að 15.000 manns hafi safnast saman á Hafnarbakkanum í Reykjavík og samkvæmt fréttariturum blaðsins á nokkrum stærstu kaupstöðum landsins sást varla nokkur maður á ferli á meðan sjónvarpað og útvarpað var frá komu danska herskipsins Vædderen með handritin tvö um borð. „Hvarvetna blöktu íslenzkir og danskir fánar við hún og skólabörn héldu á litlum fánastöngum með fánum beggja þjóðanna.“
Gaman er að bera myndirnar hér að ofan saman. Til hægri má sjá uppsett skipulag með myndrænum hætti.
Handritamálið kemst á skrið
Aukinn þungi færðist sem fyrr segir í kröfur Íslendinga um afhendingu handritanna eftir stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944. Meginatriðið var það að Danir ættu að skila handritunum því þau hefðu einungis verið þar í landi vegna sambands landanna sem nú hafði verið slitið. Auk þess væru þau íslensk að því leytinu til að þau voru skrifuð á Íslandi. Á móti sögðu dönsk stjórnvöld að um safngripi væri að ræða sem standa ættu óhreyfðir auk þess sem handritin hefðu verið varðveitt í Danmörku um langt skeið og að efni þeirra varðaði einnig sögu Norðurlandanna almennt.
„Ég held að danskir stjórnmálamenn hafi í fyrsta sinn skilið þá alvöru sem var á bak við áhuga Íslendinga á að fá handritin til Íslands, þegar hingað kom dönsk sendinefnd árið 1946. Þessi nefnd kom til þess að semja um ýmis mál, varðandi samskipti landanna eftir lýðveldisstofnunina hér og á fundunum var meðal annars rætt um leiðir til þess að leysa handritamálið“, sagði Janus A.W. Paludan sendiherra Dana hér á landi 1977-1985 í blaðaviðtali í Vísí árið 1979, en hann hafði á þessum tíma nýhafið störf í danska utanríkisráðuneytinu og var ritari nefndarinnar.
Danir sem studdu málstað Íslendinga
Fjölmargir Danir unnu mikið starf við að afla íslenska málstaðnum fylgis. Bent A. Koch, ritstjóri Kristeligt Dagblad í Kaupmannahöfn var einn þeirra sem lagði lóð sín á vogarskálarnar en í sérstöku fylgiblaði Morgunblaðsins um handritin sem birt var í tilefni af komu þeirra segir að „[f]áir eða engir Danir” hafi lagt jafn mikla vinnu af mörkum til að berjast fyrir málstað Íslendinga í handritamálinu, en hann var forgöngumaður að stofnun nefndar danskra áhugamanna málstað þessum til stuðnings.
„Koch og nánustu samstarfsmenn hans nutu álits og viðurkenningar í Danmörku, ekki aðeins meðal kirkjunnar manna og lýðháskólahreyfingarinnar, heldur einnig meðal fjölda stjórnmálamanna úr öllum flokkum,” skrifaði Stefán Jóhann Stefánsson í Minningum og bætti síðar við. „Hann hefur þegar á unga aldri reynzt Íslandi ómetanlegur vinur.”
Þessu til viðbótar mætti nefna að sendiherrar Danmerkur á Íslandi, þau C.A.C. Brun og Bodil Begtrup, höfðu einnig „mjög jákvæða afstöðu gagnvart handritakröfum Íslendinga og reyndu að beita áhrifum sínum til lausnar málinu sem báðir aðilar gætu sætt sig við,” skrifaði Pétur J. Thorsteinsson í rit sitt. Raunar hefði frú Bodil, eins og hún var jafnan kölluð, unnið að málinu „med næstan oldnordisk fanatisme og rethaveriskhed,” að því er fram kemur í bréfi Hans Hedtoft, leiðtoga danska Jafnaðarmannaflokksins til Stefáns Jóhanns þann 31. maí 1952. Hedtoft, sem var forsætisráðherra Danmerkur um margra ára skeið, var sjálfur mjög hallur undir norræna samvinnu og taldi mikilvægt að Danir nálguðust óskir Íslendinga eins og kostur var. Hann hafði kynnst vilja Íslendinga í málinu vel sem einn nefndarmanna í nefndinni sem kom hingað 1946 til að ræða aðskilnaðarmálin.
Víðsýni og frjálslyndi
Jörgen Jörgensen, kennslumálaráðherra Dana, lagði fram á danska þjóðþinginu frumvarp um afhendingu handritanna sem samþykkt var í fyrsta sinn árið 1961. Var því mikilvæga skrefi afar vel tekið í íslenskum dagblöðum en í Alþýðublaðinu 26. apríl 1961 sagði að Danir væru með afhendingu handritanna að vinna verk sem væri „einsdæmi í mannkynssögunni, því þess eru engin dæmi að fjársjóðum listaverka sé á þennan hátt skilað aftur til upprunalands síns, eftir að margra alda sambandi við nýlendu er slitið”. Á sama tíma sagði í Morgunblaðinu 26. apríl að þáverandi ríkisstjórn Danmerkur hefði tekið á málinu „af meiri víðsýni og frjálslyndi en Íslendingar hafa nokkru sinni átt að mæta í umræðum um afhendingu þessara þjóðardýrgripa sinna.”
Framkvæmd dönsku laganna átti hins vegar eftir að tefjast umtalsvert þar sem andstæðingar frumvarpsins höfðuðu mál fyrir dönskum dómstólum. 10 ár liðu þar til öllum hindrunum hafði verið ýtt til hliðar og Vædderen sigldi inn í Reykjavíkurhöfn.
Fyrirsögnin á forsíðufrétt Morgunblaðsins 21. apríl 1971 er margfræg.
„Ég skildi hina brennandi ósk íslenzku þjóðarinnar um að fá til Íslands allt, sem í sögulegum skilningi var þaðan komið og sem var dýrmætt fyrir íslenzku þjóðina að hafa í landi sínu. Leiðin var löng, en nú er takmarkinu náð. Handritin fara nú þangað þar sem þau eiga heima og eiga ætíð að vera,” sagði Jörgen Jörgensen, við Morgunblaðið þann 21. apríl í tilefni af endurkomu handritanna til Íslands.
Heimildir:
Ritaðar:
Alþýðublaðið 26. apríl 1961.
Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A-Ö (2015).
Morgunblaðið 26. apríl 1961.
Morgunblaðið 21. apríl 1971.
Morgunblaðið 22. apríl 1971.
Pétur J. Thorsteinsson, Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál. Sögulegt yfirlit (1992).
Stefán Jóhann Stefánsson, Minningar Stefáns Jóhanns Stefánssonar (1967).
Sögusafn utanríkisráðuneytisins.
Vísir 30. maí 1979.
Vef. Már Jónsson, Hvenær komu handritin aftur til Íslands og var það sjálfsagt mál að fá þau hingað?, https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5859