Erindi ráðherra á NUUREK '97-kaupstefnunni á Grænlandi
20. febrúar 1997
ERINDI HALLDÓRS ÁSGRÍMSSONAR, UTANRÍKISRÁÐHERRA
Á NUUREK '97-KAUPSTEFNUNNI Á GRÆNLANDI
Á NUUREK '97-KAUPSTEFNUNNI Á GRÆNLANDI
Kæru kaupstefnugestir,
Það er mér sérstök ánægja að verða þess heiðurs aðnjótandi að mega ávarpa þessa kaupstefnu hér í Nuuk, því Grænland og Grænlendingar hafa um langan aldur skipað sérstakan sess í huga mínum. Ég tel að Íslendingar eigi einna auðveldast grannþjóða að skilja hvernig það er að lifa og starfa hér á Grænlandi. Ég er fæddur og uppalinn í sjávarþorpi og veit að tilvera sem byggð er á sjávarfangi er ekki alltaf dans á rósum.
Þau tæpu átta ár sem ég gegndi starfi sjávarútvegsráðherra á Íslandi voru mér lærdómsrík. Ég veit af löngum kynnum mínum af Grænlendingum að stærsta lexían sem ég lærði á þeim árum á sér sterkan hljómgrunn í grænlenskri menningu og hugsun. Hún er sú að manninum ber að umgangast náttúruna af virðingu og gæta hófs við nýtingu auðlinda hennar. Þessa afstöðu hef ég fyrir löngu síðan gert að minni.
Í gegnum árin hafa mér boðist fjölmörg tækifæri til að heimsækja Grænland bæði í einka- og opinberum erindagjörðum. Í hvoru gervinu sem er, þá er ánægjan yfir því að fá að heimsækja þetta ægifagra land alltaf sú sama. Að þessu sinni er ég einnig þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að leggja fram minn skerf í því skyni að efla viðskipti landanna og vona ég að þessi kaupstefna skili eftir sig varanleg spor.
Allt frá því að Íslendingar hófu samskipti við Grænlendinga fyrir um eittþúsund árum hafa samgöngur á sjó skipt afgerandi miklu máli. Íslenskar fornsögur greina frá því að Leifur Eiríksson sigldi frá Grænlandi þegar hann drap niður fæti á meginlandi Norður-Ameríku. Sú staðreynd að samgöngur frá Íslandi lögðust niður og tengslin við Íslendinga á Grænlandi rofnuðu þar með urðu til þess að Íslendingabyggðin hér lagðist af. Örlög þeirra Íslendinga sem hér bjuggu eru með torráðnustu gátum sögunnar.
Það segir frá því í Grænlendinga sögu þegar hinn mikli sægarpur Bjarni Herjólfsson reynir siglingu til Grænlands en hrekkst á skipi sínu undan veðri og vindum, að því að talið er, til meginlands Norður-Ameríku. Þegar skipshöfnin sá eftir langar hrakningar í annað sinn til lands í þessari ferð þá er Bjarni spurður hvort það land sem fyrir augu ber sé Grænland. Í sögunni segir: Hann kvaðst eigi heldur ætla þetta Grænland, "því að jöklar eru mjög miklir sagðir á Grænlandi". Þessi þúsund ára gamla landalýsing dregur hugann að nafni landsins. Sagt er að Íslandi hafi verið gefið nafn sitt þegar einn af fyrstu könnuðum þess sá þar ísilagðann fjörð. Þar sem við erum stödd á kaupstefnu hér í Nuuk má geta þess til gamans að sú saga er sögð að nafngiftir Íslands og Grænlands hafi verið ein fyrsta tilraunin til markaðssetningar og aulýsingamennsku sem ráðist var í svo vitað sé til. Þeir sem settust að á Íslandi hafi viljað sitja þar einir að landgæðum til að helga sér sem mest land. Nafnið Ísland var til þess ætlað að fæla fólk frá því að setjast þar að. Þó menn hafi vitað á þessum árum að "jöklar væru mjög miklir sagðir á Grænlandi" þá fýsti þá mjög að fjölga í Íslendinganýlendunni þar. Nafngiftin á Grænlandi var því ætlað að laða fólk að. Ég tel að þessi skýring á þessum nafngiftum sé ekki verri en hver önnur.
Grænland er ekki einvörðungu okkar næsti nágranni heldur er saga okkar samtvinnuð og lífshættir að mörgu leyti líkir og efnahagsleg undirstaða beggja landanna byggir á sjósókn.
Grænlendingar, líkt og Íslendingar, hafa stundað fiskveiðar, hvalveiðar og selveiðar frá ómunatíð. Þjóðir okkar hafa þurft að nýta til hins ítrasta þær auðlindir sem óblíð náttúran hefur boðið uppá. Í okkar sjómanna- og veiðimannasamfélögum hefur þess verið gætt eftir fremsta megni að láta þau gæði ekki ganga til þurðar. Fiskur, hvalur og selur hefur skipt okkur öllu. Við Íslendingar höfum háð áralanga baráttu fyrir þeim sjálfsögðu réttindum að nýta öll þau gæði sem finna má í hafinu umhverfis okkur.
Það eru engin vísindaleg rök í dag sem mæla gegn nýtingu hvala við Ísland. Það sem hamlar veiðum er ríkjandi tíska í umhverfismálum. Í ýmsum ríkjum hafa ofstækismenn sem kenna sig við umhverfisvernd haft annarleg sjónarmið að leiðarljósi og skynsemi og rök hafa ekki komist að. Þegar harðast var gengið fram gegn selveiðum hér á árum áður þá skipti þessi umhverfissamtök engu þó heilu samfélögin væru lögð í eyði eða byðu mikinn skaða af. Það hefur sýnt sig að þau samtök sem gera útá tilfinningasemi stórborgarbúa varðandi hvali og seli hafa haft af því bærilegar tekjur í frjálsum framlögum og jafnvel að stærstum hluta fjármagnað sína starfsemi á eyðileggingu aldagamalla lífshátta á norðurslóðum. Umhverfisvernd á að beinast gegn þeim sem eru að spilla náttúrunni fyrir komandi kynslóðum en á ekki að beinast gegn þeim sem vilja nýta endurnýjanlega auðlind. Fyrir fámennar þjóðir eins og Íslendinga og Grænlendinga er á brattann að sækja í þeirri baráttu.
Því má hins vegar ekki gleyma að það erum við sem verðum að skapa okkar eigin tilveru í löndum okkar sem teljast á mörkum hins byggilega heims. Það á, til dæmis, ekki að vera sjálfsagt og eðlilegt fyrir borgarbúa í hinni sólríku og þægilegu Kaliforníu að láta einhverja dollara af hendi rakna til ofstækismanna sem stendur á sama hvort verið sé að vega að viðkvæmum samfélögum við heimskautsbaug eða ekki.
Við verðum að kynna fyrir umheiminum menningu og lífshætti okkar sem nú til dags er um margt mjög lík. Þótt töluvert hafi verið gert á þessu sviði er ég því fylgjandi að Íslendingar og Grænlendingar efli sem mest með sér samstarf á þessu sviði.
Þó Grænland sé landfræðilega nálæg þá hafa viðskipti Íslendinga og Grænlendinga ekki verið í þeim mæli sem ætla mætti af nálægðini. Þá voru heimsóknir Íslendinga til Grænlands voru dræmar framan af öldinni en hafa sem betur fer tekið fjörkipp í kjölfar bættra flugsamgangna á síðustu árum.
Stjórnvöld á Íslandi og Grænlandi hafa reynt að skjóta frekari stoðum undir þessi samskipti landanna með þátttöku í ýmiskonar svæðisbundnu samstarfi, á vettvangi Norðulandaráðs og á alþjóðavettvangi. Einnig hafa stjórnvöld gert tvíhliða samkomulag til að efla tengslin í ferðamannaiðnaðinum og nýlega var undirritað samkomulag um samstarf í heilbrigðismálum sem miklar vonir eru bundnar við. Hlutverk stjórnvalda í eflingu þessara samskipta er ekki afgerandi þáttur. Það er fólkið sjálft sem þar hefur úrslitaáhrif.
Hin síðari ár hafa erfiðar samgöngur verið ein helsta ástæðan fyrir litlum viðskiptum milli landanna. Til skamms tíma fóru siglingar til Grænlands nær eingöngu um Danmörku. Þetta hafði í för með sér að vörur sem fóru milli Íslands og Grænlands báru sömu frakt og vörur sem fóru milli Grænlands og Danmerkur. Það væri óskandi að samgöngur milli Íslands og Grænlands efldust enn frekar frá því sem nú er. Það ætti að vera öllum ljóst að viðskipti og samgöngur munu ávallt haldast í hendur. Ef samgöngur glæðast þá aukast viðskiptin og aukin viðskipti kalla á tíðari samgöngur. Greiðar samgöngur og viðskipti efla enn fremur mannleg samskipti.
Kaupstefnan NUUREK }97 er mikilvægur vettvangur til að efla viðskipti milli landanna og sýnir hún nágrönnum okkar hér í Grænlandi sumt af því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum verið að breyta um stefnu en þau hafa lagt sífellt meiri áherslu á útflutning. Forráðamenn þessara fyrirtækja vita að þegar sú ákvörðun hefur verið tekin að ráðast í samkeppni erlendis þá verður framleiðsla fyrirtækjanna að standast ströngustu gæðakröfur og verð vörunnar verður einnig að standast samkeppni. Ég er þess fullviss að þessi afstaða sé íslenskum fyrirtækjum til framdráttar en fjölmörg þeirra hafa komið upp rekstri af ýmsu tagi á erlendri grundu. Íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl meðal annars í Rússlandi, Namibíu, Chíle, Mexíkó og hafa nokkur þeirra fyrirtækja sem taka þátt í þessari kaupstefnu verið í farabroddi fyrir þeirri viðskiptaútrás. Ég vil leyfa mér að beina því til okkar grænlensku vina sem hér eru viðstaddir að velta því fyrir sér hvort samvinna við Íslendinga geti ekki orðið lykillinn að velgengni í framtíðinni. Á sumum sviðum gengur samvinna upp, á öðrum sviðum ekki. Þar sem góð samvinna tekst milli fyrirtækja er það tvímælalaust beggja hagur.
Ég gat þess í upphafi að ég vonaðist til að þessi kaupstefni myndi leiða til aukinna viðskipta milli Íslands og Grænlands og skilja þar með eftir sig varanlegri spor en spor í snjó. Ég vil óska bæði skipuleggjendum og þátttakendum til hamingju með vel unnið starf sem allir geta verið stoltir af. Ég vona að þessi kaupstefna verði haldin sem oftast.
Um sjötíu manns komu frá Íslandi gagngert til að taka þátt í þessari kaupstefnu. Vinir okkar og nágrannar hér í Grænlandi ættu ekki að fara í grafgötur með að Íslendingar séu hér af heilum hug og hafi hafið hér landnám, viðskiptalegt landnám, sem ég er fullviss um að verði báðum til hagsbóta.