Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. febrúar 1997 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Um skýrslu samstarfsráðherra norðurlanda - ávarp ráðherra á Alþingi

6. febrúar 1997

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og samstafsráðherra Norðurlanda
Um skýrslu samstarfsráðherra norðurlanda
Alþingi

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar sem lögð hefur verið fram á þskj. 532. Eftir verulegar breytingar sem gerðar hafa verið undanfarin ár á norrænu samstarfi er umgjörð og áherslur þess nú komnar í ásættanlegt form sem bæði fellur að öðru fjölþjóðlegu samstarfi sem Norðurlönd eru aðilar að og hentar fyrir innra samstarf landanna. Miklu skiptir að áhersla verði nú lögð á að fella inntak samstarfsins að þörfum og væntingumalmennings á Norðurlöndunum og geyma um hríð umræðu um frekari endurskoðun á grundvelli eða formi samstarfsins þótt alltaf megi að sjálfsögðu bæta í ljósi reynslunnar.

Norðmenn tóku við formennsku í norrænu samstarfi um síðustu áramót og hafa lagt fram skrá yfir helstu mál sem þeir hyggjast leggja áherslu á þetta ár. Þar skipa málefni barna og ungmenna veigamikinn sess, bæði hvað varðar nemendaskipti, barnamenningu og tölvu- og upplýsingamál en einnig málefni barna á alþjóðavettvangi. Tölvu- og upplýsingamál á öllum samstarfssviðum fá og aukið vægi á árinu.

Þátttaka almennings í norrænu samstarfi og vitundin um samnorræna arfleifð okkar eru þættir sem norrænt samstarf hefur umfram annað fjölþjóðlegt samstarf. Að þessum þáttum þarf að hlúa. Því er mikilvægt að frjáls félagasamtök séu virkjuð og studd til norræns samstarfs, en sá stuðningur þarf að vera bæði markviss og ábyrgur. Því stendur til að gera í ár sérstaka áætlun fyrir samstarf ráðherranefndarinnar við frjáls félagasamtök á Norðurlöndum og einnig í Eystrasaltsríkjunum.

Rík áhersla hefur undanfarin ár verið lögð á að umfjöllun um Evrópumál verði aukin á norrænum vettvangi og hún verði markviss og vel undirbúin. Til þess að svo geti orðið þarf góðan farveg fyrir upplýsingar frá aðilum sem fylgjast með gangi mála innan Evrópusamstarfsins frá degi til dags um þau Evrópumál sem skipta Norðurlönd sérstöku máli. Miklu skiptir að nýta hinn norræna vettvang fyrir Evrópumálin, bæði vegna þess að hann er eini sameiginlegi vettvangur norrænu þjóðþinganna og ríkisstjórnanna en einnig vegna þess að Evrópumál eru orðin svo snar þáttur í allri pólitískri umræðu að þau verða tæplega skilin frá henni.

Á árinu 1996 náðist ákveðinn árangur í því að dýpka Evrópuumræðuna í Norrænu ráðherranefndinni, bæði á fundum ráðherranna og annars staðar. Einnig voru Evrópumál til umræðu á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs vorið 1996. Samt er ljóst að eitt allra mikivægasta mál nærsta starfsárs er að styrkja þá skipulögðu upplýsingaöflun sem til þarf til að Evrópumálin fái þá umfjöllun sem æskileg er á norrænum vettvangi. Áhugi er á að taka til umræðu á ný hugmyndina um norrænan upplýsingafulltrúa í Brussel, jafnvel í tengslum við sendiráð einhvers norræns ríkis þar.

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem var haldinn í Ósló í gær voru þessi mál rædd og þar kom fram áhugi á því að styrkja samstarfið í Brussel með einum eða öðrum hætti þó að þar hafi ekki náðst ákveðin niðurstaða. Og á sérstökum fundi samstarfsráðherra sem haldinn verður í Brussel í næsta mánuði verða þessi mál yfirfarin.

