Alþjóðasamskipti í sjávarútvegi - erindi ráðherra á aðalfundi LÍÚ, Landssambands íslenskra útvegsmanna
1. nóvember 1996
Erindi Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra:
Alþjóðasamskipti í sjávarútvegi
Flutt á aðalfundi LÍÚ, Landssambands íslenskra útvegsmanna
Alþjóðasamskipti í sjávarútvegi
Flutt á aðalfundi LÍÚ, Landssambands íslenskra útvegsmanna
Enginn dregur í efa að miklar og stórstígar framfarir hafa orðið í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum. Enn á ný hefur sannast að sjávarútvegurinn er mikilvægasta undirstaða velmegunar í landinu og því mun rekstur hans skipta sköpum um alla framtíðarþróun efnahagsmála. Með því er ekki sagt að aðrar atvinnugreinar skipti ekki einnig miklu máli. Fyrirtæki í iðnaði, hugbúnaði, ferðaþjónustu og ýmsum öðrum útflutningsgreinum eru jafnframt að sækja í sig veðrið. Sjávarútvegurinn er og verður sú meginstoð sem efnahagslífið mun hvíla á um langa framtíð. Stoð sem getur haft afgerandi áhrif á aðrar atvinnugreinar og treyst búsetu alls staðar í landinu.
Mikilvægi alþjóðlegs samstarfs
Íslenskur sjávarútvegur hefur ávallt verið háður alþjóðlegum samskiptum. Nánast öll framleiðslan er flutt úr landi þar sem innlendur markaður er lítill. Yfirráðin yfir landhelginni og fiskstofnunum hafa alltaf verið háð alþjóðlegu samstarfi og á þessum sviðum hefur ekki orðið nein grundvallarbreyting.
Það sem hefur breyst er að við höfum tekið upp gjörbreytta fiskveiðistjórnun sem hefur haft gífurleg áhrif. Einnig eru veiðar á úthafinu að breytast. Það sem áður var frjálst er smátt og smátt að komast undir sameiginlega stjórn þeirra ríkja sem hagsmuna hafa að gæta. Hvað svo sem sagt er um kosti og galla aflamarkskerfisins þá er óumdeilt að það hefur leitt til meiri verndunar fiskstofna, stóraukinna verðmæta úr sama afla og síðast en ekki síst aukinnar útrásar á úthafinu og aðildar að sjávarútvegi erlendis.
Meginþættir framtíðarhagsældar í sjávarútvegi
Framtíðarhagsæld í sjávarútvegi kemur til með að byggjast á fjórum meginþáttum. Fyrst af öllu ber að nefna veiðar og nýtingu aflans á heimamiðum. Þar hefur á margan hátt tekist vel til og miklar framfarir orðið á undanförnum árum.
Í öðru lagi mun hagsældin byggjast á veiðum úr stofnum sem við höfum ekki nýtt áður eða á undanförnum árum. Í því sambandi má nefna nýtingu norsk-íslenska síldarstofnsins og hugsanlega aðrar tegundir á alþjóðlegu hafsvæði, svo sem makríl, túnfisk og kolmunna. Möguleikar á þessu sviði eru smám saman að þrengjast en ekki er rétt að gera lítið úr þeim, því víða um heim finnast enn vannýttir fiskstofnar.
Í þriðja lagi mun afkoman byggjast á þeirri aflahlutdeild sem Íslendingum hlotnast í samningum um úthafsveiðiréttindi.
Í fjórða og síðasta lagi á þátttöku fyrirtækjanna í þeirri alþjóðavæðingu sjávarútvegsins sem er að eiga sér stað um heim allan og íslensk fyrirtæki taka þátt í í vaxandi mæli.
Úthafsveiðar
Á undanförnum árum hafa veiðar íslenskra skipa utan efnahagslögsögunnar fært þjóðarbúinu verulegar tekjur. Vonandi verður framhald á því en vissulega eru nokkrar blikur á lofti. Sókn í fiskimiðin á úthafinu hefur stóraukist og er Norðaustur-Atlantshafið þar ekki undanskilið.
Með úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna er ætlunin að bregðast við þessari þróun. Samningurinn hefur það að markmiði að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Það eru langtímahagsmunir allra fiskveiðiþjóða að þessu markmiði verði náð og að bundinn verði endi á stjórnlausar veiðar á úthafinu. Engin ríki eiga þó meira undir því en þau sem byggja afkomu sína á fiskveiðum.
Kjarni úthafsveiðisamningsins eru reglur um að strandríki og úthafsveiðiríki starfi saman á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistofnana að verndun og stjórnun veiða úr fiskstofnum sem ganga inn og út úr lögsögu. Samningurinn myndar ramma um slíkt samstarf.
Tryggja þarf að samstarf innan svæðisstofnana verði ekki einungis til málamynda heldur leiði til þess að ríki standi við skuldbindingar sínar um verndun og skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda. Til þess að svo megi verða þurfa þessar stofnanir að laga sig að breyttum aðstæðum. Íslensk stjórnvöld munu stuðla að því að nauðsynleg endurskipulagning þeirra stofnana, sem Ísland er aðili að, eigi sér stað. Ljóst er að þar verða ýmis ákvæði úthafsveiðisamningsins höfð til hliðsjónar. Sem dæmi má nefna ákvæði samningsins um að aðild að svæðisbundnum fiskveiðistofnunum skuli opin þeim ríkjum sem hafa raunverulega hagsmuni af viðkomandi fiskveiðum.
Nú er það svo að innan flestra svæðisstofnana, þar á meðal Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, og Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, eru teknar ákvarðanir um stjórnun veiða úr fleiri en einum fiskstofni. Einstök aðildarríki veiða úr sumum þeirra en ekki öðrum. Tryggja þarf að aðeins þau ríki sem hafa raunverulega hagsmuni af viðkomandi veiðum taki þátt í ákvörðunum um stjórnun þeirra, til dæmis með því að koma á fót sérstakri undirnefnd fyrir hvern fiskstofn.
Samningar um stjórnun veiða úr einstökum fiskstofnum
Undanfarin misseri hafa íslensk stjórnvöld sem kunnugt er átt viðræður við nágrannaríkin um stjórnun veiða úr einstökum fiskstofnum. Mikilvægt er að samkomulag náðist á fundi NEAFC síðastliðið vor um skiptingu veiðiheimilda úr úthafskarfa á Reykjaneshrygg á þessu ári. Hlutur Íslands þar er viðunandi. Vissulega varpar hér nokkrum skugga á að Rússar skuli hafa mótmælt niðurstöðunni og séu þar með óbundnir, en vonandi tekst að ná samkomulagi um veiðar þeirra á ársfundi NEAFC síðar í þessum mánuði. Á þeim fundi mun Ísland beita sér fyrir auknu eftirliti með veiðunum og hertum reglum um skýrslugjöf. Þar verða einnig ræddar aðgerðir gagnvart veiðum fiskiskipa frá ríkjum sem ekki eru aðilar að NEAFC.
Ekki er síður mikilvægt að samningar skyldu takast í maí síðastliðnum milli strandríkjanna fjögurra, Íslands, Færeyja, Noregs og Rússlands, um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Ljóst er að ekki voru allir hér heima fullkomlega sáttir við niðurstöðuna, en minna má á að samningurinn var harðlega gagnrýndur af norskum hagsmunaaðilum. Í síldarsamningnum er kveðið á um að aðilar skuli í viðræðum sínum um skiptingu aflaheimilda á komandi árum taka mið af breytingum sem verða á dreifingu stofnsins. Komið hefur verið á fót vinnuhópi vísindamanna til að fylgjast með og meta þróun og dreifingu stofnsins í þessu skyni.
Svo sem kunnugt er hefur síld úr stofninum lítið sem ekkert gengið í íslenska lögsögu eftir hrun hans í lok sjötta áratugarins. Ef tekst að ná markmiðum samningsins um verndun og uppbyggingu stofnsins og hann gengur í auknum mæli í íslensku lögsöguna er við því að búast að aflahlutdeild Íslands aukist á komandi árum. Ljóst er að hagsmunir Íslendinga af því að koma í veg fyrir ofveiði eru sérstaklega brýnir og að markvissar veiðitakmarkanir nú eru forsenda þess að dreifing stofnsins geti orðið eins og áður var. Í þessu ljósi valda stjórnlausar veiðar Evrópusambandsins verulegum áhyggjum. ESB setti sér síðastliðið sumar einhliða 150.000 tonna síldarkvóta, sem er langt umfram það sem því ber, og til að bæta gráu ofan á svart fóru veiðar skipa frá aðildarríkjum ESB á þessu ári langt fram úr því og námu alls um 200.000 tonnum. Ljóst er að full stjórn á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum næst ekki nema veiðar ESB lúti einnig stjórnun.
Það er miður að ekki skuli enn hafa tekist að ná samningum um þorskveiðar okkar í Barentshafi. Stöðugt er þó unnið að því að finna ásættanlega lausn og verður vonandi hægt að leysa þetta deilumál sem allra fyrst. Það er skylda stjórnvalda Íslands, Noregs og Rússlands að leysa þetta mál og það þjónar langtímahagsmunum allra.
Samningar eru og verða ávallt umdeilanlegir og það er auðvelt að gagnrýna stjórnmálamenn sem þar bera ábyrgð. Það er ábyrgð sem við verðum að axla, þótt vissulega sé ávallt mikilvægt að skapa sem víðtækasta samstöðu.
Á fundi NAFO nú í haust var ákveðið að beita áfram sóknarstýringu við rækjuveiðar á Flæmingjagrunni á næsta ári. Íslendingar hafa ekki getað sætt sig við þetta stjórnkerfi og munu mótmæla ákvörðuninni eins og í fyrra. Hitt er augljóst að við verðum að draga verulega úr veiðum á svæðinu á næsta ári. Veiðar í ár hafa stóraukist frá því í fyrra og hefur það sætt harðri gagnrýni, meðal annars frá Kanadamönnum. Við getum ekki látið sem rækjumiðin á þessum slóðum séu ótakmörkuð auðlind sem þoli gegndarlausa veiði og endalausa sóknaraukningu. Slíkt fær ekki staðist og það vitum við allra þjóða best. Álit okkar og orðstír sem ábyrg fiskveiðiþjóð er í veði.
Alþjóðavæðing íslensks sjávarútvegs
Alþjóðasamskipti í sjávarútvegi fela ekki eingöngu í sér samskipti milli stjórnvalda ríkja um smugur á úthafinu, heldur eru þau einnig á borði fyrirtækja og einstaklinga. Alþjóðavæðing þýðir í sem stystu máli aukin markaðssókn og aukin rekstrarumsvif utan heimaríkis í samvinnu við önnur fyrirtæki, með kaupum á erlendum fyrirtækjum, rekstri útibúa erlendis og svo mætti lengi telja. Þar er að finna kjarnann í alþjóðavæðingu íslensks sjávarútvegs. Framsæknustu fyrirtækin hafa sýnt með óyggjandi hætti hverju einstaklingsframtakið fær áorkað. Þau hafa varðað leiðina inn í framtíðina.
Nauðsynlegt er að stjórnvöld geri sitt til að auðvelda fyrirtækjum störf þeirra á erlendri grundu. Innan tíðar mun nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins skila af sér skýrslu um fjárfestingar Íslendinga erlendis, umfangi þeirra og hvar stjórnvöld geti stutt við bakið á þeirri útrás. Niðurstöður úr starfi þessarar nefndar munu meðal annars leiða í ljós að lögum og reglugerðum eru um margt ábótavant. Segja má að á mörgum sviðum hafi hið opinbera ekki sýnt nægilega snerpu í viðbrögðum við breyttum tímum og aðstæðum. Má þar til dæmis nefna skattalega meðferð einstaklinga sem starfa fjarri heimaslóðum til lengri tíma. Einnig má nefna réttindi sem einstaklingar glata innan almannatryggingakerfisins. Þá hefur nefndin lagt áherslu á að kynna sér þá möguleika sem íslenskum fyrirtækjum bjóðast í alþjóðlegu fjármálastarfi.
Aðstoð utanríkisráðuneytisins
Utanríkisráðuneytið hefur á síðustu misserum beitt sér fyrir aðstoð við íslenskt atvinnulíf erlendis. Áhersla hefur verið lögð á að virkja ráðuneytið og sendiráð til hagsbóta fyrir fyrirtæki á erlendri grundu og opinberar heimsóknir á vegum ráðuneytisins eru nú skipulagðar með þarfir atvinnulífsins í huga. Í undirbúningi ferðar, sem farin var á vegum utanríkisráðuneytisins til Kóreu fyrir skömmu, var lögð á það áhersla að brjóta upp það gamla munstur sem fylgt hefur verið undanfarin ár. Sú heimsókn var viðskiptaheimsókn fyrst og fremst, þar sem sjávarútvegurinn átti mjög hæfa fulltrúa. Þar voru ekki eingöngu fulltrúar útflutningsfyrirtækja heldur einnig fyrirtækja í innflutningi frá Kóreu, fulltrúar samtaka fyrirtækja og sérfræðingar í fjárfestingum á Íslandi.
Verið er að kanna í samvinnu utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs Íslands hvort hagkvæmt sé að fara með viðskiptasendinefnd á næsta ári til eins eða fleiri ríkja í Suður- eða Mið-Ameríku. Undirbúningur þessi er unninn í samræmi við áherslur íslenskra fyrirtækja í þessum heimshluta og hvar þau vilja helst bera niður með aðstoð utanríkisráðuneytisins.
Margfeldisáhrif útrásar sjávarútvegsins
Alþjóðavæðing í sjávarútvegi hefur, eins og ég nefndi hér á undan, meðal annars verið nefnd útrás. Í stuttu máli má segja að þetta sé samstarf íslensks fyrirtækis, eins eða fleiri, við erlenda aðila um veiðar og vinnslu á erlendri grundu sem og markaðssetningu afurða um allan heim í gegnum íslensk fisksölukerfi. Til grundvallar þessu samstarfi liggur kvóti innan eða utan lögsögu þess ríkis þar sem veiðar fara fram. En skilgreiningin segir að sjálfsögðu ekki alla söguna. Samstarf á erlendri grundu af því tagi sem hér um ræðir hefur mikilsverð margfeldisáhrif í för með sér. Margfeldisáhrif skapast meðal annars af því að íslenskur sjávarútvegur hefur náð einna lengst í heiminum í framleiðni en hún byggir einmitt á íslensku hugviti og tækni. Íslendingar eru um þessar mundir í fremstu röð framleiðenda á vélum og tækjabúnaði til sjávarútvegs. Þetta mátti meðal annars sjá á hinni stórglæsilegu sjávarútvegssýningu sem haldin var hér á dögunum.
Þegar fyrirtæki tekur til starfa erlendis þá sækja íslenskir skipstjórnarmenn og útgerðaraðilar eftir íslenskri tækni og þekkingu til að geta náð sem mestri hagkvæmni í rekstri. Þetta hefur komið fram í rekstri íslenskra aðila í Namibíu, en þeir sem til þekkja fullyrða að fyrirtækið hafi á þremur árum keypt vörur og þjónustu frá Íslandi fyrir að minnsta kosti hálfan milljarð króna. Það er fyrirtækjunum og þjóðarbúinu til góðs að íslensk fyrirtæki styðji þannig hvert annað, með beinum eða óbeinum hætti. Iðnaður sem tengist sjávarútvegi fær þar kynningu sem eykur hróður hans á erlendri grundu. Íslensku sölukerfin styrkjast einnig við það að fá fleiri fisktegundir til að selja. Íslensku fyrirtækin verða þar með betur í stakk búin að standa sig í hinni alþjóðlegu samkeppni.
Alþjóðleg starfsemi skilar sér ekki í fjárhagslegum hagnaði í einu vetfangi. Það getur tekið langan tíma að byggja upp. Oft taka menn verulega áhættu. Aukin reynsla, þekking og yfirsýn þeirra sem starfa fyrir íslensk fyrirtæki erlendis skilar sér í hæfari starfskröftum þegar heim er komið. Þekking á erlendum aðstæðum, mörkuðum og starfsháttum eykur víðsýni og mikilvægt er að senda ungt fólk erlendis og gefa því kost á að kynna sér rekstur á erlendri grundu og afla sér reynslu til framtíðar.
Með þessum hætti aukum við samkeppnishæfni okkar sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum. Á þessu sviði er að nást mikill árangur og það er enginn vafi á því að mörg tækifæri eru ónýtt handan við hornið. Utanríkisráðuneytið og sendiráð þess erlendis eru fús til aðstoðar í þessu sambandi og við erum þess fullviss að með góðu samstarfi fyrirtækja, einstaklinga og stjórnvalda getum við náð umtalsverðum árangri.
Fiskveiðistjórnun og alþjóðleg samkeppni
Íslenskur sjávarútvegur er háðari alþjóðlegum aðstæðum en flestir gera sér grein fyrir. Fiskveiðistjórnunin verður að taka mið af því að við getum staðist alþjóðlega samkeppni. Við getum ekki, eins og margar aðrar þjóðir, styrkt sjávarútveginn og lagt á hann margvíslegar skyldur til þess að leysa félagsleg vandamál hér innanlands. Sjávarútvegurinn er mikilvægasta undirstaða byggðanna um land allt. Því eru byggðirnar í reynd háðar því að atvinnugreinin standi sig vel í harðnandi samkeppni um allan heim.
Við sem höfum staðið fyrir margvíslegum breytingum í íslenskum sjávarútvegi berum mikla ábyrgð og oft liggjum við undir þungri gagnrýni samferðamanna okkar. Þótt ég sjái vissulega mörg vandamál og úrlausnarefni sem tengjast skipulagi sjávarútvegsins í dag lít ég til baka með stolti yfir stöðu þeirrar atvinnugreinar sem ég átti kost á að vinna með um langt skeið. Ég man þá tíð þegar því var haldið fram að það ætti ekki að lána til eða taka áhættu í sjávarútvegi. Allt sem gert var til að brúa bilið, þar til að árangur kæmi í ljós, var kallað sjóðasukk og ábyrgðarleysi. Bankar og aðrar þjónustustofnanir röktu slæma stöðu viðskipta við sjávarútveginn. Í umræðu var því haldið fram að sjávarútvegurinn gæti aldrei greitt skuldir sínar og væri gjaldþrota sem heild. Nú vilja allir skipta við hin fjölmörgu sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Það er bitist á um að eignast hlutabréf í glæsilegum fyrirtækjum. Aðilar sem áður hættu sér ekki út fyrir landsteinana taka nú þátt í sjávarútvegi í öðrum löndum af sjálfsöryggi og með tilheyrandi árangri.
Íslenskur sjávarútvegur hefur ekki einungis öðlast trú á sjálfum sér heldur jafnframt hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Hingað koma menn til að kynna sér aðstæður og árangur okkar á sama tíma og fyrirtæki í Norður-Noregi og í Færeyjum eiga í miklum erfiðleikum. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að víða eru vandamál og staðan er ekki örugg til allrar frambúðar. En eitt veit ég, það eru miklir möguleikar sem felast í þessari stöðu og það skiptir máli að við spilum rétt úr henni.
Skattlagning og framþróun
Nokkuð hefur verið rætt um álögur á sjávarútveginn að undanförnu. Ég ætla ekki að ræða þau mál efnislega hér utan að segja að hagnaður í íslenskum sjávarútvegi er ekki vandamál dagsins. Varðandi galla aflamarkskerfisins getum við ekki litið framhjá því að þar sem markaðskröftunum er sleppt lausum getur komið fram misskipting og óréttlæti, sem nauðsynlegt er að takast á við og finna leiðir til úrbóta. Þótt ég telji aflamarkskerfið hafi ótvírætt sannað kosti sína er umræðan um kosti þess og galla nauðsynleg.
Sanngjörn umræða skapar aðhald og kallar fram hugmyndir um það sem betur má fara. En það verður að gera með rökum, ekki rökleysu. Það ríður á að menn haldi áttum og geri sér grein fyrir þeim möguleikum sem liggja í þessu fjöreggi okkar og að við nýtum þá, í stað þess að koma í veg fyrir að þeim verði hrint í framkvæmd.
Útvegsmenn verða að taka þátt í umræðunni og færa fram rök í skipulagsmálum sjávarútvegsins. Þeir sitja hjá í alltof miklum mæli og leiðrétta ekki margvíslegan misskilning og ætlast til að aðrir geri það.
Ekkert skipulag í sjávarútvegi mun standast til frambúðar nema um það ríki bærileg sátt. Við sem vinnum í stjórnmálunum erum helstu ábyrgðarmenn þeirrar sáttar. Við getum ekki rækt þessar skyldur okkar nema gengið sé fram af varfærni. Við hljótum að ætlast til þess að þeir sem hafa auðlindina til afnota, rækti garðinn vel og gangi fram af ábyrgð í garð byggðanna og þjóðfélagsins. Við verðum líka að ætlast til þess að fjölmiðlar fjalli um málið hleypidómalaust og reyni ekki að gera rökleysu að sannindum í kappi sínu við að ná fram fyrirfram ákveðinni niðurstöðu.
Tækifæri blasa við
Við stöndum á tímamótum og tækifærin blasa við. Þessi tækifæri verðum við að nýta okkur til hagsældar fyrir alla landsmenn. Við verðum að gera þær kröfur til sjávarútvegsins að allir möguleikar séu nýttir og til þess höfum við, sem í stjórnmálum erum, viljað gefa honum nýtt afl. Við trúum því að hann hafi kraft til að standa undir vaxandi velmegun og þeim væntingum sem allir Íslendingar gera til hans.
Framþróunin og framfarirnar skila auknum tekjum til okkar allra. Það verður hins vegar alltaf viðfangsefni samfélagsins að skipta verðmætunum með réttlátum hætti. Þar gengur á ýmsu og árangur þess starfs er mikilvægastur af öllu ef nauðsynleg sátt á að haldast.
Aðalatriðið er að framþróunin haldi áfram. Ekkert fær stöðvað hana ef einstaklingarnir og fyrirtæki þeirra hafa afl, þrek og þor til að nýta möguleikana sem blasa hvarvetna við í vaxandi alþjóðlegum viðskiptum.