Hoppa yfir valmynd
7. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Formennska Íslands í Evrópuráðinu árið 1999 – kærkomið tækifæri til að árétta stuðning Íslands við vernd mannréttinda og lýðræðis í álfunni.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra ávarpar þingmannasamkomu Evrópuráðsins í Strassborg, 23. september 1999. - myndEvrópuráðið

Ísland tók við formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins í Strassborg 7. maí 1999.

Ísland gegndi formennsku í Evrópuráðinu árið 1999 á hálfrar aldar afmæli þess. Formennskan var viðamikið verkefni fyrir íslenska utanríkisþjónustu og um leið kærkomið tækifæri til að árétta stuðning Íslands við vernd og eflingu mannréttinda, lýðræðislega þróun og friðsamlega lausn deilumála í álfunni. 

Á þessum tíma gegndi Evrópuráðið mikilvægu hlutverki í uppbyggingarstarfinu á Balkanskaga eftir átökin þar. Mörg ríki Balkanskaga vildu losna undan viðjum fortíðar og öðlast sæti í samfélagi þjóðanna. Þar var aðild að Evrópuráðinu lykilskref.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra áréttaði mikilvægi formennskunnar í Evrópuráðinu og undirbúnings hennar í utanríkisráðuneytinu í viðtali við Morgunblaðið 14. apríl 1999, ,,Formennskan mun gera Ísland mjög sýnilegt á mannréttindasviðinu. Hún gefur Íslandi tækifæri á að koma með okkar eigin áherslur og leggja okkar af mörkum í mannréttindamálum í Evrópu“.

Meðal mikilvægustu verkefna Íslands í formennskunni var að greiða fyrir aðild nýrra ríkja að ráðinu, sérstaklega frá Balkanskaga, beita sér fyrir auknu og skilvirkara samstarfi Evrópuráðsins við Evrópusambandið (ESB) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Stuðningur við þátttöku Evrópuráðsins vegna stöðugleikasáttmála fyrir stríðshrjáð lönd Suðaustur-Evrópu (Stability Pact) var einnig mikilvægur þáttur í formennskutíð Íslands. Einnig lögðu íslensk stjórnvöld sérstaka áherslu á að leita leiða til að efla  Mannréttindadómstól Evrópu, m.a. með því að treysta fjárhagsgrundvöll hans enda jukust umsvif hans stöðugt vegna stóraukins málafjölda. Segja má að þessi atriði hafi myndað inntakið í formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins.

Starfsemi Evrópuráðsins er fjárfesting í framtíðinni – áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins kynnti áherslur Íslands í formennskunni í Strassborg í maí 1999. Hlutu þær góðan hljómgrunn og stuðning meðal aðildarríkja ráðsins. Þar áréttaði hann mikilvægi Evrópuráðsins - það hefði öðrum fremur varið og eflt mannréttindi, lýðræði og grundvallarreglur réttarríkisins í Evrópu undanfarin fimmtíu ár. Hann lagði áherslu á eftirlitshlutverk ráðsins á sviði mannréttinda og mikilvægi þess að aðildarríkin virtu þær skuldbindingar sem þau hefðu undirgengist með aðild að því. Í máli hans kom fram að Evrópuráðið hefði sérstöku hlutverki að gegna í uppbyggingu mannréttinda og lýðræðislegra stjórnarhátta í kjölfar átakanna á Balkanskaga.  Líta mætti á starfsemi Evrópuráðsins sem fjárfestingu í framtíðinni enda felast störf þess að miklu leyti í fyrirbyggjandi aðgerðum.

Hann áréttaði jafnframt stuðning sinn við frekari stækkun Evrópuráðsins og lagði þar sérstaka áherslu á umsókn Bosníu og Hersegóvínu sem hefði nýlega sótt um aðild að ráðinu.

Skilvirkt samstarf alþjóðastofnana lykilatriði

Ísland lagði sérstaka áherslu á aukið og skilvirkara samstarf Evrópuráðsins við aðrar alþjóðastofnanir. Mikilvægt væri að samhæfa betur starf Evrópuráðsins, ESB og ÖSE til að auka skilvirkni og koma í veg fyrir tvíverknað. Árið 1999 gegndi Noregur formennsku í ÖSE og Finnland leiddi starf ESB síðari hluta ársins. Þarna gafst því sérstakt tækifæri á að stuðla að auknu og skilvirkara samstarfi þessara stofnana í anda norrænnar samvinnu. Haldnir voru sérstakir samráðsfundir á ráðherrastigi í því skyni í formennskutíð Íslands sem lögðu grunn að kerfisbundnara og skilvirkara samstarfi þessara stofnana. Þannig var betur tryggt að sérþekking ráðsins nýttist með sem bestum hætti í slíku samstarfi.

Formennska Íslands í Evrópuráðinu hefst í maí árið 1999. Á ljósmyndinni sem tekin er við höfuðstöðvar Evrópuráðsins í Strassborg má sjá Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra ásamt Emil Breka Hreggviðssyni sendiráðsritara (t.v) og Sveini Björnssyni fastafulltrúa Íslands hjá Evrópuráðinu (t.h). Ljósmynd/Evrópuráðið

Formennska Íslands í Evrópuráðinu krafðist mikillar þátttöku Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra. Á formennskutímabilinu var hann í fyrirsvari fyrir Evrópuráðið gagnvart öðrum alþjóðastofnunum og stýrði ráðherrafundum ráðsins. Hann ávarpaði og sat einnig fyrir svörum hjá þingmannasamkomu Evrópuráðsins í Strassborg og ráðstefnu evrópskra sveitar- og héraðsstjórna (CLARE) í sömu borg. Utanríkisráðherra tók þátt fyrir hönd Evrópuráðsins í leiðtogafundi um stöðugleikasáttmálann fyrir Suðaustur-Evrópu í Sarajevo og var einnig í forsvari ásamt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins fyrir tveimur mikilvægum heimsóknum sendinefnda Evrópuráðsins á formennskutímabilinu annars vegar til Bosníu og Hersegóvínu  og hins vegar til Úkraínu til að styðja við þarlenda lýðræðisþróun.

Formennska Íslands í Evrópuráðinu árið 1999 var viðamikið verkefni fyrir íslenska utanríkisþjónustu og um leið kærkomið tækifæri til að árétta stuðning Íslands við vernd og eflingu mannréttinda, lýðræðislega þróun og friðsamlega lausn deilumála í álfunni segir Emil Breki Hreggviðsson sendifulltrúi sem kom mikið að formennskunni í ráðuneytinu. Formennskan krafist mikillar þátttöku Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sem hann leysti frábærlega af hendi af staðfestu og yfirvegun svo að eftir var tekið. Mörg mikilvæg verkefni lágu fyrir Evrópuráðinu á þessum tíma líkt og nú er raunin. Sérstaklega minnisstæðar eru ferðir okkar í formennskuhlutverkinu til Bosníu og Hersegóvínu og Úkraínu til að styrkja þarlenda lýðræðisþróun.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta