Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

75 ára aðildarafmæli að Sameinuðu þjóðunum: Hjartfólgnasta von mannkynsins

Sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2019. - myndUtanríkisráðuneytið

Í dag fagnar Ísland 75 ára aðildarafmæli að Sameinuðu þjóðunum. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti aðild Íslands 9. nóvember árið 1946 og tíu dögum síðar, 19. nóvember, undirritaði Thor Thors, sendiherra og fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá stofnuninni, yfirlýsingu um að Ísland gengi að sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Öll ríki, stór og smá, bera ábyrgð á Sameinuðu þjóðunum og því að leggja rækt við hugsjónirnar sem þær standa fyrir og Ísland mun halda áfram að vera þar í fararbroddi,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í lok blaðagreinar sem birtist í morgun í Fréttablaðinu.

„Ræðan sem Thor Thors sendiherra flutti við þetta tilefni á jafn vel við í dag þegar hann sagði hugsjónina að baki Sameinuðu þjóðunum endurspegla vel gildismat Íslendinga,“ ritaði ráðherra enn fremur en í tilefni af afmælinu eru hér að neðan nokkur valin brot úr ræðu Thors á allsherjarþinginu 19. nóvember 1946.

Langþráð augnablik

„Í dag, þegar augu alheimsins hvíla á þingi hinna sameinuðu þjóða, skiftir það ekki miklu máli, að ein smáþjóð til viðbótar gengur inn í fylking þeirra. Þrátt fyrir það er þetta lengi þráð augnablik fyrir íslenzku þjóðina og mikill viðburður í sögu hennar,“ sagði Thor í upphafi máls síns.

Á ræðupallinum fyrir miðri mynd er Thor Thors, sendiherra, áður en hann flutti ræðu sína. Til vinstri við Thor er Oesten Unden, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og hægra megin er Abdul Hussein Aziz, sendiherra Afganistan gagnvart Bandaríkjunum. Ljósmynd/UN Photo

Ræðan var þýdd í heild sinni í tímaritinu Lögberg sem þá kom út á íslensku í Winnipeg og prýddi forsíðu blaðsins 28. nóvember. Thor Thors var skipaður fastafulltrúi gagnvart Sameinuðu þjóðunum 1947 og gegndi þeirri stöðu til ársins 1965.

Orð sem eiga enn vel við í dag

„Íslenzka þjóðin byggir líf sitt og framtíð sína á hugsjónum friðar, lýðræðis og mannréttinda, en einmitt þessar háu hugsjónir eru grundvöllur hinna sameinuðu þjóða,“ sagði Thor jafnframt. Óhætt er að segja að orð hans eigi enn vel við í dag.

Ísland hlaut aðild að Sameinuðu þjóðunum á sama tíma og Afganistan og Svíþjóð og voru aðildarþjóðirnar þá orðnar 54. Í um tvo áratugi var Ísland fámennasta ríki Sameinuðu þjóðanna. Í dag eru aðildarríkin 193 og yfir 20 ríki samtakanna fámennari.

19. nóvember 1946 voru fánar Svíþjóðar, Íslands og Afganistan dregnir að hún í fyrsta skipti á lóð Sameinuðu þjóðanna að Flushing Meadows í New York í einni af byggingu heimssýningarinnar 1939. Fyrsta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fór fram í London í janúar 1946 og þar var ákveðið að höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna skyldu vera í Bandaríkjunum. Sameinuðu þjóðirnar fluttu inn í núverandi höfuðstöðvar á Manhattan árið 1952. Ljósmynd/UN Photo

„Undir merkjum hinna sameinuðu þjóða vonar mannkynið að mega nú, loksins sækja fram til sigurs þeirra hugsjóna, sem kynslóð eftir kynslóð hefir þráð, en aldrei fengið að njóta. Ísland gleðst yfir því að mega taka þátt í þessari viðleitni. Sigur hinna sameinuðu þjóða er hjartfólgnasta von mannkynsins. Megi þær vaxa að völdum, vináttu og visku.“

Þetta voru lokaorðin í ræðu Thors í sal allsherjarþingsins að Flushing Meadows í Queens í New York og var henni fagnað með dynjandi lófataki að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins 20. nóvember.

Thor Thors sendiherra undirritar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar sáttmála Sameinuðu þjóðanna 19. nóvember 1946. Ljósmynd/UN Photo.

Allar götur síðan hefur Ísland tekið virkan þátt í störfum Sameinuðu þjóðanna og staðið vörð um grunngildi þeirra og frið, mannréttindi og sjálfbæra þróun.

  • Fyrsta sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1946. F.v.: Thor Thors sendiherra, Finnur Jónsson dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson borgarstjóri (síðar utanríkisráðherra) og Ólafur Jóhannesson prófessor (síðar utanríkisráðherra). - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta