Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. október 1996 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða ráðherra um utanríkismál á Alþingi

    31. október 1996


    Ræða utanríkisráðherra um utanríkismál á Alþingi

    EFNISYFIRLIT


    Norðurlönd og grannsvæði

    Evrópumál

    Framtíðarþróun ESB og ríkjaráðstefnan

    EES-samstarfið

    EFTA

    Pólitísk samskipti við ESB

    Schengen

    Evrópuráðið

    Öryggismál

    Stækkun NATO og samskiptin við Rússland

    Friðarsamstarf NATO og Norður-Atlantshafssamvinnuráðið

    Varnarsamstarfið við Bandaríkin

    ÖSE

    Afvopnunarmál

    Útflutningsviðskipti

    Alþjóðlegt efnahags- og viðskiptasamstarf

    Alþjóðaviðskiptastofnunin

    OECD

    Hafréttar- og auðlindamál

    Úthafsveiðar

    Viðræður um fiskveiðimál

    Nýting auðlinda hafsins

    Málefni S.þ.

    Þróunarmál

    Herra forseti,

    Fimmtíu ár eru liðin frá því að Ísland varð aðili að Sameinuðu þjóðunum. Á því leikur enginn vafi að aðildin markaði tímamót því að þar með hvarf þjóðin endanlega frá hlutleysisstefnu í alþjóðamálum og lagði grunninn að þeirri ákvörðun að ganga stuttu síðar til liðs við vestræn ríki í öryggis- og varnarmálum. Ávinningurinn fyrir okkur af því að taka þátt í fjölbreyttu alþjóðlegu samstarfi verður seint metinn til fulls.

    Á þessari hálfu öld hefur Ísland, Evrópa og í raun veröldin öll tekið stórstígum framförum. Ísland, sem á fyrri hluta þessarar aldar var í raun vanþróað einyrkjasamfélag, er orðið nútíma iðnaðar- og upplýsingasamfélag þar sem fara saman vel menntað og framsækið vinnuafl og öflug fyrirtæki á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar, hugbúnaðar og þjónustu. Opnun landsins fyrir jákvæðum áhrifum alþjóðlegar þróunar ásamt auknu samstarfi við önnur ríki, ekki síst nú allra síðustu ár, hefur hér gegnt lykilhlutverki.

    Á þessum síðasta áratug tuttugustu aldarinnar hefur hefðbundið alþjóðasamstarf, svo sem innan Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins og Norðurlandasamstarfsins, gengið í endurnýjun lífdaga með auknum krafti og víðtækara starfi. Nýtt alþjóðasamstarf á svæðisbundnum grunni hefur jafnframt aukist. Alþjóðlegt efnahags- og viðskiptasamstarf, svo að ekki sé talað um mikilvægi útflutningsviðskipta, hefur margfaldast. Staðreyndin er sú að þetta síaukna mikilvægi alþjóðlegs samstarfs kallar á eflingu utanríkisþjónustunnar þannig að hún megi áfram þjóna af krafti hagsmunum okkar á alþjóðavettvangi.

    Norðurlönd og grannsvæði

    Fjölbreytt samstarf við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum er sem fyrr grundvallarþáttur í íslenskum utanríkismálum. Utanríkismál, þar með talin öryggismál, vega æ þyngra í samstarfi Norðurlandanna, jafnframt því sem hið hefðbundna samstarf í innanríkis-, mennta-, menningar- og félagsmálum heldur áfram. Íslendingar hafa átt ríkan þátt í að laga samstarf Norðurlandanna að breyttum aðstæðum.

    Norðurlandasamstarfið er Íslendingum mikill styrkur á alþjóðavettvangi. Það er snar þáttur í pólitísku- og efnahagslegu samstarfi okkar við önnur Evrópuríki og skiptir höfuðmáli í samstarfinu á grannsvæðum Norðurlanda.

    Á síðustu árum hafa samskipti Norðurlandanna við grannþjóðir aukist til muna. Samstarfið í Eystrasaltsráðinu og Barentsráðinu er að verða fastmótaðra, og sögulegt skref var stigið hinn 19. september síðastliðinn, þegar Norðurlöndin, ásamt Rússlandi, Kanada og Bandaríkjunum, stofnuðu nýjan samstarfsvettvang, Norðurskautsráðið.

    Mikið er í húfi að vel takist til og Norðurskautsráðið verði heildarrammi samstarfs þjóða á norðurslóðum. Með tíð og tíma er æskilegt að ráðið hljóti varanlegt aðsetur og hafa íslensk stjórnvöld lýst sig reiðubúin að hýsa skrifstofur þess.

    Samstarfið í Eystrasaltsráðinu veitir vestrænu ríkjunum í ráðinu tækifæri til að stuðla að umbótum í nýfrjálsum ríkjum svæðisins. Vesturlöndum ber skylda til að aðstoða þessi ríki við að byggja upp lýðræði og réttarríki, þar með talin réttindi minnihluta, innleiða lögmál hins frjálsa markaðar og virðingu fyrir umhverfinu.

    Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að styðja stofnun skrifstofu umboðsmanns hins almenna borgara í Eistlandi, en Eistland og Rússland eru einu ríkin innan ráðsins, sem ekki hafa slíkan umboðsmann. Skrifstofur umboðsmanna vinna afar mikilvægt starf við að tryggja réttaröryggi íbúa í viðkomandi löndum. Einnig hafa Íslendingar tekið sæti í Efnahagssamvinnunefnd Eystrasalts-ráðsins, en nefndin lýtur nú forystu Evrópusambandsins.

    Í þeim tilgangi að efla og auðvelda samskipti Eystrasalts-ríkjanna við vestræn ríki hafa Norðurlöndin öll unnið að gagn-kvæmu afnámi vegabréfsáritunarskyldu við þessi ríki. Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja og vonast er til að gengið verði til viðræðna við Eystrasaltsríkin um framkvæmd þessa innan skamms.

    Evrópumál

    Aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar, en ljóst er að mikið er í húfi fyrir Ísland að eiga góð samskipti við Evrópusambandið og aðildarríki þess. Innan Evrópusambandsins eru flestar helstu samstarfþjóðir okkar, jafnt á sviði efnahags- og öryggismála. Mikilvægt er að fylgjast vel með þróuninni innan þess og vinna kröftuglega að því að kynna afstöðu og hagsmuni Íslands.

    Framtíðarþróun ESB og ríkjaráðstefnan

    Innan Evrópu-sambandsins kveður nú við talsvert annan tón en áður um framtíðarstefnu þess. Lítið ber á löngum lofræðum um Evrópu sameinaða í ofurríki, bandaríki Evrópu. Goðsögnin um Evrópu hefur vikið fyrir raunveruleika líðandi stundar og bera hugmyndir einstakra ríkja um sveigjanlega aðlögun að samrunaferlinu því glöggt vitni. Í Evrópu eru mörg þjóðríki sem hvert og eitt hefur sína sérstöðu. Vandséð er því hvernig Evrópusambandið getur nokkurn tíma orðið annað en samband þjóðríkja.

    Pólitískt samstarf ESB-ríkja hefur ekki verið eins markvisst og samstarf þeirra á sviði efnahags- og viðskiptamála. Er það meðal annars verkefni ríkjaráðstefnunnar að bæta úr þessu. Enn virðist þó ekki hafa orðið mikil hreyfing í mörgum viðkvæmustu málunum. Eru því vaxandi líkur á að ekki verði gerðar róttækar breytingar á uppbyggingu og starfsemi Sambandsins og að mörg stærstu verkefnin verði látin bíða.

    Fundir um ríkjaráðstefnu ESB eru haldnir með EFTA-ríkjunum með reglulegu millibili. Hafa þar fengist greinagóðar upplýsingar og jafnframt hefur gefist tækifæri til að koma sjónarmiðum EFTA-ríkjanna að. Rík áhersla hefur verið lögð á að áfram verði haft náið samráð um frekari þróun mála. ESB hefur fallist á þá ósk EFTA-ríkjanna að þau fái öll gögn sem lögð eru fram á ráðstefnunni, eftir að fulltrúar aðildarríkjanna hafa rætt efni þeirra á fundum sínum.

    Vert er að leiða hugann að tveimur þáttum ríkjaráðstefnunnar sem hugsanlega gætu skipt Ísland miklu. Annars vegar er um að ræða tillögur Breta um breytingar á sjávarútvegsstefnunni og hins vegar þróun sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu ESB.

    Ýmis aðildarríki ESB hafa lýst óánægju með framkvæmd sjávarútvegsstefnunnar þótt það séu einna helst Bretar sem hafa barist fyrir breytingum á henni. Óánægjan stafar fyrst og fremst af svonefndu kvótahoppi, sem í stuttu máli hefur þær afleiðingar að ekki er tryggt að sá kvóti, sem hverju ríki er úthlutað, nýtist í þess þágu. Bretar hafa ákveðið að taka þetta mál upp á vettvangi ríkjaráðstefnunnar, en hér skal ekki lagt mat á hvort þeim muni takast að ná fram breytingum á þeim vettvangi. Hafa verður í huga að senn líður að heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar og á því verki að vera lokið fyrir árslok 2002.

    Hvað varðar þróun sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu Sambandsins er orðið nokkuð ljóst að einhver breyting mun eiga sér stað, þótt ekki verði gengið eins langt og sum ríki hefðu kosið. Líklegt er að samkomulag náist um skipan sérstaks talsmanns á þessu sviði, jafnframt því að möguleikar aukist á samráði og stöðumati á sviði utanríkismála. Ennfremur hafa verið uppi hugmyndir um að ESB geti tekið ákvarðanir um aðgerðir á sviði friðargæslu og mannúðaraðgerða, en framkvæmdin yrði falin Vestur-Evrópu-sambandinu.

    Áhersla einstakra nýrra aðildarríkja ESB, sem ætíð hafa lagt mikið af mörkum á þessu sviði, en eru ekki aðilar að vestrænu varnarsamstarfi, er mjög skiljanleg. Lausnin má þó ekki felast í því að Evrópusambandið gefi Vestur-Evrópusambandinu fyrirmæli og það síðarnefnda glati þannig sjálfstæði sínu í reynd. Slíkt gætum við Íslendingar jafn illa sætt okkur við og innlimun VES í ESB.

    Raunar virðast áætlanir um fullan samruna Vestur-Evrópusambandsins og ESB úr sögunni, að minnsta kosti í nánustu framtíð. Samstaða hefur náðst um það að byggja upp evrópska varnar- og öryggisstoð innan Atlantshafsbandalagsins. Á ráðherrafundi NATO í Berlín í júní síðastliðnum var gengið frá samkomulagi þess efnis að Vestur-Evrópusambandið geti fengið aðgang að sameiginlegu herstjórnarkerfi og öðrum búnaði NATO til að sinna verkefnum sem krefjast ekki þátttöku bandamanna í Norður-Ameríku. Eindregið ber að fagna því að áherslan á varnarsamvinnu Evrópuríkja verður innan NATO.

    EES-samstarfið

    Ísland gegnir formennsku í EES út þetta ár. Reglulegir samráðsfundir ráðherra, embættismanna og sérfræðinga hafa verið haldnir með Evrópusambandinu. Mikilvægt er að áfram verði unnið að því að efla og þróa þetta samráð.

    Þátttaka EFTA-ríkjanna í mótun Evrópulöggjafar hefur frá gildistöku EES-samningsins verið í sífelldri endurskoðun. Sérfræðingar úr stjórnsýslu EFTA-ríkjanna sitja nú fundi með fulltrúum ESB og aðildarríkja þess þar sem grunnur er lagður að samræmdri löggjöf innan Evrópu á ýmsum sviðum. Við mótun þeirrar löggjafar hafa fulltrúar Íslands átt þess kost að koma á framfæri sérstöðu okkar.

    EFTA

    EFTA-ríkin hafa aukið mjög samskipti við ríki Mið- og Austur-Evrópu, þar með talin Eystrasaltsríkin. Á vettvangi EFTA hafa verið gerðir fríverslunarsamningar við flest þessara ríkja. Eru markaðir þar í örum vexti og bíður íslenskra útflytjenda það verkefni að endurheimta fyrri markaðshlutdeild. Mikilvægt er einnig að rækta pólitísk tengsl við þessi ríki sem flest eru á leið inn í Evrópusambandið.

    Pólitísk samskipti við ESB

    Pólitísk samskipti við Evrópusambandið eru Íslandi afar mikilvæg. Síðastliðið vor var lagður traustur grunnur að þessum samskiptum á vettvangi svonefnds "pólitísks samráðs" á grundvelli EES-samningsins. Það hefur gert okkur kleift að fylgjast mun betur með þróun ESB og koma að sjónarmiðum okkar varðandi utanríkismál. Á grundvelli þessa samstarfs hafa Ísland, Noregur og Liechtenstein gerst aðilar að málflutningi og yfirlýsingum Evrópusambandsins um utanríkismál á alþjóða-vettvangi.

    Reynslan hefur sýnt að við eigum í flestum tilfellum samleið með ESB í utanríkismálum, ekki síst þar sem meirihluti Norðurlandanna er nú innan ESB. Tenging við pólitískt samstarf ESB-ríkja þýðir ekki að samskipti við einstök ESB-ríki hljóti minna vægi. Þvert á móti verður að styrkja tvíhliða samskipti við aðildarríki ESB. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að efla og nýta pólitíska samráðið til fulls. Mun það skipta miklu máli þegar kemur að stækkun Sambandsins og frekari framþróun þess, ekki síst í ljósi þess að Ísland stefnir ekki að aðild í náinni framtíð.

    Schengen

    Ísland varð, ásamt hinum Norðurlöndunum, áheyrnaraðili að Schengensamkomulaginu frá og með 1. maí síðastliðnum. Segja má að það sé um margt útvíkkun á norræna vegabréfasamkomulaginu. Íslensk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að viðhalda þessu grundvallar-samstarfi.

    Evrópusambandsríkin, Danmörk, Finnland og Svíþjóð, munu verða fullgildir aðilar að Schengen, en ekki verður um fulla aðild Íslands og Noregs að ræða. Frekari samningaviðræður um hvernig samstarfi okkar og Norðmanna við Schengen-ríkin verður háttað eru komnar á góðan rekspöl og stefnt að því að undirrita samstarfs-samning fyrir áramót, með fyrirvara um samþykki Alþingis sem síðan fengi samninginn til þinglegrar meðferðar. Stefnt er að gildistöku samningsins síðari hluta árs 1998.

    Evrópuráðið

    Mikilvægur þáttur í eflingu öryggis innan Evrópu felst í að tryggja virðingu fyrir almennum mannréttindum og efla lýðræði. Hér hefur Evrópuráðið þýðingarmiklu hlutverki að gegna, en með aðild að ráðinu gangast ríki undir skyldur á sviði mannréttinda og lýðræðis. Með aðild Rússlands að ráðinu á þessu ári hefur verið stigið verulegt skref í þá átt að treysta lýðræði í sessi í stærsta ríki Evrópu. Evrópuráðið er mikilvægur vettvangur fyrir hin minni ríki, sem þar geta tjáð sig og haft áhrif á þróun margvíslegra mála er varða framtíð Evrópu.

    Öryggismál

    Jákvæð þróun öryggismála í okkar heimshluta frá því kalda stríðinu lauk hefur gert að verkum að samfélag þjóðanna er ekki lengur heltekið af þrátefli stórvelda og yfirvofandi tortímingu. Þjóðir heims ættu nú betur að geta sameinast um að binda enda á svæðisbundin átök, aðstoða við enduruppbyggingu á stríðshrjáðum svæðum og eyða tortryggni. Hafa aðgerðir í Bosníu og Hersegóvínu undanfarna mánuði sýnt að þetta er hægt.

    Enn hefur þó ekki náðst samkomulag um framtíðarfyrirkomulag öryggismála í Evrópu. Umræður fara nú fram á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, en að þeirri stofnun eiga aðild öll ríki Evrópu, öll arftakaríki Sovétríkjanna, Bandaríkin og Kanada. Um framtíðarskipan þessara mála er jafnframt fjallað á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, Vestur-Evrópusambandsins og Evrópu-sambandsins. Leggur Ísland mesta áherslu á þátt Atlantshafsbandalagsins en innan þeirra samtaka hefur verið unnið þrekvirki í aðlögun að breyttum aðstæðum, enda mun NATO, eftir sem áður, gegna lykilhlutverki í öryggismálum álfunnar.

    Stækkun NATO og samskiptin við Rússland

    Flest virðist nú benda til þess að á leiðtogafundi Atlantshafs-bandalagsins á næsta ári verði einhverjum samstarfsríkjum formlega boðin aðild. Samstaða er um það innan bandalagsins að stækkunin valdi ekki nýrri skiptingu Evrópu og að öryggishagsmunir allra samstarfsríkjanna verði hafðir í huga. Stækkunin verði þannig, í tengslum við frekari þróun öryggismála í Evrópu, þáttur í nýsköpun öryggismála í álfunni allri.

    Samhliða stækkuninni ber að efla samskipti bandalagsins við Rússland og Úkraínu til muna. Þá þarf að efla friðarsamstarf bandalagsins á þann veg að auka samskipti við þau samstarfsríki sem ekki fá aðild í fyrstu atrennu eða vilja ekki aðild. Sem kunnugt er hafa Rússar verið sérstaklega gagnrýnir á fyrirhugaða stækkun NATO. Brýnt er að koma til móts við þá, til dæmis með gerð sérstaks sáttmála milli bandalagsins og Rússlands sem efli tengsl og tryggi meiri festu í samskiptum þessara aðila. Jafnframt þarf að kveða skýrt á um rétt allra ríkja, þar með talið Eystrasaltsríkjanna, til að velja sér leiðir í öryggismálum.

    Rétt er að leggja áherslu á að stækkunin felst ekki í því að NATO kaldastríðsáranna færi mörk sín í austur. Bandalagið hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Fækkað hefur verið í herjum aðildarríkjanna og dregið stórlega úr kjarnavopnaviðbúnaði. Jafnframt hefur bandalagið sýnt hæfni til að takast á við ný viðfangsefni, eins og sannast hefur í velheppnaðri forystu þess við að koma á friði í Bosníu og Hersegóvínu. Í nánustu framtíð má gera ráð fyrir að bandalagið sinni í auknum mæli verkefnum sem ekki falla undir hið hefðbundna varnarhlutverk þess og samstarfsríkin taki þátt í slíkum aðgerðum.

    Friðarsamstarf NATO og Norður-Atlantshafssamvinnuráðið

    Friðarsamstarf bandalagsins við samstarfsríkin í austri hefur verið rammi samskipta á hernaðarsviðinu, með áherslu á samhæfingu herja þátttökuríkjanna. Sameiginlegar aðgerðir NATO og samstarfsríkja þess í Bosníu og Hersegóvínu hefðu verið illmögulegar án þeirrar reynslu sem friðarsamstarfið hefur veitt. Mikilvægt samráð við ríki Mið- og Austur Evrópu fer einnig fram innan Norður-Atlantshafssamvinnuráðsins. Í desember næstkomandi verða fimm ár liðin frá stofnun ráðsins og af því tilefni fer fram endurskoðun með það fyrir augum að efla samstarfið frekar. Í ljósi væntanlegrar stækkunar bandalagsins þarf að efla samvinnuráðið og friðarsamstarfið til þess að mæta þörfum þeirra ríkja sem ekki munu hljóta aðild í fyrstu umferð, svo og þeirra sem ekki stefna að aðild.

    Einn veigamesti þátturinn í aðlögun Atlantshafsbandalagsins er endurskipulagning herstjórnarkerfis þess á þann hátt að það þjóni kröfum nýrra tíma, auk þess sem dregið verður úr umfangi og kostnaði. Þá þarf að einfalda svo uppbyggingu herstjórnar-kerfisins að grunngerð þess þurfi ekki breytinga við í kjölfar fjölgunar aðildarríkja bandalagsins.

    Varnarsamstarfið við Bandaríkin

    Atlantshafsbandalagið hefur breyst og mun halda áfram að breytast með nýjum verkefnum, en meginmarkmiðið verður eftir sem áður varnir aðildarríkjanna á grundvelli samstarfs ríkja Evrópu og Norður-Ameríku í öryggismálum. Þau tengsl hafa ætíð haft lykilþýðingu fyrir Ísland og öryggi þess. Við höfum átt aðild að Atlantshafs-bandalaginu frá stofnun þess og þyngstu rökin hafa ætíð verið trygging frelsis og sjálfstæðis Íslands.

    Það er grundvallarskylda hverrar ríkisstjórnar að tryggja öryggi þegnanna. Varnarsamningurinn við Bandaríkin og þátttaka Íslands í varnarsamstarfi vestrænna þjóða er og verður grundvöllur öryggisstefnu Íslands.

    Varnarsamstarf vestrænna þjóða byggist á því að allir leggi sitt af mörkum eftir efnum og ástæðum. Það höfum við gert. Auk þess mikilvæga hlutverks sem varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli gegnir í sameiginlegu varnarkerfi NATO höfum við lagt okkar af mörkum til fyrstu hernaðaraðgerða bandalagsins í sögu þess, þ.e. framkvæmd friðarsamninga í Bosníu, en íslensk stjórnvöld hafa lagt IFOR til hjúkrunarfræðinga og lækna. Jafnframt hefur Ísland lagt af mörkum 110 milljónir króna til uppbyggingar Bosníu, einkum á sviði heilbrigðismála, í samvinnu við Alþjóðabankann.

    Ísland hefur, í samvinnu við varnarliðið, boðið aðildarríkjum og samstarfsríkjum í friðarsamstarfinu til umfangsmikillar almanna-varnaæfingar næsta sumar, þar sem æfð verða viðbrögð við öflugum jarðskjálfta. Undirbúningur fyrir æfinguna gengur samkvæmt áætlun og eru undirtektir góðar.

    Við þurfum eftir sem áður, og innan eðlilegra marka, að leggja okkur fram um að taka virkan þátt í starfsemi bandalagsins. Með því leggjum við okkar af mörkum til að tryggja frið á nýrri öld.

    ÖSE

    Leiðtogafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu verður haldinn nú í desember, en þar verður undirbúningur hins nýja öryggislíkans álfunnar meðal annars rætt. ÖSE hefur síðustu tvö ár eflst mjög og gegnir orðið mikilvægu hlutverki í því að fást við margþættar afleiðingar kalda stríðsins. Lýðræðisþróun, kosningaeftirlit, mannréttindamál og réttindi minnihlutahópa eru allt málaflokkar sem ÖSE hefur lagt mikið af mörkum til. Kosningarnar í Bosníu voru í umsjón ÖSE og var þar unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður. Ísland hefur ekki fulltrúa við stofnunina og er því heldur óhægt um vik að fylgjast með, taka þátt í, eða hafa áhrif á það starf sem þar fer fram. Í því ljósi er utanríkisráðuneytið að kanna möguleika á því að opna á ný sendiskrifstofu í Vín.

    Afvopnunarmál

    Undirritun samnings um bann við tilrauna-kjarna-sprengingum, markar tímamót í öryggismálum. Það er vissulega miður að Indland skuli ekki hafa séð sér fært að styðja samninginn því að það frestar gildistöku hans um óákveðinn tíma. Yfirgnæfandi stuðningur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og undirritun kjarnorkuveldanna gefur honum þó verulegt vægi sem ekki verður litið fram hjá í viðræðum um kjarnaafvopnun í framtíðinni. Þess má geta að Íslendingar munu taka þátt í eftirlitskerfi samningsins.

    Íslendingar hafa undirritað samninginn um bann við efnavopnum og mun frumvarp um fullgildingu hans verða lagt fram á Alþingi nú í vetur. Fleiri merkir samningar á sviði afvopnunarmála eru í deiglunni og mun Ísland styðja þá vinnu. Þar er mikilvægast að hefja þegar í stað samninga um allsherjarbann við notkun, framleiðslu og sölu jarðsprengna. Þetta eru óhugnanleg vopn, sem skaða mest þá sem síst skyldi, saklausa borgara, og oft löngu eftir að átökum lýkur.

    Útflutningsviðskipti

    Alþjóðaviðskipti hafa verið að breytast undanfarinn áratug. Íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi hasla sér nú í auknum mæli völl í fjarlægum löndum. Fyrir nokkrum árum var talið ólíklegt annað en að íslensku fisksölufyrirtækin seldu fyrst og fremst íslenskan fisk. Í dag er staðan sú að stóru fisksölufyrirtækin telja sér hag í því að hafa sem flestar tegundir á boðstólum fyrir viðskiptavini sína, án tillits til hvaðan sá fiskur kemur. Það sem máli skiptir er að gæðin uppfylli íslenskar kröfur.

    Sjávarútvegsfyrirtæki, sem haslað hafa sér völl erlendis, hafa rutt öðrum fyrirtækjum braut. Íslensk fyrirtæki, sem framleiða hugbúnað og vörur fyrir sjávarútveg og fiskvinnslu, eru oftar en ekki í fremstu röð í sinni grein og fer mikilvægi þessa útflutnings vaxandi með ári hverju. Þeir sem starfa að verkefnum í fjarlægum heimshlutum hafa í ríkum mæli leitað heim eftir íslenskri tækni og þekkingu og þar með stuðlað að öflugra atvinnulífi hér heima. Fyrirtæki í iðnaði tengdum sjávarútvegi hafa náð miklum árangri í markaðssetningu sem hefur orðið enn fleirum hvati að gera betur.

    Undanfarin misseri hefur utanríkisráðuneytið lagt vaxandi áherslu á að vera útflutningsfyrirtækjum sem mest innan handar, í samstarfi við Útflutningsráð Íslands. Viðskiptaferðir hafa verið farnar til Kína, Suður-Afríku, Namibíu, Múrmansk, Tékklands og Pakistans. Í opinberri heimsókn minni til Kóreu í ágústlok voru viðskiptaaðilar með í för og sú heimsókn var á margan hátt skipulögð og undirbúin með öðrum hætti en tíðkast hefur. Útflutningsfyrirtækjum í sjávarútvegi og iðnaði honum tengdum og úr hugbúnaðargeiranum lánaðist að koma á samböndum sem þegar hafa skilað góðum árangri. Fulltrúar fyrirtækja sem annast innflutning frá Kóreu og Félags íslenskra stórkaupmanna voru einnig með í þeirri för. Ennfremur var Ísland kynnt sem fjárfestingarkostur.

    Stefnt er að svipaðri ferð á næsta ári, þá væntanlega til Suður-Ameríku. Verður stefnt að því að með í för verði fulltrúar úr öllum þeim greinum íslensks atvinnulífs sem hyggjast sækja á erlenda markaði.

    Samvinna utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs Íslands hefur verið farsæl og til hagsbóta. Stefnt er að því að efla samstarfið enn frekar og jafnframt efla utanríkisráðuneytið á þessu sviði og styrkja sendiráðin með þarfir viðskiptalífsins í huga.

    Alþjóðlegt efnahags- og viðskiptasamstarf

    Alþjóðaviðskiptastofnunin

    Þátttaka í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi tryggir íslenskum fyrirtækjum aukin sóknarfæri á erlendum mörkuðum. Leiðir það til samræmingar á reglum milli landa og dregur þannig úr óvissu og mistúlkunum sem valdið geta vandræðum í milliríkjaviðskiptum. Innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er enn unnið úr niðurstöðum Úrúgvæ-viðræðnanna. Framkvæmd samninganna er flókin og eftirlitið ekki síður.

    Ekki hefur tekist að ljúka samningaviðræðum um einstaka þætti sem haldið var áfram eftir lok Úrúgvæ-viðræðnanna, svo sem kaupsiglingar, fjárhagsþjónustu og fjarskipti. Hefur það ekki síst strandað á tregðu einstakra aðildarríkja að leggja fram fullnægjandi tilboð um markaðsaðgang. Ísland hefur lagt til að sá markaðsaðgangur, sem gildir samkvæmt EES-samningi, verði gerður almennur meðal aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og höfum við þannig skipað okkur á bekk með þeim ríkjum sem hvað lengst hafa gengið í frjálsræðisátt.

    OECD

    Á vettvangi OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, fer fram víðtækt samstarf á sviði efnahags-, viðskipta- og ríkisfjármála. Margvíslegum öðrum málaflokkum er sinnt hjá stofnuninni og hefur Ísland meðal annars haft hag af úttektum á ýmsum málaflokkum sem þar með hafa verið metnir og bornin saman í alþjóðlegu samhengi. Það sem ber einna hæst hjá stofnuninni nú er vinna við gerð einfalds fjárfestingar-samnings sem koma á í staðinn fyrir mismunandi útgáfur tvíhliða samninga ríkja í millum. Með þessum fjárfestingarsamningi verða skilyrði fjárfestinga milli landa gagnsærri og fjárfestingarnar skilvirkari. Óhætt er að fullyrða að af þessu verði töluvert hagræði nú þegar bæði erlendar fjárfestingar á Íslandi og fjárfestingar Íslendinga erlendis fara vaxandi.

    Hafréttar- og auðlindamál

    Úthafsveiðar

    Á undanförnum árum hafa veiðar íslenskra skipa utan efnahagslögsögunnar fært þjóðarbúinu verulegar tekjur. Vonandi verður framhald á því en nokkrar blikur eru á lofti. Sókn í fiskimiðin á úthafinu hefur stóraukist og er Norðaustur-Atlantshafið þar ekki undanskilið.

    Með úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna er ætlunin að bregðast við þessari þróun. Markmiðið með samningnum er að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Það eru langtímahagsmunir allra fiskveiðiþjóða að þessu markmiði verði náð og að bundinn verði endi á stjórnlausar veiðar á úthafinu. Engin ríki eiga þó meira undir því en þau sem byggja afkomu sína á fiskveiðum.

    Kjarni úthafsveiðisamningsins eru reglur þess efnis að strandríki og úthafsveiðiríki starfi saman á vettvangi svæðis-bundinna fiskveiðistofnana að verndun og stjórnun veiða úr fiskstofnum sem ganga inn og út úr lögsögu.

    Tryggja þarf að samstarf innan svæðisstofnana verði ekki einungis til málamynda heldur leiði til þess að ríki standi við skuldbindingar sínar um verndun og skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda. Til þess að svo megi verða þurfa þessar stofnanir að laga sig að breyttum aðstæðum. Íslensk stjórnvöld munu stuðla að því að nauðsynleg endurskipulagning eigi sér stað innan þeirra stofnana sem Íslendingar eru aðilar að. Ljóst er að þar verða ýmis ákvæði úthafsveiðisamningsins höfð til hliðsjónar.

    Viðræður um fiskveiðimál

    Undandarin misseri hafa íslensk stjórnvöld sem kunnugt er átt viðræður við nágrannaríkin um stjórnun veiða úr einstökum fiskstofnum. Mikilvægt er að samkomulag náðist á fundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, síðast-liðið vor um skiptingu veiðiheimilda á þessu ári úr úthafskarfa á Reykjaneshrygg og er hlutur Íslands viðunandi. Vissulega varpar hér nokkrum skugga á að Rússar skuli hafa mótmælt niðurstöðunni og séu þar með óbundnir af samkomulaginu, en vonandi tekst að ná samkomulagi um veiðar þeirra á ársfundi NEAFC nú í nóvember.

    Ekki er síður mikilvægt að samningar tókust í maí síðastliðnum milli strandríkjanna fjögurra, Íslands, Færeyja, Noregs og Rússlands, um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Gerð var ítarleg grein fyrir samningnum á Alþingi á sínum tíma. Ljóst er að ekki voru allir fullkomlega sáttir við niðurstöðuna, en minna má á að samningurinn var jafnframt harðlega gagnrýndur af norskum hagsmunaaðilum. Þó að samningur þessi sé merkur áfangi valda stjórnlausar veiðar Evrópusambandsins verulegum áhyggjum. Nú liggur fyrir að skip frá aðildarríkjum ESB veiddu um 200.000 tonn af síld á þessu ári, sem er langt umfram það sem Evrópusambandinu ber. Ljóst er að full stjórn á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum næst ekki nema veiðar ESB lúti einnig stjórnun.

    Það er miður að ekki skuli enn hafa tekist að ná samningum um þorskveiðar okkar í Barentshafi. Stöðugt er þó unnið að því að finna ásættanlega lausn og verður vonandi hægt að leysa þetta deilumál sem allra fyrst. Það er skylda stjórnvalda þessara bræðraþjóða að leysa þetta mál.

