Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. nóvember 1996 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða utanríkisráðherra á málþingi um viðskipta- og fjárfestingatækifæri milli Danmerkur og Íslands

21. nóvember 1996

Efnahagsástandið á Íslandi og efnahagsstefnan
Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra
á málþingi um viðskipta- og fjárfestingatækifæri milli Danmerkur og Íslands
Kaupmannahöfn
Góðir áheyrendur,

Megin markmið efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda er að viðhalda stöðugleika og skapa skilyrði fyrir áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum. Í því sambandi er lág verðbólga og sambærileg rekstrarskilyrði og í helstu samkeppnislöndum lykilatriði og raunar forsenda þess að hægt sé að auka fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu. Stefna stjórnvalda í efnahagsmálum, sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1997, tekur mið að því að eftirspurn og umsvif í þjóðarbúskapnum hafa aukist. Því einkennist efnahagsstefna stjórnvalda nú af aðhaldi í meira mæli en á undanförnum árum, og á það við bæði um stefnuna í ríkisfjármálum og peningamálum.

Efnahagsþróunin á Íslandi að undanförnu sýnir svo ekki verður um villst að mikill árangur hefur náðst í íslenskum þjóðarbúskap. Hagvöxtur hefur verið með ágætum, verðbólga hefur verið í hófi, atvinnuleysi hefur minnkað og lífskjör hafa farið batnandi. Á þessa mælikvarða litið er Ísland í hópi þeirra aðildarríkja OECD sem mestum árangri hafa náð.

Hagvöxtur hér á landi stefnir í 5,5% á þessu ári. Verðbólga undanfarin tvö ár hefur verið um 2% og þótt hún hafi færst nokkuð í aukana á þessu ári er árangurinn á því sviði viðunandi. Atvinnuleysi hefur minnkað úr 5% af vinnuafli í fyrra í 4% í ár. Til samanburðar er atvinnuleysið að meðaltali 11,5% í aðildarríkjum ESB og 5,5% í Bandaríkjunum. Loks hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 9% á árunum 1995 og 1996, sem er um tvöfalt meiri aukning en að meðaltali í aðildarríkjum OECD.

Að baki þessari hagstæðu þróun liggja ýmsar ástæður og má þar nefna fjögur veigamikil atriði. Í fyrsta lagi hafa víðtækar umbætur verið gerðar á íslenskum efnahagsmálum á undanförnum árum sem meðal annars felast í eflingu markaðsbúskapar, opnun fjármagnsmarkaða og aðildinni að EES-samningnum. Í öðru lagi hefur almenn hagstjórn beinst í ríkara mæli en áður að því að tryggja stöðugleika og jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Í þriðja lagi hefur verið almennur skilningur í þjóðfélaginu á þeim takmörkunum sem ytri skilyrði setja þjóðarbúskapnum og á þeim tækifærum sem felast í jafnvægisstefnu þegar til lengri tíma er litið. Loks hafa hagstæð ytri skilyrði lagst á sveif með góðum innlendum vaxtarskilyrðum. Þetta hefur lagt grunninn að þeim framförum og lífskjarabata sem hér hefur átt sér stað að undanförnu.

Ríkisstjórnin mun byggja á þessum grunni á næstu árum. Þannig verður áfram unnið að því að efla markaðsbúskap, meðal annars með því að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög og stuðla að samkeppni á þeim sviðum einkaréttar þar sem henni verður við komið. Jafnframt verður stjórn ríkisfjármála og peningamála samstillt með það fyrir augum að viðhalda jafnvægi og stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Í ljósi vaxandi eftirspurnar og umsvifa er óhjákvæmilegt að auka aðhaldið að efnahagslífinu. Fyrir vikið verður halla ríkissjóðs eytt á næsta ári og peningamálum beitt til að koma í veg fyrir að þensla grafi um sig. Á þessum grunni og miðað við að komandi kjarasamningar verði gerðir á raunsæjum forsendum er útlit fyrir að Ísland verði áfram í hópi þeirra OECD ríkja sem fremst standa á efnahagssviðinu.

Góðir áheyrendur,

Ljóst er að árangur í efnahagsmálum ræðst að nokkru leyti af utanríkisviðskiptum og stefnu stjórnvalda í þeim málum. Íslendingar eru afar háðir utanríkisviðskiptum sem sést best á því að um þriðjungur af landsframleiðslu síðasta árs er tilkomin vegna inn- og útflutnings. Um þrír fjórðu af vöruútflutningi okkar og um helmingur af gjaldeyristekjum koma frá sjávarútvegi. Erum við Íslendingar stoltir af því að reka sjávarútveg, nánast einir Evrópuþjóða, með hagkvæmum hætti og án ríkisstyrkja. Sjávarútvegur í helstu samkeppnislöndum okkar nýtur víðast hvar umtalsverðra ríkisstyrkja. Við erum jafnframt háð innflutningi með ýmsar mikilvægar vörur, svo sem olíu, vélar og tæki, matvöru og hráefni til iðnaðarframleiðslu. Það er því ljóst að vegna mikilvægis utanríksviðskipta fyrir efnahag okkar er frjálslynd utanríkisstefna einn af hornsteinum efnahagsstefnunnar.

Ísland á nú aðild að helstu alþjóðastofnunum um viðskipta- og efnahagsmál. Við gerðumst aðilar að GATT árið 1968 og vorum stofnaðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO. Þá gerðist Ísland aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, árið 1970 og er sömuleiðis aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD. Síðast en ekki síst á Ísland aðild að Samningnum um evrópska efnahagssvæðið, sem tryggir okkur frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns innan aðildarríkja samningsins, sem telur um 400 milljónir manna í Evrópu.

EES-samningurinn endurspeglar á margan hátt þá þróun sem orðið hefur í alþjóðasamningum um viðskipta- og efnahagsmál. Hér er átt við að æ nauðsynlegra er nú að taka inn í slíka samninga málefni sem ekki voru hluti hefðbundinna fríverslunarsamninga sem aðallega snerust um fríverslun með vörur. Hin nýju svið viðskipta nú á tímum varða m.a. þjónustuviðskipti, fjármagnshreyfingar, félagsmál, samkeppnislöggjöf, fjárfestingar og umhverfismál svo nokkuð sé nefnt. Samræming á þessum sviðum er nauðsynleg til þess að atvinnulíf í hinum ýmsu löndum búi við álíka starfsskilyrði og forsenda þess að frjáls viðskipti geti þrifist með eðlilegum hætti. Þannig eru mörkin á milli hefðbundinna viðskipta og ýmissa þátta sem hafa áhrif á frjálsa samkeppni orðin æ óljósari.

Ekki má gleyma þátttöku okkar í norrænu samstarfi og þýðingu þess fyrir atvinnulífið á Íslandi. Samvinna Norðurlandanna, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar á sér langa hefð og stendur á traustum grunni. Þessi samvinna nær til margvíslegra þátta, einnig viðskipta og efnahagsmála. Vegabréfasamband, sameiginlegur vinnumarkaður og samræmdar reglur á ýmsum sviðum félagsmála eru aðeins nokkur dæmi um þessa samvinnu.

Samskipti Íslands og Danmerkur á sviði viðskipta hafa verið til fyrirmyndar. Á síðasta ári var Danmörk í fjórða sæti innflutningslanda til Íslands með tæplega 10% alls innflutnings á eftir Þýskalandi, Noregi og Bretlandi og á undan Bandaríkjunum. Útflutningur okkar til Danmerkur var heldur minni en innflutningur þaðan en hefur aukist verulega undanfarin ár.

Ég vil að lokum þakka fyrir það tækifæri sem mér hefur gefist hér í dag til að kynna í fáum orðum efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda og þátttöku okkar í alþjóðlegu efnahags- og viðskiptasamstarfi. Þá fagna ég því að þessu málþingi um viðskipta- og fjárfestingartækifæri milli Danmerkur og Íslands skyldi komið á og vona að það verði til þess að auka enn frekar viðskiptin milli þessara tveggja vina- og frændþjóða.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta