Ræða ráðherra um utanríkismál á Alþingi
23. apríl 1996
Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra,
um utanríkismál á Alþingi
Efnisyfirlit
1. Norðurlönd og grannsvæði
2. Ísland og Evrópusamstarf
3. EES og þróun innan ESB
4. Pólitískt samstarf innan EES
5. Schengen
6. Stækkun ESB
7. Sameiginleg utanríkis- og öryggismálastefna ESB
8. Vestur-Evrópusambandið
9. Atlantshafsbandalagið og öryggismál í Evrópu
10. Friðarsamstarfið og stækkun NATO
11. Öryggis og samvinnustofnun Evrópu
12. Evrópuráðið
13. Rússland
14. Friðarstarf og uppbygging í Bosníu
15. Varnarsamstarfið og samskiptin við Bandaríkin
16. Atlantshafsfrumkvæði Bandaríkjanna og ESB
17. Alþjóðaviðskiptastofnunin - WTO
18. Efnahags- og framfarastofnunin - OECD
19. Útflutningsviðskiptamál
20. Útflutningshvetjandi aðgerðir
21. Fjárfestingar Íslendinga erlendis
22. Hafréttarmál
23. Viðræður um fiskveiðimál
24. Ísland í Sameinuðu þjóðunum
25. Umhverfis- og orkumál
26. Umbætur á starfi Sameinuðu þjóðanna
27. Þróunarmál
28. Mannréttindamál
29. Afvopnunarmál
30. Menningar- og upplýsingastarf
Herra Forseti,
Einföld heimsmynd kalda stríðsins hefur vikið fyrir nýrri og mun flóknari. Við þessar gerbreyttu aðstæður verður utanríkisstefnan að vera altæk, en í því felst að ekki verður skilið milli efnahagsmála, velferðarmála, umhverfismála og öryggismála, svo dæmi sé tekið. Utanríkismál verða því ekki aðskilin frá innanríkismálum og eru orðinn einn mikilvægasti þáttur þess að ná fram heildarmarkmiðum okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.
Velgengni íslendinga er nú sem aldrei fyrr háð hræringum í alþjóðlegu umhverfi. Á flestum sviðum þjóðfélagsins eru alþjóðleg samskipti orðinn veigamikill þáttur og því nauðsynlegt að ríkisvaldið gangi vasklega fram með góðu fordæmi. Það er ekki einungis nauðsynlegt heldur beinlínis æskilegt að reka öfluga og ábyrga utanríkisstefnu sem hefur hagsæld og öryggi íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi en jafnframt leggur sitt af mörkum til umbóta og uppbyggingar um víða veröld. Þannig má afla nýrra tækifæra, breikka sjóndeildarhringinn og auka hróður Íslands og Íslendinga um víða veröld.
Þjóðir Evrópu og Norður-Ameríku eru bundnar nánum böndum og hagsmunir þeirra því nátengdir. Þessi nánu tengsl hafa þó ekki komið í veg fyrir deilur og jafnvel átök. Varanleg samskipti þessara vinaþjóða hafa þó ekki skaðast, enda byggja þær allar á sameiginlegum menningararfi. Ríki okkar heimshluta eiga með sér margvíslegt og náið samstarf bæði tvíhliða og innan fjölþjóða samtaka. Þar eiga sér nú stað mikla breytingar. Mikil þróun er á þessum vettvangi og tekur Ísland þar virkan þátt enda varða nýjar aðstæður og þróun hag okkar með beinum hætti.
1. Norðurlönd og grannsvæði
Öllum sem þekkja til norræna samstarfsins má vera ljóst, að ekki er ástæða til að vera uggandi um framtíð þess þrátt fyrir aðild þriggja Norðurlanda að Evrópusambandinu. Nýjar aðstæður hafa aftur á móti knúið okkur til að aðlaga það nýjum veruleika. Samstarf, sem ekki getur tekið breytingum, er ekki mikils virði. Það var kominn tími til að endurmeta starfsemi ýmissa norrænna stofnana sem starfað hafa nær óbreyttar frá upphafi.
Norðurlandasamstarfið hefur áður verið endurskoðað eins og flestum er kunnugt um. Utanríkismál eru nú meira áberandi en áður var og eru viðbót við hefðbundið starf Norðurlandaráðs sem heldur áfram af fullum krafti. Norðurlandaráð hefur í meira mæli en áður látið samskipti við nágrannaríki til sín taka. Þetta starf ber að virkja betur í okkar þágu. Það er eðlilegt að samskiptin við Evrópusambandið séu nú þungamiðja í utanríkismálasamvinnu Norðurlandanna.
Ýmis vandamál í næsta nágrenni okkar eru þess eðlis, að þau verða ekki leyst nema með samvinnu margra þjóða. Samstarf Norðurlandanna á grann-svæðum er því orðið afar mikilvægt, einkum hvað varðar að stuðla að stöðugleika og framþróun okkar nágrannaþjóða, ekki síst Eystrasaltsríkjanna. Á vettvangi Eystrasaltsráðsins er unnið að umbótum á viðskiptaumhverfi í hinum nýfrjálsu ríkjum ráðsins og stuðningi við uppbyggingu lýðræðislegra stofnana og mannréttindi. Sérstakur mannréttindafulltrúi ráðsins, sem borgarar í þessum ríkjum geta leitað til, heimsótti Ísland fyrir skömmu og hafði tækifæri til að ræða við ýmsa aðila hér á landi. Í athugun er hvernig Íslendingar geta lagt sitt af mörkum til uppbyggingar réttarríkis og lýðræðis í þessum löndum.
Síðustu árin hafa augu manna í stórauknum mæli beinst að norðurslóðum. Á norðurhjara er að finna stærstu svæði jarðar sem enn eru lítt snortin af mannavöldum. Þar eru miklar auðlindir sem eru nýtanlegar samkvæmt lögmálum sjálfbærrar þróunar. Íslendingar hafa löngum verið stoltir af ómengaðri náttúru, fersku lofti og hreinum sjó umhverfis landið en nú er svo komið að ekki er á vísan að róa í þeim efnum. Lítt sjáanleg og langvarandi mengun getur stórskaðað fiskistofna í hafinu til frambúðar. Í Norðurlandaráði, Barentsráði, samvinnunni um stofnun Norðurskautsráðsins og Eystrasaltsráðinu er því sérstök áhersla lögð á umhverfisvernd andrúmslofts og sjávar. Ríki umhverfis Norðurskautið, þar á meðal Rússland og Bandaríkin, taka nú fullan þátt í undirbúningi að stofnun Norðurskautsráðsins.
2. Ísland og Evrópusamstarf
Þegar Íslendingar vega og meta samrunaþróunina í Evrópu og framvindu mála á nýhafinni ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins verða þeir að meta stöðu sína af raunsæi og án fordóma. Þjóðríkið og hagsmunir þess hljóta að vera forsenda fyrir starfi Íslands í alþjóðlegu samhengi. Vandséð er hvernig hægt er að varðveita þjóðareinkenni og gæta hagsmuna landsins ef þjóðríkið er ekki grunneiningin í alþjóðastarfi. Yfirþjóðlegt vald getur verið óhjákvæmilegt á vissum sviðum en aðalreglan hlýtur að vera sú að alþjóðleg vandamál séu leyst í samstarfi þjóðríkja á vettvangi alþjóðlegra stofnana eða í viðræðum viðkomandi þjóða. Þróunin í Evrópu á undanförnum árum sýnir áþreifanlega að þjóðríkið heyrir ekki sögunni til. Þetta er og verður grundvallarsjónarmið íslensku þjóðarinnar.
Íslendingar hafa tryggt helstu viðskiptahagsmuni sína í Evrópu með því að gerast aðilar að innri markaði Evrópusambandsins með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og fríverslunarsamningum á vegum EFTA við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Við þá bætast samningar við Ísrael og Tyrkland. Á vettvangi EFTA er einnig í undirbúningi að semja um fríverslun við Möltu og Kýpur.
Tengsl Íslands við Evrópusambandið hafa verið í örri þróun á síðustu árum og í samræmi við aukin samskipti innan þess. Eftir að Norðurlandaþjóðirnar tvær höfðu vistaskipti eru flestar mikilvægustu bandalags-, viðskipta- og frændþjóðir okkar nú innan sambandsins. Samskiptin við það hafa því aldrei verið nánari. Okkur Íslendingum hefur tekist að bregðast við framvindunni í Evrópu með þeim hætti að hagsmunir okkar eru tryggðir. En þróunin heldur áfram, og það kallar á að við skoðum stöðu okkar í Evrópu af opnum huga og raunsæi í ljósi breytinga hverju sinni. Grundvallarstefnan er að tryggja langtíma öryggis- og viðskiptahagsmuni þjóðarinnar.
3. EES og þróun innan ESB
Við aðild Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar að ESB hefur EES-samningurinn ekki sama pólitíska aðdráttarafl fyrir ESB-ríkin og áður. Því er mikilvægara en nokkru sinni að halda samningnum stöðugt á lofti gagnvart ráðamönnum í höfuðborgum ESB-ríkjanna og við framkvæmdastjórn ESB í Brussel. Einkum er þetta mikilvægt gagnvart því ríki sem fer með formennskuna í ESB hverju sinni. Í þessu skyni hef ég átt fundi með utanríkisráðherra Ítalíu í nóvember síðastliðnum, með helstu ráðamönnum framkvæmdastjórnar ESB í janúar og með utanríkisráðherra Írlands í síðasta mánuði.
Íslendingar hljóta að fylgjast vel með þróun mála innan ESB. Þetta á ekki síst við um sjávarútvegsstefnu sambandsins. Það kemur eflaust ekki á óvart, að ég hefi orðið var við nokkra vanþekkingu á sérstöðu Íslands í sjávarútvegsmálum hjá þeim ráðamönnum frá ESB-aðildarríkjum og framkvæmdastjórn, sem ég hef rætt við.
Aðild að ESB hefur ekki verið útilokuð af hálfu Íslands, en að henni getur aldrei orðið án þess að mikilvægustu hagsmunir okkar séu tryggðir, ekki síst á sviði sjávarútvegsmála. Engar vísbendingar hafa komið fram um að ásættanleg lausn sé hugsanleg og meðan svo er eru aðildarviðræður tilgangslausar. Afstaða ríkisstjórnarinnar er því óbreytt. Haldið verður áfram að fylgjast með framvindu mála og afla sjónarmiðum Íslands skilnings. Umsókn um aðild er því ekki á dagskrá og áfram unnið að því að tryggja betur samstarf við ESB á grundvelli samningsins um evrópskt efnahagssvæði.
Ljóst er að Evrópusambandið leitast nú við að styrkja innviði sína vegna hugsanlegrar stækkunar. Aðildarríki velta því nú fyrir sér hversu langt eigi að ganga í að deila fullveldi á öðrum sviðum en í efnahags- og viðskiptamálum. Á ríkjaráðstefnunni verður tekist á um mikilvægar spurningar, eins og neitunarvald, atkvæðavægi, setu í framkvæmdastjórn, hlutverk þjóðþinga, stöðu Evrópuþingsins og fyrirkomulag formennsku, en jafnframt leitast við að gera starf sambandsins skiljanlegra og opnara fyrir borgarana og taka á atvinnuleysi, félagsmálum, dóms- og lögreglumálum.
Myntsamruni Evrópusambandsins mun valda straumhvörfum í evrópskum efnahagsmálum. Að frumkvæði Íslands hefur nú verið ákveðið að Efnahagsnefnd EFTA ræði ýtarlega áhrif sameiginlegrar myntar á efnahags- og viðskiptaumhverfi EFTA-ríkjanna.
4. Pólitískt samstarf innan EES
Pólitíska samstarfið innan EES er nú farið að taka á sig mynd. Haldnir hafa verið samráðsfundir á ráðherra-, embættismanna-, og sérfræðingastigi og verður lögð áhersla á framhald og eflingu þessa samráðs. Ísland hefur jafnframt gerst aðili að yfirlýsingum og málflutningi ESB um utanríkispólitísk málefni á alþjóðavettvangi. Unnið er að því að skipuleggja fund forsætisráðherra EFTA ríkjanna með forsætisráðherra formennskuríkis ESB og forseta framkvæmdastjórnarinnar.
Ég hef lagt ríka áherslu á það sem formaður EFTA-ríkjanna í EES að efla pólitíska samráðið og að EFTA ríkjunum verði gert kleift að fylgjast vel með þróun ríkjaráðstefnunnar og gefinn kostur á að koma sjónarmiðum þar að. Þessar óskir hafa mætt skilningi og hefur framkvæmdastjórnin þegar haldið sérstakan upplýsingafund með fulltrúum EFTA ríkjanna og verða þeir eftirleiðis haldnir mánaðarlega á meðan ríkjaráðstefnan stendur yfir. Einnig er á dagskrá hjá núverandi formennskuríki ESB, Ítalíu, að halda sérstakan upplýsingafund með EFTA ríkjunum þann 11. júní næstkomandi. Ég mun jafnframt nota hvert tækifæri sem gefst til að ræða sjónarmið Íslands beint við starfsbræður mína í aðildarríkjunum.
5. Schengen
Á sama tíma og unnið er að því að efla pólitísk tengsl við ESB tekur Ísland þátt í ýmsu öðru mikilvægu samstarfi Evrópuríkja, til dæmis um löggæslu og landamæraeftirlit. Stefnt er að þátttöku allra Norðurlandanna í Schengen-samstarfinu um landamæraeftirlit, en það hefur þau meginmarkmið að afnema persónueftirlit á landamærum þeirra ríkja sem eru þátttakendur í samstarfinu og tryggja frjálsa för fólks innan þeirra. Á móti koma ákvæði í samningnum um hert eftirlit með komu fólks inn á ríkjasvæðið um svokölluð ytri landamæri. Gera þarf töluverðar breytingar á aðstöðu í flugstöð Leifs Eiríkssonar til að tryggja eðlilega farþegaflutninga um Keflavíkurflugvöll og áframhaldandi heimsóknir ferðamanna. Þátttaka í Schengen-samkomulaginu mun hafa grundvallarþýðingu fyrir stöðu okkar á meðal grannþjóða í Evrópu.
6. Stækkun ESB
Stækkun Evrópusambandsins er í rökréttu samhengi við sögulega þróun þess og verður það ferli hvorki stöðvað né því snúið við. Evrópusambandið býr sig nú undir hugsanlega inngöngu nýrra aðildarríkja í Suður-, Mið- og Austur-Evrópu. Stækkun ESB hlýtur að stuðla enn frekar að friði, velmegun, öryggi og stöðugleika í álfunni. Við hljótum að styðja þessa viðleitni, eftir því sem okkur er unnt, enda mun hún hafa áhrif á stöðu okkar í Evrópu framtíðarinnar. Mikilvægt er að Evrópusambandið gegni áfram leiðandi hlutverki í eflingu alþjóðlegrar fríverslunar.
7. Sameiginleg utanríkis- og öryggismálastefna ESB
Á ríkjaráðstefnu ESB munu aðildarríkin reyna að móta ítarlegar fyrirkomulag sameiginlegrar ákvarðanatöku um utanríkis- og öryggismálastefnuna (CFSP). Skoðanaágreiningur er töluverður en líklegt er þó að ríkjaráðstefnunni takist að styrkja núverandi samstarf. Til dæmis er ekki ólíklegt að tillögur um að koma á fót sameiginlegu starfsliði til að skipuleggja utanríkissamvinnu ESB nái fram að ganga og sama gildir um skipan sérstaks talsmanns ESB-ráðsins í utanríkismálum.
8. Vestur-Evrópusambandið
Hugmyndir eru uppi um fullan samruna Vestur-Evrópusambandsins við ESB og að fullt samstarf skapist innan ESB um öryggis-og varnarmál. Á ráðherrafundi VES í Madrid í desember lagði ég áherslu á þá stefnu okkar, að sambandið verði áfram sjálfstæð stofnun, þar sem við getum fylgst með og tekið þátt í mótun og þróun öryggismála Evrópu. Ekki er tímabært að hugleiða fulla aðild Íslands að sambandinu á meðan framtíðarstaða þess hefur ekki verið skilgreind.
Framkvæmdageta VES byggist á því að samkomulag náist við NATO um aðgang að sameiginlegu herstjórnarkerfi og öðrum búnaði bandalagsins. Eftir að Frakkar boðuðu aukna þátttöku í varnar- og hermálastarfi Atlantshafsbandalagsins virðast auknar líkur á samkomulagi um þennan aðgang. Vonir standa til að unnt verði að ganga frá samkomulagi á vorfundi utanríkisráðherra NATO í Berlín í júní næstkomandi.
9. Atlantshafsbandalagið og öryggismál í Evrópu
Sá þáttur utanríkismála sem breytist hvað örast eru öryggis- og varnarmálin. Ríki í okkar heimshluta hafa byggt upp stofnanir og samtök sem hafa þann tilgang að stuðla að varanlegum friði og stöðugleika um alla álfuna. Eitt meginverkefnið hefur verið að veita hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu verðugan sess innan þessara stofnana og stuðla þannig að lýðræðis- og efnahagsþróun þeirra. Ekki er þörf fyrir nýjar stofnanir, en nauðsyn ber til að styrkja og samhæfa starf þeirra sem fyrir eru, enda veita þær í fjölbreytileika sínum öllum ríkjum Evrópu tækifæri til að taka þátt í öryggissamvinnu í álfunni. Með slíku starfi verður hægt að bægja frá hættunni á að ágreiningur leiði til nýrrar skiptingar Evrópu.
Atlantshafsbandalagið mun gegna lykil-hlutverki í skipulagningu öryggismála í okkar heimshluta. Tengslin yfir Atlantshafið eru og verða óaðskiljanlegur hluti öryggis Evrópu, eins og hefur hvað best sýnt sig í Bosníu. Einnig hefur NATO á undanförnum árum tekist að endurskipuleggja starfsemi sína með góðum árangri. Frumkvæði eins og Norður-Atlantshafssamvinnuráðið (NACC) og Friðarsamstarfið (PfP) hafa sýnt og sannað mikilvægi sitt.
10. Friðarsamstarfið og stækkun NATO
Mikilvægt er að Friðarsamstarf Atlantshafsbandalagsins við ríki Mið- og Austur-Evrópu verði eflt á komandi árum. Eðlilegt er að Ísland taki virkan þátt í því starfi og leggi þar sitt af mörkum til öryggis í álfunni. Því hefur verið ákveðið að bjóða til æfingar hér á landi á næsta ári innan ramma Friðarsamstarfsins. Áhersla verður lögð á viðbúnað við náttúruhamförum, enda hafa Íslendingar reynslu á því sviði til að miðla öðrum þjóðum, en eiga líka margt ólært.
Þrátt fyrir mikilvægi Friðarsamstarfsins er ljóst að mörg ríki Mið- og Austur-Evrópu láta ekki þar við sitja og sækjast eftir fullri aðild að bandalaginu. Stækkun NATO verður að fara fram með markvissum en umfram allt vel ígrunduðum hætti. Hún má hvorki verða til þess að draga úr sameiginlegum varnarmætti bandalagsins né valda nýrri skiptingu Evrópu. Það verður að taka tillit til öryggishagsmuna margra ríkja, bæði þeirra sem geta gerst aðilar fljótlega og hinna sem þurfa lengri aðlögunartíma eða óska alls ekki eftir aðild. Markmið stækkunar, ásamt starfi Norður-Atlantshafssamvinnuráðsins, Friðarsamstarfsins og sérstaks samstarfs og samráðs bandalagsins við Rússland er umfram allt að efla öryggi í Evrópu en alls ekki að útiloka, ógna eða draga úr áhrifum einstakra ríkja.
11. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu
Við höfum á undanförnum árum litið til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem mikilvægs vettvangs til þess að móta grunn að framtíðar öryggissamstarfi í Evrópu. Reynslan hefur kennt okkur að þessi vinna er flóknari en hún virtist við fyrstu sýn. Nýlega er hafin umræða á vettvangi ÖSE um skilgreiningu nýs öryggislíkans fyrir næstu öld, en möguleiki á frekar þróun þess er fyrir hendi. Við skulum ekki vanmeta það starf sem þar fer nú fram eða þær skyldur sem á aðildarríkjum hvíla fyrir tilstilli samþykkta ÖSE.
12. Evrópuráðið
Evrópuráðið er einnig mikilvægur þáttur í eflingu öryggis innan Evrópu. Með aðild að ráðinu hafa nýfrjálsu ríkin undirgengist skyldur á sviði mannréttinda og lýðræðis. Evrópuráðinu ber skylda til að hafa eftirlit með framkvæmdinni og er því öflugt tæki lýðræðis og mannréttinda í Evrópu. Vissulega eru skiptar skoðanir um aðild ríkja eins og Rússlands að Evrópuráðinu en í pólitískum veruleika Evrópu í dag gildir engin útilokunaraðferð. Nýta verður tækifærin sem gefast til að stuðla að breytingum í gömlu kommúnistaríkjunum. Það er ekki hægt að sitja aðgerðarlaus hjá.
13. Rússland
Skilvirk og uppbyggileg þátttaka Rússlands er nauðsynleg fyrir frekara samstarf á sviði öryggismála. Á þessari stundu er erfitt að meta með vissu hver stefna Rússa er með tilliti til öryggismála í Evrópu. Þeir standa nú í harðri kosningabaráttu og hefur hún áhrif á afstöðu þeirra. Utanríkisstefna Rússlands er enn nokkuð ósveigjanleg eins og sést best á andstöðu við stækkun NATO og stefnu gagnvart grannsvæðum. Það er erfitt að meta hvert stefnir en Rússum má vera fyllilega ljóst að okkur og öðrum bandamönnum í vestri er full alvara með því að styðja uppbyggilega þátttöku þeirra á alþjóða vettvangi. Samstarf verður að byggja á gagnkvæmni og góðum vilja allra aðila.
14. Friðarstarf og uppbygging í Bosníu
Friðarstarfið í Bosníu er dæmi um hvernig þjóðir, sem áður voru andstæðingar, geta unnið saman. Þær leggjast á eitt við að reisa Bosníu úr rústum eftir ófriðinn og gera henni kleift að taka sæti sem eitt af sjálfstæðum ríkjum Evrópu. Svo umfangsmikil enduruppbygging hefur ekki átt sér stað síðan Evrópa var reist úr rústum síðari heimsstyrjaldar. Tekin hefur verið ákvörðun um það af Íslands hálfu að veita eitt hundrað og tíu milljónum króna til uppbyggingarinnar og er framlag Íslands fyllilega sambærilegt við framlög annarra þjóða.
Á síðustu mánuðum hefur komið enn skýrar í ljós að afl Atlantshafsbandalagsins hefur framar öðru tryggt hið viðkvæma friðarsamkomulag sem tókst á milli deiluaðila. Í Bosníu hafa Íslendingar í fyrsta sinn tekið þátt í friðaraðgerðum herliðs á vegum Atlantshafs-bandalagsins en íslenska hjúkrunarliðið þar telst nú til sveita bandalagsins. Þótt framlagið virðist ekki viðamikið hefur það vakið verðskuldaða athygli og vottar samstöðu þá sem er á meðal bandalagsþjóða og annarra ríkja sem mynda eftirlitssveitirnar (IFOR).
15. Varnarsamstarfið og samskiptin við Bandaríkin
Nýtt fimm ára samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framkvæmd bókunar við varnarsamninginn endurspeglar raunsætt mat beggja ríkja á aðstæðum, og aðlögun varnarstöðvarinnar í samræmi við það. Ástæða er til að lýsa sérstakri ánægju með lengri gildistíma samkomulagsins að þessu sinni sem tryggir stöðugleika og farsælt varnarsamstarf ríkjanna fram á næstu öld. Það er enn mikilvægara en ella á meðan breytingar í skipan öryggis- og varnarmála í Evrópu eru jafn örar og raun ber vitni.
Varnarviðbúnaður verður óbreyttur frá því sem ákveðið var í bókun þjóðanna frá 1994. Í því felst meðal annars að aldrei verða færri en fjórar orrustuþotur staðsettar á Íslandi. Staðfest er að rekstur þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins verður óbreyttur og mun hún veita sömu þjónustu og áður. Samkomulagið felur jafnframt í sér aðlögun fyrirkomulags verktöku fyrir varnarliðið að breyttum aðstæðum. Einkaréttur Íslenskra aðalverktaka og Keflavíkurverktaka á framkvæmdum fyrir varnarliðið verður afnuminn árið 2004.
Varnarsamningurinn við Bandaríkin og þátttaka Íslands í varnarsamstarfi vestrænna þjóða verður áfram grundvöllur öryggisstefnu landsins. Samstarfið við Bandaríkin veitir Íslandi að ýmsu leyti sérstöðu á meðal Evrópuþjóða og undirstrikar mikilvægi öryggistengslanna yfir Atlantshafið. Þegar litið er til framtíðar er mikilvægt að hafa í huga reynslu af samskiptum okkar við Bandaríkin á sviði öryggis- og varnarmála í hálfa öld. Óhætt er að fullyrða að þetta hefur verið farsælt samstarf sem hefur þjónað vel hagsmunum beggja ríkja og bandamanna okkar í Atlantshafsbandalaginu. Nýsamþykkt bókun kveður á um náið pólitískt samráð við Bandaríkin. Æskilegt er að þessi möguleiki verði vel nýttur til reglubundinna skoðanaskipta við öflugasta bandamann okkar.
16. Atlantshafsfrumkvæði Bandaríkjanna og ESB
Í desember síðastliðnum hittust embættismenn og ráðherrar Bandaríkjanna og ESB í Madríd og settu af stað svokallað Atlantshafsfrumkvæði. Markmið þessa frumkvæðis er að gæða nýju lífi samskiptin yfir Atlantshafið og koma á mjög víðtæku samstarfi Bandaríkjanna og Evrópusambandsríkjanna á sviði utanríkis- og efnahagsmála. Vilja þau vinna að nánari efnahagssamvinnu milli Evrópu og Ameríku til að efla heimsviðskipti og styrkja viðskiptakerfi heimsins undir Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Í frumkvæðinu felst einnig að efld verða tvíhliða samskipti milli Bandaríkjanna og ESB-ríkja til dæmis milli viðskipta-, vísinda- og menntamanna. Ef þetta samstarf heldur áfram með markvissum hætti er mjög nauðsynlegt fyrir Ísland að koma að því og mun ég leggja áherslu á, bæði við Bandaríkin og Evrópusambandið, að svo geti orðið.
Hér að framan hef ég gert grein fyrir stöðu mála varðandi ýmis bein hagsmunamál Íslendinga í Norðurálfu og Norður Ameríku sem eru okkur áþreifanleg vegna nálægðar, frændsemi eða stofnanalegra tengsla. Okkur ber samt nauðsyn til að horfast í augu við þá staðreynd að heimsmynd okkar hefur breyst. Vandamál, sem áður virtust fjarlæg og Íslandi lítt við komandi, hafa nú vaxandi áhrif á líf okkar og afkomu. Í því felast bæði nýjar hættur og nýir möguleikar. Jafnframt ber okkur siðferðisleg skylda til að sinna málum meðbræðra okkar í fjarlægum heimshlutum.
17. Alþjóðaviðskiptastofnunin - WTO
Fríverslun er nú að mestu með sjávarafurðir á helstu mörkuðum á Vesturlöndum, en ýmsar hindranir eru enn á vaxandi markaðssvæðum í Asíu. Þetta er mál sem þarf að taka upp í framtíðarviðræðum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Fyrsti ráðherrafundur hennar verður haldinn í Singapore í desember og verður þá unnið að starfsskrá stofnunarinnar fyrir næstu ár. Þótt nokkur þrýstingur sé uppi um aukið frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur og vefnaðarvöru er ekki talið líklegt að formleg viðræðulota um þau mál hefjist fyrr en í fyrsta lagi 1998.
Hátt í þrjátíu ríki bíða nú eftir inngöngu í Alþjóðaviðskiptastofnunina, þar á meðal Rússland og Kína. Nauðsynlegt er að flýta inngöngu þessara ríkja eftir því sem kostur er. Með Alþjóðaviðskiptastofnuninni styrktist staða þróunarríkja í alþjóðaviðskiptum en opnun markaða er haldbesta þróunarhjálpin. Þróunarlöndin hafa þó lýst áhyggjum sínum vegna framkominna hugmynda um tengingu vinnulöggjafar og samkeppnisreglna við markaðsaðgang og óttast að slíkt geti leitt til aukinna viðskiptahamla gagnvart afurðum þeirra.
Innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnarer farið að huga að framtíðarverkefnum og ber þar hæst tengsl viðskipta og umhverfis og gerð fjárfestingarsamnings. Innan Efnahags- framfarastofnunarinnar hefur Ísland tekið virkan þátt í starfi nefndar sem vinnur að gerð slíks samnings og má vænta að slíkur samningur muni auðvelda fjárfestingar milli landa og örva þannig heimsviðskipti.
18. Efnahags- og framfarastofnunin - OECD
Samstarf á sviði efnahags-, viðskipta- og ríkisfjármála er einna fyrirferðamest innan OECD en auk þess má nefna starfsemi á sviðum peninga-, iðnaðar-, fiski- og landbúnaðarmála. Úttektir á íslenskum landbúnaðar-, vísinda-, umhverfis-, heilbrigðis- og menntamálum hafa reynst mjög gagnlegar við ákvarðanatöku og stefnumótun hér innanlands. Af öðrum verkefnum sem Ísland hefur haft hag af má sérstaklega nefna samstarf stofnunarinnar við fjármálaráðuneytið sem nú stendur yfir um hagræðingu og endurskipulagningu í opinberri stjórnsýslu. Þátttaka Íslands í starfi OECD hefur farið vaxandi á undanförnum árum og taka flest ráðuneyti auk þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka Íslands nú beinan þátt í starfsemi stofnunarinnar.
19. Útflutningsviðskiptamál
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að sameina verði krafta opinberra aðila og stofnana sem á einn eða annan hátt koma að útflutningsmálum. Skref í þessa átt lofa góðu. Samstarf Utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs Íslands hefur verið eflt og er markmið þess samstarfs að virkja þau áhrif og tengsl sem ráðuneytið hefur víða um heim og tengja við þá þekkingu og sambönd sem Útflutningsráð hefur í íslensku viðskiptalífi. Aðlögun hins opinbera að breyttum áherslum í alþjóðaviðskiptum mun taka tíma þar sem þjálfa verður fólk og finna þau svið þar sem stjórnvöld og stofnanir geta orðið að sem mestu gagni.
Alþjóðavæðing fyrirtækja á Íslandi og aukin áhersla á sókn viðskiptalífsins í harða samkeppni alþjóðaviðskipta hefur æ meiri þýðingu í efnahagslífi þjóðarinnar. Það er aðdáunarvert hversu fljótt íslensk fyrirtæki hafa brugðist við breyttum aðstæðum, sérstaklega í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn hefur leitt þróunina í alþjóðavæðingu viðskiptalífsins og núverandi ríkisstjórn er staðráðin í að styðja þá þróun.
Brýnt er að sameina sem mest dreifða krafta okkar á hinu alþjóðlega viðskiptasviði. Þetta kallar á víðtækt samráð allra þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í útflutningi. Okkur Íslendingum hlýtur að vera það keppikefli að hafa heildstæða yfirsýn yfir þennan vettvang á einum stað.
Lögð verður á það áhersla að breytingar eigi sér stað innan utanríkisþjónustu Íslands sem tryggi þessa yfirsýn þannig að hún sé sem best í stakk búin til að koma íslensku viðskiptalífi að gagni á erlendum vettvangi.
20. Útflutningshvetjandi aðgerðir
Ef stjórnvöld og einkageirinn taka höndum saman má opna dyr sem annars væru lokaðar. Í Utanríkisráðuneytinu er unnið að útflutningshvetjandi aðgerðum í samvinnu við íslenskt atvinnulíf. Sem dæmi má nefna ferð viðskiptasendinefndar til Múrmansk undir forystu Utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs. Hátt í tuttugu fyrirtæki áttu fulltrúa í þessari sendinefnd sem sýndi rússneskum stjórnvöldum og fyrirtækjum þá möguleika sem íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi búa yfir. Þess sjást nú greinileg merki að viðskipti íslenskra og rússneskra fyrirtækja hafa tekið fjörkipp. Í desember síðastliðnum fór viðskiptasendinefnd undir forystu sömu aðila til Suður-Afríku og Namibíu og stóð sú för fyllilega undir væntingum.
Í byrjun apríl fór sendinefnd undir forystu Utanríkisráðuneytisins til Pakistans í kjölfar þess að kjörræðismaður Íslands þar óskaði eftir að kannaðir yrðu samstarfsmöguleikar í sjávarútvegi. Með í för voru fulltrúar Útflutningsráðs, Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og Samstarfsvettvangs sjávarútvegs og iðnaðar. Afrakstur þessarar ferðar verður kynntur íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á komandi vikum. Í ágúst næstkomandi er fyrirhuguð opinber heimsókn til Kóreu. Áformað er að með í þeirri ferð verði fyrirtæki í útflutningi, aðilar úr ferðamálageiranum, sérfræðingar í fjárfestingarkynningu og einnig fyrirtæki sem stunda innflutning frá Kóreu. Þetta gæti orðið viðamesta viðskiptaferð á vegum Utanríkisráðuneytisins til þessa.
21. Fjárfestingar Íslendinga erlendis
Ekki er hægt að fjalla um útflutningshvetjandi aðgerðir án þess að geta fjárfestinga Íslendinga erlendis. Heyrst hafa gagnrýnisraddir þess efnis að það sé ábyrgðarhluti að hvetja til fjárfestinga erlendis þegar fjárfesting hér á landi er ekki meiri en raun ber vitni. Þær fjárfestingar sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ráðist í erlendis hafa skilað þjóðarbúinu miklu. Íslenskt fyrirtæki starfrækt á erlendri grund með Íslendinga í helstu stjórnunarstöðum nýtir að sjálfsögðu íslenskt hugvit, tækni og þekkingu. Í lok síðasta árs var skipuð nefnd fulltrúa Utanríkisráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis auk Iðnþróunarsjóðs og Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til að kanna og gera tillögur um hvernig stjórnvöld geti stutt við bakið á fjárfestingum íslenskra fyrirtækja erlendis.
22. Hafréttarmál
Annasamt hefur verið á sviði hafréttarmála á síðustu misserum og margvíslegur árangur náðst. Fyrst ber að nefna gildistöku hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna í kjölfar breytingar á kafla samningsins um nýtingu málma á hafsbotni sem ágreiningur hafði staðið um. Úthafsveiðiráðstefnunni lauk í ágúst síðastliðnum með samþykkt bindandi alþjóðasamnings sem er vísir að samstarfi ríkja um verndun og stjórnun veiða úr fiskstofnum sem ganga í og úr lögsögu. Á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, var síðastliðið haust samþykktur bálkur um ábyrgar fiskveiðar. Starf Norður-Atlantshafssjávarspendýrastofnunarinnar, NAMMCO, hefur eflst og gæti það orðið Íslandi til framdráttar í hvalamálum.
Afstaða Íslands í hafréttarmálum grundvallast á þeirri staðreynd að Íslendingar eru mjög háðir fiskveiðum. Jafnframt er það eindregin skoðun íslenskra stjórnvalda að þeim ríkjum, sem mestra hagsmuna hafa að gæta af nýtingu sjávarauðlinda, sé best treystandi til að fara með verndun þeirra og stjórnun veiða.
23. Viðræður um fiskveiðimál
Eins og kunnugt er hafa íslensk stjórnvöld á undanförnum misserum átt viðræður við nágrannaríkin um stjórnun veiða úr einstökum fiskstofnum. Samkomulag náðist á fundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, á dögunum um skiptingu veiðiheimilda á þessu ári úr úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Heildarkvótinn verður 153.000 tonn og koma þar af 45.000 tonn í hlut Íslands sem er viðunandi. Árangur NEAFC-fundarins er mikilvægur og eykur tiltrú manna á úthafsveiðisamningnum og vonir um að ákvæði hans geti stuðlað að lausn deilna um veiðar á úthafinu. Vissulega skyggir það á að Rússar skuli hafa boðað mótmæli gegn niðurstöðu fundarins en þess er vænst að þeir stundi ábyrgar veiðar á úthafskarfa á þessu ári.
Framangreind niðurstaða hefur orðið mönnum hvatning til að halda áfram viðræðum um þorskveiðar í Barentshafi og um nýtingu norsk-íslenska síldarstofnsins og finna lausnir á þessum deilumálum.
Viðræður hafa átt sér stað milli strandríkjanna fjögurra, Íslands, Færeyja, Noregs og Rússlands auk Evrópusambandsins um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Allir aðilar gera sér grein fyrir nauðsyn þess að samkomulag náist og að heildaraflinn fari ekki mikið fram úr einni milljón tonna. Til þess að svo megi verða þurfa allir aðilar að slá af kröfum sínum. Íslensk stjórnvöld hafa lýst sig reiðubúin til þess ef aðrir gera slíkt hið sama.
Ég tel að finna megi í þeim reglum, sem nú gilda um samskipti þjóða í þessum málum sem öðrum, einn samnefnara, en þar á ég við regluna um sanngirni. Nú er það svo að sanngirni er afar teygjanlegt hugtak og aðilar að ágreiningsmálum leggja jafnan mismunandi mat á það hvað felist í sanngirni. Að mínu mati felst sanngirni í því að tekið sé tillit til raunverulegra heildarhagsmuna. Vil ég leyfa mér að halda því fram, hvað svo sem líður málflutningi og rökstuðningi í samningaviðræðum, að menn viti nokkurn veginn hvað felst í sanngjarnri lausn. Íslensk stjórnvöld hafa sanngirni að leiðarljósi á alþjóðavettvangi og ganga út frá því að aðrir sýni sömu afstöðu.
24. Ísland í Sameinuðu þjóðunum
Þátttaka í starfi Sameinuðu þjóðanna og stofnanna þeirra veitir Íslendingum tækifæri til að stuðla að friði og auknu réttlæti í heiminum og til að vinna að grundvallarhagsmunum Íslands, eins og hafréttarmálum og umhverfisvernd. Mikilvægt er að rödd Íslands heyrist á þeim vettvangi. Nú er ljóst að svigrúm Norðurlandanna til sameiginlegs málflutnings er minna en áður vegna aðildar þriggja Norðurlanda að ESB. Það væru aftur á móti rangt að halda því fram að norrænt samstarf hjá Sameinuðu þjóðunum og á alþjóðavettvangi væri komið í óefni þótt fastafulltrúar ríkjanna haldi færri sameiginlegar ræður en áður. Norrænt samstarf er annað og meira en sameiginlegar ræður og heldur áfram á breiðum grunni.
Í starfi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum skiptir mestu máli að íslensk stjórnvöld setji sér markmið í þeim málaflokkum þar sem Ísland hefur hagsmuna að gæta og fylgi þeim vel eftir. Þetta hefur verið gert í umhverfismálum með setu Íslands í umhverfisnefndinni og baráttu okkar gegn mengun í hafinu. Hér má líka nefna hafréttarmál og framboð Íslands til sætis í alþjóða hafréttardómstólnum. Loks má nefna jarðhita- og orkumál með starfsemi Jarðhitaskólans, og síðast en ekki síst sjávarútvegsmál, en margt bendir til að Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna geti hafið störf hér á landi á næsta ári. Í þessu sambandi er rétt að minnast á framboð Íslands í hið áhrifamikla Efnahags- og félagsmálaráð samtakanna (ECOSOC).
Nú er að hefjast undirbúningur fyrir starf Íslands á næsta allsherjarþingi. Með það í huga hefur verið komið á formlegu samstarfi Utanríkisráðuneytisins við önnur ráðuneyti um þau mál sem þar verða rædd með stofnun sérstaks hóps tengiliða um málefni Sameinuðu þjóðanna innan stjórnkerfisins. Nauðsynlegt er, að Ísland bregðist við breyttum aðstæðum á allsherjarþinginu með auknum málflutningi í eigin nafni. Ég vænti þess að íslenska stjórnkerfið látið þessi mál til sín taka af þunga og alvöru og leggist á eitt með Utanríkisráðuneytinu að vinna að framgangi hagsmunamála okkar innan Sameinuðu þjóðanna.
Í undirbúningi er þátttaka okkar á annarri byggðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Istanbúl en í tengslum við hana verður gefin út skýrsla til ráðstefnunnar um stöðu byggðamála á Íslandi. Þá er einnig farið að undirbúa þátttöku á leiðtogafundi í Róm í nóvember á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um fæðuöryggi, en á þeim vettvangi verður að beina athyglinni að mikilvægi lífrænna auðlinda sjávar í fæðuöflun mannkyns í framtíðinni.
25. Umhverfis- og orkumál
Með samningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skuldbinda aðildarríki sig til að draga úr útblæstri ýmissa lofttegunda og hefur ríkisstjórnin nýlega skilað inn skýrslu sinni til Sameinuðu þjóðanna vegna þessa. Meðal þeirra aðgerða sem aðrar þjóðir hyggjast grípa til er sérstakur skattur á eldsneyti. Sú þróun á eftir að auka eftirspurn eftir endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli og jarðhita og bæta samkeppnisstöðu Íslands í framtíðinni.
Við hæfi er að Ísland láti til sína taka í orkumálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur vel til greina að sækjast eftir sæti í nefnd Efnahags- og félagsmálaráðsins um nýja og endurnýjanlega orkugjafa, enda gæti þátttaka þar haft mikla þýðingu í tengslum við hugmyndir um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um þessi mál árið 2001.
26. Umbætur á starfi Sameinuðu þjóðanna
Mikið umbótastarf fer nú fram innan Sameinuðu þjóðanna til að gera samtökin hæfari til að takast á við þau umfangsmiklu verkefni sem þeim er ætlað að fást við. Í samstarfi með öðrum Norðurlöndum hefur Ísland sett fram hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi öryggisráðsins sem miða að því að gera það virkara. Nauðsyn ber einnig til að finna lausn á alvarlegum fjárhagsvanda samtakanna. Nokkur ríki á Vesturlöndum hafa hvatt til róttækra umbóta á vettvangi samtakanna og jafnvel haldið uppi harðri gagnrýni á störf þeirra. Enginn þarf að efast um stuðning Íslands við Sameinuðu þjóðirnar en Ísland hlýtur að styðja aðhald eftir megni, enda er markmið okkar að gera samtökin skilvirk og öflug. Jafnframt er nauðsynlegt að árétta að það er óásættanlegt að aðildarríki standi ekki í skilum með framlög sín.
27. Þróunarmál
Tengslin á milli þróunar og friðar eru nú flestum ljós og er eitt af höfuðverkefnum Sameinuðu þjóðanna í sambandi við starfsáætlanir þeirra um frið og þróun. Mörg mistök hafa verið gerð í sambandi við þróunaraðstoð. Óskilyrt aðstoð við sum ríki þriðja heimsins hafði oft lítil varanleg áhrif og var misnotuð, auk þess sem kalda stríðið var háð á þessum vettvangi sem öðrum. Vesturlönd, þ.m.t. Ísland, verða að setja sér meginreglur í sambandi við þróunaraðstoð. Fyrst og fremst verður hún að stuðla að varanlegri uppbyggingu og hjálpa þeim sem hana hljóta að standa á eigin fótum.
Á ófriðarsvæðum heimsins, þar sem samfélagsbyggingin hefur hrunið vegna átaka, hefur efnahagsuppbygging verið ein helsta forsenda þess að koma á friði. Nauðsynlegt hefur verið að veita fé til uppbyggingar á þessum svæðum. Ísland hefur lagt sitt af mörkum í þessum efnum og haft samstarf við Norðurlöndin um uppbyggingu á svæðum Palestínu-Araba.
Þróunarsamvinnustofnun Íslands stendur fyrir verkefnum í Namibíu, Mósambík, Malaví og á Grænhöfðaeyjum. Hún einbeitir sér annars vegar að rannsóknum á fiskstofnum þróunarlandanna og lífríki hafsins og hins vegar að fræðslu og menntunarmálum í sjávarútvegi.
28. Mannréttindamál
Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir í upphafsorðum: "Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum".
Mannréttindi eru því algild og mannréttindabrot ekki einkamál þeirra ríkja þar sem þau viðgangast. Okkur ber því skylda til að berjast fyrir mannréttindum og veita öðrum þjóðum aðhald í þeim efnum. Þau verða ekki aðskilin frá öðrum þáttum í samskiptum ríkja. Við verðum því að taka tillit til mannréttindasjónarmiða í samskiptum okkar við önnur ríki.
29. Afvopnunarmál
Þátttaka vopnlausrar þjóðar í alþjóðlegu afvopnunarstarfi kann að hljóma ankannaleg en staðreyndin er hins vegar sú að ekki er hægt að skorast undan þegar öryggi alls heimsins er til umræðu. Ísland fékk nú í ár áheyrnaraðild að Afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þar er nú unnið að gerð samnings um bann við tilraunakjarnasprengingum. Eftir að Frakkar hættu öllum tilraunasprengingum hafa líkur á árangri aukist. Vonandi munu aðrar þjóðir fylgja því fordæmi.
Á sínum tíma undirritaði Ísland samning um bann við efnavopnum en hann var afrakstur starfs Afvopnunarráðstefnunnar. Þingsályktunartillaga um fullgildingu hans verður lögð fram áður en langt um líður.
Ísland hefur stutt Alþjóða Rauða krossinn og Sameinuðu þjóðirnar í baráttunni fyrir því að jarðsprengjur, einn mesti ógnvaldur í daglegu lífi í mörgum þróunarríkjum, verði bannaðar. Innan Mannréttindaráðsins hefur verið reynt að styðja við bakið á þeim sem reyna með alþjóðasamningum að koma í veg fyrir að börn innan 18 ára aldurs taki þátt í vopnuðum átökum. Með aðild að alþjóðasamningum um afvopnun leggjum við Íslendingar okkar af mörkum í þessum mikilvæga málaflokki sem varðar velferð alls mannkyns.
Stórvirki síðustu ára á sviði afvopnunarsamninga, svo sem samningurinn um hefðbundinn vopn í Evrópu og stórveldasamningarnir um niðurskurð kjarnavopna, sýna að leið samninga er hin rétta. Einhliða aðgerðir og yfirlýsingar skipta þar litlu.
30. Menningar- og upplýsingastarf
Utanríkisstefna Íslendinga mótast ekki aðeins af áþreifanlegum markmiðum á sviði stjórnmála, öryggismála og viðskipta. Það er engin tilviljun að í lögum um utanríkisþjónustu Íslands segir að utanríkisþjónustan skuli einnig gæta hagsmuna Íslands að því er varðar menningarmál. Menning er svo tengd öðrum þáttum í samskiptum þjóða, að hún verður þar ekki frá skilin. Sjálfstæðri þjóð ber skylda til að hlúa vel að menningu sinni og kynna hana. Þannig ávinnur þjóð sér sess erlendis, styrkir ímynd sína, eflir tengsl við aðrar þjóðir og stuðlar að framgangi hagsmunamála sinna.
Sérhver diplómatískur fulltrúi Íslands erlendis hefur jafnframt verið menningarfulltrúi lands síns, þó starf þeirra hafi að mestu verið unnið í kyrrþey. Vinnuhópur, sem skipaður var í samvinnu við menntamálaráðuneytið til að gera úttekt á menningarkynningu erlendis, hefur nú lokið störfum og lagt fram tillögur um eflingu þess starfs. Í kjölfar þess er nú í athugun að stofna sérstaka menningar- og upplýsingaskrifstofu í utanríkisráðuneytinu, sem lúti stjórn reynds sendierindreka.
*
Herra Forseti,
Landfræðileg einangrun hindrar okkur ekki lengur frá öflugri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, hvort sem er á sviði viðskipta eða stjórnmála. Ákvarðanir á alþjóðavettvangi hafa bein áhrif á daglegt líf okkar í landinu og þess vegna ber okkur skylda til að taka af krafti og metnaði þátt í því alþjóðastarfi sem hefur áhrif á Ísland, stöðu þess og möguleika í framtíðarþróun samfélags þjóðanna.
Alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt til að tryggja tilveru okkar sem sjálfstæðrar þjóðar og til þess að ná fram markmiðum okkar, hvort sem er í okkar heimshluta eða um víða veröld. Utanríkisstefnan verður því ekki aðskilin frá annarri pólitískri umræðu í landinu þar sem áhrif hennar á stöðu einstaklinga og atvinnulífs eru nú meiri en nokkru sinni fyrr.