    Á fundi Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, nú í haust var ákveðið að beita áfram sóknarstýringu við rækjuveiðar á Flæmingjagrunni á næsta ári. Íslendingar hafa ekki getað sætt sig við þetta stjórnkerfi og munu mótmæla ákvörðuninni eins og í fyrra. Hitt er fullkomlega ljóst að við verðum að draga verulega úr veiðum okkar á svæðinu á næsta ári. Veiðar okkar í ár hafa stóraukist frá því í fyrra og hefur það sætt harðri gagnrýni, m.a. frá Kanadamönnum. Við getum ekki látið sem rækjumiðin á þessum slóðum séu ótakmörkuð auðlind sem þoli gegndarlausa veiði og endalausa sóknaraukningu. Slíkt fær ekki staðist og það vitum við allra þjóða best. Álit okkar og orðstír sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar er í veði.

    Í kjölfar veiða danskra skipa nú í sumar innan íslenskrar lögsögu norður af Kolbeinsey kom á ný upp ágreiningur milli Íslendinga og Dana um afmörkun hafsvæðisins, svo og hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja. Stjórnvöld beggja landanna hafa lagt áherslu á að lægja öldur sem risu um skeið og leita leiða til að finna varanlega lausn. Farið hafa fram viðræður embættismanna landanna í þessu skyni. Hafa þær verið vinsamlegar og gagnlegar og verður fram haldið síðar á þessu ári.

    Nýting auðlinda hafsins

    Það er afdráttarlaus stefna Íslands að nýta beri með sjálfbærum hætti allar lifandi auðlindir hafsins. Hvalir eru þar ekki undanskildir. Afstaða til verndunar og nýtingar hvala hlýtur að stjórnast af sömu grundvallarreglum og gilda um aðrar auðlindir Íslands. Sérstakur starfshópur vinnur nú að undirbúningi tillögu til þingsályktunar um hvalveiðar Íslendinga.

    Á undanförnum árum hefur færst mjög í vöxt að alþjóðastofnanir og -samtök á sviði umhverfismála láti auðlindanýtingu til sín taka. Mjög hefur þar borið á sjónarmiðum andstæðum auðlindanýtingu og felast í því ýmsar hættur. Nauðsynlegt er að Íslendingar, sem eiga svo mikið undir nýtingu auðlinda hafsins, fylgist grannt með starfi þessara stofnanna og samtaka, haldi sjónarmiðum skynsamlegrar nýtingar á lofti og verjist því að öfgafull friðunarsjónarmið nái yfirhöndinni. Ljóst er að leggja þarf aukna áherslu á þetta starf og kosta verður því til sem þarf - hinir miklu hagsmunir Íslands á þessu sviði krefjast þess.

    Málefni S.þ.

    Þótt bjart sé framundan um margt, þegar horft er til næstu aldar, er fyrirsjáanlegt að ýmislegt má betur fara. Ríki heims þurfa í ríkara mæli að sameinast um það að vinna bug á margvíslegum og flóknum vandamálum sem sótt hafa að stórum hluta mannkyns, en fengu ekki þá athygli sem þurfti á tímum kalda stríðsins og þráteflis stórveldanna. Þessi vandamál, sem eru mörg hver afleiðing efnahagslegs og félagslegs misréttis, fólksfjölgunar, umhverfisspjalla, ófriðar og útbreiðslu gereyðingarvopna, virða ekki landamæri og er ekki alltaf á færi einstakra ríkja eða ríkjahópa að leysa þau.

    Sameinuðu þjóðirnar gegna mikilvægu hlutverki og hafa bolmagn, og alþjóðlega viðurkenningu, til að takast á við þessi umfangsmiklu viðfangsefni. Um þessar mundir fer fram mikið umbótastarf innan samtakanna og vilja íslensk stjórnvöld taka þátt í aðlögun þeirra að breyttum aðstæðum og styrkja þau með ráðum og dáð.

    Á því leikur enginn vafi að aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum árið 1946 markaði tímamót. Sjálfstæði Íslands og fullveldi var staðfest í verki og hefur þátttakan í þessum stærstu samtökum veraldar allar götur síðan verið til marks um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Ávinningurinn fyrir okkur af því að taka þátt í þessu fjölbreytta starfi verður seint metinn til fulls. Aðildin að Sameinuðu þjóðunum hefur þannig á margan hátt þjónað hagsmunum þjóðarinnar, og jafnvel lífsafkomu, eins og hafréttarsamningurinn er besta dæmið um. Á grundvelli hafréttarsamningsins var Alþjóðlegi hafréttardómurinn nýverið settur á laggirnar í Hamborg og er hér um merkan áfanga að ræða.

    Vert er þó að hafa í huga að markmiðið með þátttöku í starfsemi samtakanna er fyrst og fremst að hafa áhrif til góðs og leggja okkar af mörkum til friðvænlegra og mannúðlegra umhverfis á jörðinni. Í nýlegri skýrslu Þróunarstofnunar S.þ. um lífskjör í heiminum er Íslandi skipað í áttunda sæti á lista yfir ríki, sem tryggja þegnum sínum bestu kjörin. Þetta endurspeglar stöðu sem Íslendingum sjálfum er vel kunn, en leggur okkur jafnframt ákveðnar siðferðislegar skyldur á herðar í samstarfi við afskiptari hluta mannkyns.

    Síðustu misseri hafa Sameinuðu þjóðirnar efnt til mikilla ráðstefna, þar sem mörg veigamestu málefni alls mannkyns hafa verið til umræðu, nú síðast byggðaráðstefnan í Istanbúl og kvennaráðstefnan í Peking. Mikilvægt er að framkvæmdaráætlunum allra þessara ráðstefna verði hrundið í framkvæmd. Í þessu sambandi má nefna að skipaður hefur verið samráðshópur um framkvæmd Pekingáætlunarinnar í jafnréttismálum.

    Flest bendir til þess, að Ísland taki um næstu áramót sæti í Efnahags- og félagsmálaráði S.þ. (ECOSOC) til þriggja ára. Setan í ráðinu ætti að verða okkur hvatning til að sinna þeim mikilvægu málum sem falla undir verksvið þess.

    Nauðsynlegt er að halda áfram því starfi, sem hófst með setu Íslands í umhverfisnefndinni. Kanna ber hvort ekki sé rétt að Ísland sækist eftir setu í nefnd um endurnýjanlega orkugjafa. Vert er að auka þátttöku okkar á sviði mannúðar- og félagsmála þar sem við höfum möguleika á að miðla öðrum og alla burði til að nálgast mál á hlutlægum og efnislegum forsendum. Verið er að kanna möguleika á þátttöku Íslands í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Seta í þeirri nefnd gæti gefið gott tækifæri til að leggja okkar af mörkum til að rétta að einhverju leyti hlut þeirra milljóna barna um heim allan, sem þurfa að þola ánauð, vinnuþrælkun og sæta kynferðislegri misnotkun.

    Barátta Sameinuðu þjóðanna gegn afbrotum verður æ mikilvægari. Skipulögð alþjóðleg glæpastarfsemi teygir sig til margra nágrannalanda okkar. Nauðsyn ber til að taka þátt í því að hefta útbreiðslu slíkrar starfsemi, til dæmis fíkniefnasmygls. Íslensk stjórnvöld styðja þær fyrirætlanir Sameinuðu þjóðanna að halda sérstakt þing árið 1998 helgað baráttunni gegn fíkniefnum.

    Ísland hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna unnið á markvissan hátt að málefnum, er varða hafið og lífríki þess. Þjóðir heims gera sér nú gleggri grein en áður fyrir mikilvægi lífrænna auðlinda sjávar til fæðuöflunar. Á leiðtogafundi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Rómaborg í næsta mánuði munu íslensk stjórnvöld minna á mikilvægi hafsins sem fæðuuppsprettu, ekki síst fyrir íbúa þróunarlandanna, og nauðsyn á sjálfbærri nýtingu lífrænna auðlinda sjávar. Góður árangur hefur náðst í baráttu Íslendinga fyrir því að fá alþjóðlega viðurkenningu á nauðsyn þess að sporna við útbreiðslu þrávirkra efna í hafinu.

    Þróunarmál

    Í aðstoð Íslendinga við þróunarlönd hefur þekking í sjávarútvegi komið að góðu gagni. Samhliða starfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í nokkrum ríkjum Afríku hafa íslensk stjórnvöld veitt framlög til fjölþjóðlegrar þróunarstarfsemi og neyðarhjálpar. Stórt skref var stigið í þróunaraðstoð í sumar, þegar ríkisstjórnin samþykkti að hefja starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna árið 1998, en hann mun starfa í náinni samvinnu við helstu sjávarútvegsstofnanir á landinu, þar á meðal útgerðarfyrirtæki úti á landi og Háskólann á Akureyri.

    Tvíhliða þróunarstarf Íslands er að langmestu leyti unnið af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Starf hennar hefur á undanförnum árum borið umtalsverðan árangur og hafa aukin fjárframlög gert stofnuninni kleift að fjölga samstarfsríkjum og færa út kvíarnar í starfi sínu. Íslensk þróunaraðstoð og þróunarsamvinna hefur um árabil miðast að verulegu leyti við sunnanverða Afríku.

    Í haust var forræði samskipta við Alþjóðabankann fært frá viðskiptaráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins, en starfsemi bankans lýtur sem kunnugt er að mestu að þróunarmálum. Er þessi tilfærsla liður í því að gera íslenskt þróunarstarf markvissara. Eðlilegt er að framlag til þróunaraðstoðar verði eflt um leið og aðstæður þjóðarbúsins leyfa. Minna má á að þátttaka í þróunarverkefnum erlendis skapar íslenskum fyrirtækjum viðskiptatengsl við lönd sem lítil eða engin viðskipti hafa verið við og getur þannig rutt braut viðskipta.

    Herra forseti,

    Grundvallarmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu er að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi. Í stjórn-, efnahags-, menningar- og öryggismálum er Ísland hluti af æ yfirgripsmeiri fjölþjóðlegum heildum, eins og sést greinilega af aukinni þátttöku í starfi alþjóðlegra stofnanna og öðru alþjóðlegu samstarfi.

    Þetta er þó skýrast hvað varðar beina efnahagslega afkomu þjóðarinnar, en hún byggist umfram allt á því að íslensk fyrirtæki eigi greiða leið að erlendum mörkuðum. Hlutverk utanríkis-þjónustunnar hlýtur því m.a. að vera að styrkja og styðja eflingu útflutnings, auka sóknarfæri og aðstoða við opnun nýrra markaða.

    Í þessu felst að skil milli hefðbundinna utan- og innanríkismála eru að mestu horfin. Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi þjónar nú heildarhagsmunum þjóðarinnar í stöðugt vaxandi mæli.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta