Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU), ræða á aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða
18. október 1996
EFNAHAGS- OG MYNTBANDALAG EVRÓPU (EMU)
Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra,
á aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða
I
Mér er það í senn ánægja og heiður að fá tækifæri til að ávarpa aðalfund Sambands íslenskra sparisjóða hér í dag.
Segja má að við lifum á sögulegum tímum breytinga í Evrópu í kjölfar endaloka Sovétríkjanna og stöðugt aukinnar samvinnu Evrópuríkja. Eitt af stærstu viðfangsefnum Evrópusambandsins um þessar mundir eru áformin um sameiginlegan gjaldmiðil og sameinaðan Seðlabanka Evrópu, sem ég hef kosið að gera að umtalsefni í ræðu minni.
Enda þótt Ísland sé ekki aðili að Evrópusambandinu og taki þar af leiðandi ekki beinan þátt í umræddri þróun, er ljóst að hún mun hafa veruleg áhrif á það umhverfi sem við hrærumst í á sviði efnahags- og peningamála. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að kynna okkur í tíma áformin um myntsamrunann í Evrópu og undirbúa okkur af kostgæfni undir þau áform.
II
Þegar áætlun Evrópusambandsins um hinn svokallaða innri markað, það er frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns, var samþykkt árið 1985, var það sjónarmið framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að innri markaðurinn virkaði ekki með eðlilegum hætti fyrr en komið yrði á sameiginlegum evrópskum gjaldmiðli. Ástæða þess var talin sú að síbreytileg skráning á gengi einstakra gjaldmiðla skapaði óvissu og áhættu fyrir viðskiptalífið, auk þess sem umtalsverður kostnaður væri því samfara að skipta úr einum gjaldmiðli í annan. Á árinu 1988 var ákveðið að setja á fót nefnd með þátttöku allra seðlabankastjóra Evrópusambandsins til að undirbúa stofnun evrópsks efnahags- og myntbandalags. Var formaður nefndarinnar Jacques Delors, þáverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Niðurstöður þessarar nefndar voru þær að unnið skyldi að því að stofna Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Með Maastricht-samkomulaginu árið 1992 skuldbundu aðildarríki Evrópusambandsins sig síðan til að vinna að evrópsku efnahags- og myntbandalagi.III
Áætlunin um stofnun Efnahags- og myntbandalags Evrópu er í þremur áföngum. Fyrsti áfangi hófst þann 1. júlí 1990 og stóð yfir til loka árs 1993. Í þessum áfanga átti að gera allar fjármagnshreyfingar frjálsar, sjálfstæði seðlabanka aukið, banna átti yfirdrátt ríkissjóðs í seðlabönkum og loks skyldi við það miðað að sveiflumörk í skráningu einstakra gjaldmiðla væri innan við 2,25%. Voru þessi mörk reyndar hækkuð í 15% í kjölfar þess óróa sem vart var við á gjaldeyrismörkuðum í ágústmánuði 1993.Annar áfangi að stofnun Efnahags- og myntbandalags Evrópu hófst í ársbyrjun 1994 og stendur enn. Það ár var Peningastofnun Evrópu stofnuð, en henni er ætlað það hlutverk að auka samvinnu seðlabanka og stuðla að samhæfingu þeirra í stjórnun peningamála. Þá er Peningastofnun Evrópu ætlað að vinna að undirbúningi fyrir þriðja áfanga myntbandalagsins.
Þriðji og síðasti áfanginn að stofnun Efnahags- og myntbandalags Evrópu hefst síðan þann 1. janúar 1999 og þarf því að liggja fyrir á árinu 1998 hvaða ríki gerast aðilar að myntbandalaginu. Í þessum áfanga verður Seðlabanki Evrópu stofnaður, sameiginlegri peningastefnu verður komið á og þremur árum síðar, það er 1. janúar 2002, hefst útgáfa seðla og myntar, en sem kunnugt er hefur verið ákveðið að gjaldmiðillinn nefnist evró.
IV
Þau ríki sem gerast aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu þurfa að uppfylla fimm megin skilyrði. Þau eru:- Halli á ríkissjóði sé minni en 3% af landsframleiðslu
- Heildarskuldir hins opinbera séu lægri en 60% af landsframleiðslu
-Verðbólga sé ekki hærri en verðbóga í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst að viðbættum 1,5%
- Langtímavextir séu ekki hærri en í þeim löndum þar sem verðlag er stöðugast að viðbættum 2%, og
- Gengi gjaldmiðla haldist innan opinberra sveiflumarka, sem nú er 15%, í að minnsta kosti tvö ár.
Þau lönd sem uppfylla öll ofangreind skilyrði geta tekið þátt í myntsamrunanum þegar að honum kemur. Það þýðir þó ekki að þau lönd sem uppfylli ekki öll skilyrðin verði útilokuð frá þátttöku. Þannig er gert ráð fyrir að hægt sé að koma við vissu mati, sérstaklega hvað varðar stöðu ríkisfjármála. Meðal annars verður litið til þess hvort land sem uppfyllir ekki skilyrðin hafi bætt stöðu sína og sé líklegt til að uppfylla þau síðar. Þá er gerður greinarmunur á því hvort halli hins opinbera stafi af mikilli fjárfestingu, sem hugsanlega sé tímabundinn og skili arði síðar, eða hvort um sé að ræða halla sem tengist rekstrarútgjöldum. Skilyrðin varðandi verðbólgu og vexti eru hins vegar strangari.
Af núverandi aðildarríkjum Evrópusambandsins uppfylla einungis þrjú þeirra öll skilyrðin fimm, það er Danmörk, Írland og Lúxemborg. Það er til marks um árangursríka efnahagsstjórn hér á landi undanfarin misseri að Ísland uppfyllir einnig öll þessi skilyrði. Tvö aðildarríki Evrópusambandsins, Bretland og Danmörk hafa ákveðið að taka ekki þátt í myntsamrunanum og verða því að öllu óbreyttu ekki aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.
V
Ég mun nú í nokkrum orðum víkja að helstu kostum og göllum þess að koma á sameiginlegri mynt innan Evrópusambandsins. Í þessu sambandi ber fyrst að nefna að áformin um sameiginlega mynt, og þar af leiðandi einn Seðlabanka Evrópu, eru nátengd sameiginlegri stefnu Evrópusambandsins í efnahags- og peningamálum, sem jafnframt var samþykkt með Maastricht-samkomulaginu. Tilgangur þessarar samvinnu eru ekki síst sá að bæta samkeppnisstöðu Evrópu gangvart Bandaríkjunum og Japan með því að sameiginlegur gjaldmiðill Evrópusambandsins geti keppt við bandaríkjadal og japanskt yen á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Af einstökum þáttum myntsamrunans sem aðildarríkin telja jákvæð, má nefna að tilkoma sameiginlegrar myntar dregur úr þeim kostnaði sem er því samfara að skipta úr einum gjaldmiðli í annan. Þá er talið að myntsamruninn styðji við þróunina að innri markaði Evrópusambandsins og fjármagnsmarkaðurinn í heild eflist og stækki. Áhöld eru hins vegar um hvort myntsamruninn leiði til vaxtalækkunar eða ekki. Þó telja ýmsir sérfræðingar líklegt að í þeim löndum sem þátt taka í myntsamrunanum lækki vextir eitthvað þar sem þeir eru mjög háir fyrir. Þá hefur verið nefnt að sameiginlegur gjaldmiðill kunni að leiða til aukinnar fjárfestingar og hafa örvandi áhrif á vinnumarkaðinn. Þetta er rökstutt með því að með stöðugu verðlagi skapist aðstæður fyrir meiri atvinnu og betri lífskjörum á sama tíma og vöxtum sé haldið í skefjum.
Af þeim ókostum sem nefndir hafa verið varðandi myntsamrunann má nefna að þau ríki sem taka þátt í þessum samruna verði svipt sjálfstjórn í peningamálum og geti ekki beitt gengisbreytingum sem lið í hagstjórn í jafn ríku mæli og áður. Þá hefur verið nefnt að þeir aðilar sem hingað til hafa haft tekjur af því að stunda gjaldeyrisviðskipti verði af nokkrum tekjum.
VI
Erfitt er að segja til um hver áhrif myntsamrunans verði hér á landi, og fer það raunar eftir því hvaða kjör bjóðast þeim löndum Evrópusambandsins og EFTA sem standa utan við samrunann. Að frumkvæði Íslands var ákveðið fyrr á þessu ári að efnahagsnefnd EFTA kanni ítarlega áhrif sameiginlegrar myntar á efnahags- og viðskiptaumhverfi EFTA-ríkjanna. Þó erfitt sé að ráða í framtíðina er talið líklegt að áhrifin hér á landi gætu að sumu leyti verið jákvæð. Minni kostnaður fyrir viðskiptalífið og aukin umsvif í Evrópu gætu þannig haft jákvæð áhrif á efnahagslíf hér á landi. Hins vegar gæti myntsamruninn aukið óstöðugleika í gengismálum í þeim löndum sem standa utan við myntsamrunann. Í hvaða mæli þetta myndi gerast er óljóst, en hér er þó um getgátur að ræða.
Áformin um sameiginlega mynt eru ekki hluti EES-samningsins, en þó má ætla að myntsamruninn komi til með að hafa áhrif á evrópska efnahagssvæðið. Ekki er ljóst hvort eða á hvern hátt EFTA-ríkjunum býðst að tengjast þessari myntþróun, en ef slík ákvörðun verður tekin verður það væntanlega að gerast með sérstökum tvíhliða samningum eða með breytingu á EES-samningnum.
VII
Það er ljóst að áformin um sameiginlegan gjaldmiðil Evrópusambandsins er eitt af þýðingarmestu málum í Evrópu um þessar mundir. Sumir ganga reyndar svo langt að segja að sameiginlegur gjaldmiðill sé einhver mesta bylting í samstarfi Evrópuríkjanna frá því Evrópubandalagið var stofnað.
Við Íslendingar getum ekki horft framhjá þessum þætti í samstarfi Evrópuríkja, enda þótt við tökum ekki beinan þátt í atburðarásinni. Það er að mínu mati brýnt að við höldum áfram að fylgjast grannt með framvindu þessa máls í Evrópu og ekki síður huga að þeim kostum sem lönd utan myntsamrunans standa frammi fyrir. Jafnframt er nauðsynlegt að við varðveitum áfram þann stöðugleika sem hér ríkir í efnahags- og peningamálum og að við búum okkur þannig undir áhrifin sem leiða af stofnun Efnahags- og myntbandalags Evrópu. Það er of snemmt að setja fram áætlun um viðbrögð Íslendinga vegna þeirrar framvindu sem nú er í gangi. Enn er óljóst með þátttöku ríkja en gera verður ráð fyrir að sameiginleg mynt verði að veruleika. Þróunin í Evrópu mun hafa mikil áhrif á okkar hag, hvaða skoðun sem menn hafa á tengslum okkar við Evrópusambandið.
Við verðum að vera á varðbergi í því skyni að geta tekið skjótar ákvarðanir sem við teljum þjóna best hagsmunum landsins í bráð og lengd.
Á því leikur ekki vafi að bankar og sparisjóðir landsins gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í þá veru að viðhalda þeim stöðugleika sem hér ríkir í efnahags- og peningamálum.
Fjármálastofnanir hafa því miklum skyldum að gegna og þeim ber að efna til umræðu um hagsmuni og viðbrögð okkar í þeirri þróun sem nú á sér stað.
Sparisjóðirnir eru vaxandi afl í fjármálalífi landsmanna og þeir munu í auknum mæli tengjast alþjóðlegu peningakerfi. Fjármagnið virðir ekki lengur landamæri og þarf enga vegabréfsáritun.
Við munum í vaxandi mæli tengjast fjármagnsmörkuðum umheimsins og þá ekki síst Evrópu. Sparisjóðirnir verða að taka þátt í þessari þróun eins og aðrir.
Það er við hæfi að fulltrúar stofnana sem störfuðu ekki síst í fámenninu gerist frumkvöðlar í alþjóðavæðingu fjármagnsmarkaðarins hér. Íslenskir sveitamenn hafa oft á tíðum verið á undan öðrum að skynja alþjóðlega strauma.
Ég vil að lokum hvetja ykkur til að vera í fararbroddi þeirrar umræðu sem framundan er og ég veit að þið leggið ykkar af mörkum í því að varða götur fjármagns og framfara sem leiða okkur inn í öldina sem bíður okkar handan við hornið.