Ég vil einnig í þessu sambandi nefna annað mikilvægt mál sem verður á dagskrá í norrænu samstarfi næsta ár og það er könnun sú sem stendur til að gera á því hvaða áhrif aðild hinna norrænu Evrópusambandslanda að Myntbandalaginu muni hafa á þróun efnahagsmála á Norðurlöndum. Einnig er rétt að nefna það samstarf sem hefur átt sér stað í sambandi við Schengen sem er framhald á Norræna vegabréfasambandinu. Þar hefur mikið starf farið fram og má segja að það liggi nokkuð ljóst fyrir nú hvernig þeim málum verður háttað, en gert er ráð fyrir því að undirbúningi að því máli verði haldið áfram af fullum krafti og gengið er út frá því að það verði lagt fyrir Alþingi í upphafi þings næsta haust. En hér er um mikla vinnu að ræða, sérstaklega í sambandi við þýðingar, þannig að tæknilega er ekki hægt að ljúka því máli og ná því að leggja það fyrir á vorþingi nú. Það væri full ástæða til þess að ræða það mál frekar en ég læt það vera í upphafi máls míns. Á árinu var grannsvæðasamstarfið yfirfarið í því skyni að kanna möguleika þess að marka samstarfi Norðurlanda við grannsvæðin heildarstefnu og hagnýta þannig sem best þá fjármuni sem til samstarfs og aðstoðar við þessi svæði er varið og koma í veg fyrir þann tvíverknað sem alltaf er hætta á þegar mörg ríki og alþjóðastofnanir koma að sömu málum. Meginniðurstöður skýrslunnar sem gerð var voru lagðar til grundvallar norrænu starfsáætluninni um grannsvæðasamstarfið sem gerð var fyrir árið 1997. Þar verður sérstök áhersla lögð á velferðarmál, mál sem varðar grundvallarreglur réttarríkisins, réttindi minnihlutahópa, jafnréttismál og mál sem varða samskipti aðila vinnumarkaðarins.

Hvað varðar innra samstarf Norðurlanda njóta samstarfssviðin; menning, menntun og vísindi, áfram forgangs en tæpur helmingur norrænu fjárlaganna rennur til þessara sviða. Í fagráðuneytum landanna eru nú til umfjöllunar drög að samnorrænni áætlun um markmið og stefnu í rannsóknum og vísindum sem áætlað er að taki gildi á þessu ári eftir umfjöllun í Norðurlandaráði. Nýmæli í þessari áætlun er að hún tekur til allra rannsókna- og vísindastarfa á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, ekki aðeins þeirra sem heyra undir menntamálaráðherrana og gefur því betri heildarsýn en fyrr hefur fengist sem aftur auðveldar forgangsröðun. Það er von mín að samstaða náist um þetta mál.

Á vegum samstarfsráðherra Norðurlanda var lögð fram um mitt ár 1996 skýrslan Det umistelige eða það ómissanlega þar sem norræn málakunnátta var metin og komu þar fram margar athyglisverðar tillögur um aðgerðir til úrbóta. Skýrslunni hefur verið vísað til menntamálaráðherra landanna. Vonir standa til að aðgerðir samkvæmt Nordmål eða Norðurmálsáætluninni um norrænt tungumálasamstarf og framkvæmd einhverra áðurnefndra tillagna efli áhuga norrænna ungmenna á tungum norrænu grannþjóðanna. Það er augljóst að bráðnauðsynlegt er að taka þessi mál föstum tökum og má í því sambandi vísa til reynslu okkar Íslendinga og tungumálakunnáttu okkar í sambandi við norræn mál sem að margra mati fer heldur hrakandi

Á sviði sjávarútvegsmála var á árinu samþykkt samstarfsáætlun fyrir árin 1996-2000 þar sem lögð er höfuðáhersla á verndun auðlinda sjávar og skynsamlega nýtingu þeirra. Á árinu 1995 var efnt til samstarfs milli umhverfis- og sjávarútvegsgeirans um að leita leiða til að bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri þróun og nýtingu sjávarauðlinda. Þetta samstarf er athyglisverð nýjung sem ég vænti góðs árangurs af.

Vestnorrænt samstarf var í brennidepli á árinu. Unnið hefur verið að gagngerum breytingum á samstarfi hinna vestlægu Norðurlanda í byggðamálum. Samstarfsnefnd Vestur-Norðurlanda, sem um 15 ára skeið var vettvangur samstarfs Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga, var lögð niður 1995 og við tók ný nefnd, Norræna Atlantsnefndin, sem Norðmenn eiga aðild að auk framangreindra landa. Með aðild Noregs eru væntanlegar nokkrar áherslubreytingar og vonast er til að fyrir íslenska aðila gefist ný tækifæri til samstarfs á sviði auðlinda og sjávarumhverfismála, ferðaþjónustu og samgangna og landbúnaðar svo eitthvað sé nefnt.

Eftir snjóflóðið í Súðavík veitti Norræna ráðherranefndin styrk til norsk/ íslensks samvinnuverkefnis um snjóflóðavarnir. Af hálfu Íslands eiga Háskóli Íslands og Veðurstofan aðild að verkefninu. Það er til þriggja ára og lýkur því á þessu ári. Heildarfjárveiting var 2,7 milljónir danskra króna.

Aðalskrifstofa Norðurlandaráðs var flutt á árinu til Kaupmannahafnar og er nú staðsett í sama húsnæði og aðalskrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar. Ljóst er að af þessum flutningi leiðir margs konar hagræðing og betri nýting samnorrænna fjármuna auk þess sem þessar norrænu skrifstofur verða hæfari til að framkvæma þær pólitísku ákvarðanir sem teknar eru vegna betra upplýsingastreymis þeirra í milli. Samstarfi Norðurlanda er eins og fram hefur komið beint að þremur meginsviðum: Innra samstarfi Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda um Evrópumál og samvinnu Norðurlanda um grannsvæðin. Þessi þrískipting endurspeglast í starfsáætlun ráðherranefndarinnar.

Í norrænu fjárlögunum var hins vegar stuðst við þá skiptingu verkefna milli fagráðherranefnda sem í gildi hefur verið. Það er m.a. stutt þeim rökum að bæði Evrópumál og málefni grannsvæðanna fléttast inn í mál sem heyra undir allar fagráðherranefndirnar og því erfitt að sundurgreina þau hvað varðar fjárveitingar.

Norræn fjárlög ársins 1996 voru samtals 707,4 millj. danskra króna, 11 millj. danskra króna lægri en árið áður og norræn fjárlög ársins 1997 eru 687,4 millj. danskra króna. Þannig hafa fjárveitingar til norræns samstarfs nú lækkað tvö ár í röð vegna eindreginna krafna frá Svíþjóð um aukinn sparnað og hagræðingu í norrænu samstarfi á sama hátt og gert er innan lands í þeirra fjárlögum. Við Íslendingar höfum ásamt hinum aðildarþjóðunum beitt okkur gegn þessum niðurskurði þar sem við teljum þá fjármuni sem varið er til norræns samstarfs gefa góðan arð. Því miður benda líkur til að framhald verði á niðurskurði á norrænum fjárlögum árið 1998 þó upphæð þeirra hafi enn ekki verið ákveðin.

Norðurskautsráðið var formlega stofnað í september 1996 með aðild Norðurlanda, Kanada, Bandaríkjanna og Rússlands. Það er mikil ástæða til að fagna stofnun þessa ráðs og við Íslendingar höfum um langt skeið unnið að framgangi þess. Ég vil leggja á það áherslu að það verði heildarrammi fyrir samstarf um þau mál sem snerta sérstaklega hagsmuni þjóða á norðurslóðum. Norræn samstarfsáætlun um málefni norðurskautssvæðisins var samþykkt árið 1995, en sú óvissa sem ríkt hefur um stofnun Norðurskautsráðsins hefur seinkað framkvæmd áætlunarinnar. Nú hefur þessari óvissu verið rutt úr vegi og verið er að leggja síðustu hönd á verkefnaáætlun þessa árs.

Í tengslum við flutning aðalskrifstofu Norðurlandsráðs til Kaupmannahafnar var gerður samningur milli skrifstofu Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar um upplýsingamál. Á grundvelli hans er nú hafin útgáfa veglegs sameiginlegs blaðs í dagblaðsformi, Politik i Norden. Blaði þessu er að nokkru ætlað að koma í stað tímaritsins Nordisk Kontakt sem Norðurlandaráð gaf út. Jafnframt er hafin útgáfa vikulegs fréttabréfs sem dreift er á íslensku til lykilaðila í norrænu samstarfi hér á landi.

Forráðamenn samtakanna American Scandinavian Foundation hafa haft samband við okkur varðandi mögulegan fjárstuðning frá ríkisstjórnum norrænu landanna og Norrænu ráðherranefndarinnar til að kaupa húsnæði fyrir norræna menningarmiðstöð í New York sem samtökin American Scandinavian Foundation munu reka. Hús þetta hefur nú þegar verið keypt og má telja að slík menningarmiðstöð geti gagnast bæði okkur Íslendingum og hinum norrænu ríkjunum vel. Ég hef því beitt mér fyrir því að þetta mál hefur verið rætt bæði í hópi norrænna samstarfs- og utanríkisráðherra. Ríkisstjórn Íslands hefur fyrir sitt leyti ákveðið að beita sér fyrir því að á nokkrum árum verði veitt jafnvirði 250 þús. Bandaríkjadala til málsins að því tilskildu að önnur ríki veiti fjárstuðning, en ákvörðun um það liggur ekki fyrir.

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í Ósló í gær var mál þetta rætt en fram kom að sumar þjóðirnar vildu fá frekari upplýsingar um rekstur þessa húss í framtíðinni og kostnað sem af rekstrinum verður og var ákveðið að biðja Norrænu ráðherranefndina að afla frekari gagna um það mál þannig að hægt væri að flýta endanlegri ákvörðun.

Ég hef nefnt hér örfá þeirra mála sem verða í brennidepli næsta ár og vikið að nokkrum þáttum samstarfsins á liðnu ári en vísa að öðru leyti til skýrslunnar sem ég mæli hér fyrir, sem er mikil að vöxtum, en þar er að finna greinargóða lýsingu á öllum þáttum starfseminnar byggða á skýrslum sem ráðuneytin hafa gert ásamt yfirliti yfir norrænu fjárlögin fyrir árið 1997. Starfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 1997 liggur einnig frammi í íslenskri þýðingu.

Ég vil að lokum þakka Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir afar gott samstarf á liðnu ári og legg á það áherslu að framhald geti orðið á því góða samstarfi á næsta ári.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta