Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 1995 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ávarp utanríkisráðherra í tilefni af 50 ára afmæli Sþ.

24. október 1995

ÁVARP UTANRÍKISRÁÐHERRA, HALLDÓRS ÁSGRÍMSSONAR
Á HÁTÍÐ Í RÁÐHÚSI REYKJAVÍKUR
Í TILEFNI AF FIMMTÍU ÁRA AFMÆLI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA.

Virðulegi forseti, ágætu gestir,

INNGANGUR
Hálf öld er nú liðin frá því að þjóðir heims komu saman að loknum einum hrikalegasta hildarleik mannkynssögunnar, og stofnuðu með sér samtök, sem ætlað var að stuðla að varanlegum friði í heiminum og velferð alls mannkyns. Sameinuðu þjóðirnar hafa nú starfað í fimmtíu ár og enn eru markmið þeirra í fullu gildi. Þau eiga sér enga hliðstæðu sem virkur vettvangur næstum allra ríkja heims, og engin önnur alþjóðleg samtök geta betur tekist á við hin miklu vandamál, sem við okkur blasa á næstu áratugum.

Aðildin að Sameinuðu þjóðunum var fyrsta þátttaka Íslendinga í alþjóðastjórnmálum af alvöru eftir lýðveldisstofnun. Allt frá 1946 hafa allar íslenskar ríkisstjórnir litið svo á, að aðildin að samtökunum sé ein af meginstoðum utanríkisstefnunnar. Mikill fjöldi Íslendinga hefur tekið þátt í stöfum samtakanna með einhverjum hætti, og samþykktir þeirra hafa haft víðtæk áhrif hér á landi sem annars staðar.

Ekki er ætlun mín í þessu stutta ávarpi að gera sögu samtakanna skil, þótt verðugt væri. Þess í stað vil ég nota tækifærið og minnast stuttlega á nokkur atriði, sem ég tel mikilvæg varðandi framtíð Sameinuðu þjóðanna, svo samtökin megi vinna áfram að markmiðum sínum af fullum krafti.

MIKILVÆG ATRIÐI VARÐANDI FRAMTÍÐ SAMTAKANNA
Nauðsynlegt er að endurskoða ýmislegt í skipulagi samtakanna í því skyni að gera þau virkari. Norðurlöndin hafa sameiginlega gert ýmsar tillögur um endurbætur, til dæmis á starfsemi Öryggisráðsins. Að baki þeirra liggur sú hugmynd, að samsetning Öryggisráðsins endurspegli breytta heimsmynd, og ríki og ríkjahópar, sem áður stóðu til hlés, verði virkari þátttakendur í starfi samtakanna. Gæta verður þess þó, að þetta verði ekki á kostnað þess stöðugleika, sem skapast hefur í starfi Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil einnig nefna hinn mikla fjárhagsvanda samtakanna. Mörg ríki standa ekki við skuldbindingar sínar og nema skuldir aðildarríkjanna við samtökin rúmlega þremur miljörðum dala. Hluti vandans er sá, að sum ríki eru ekki sátt við að þurfa að greiða upphæðina, sem þeim er ætlað. Mikilvægur þáttur í lausn fjárhagsvandans hlýtur því að vera að endurskoða hinn svokallaða framlagaskala og reyna að ná sátt um þau mál.

Á síðustu árum hafa kröfurnar til friðargæslu samtakanna aukist. Víða um heim er litið til samtakanna, sem þess eina afls, sem stillt gæti til friðar. Friðargæsla þeirra hefur aukist að sama skapi og renna nú um tveir þriðju hlutar útgjalda þeirra til friðargæslu. Við Íslendingar höfum skilvíslega greitt okkar framlag til friðargæslunnar og lagt til hjúkrunarfólk í heilsugæslusveitir norska hersins í Bosníu.

Það nú orðið langt síðan mönnum varð ljóst, að ýmis vandamál, sem varða velferð alls mannkyns, verða ekki leyst nema með sameiginlegu átaki allra þjóða. Sameinuðu þjóðirnar eru því eina aflið, sem getur af alvöru tekist á við vanda eins og vaxandi fólksfjölda, þverrandi náttúruauðlindir og mengun umhverfisins. Landlæg vanþróun í sumum heimshlutum viðheldur fátækt, sem leiðir til spennu og stundum ófriðar. Vígbúnaðarkapphlaup og umhverfisspjöll fylgja í kjölfarið. það er ekki á valdi einstakra ríkja eða ríkjahópa að fást við viðfangsefni af þessu tagi.

Þegar fjallað er um Sameinuðu þjóðirnar, beinist athyglin oftast að þeim deilumálum, sem efst eru á baugi í fjölmiðlum, en hið mikla starfs, sem unnið er í fjölda stofnana af þúsundum manna fellur í skuggann. Þeir, sem harðast gagnrýna Sameinuðu þjóðirnar skyldu hafa þetta í huga. Sameinuðu þjóðirnar hafa náð áþreifanlegum árangri á þessum fimmtíu árum. Þau hafa greitt götu ríkja til sjálfstæðis, unnið að þróunar- og mannúðaraðstoð, skilgreint og löghelgað mannréttindi og verið í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn hungri og fátækt.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna, eins og Flóttamannastofnunin, Barnahjálpin, Þróunaráætlunin og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin gegna miklu hlutverki í þessu sambandi. Á vegum Alþjóðaheilbriðgismálastofnunarinnar hefur verið unnið bug á landlægum sjúkdómum, og enn er mikið verk að vinna í þeirri baráttu, t.d. gegn útbreiðslu eyðni. Sameinuðu þjóðirnar hafa sinnt menntunar- og menningarmálum og vakið meðvitund um alþjóðleg menningarverðmæti. Þær hafa ennfremur orðið vettvangur alþjóðlegrar umfjöllunar um orkumál, eins og friðsamlega nýtingu kjarnorku á vegum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, og framkvæmd sáttmálans gegn útbreiðslu kjarnavopna.

Sameinuðu þjóðirnar hafa á markvissan hátt reynt að fá hið alþjóðlega samfélag til að takast á við mörg vandamál, sem við þurfum að fást við. Framkvæmdastjóri þeirra hefur gefið út starfsskrá um frið og starfsskrá um þróun, þar sem bent er á þetta verði að haldast í hendur, til að árangur náist. Haldnar hafa verið alþjóðlegar ráðstefnur í þessu skyni, nú síðast kvennaráðstefnan í Peking.

Það er undir okkur sjálfum komið, hvort við látum tækifærin ganga okkur úr greipum. Ekki má sitja við orðin tóm í réttindabaráttu kvenna, og hef ég boðað til norrænnar ráðstefnu hér á landi um það, hvernig vinna megi að framkvæmdaáætluninni, sem samþykkt var í Peking.

ÁHERSLUR ÍSLENDINGA
Okkur Íslendingum er það lífsnauðsynlegt að taka þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna og leggja fram okkar skerf til að stuðla að sjálfbærri þróun og skynsamlegri nýtingu auðlinda. Gerð hafréttarsamningsins hefði verið óhugsandi á öðrum vettvangi en á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Frekara alþjóðlegt samstarf um skynsamlega nýtingu auðlinda hafsins, eins og til dæmis úthafsveiðar, verður aðeins byggt á hafréttarsamningnum.

Hér á landi hefur Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna starfað við góðan árangur um árabil og vonir standa til að hægt verði að koma á fót Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Nauðsyn ber til þess að athuga vel, hvernig við Íslendingar getum aukið starf okkar innan stofnana Sameinuðu þjóðanna, til dæmis á sviði þróunarmála, sérstaklega á sviði sjávarútvegs, jarðhita og tækniþekkingar. Ég tel að fjárfesting í slíku starfi geti skilað sér aftur í viðskiptasamvinnu milli Íslands og viðkomandi ríkja.

NIÐURLAG
Allt frá því Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum hafa samtökin verið Íslendingum vettvangur til að leggja sitt af mörkum til velferðarmála mannkyns.

Ólafur heitinn Jóhannesson utanríkisráðherra átti sæti, þá ungur lögfræðingur, í fyrstu sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum 1946. Þremur árum síðar ritaði hann grein um samtökin í Almanak Þjóðvinafélagsins og á margt þar enn við. Ólafur ritar, að starfseminni sé "...í ýmsu áfátt og árangurinn í ýmsum efnum minni en menn höfðu gert sér vonir um. En Róm var ekki byggð á einum degi. Menn verða að hafa það hugfast, að það hlýtur að taka langan tíma að skapa þjóðabandalag, sem hafi þau völd og þann styrk, að það geti haldið uppi friði og réttlæti í heiminum. Slík samtök hljóta að verða lengi í deiglunni".

Góðir áheyrendur,

Við getum tekið undir þetta. Sameinuðu þjóðirnar eru enn í deiglunni. Ef við viljum vera gjaldgeng í samfélagi þjóðanna, verðum við að taka þátt í mótun þeirra og starfi sem aðrar þjóðir. Það er okkar siðferðislega skylda.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta