Skýrsla ráðherra um utanríkismál á Alþingi
17. apríl 1997
Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra
um utanríkismál á Alþingi
Efnisyfirlit
1. Inngangur
2. Viðskiptaþjónusta og útflutningsviðskipti
3. Norðurlönd og grannsvæði
4. EFTA/EES
5. Evrópusambandið
6. Evrópuráðið
7. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu
8. Atlantshafsbandalagið
9. Varnarsamstarfið
10. Afvopnunarmál
11. Málefni SÞ
12. Þróunarmál
13. Alþjóðaviðskiptastofnunin
14. Hafréttar- og auðlindamál
1. Inngangur
Alþjóðlegt samstarf verður stöðugt umfangsmeira. Ísland þarf að geta uppfyllt þær skyldur sem því fylgja að vera frjálst og fullvalda ríki. Það kallar á öfluga utanríkisþjónustu og styrka stjórn utanríkismála. Utanríkisþjónustan þarf að vera nægilega öflug til þess að við Íslendingar getum staðið við þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur og hún þarf stöðugt að vera vakandi hvað varðar hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi, en nokkuð hefur vantað á að utanríkisþjónustan hafi verið efld til samræmis við aukin verkefni á undanförnum árum.
Ég hef því látið hefja athugun á hvernig skuli staðið að eflingu utanríkisþjónustunar, þannig að hún geti gegnt hlutverki sínu sem best í breyttum heimi.
Þegar hefur verið tilkynnt um stofnun fastanefndar hjá Evrópuráðinu í Strassborg á þessu sumri. Ennfremur er hafin athugun á því að opna sendiráð í Japan. Á haustmánuðum mun taka til starfa sérstök viðskiptaþjónusta á vegum utanríkisþjónustunnar. Einnig verður sett á fót sérstök skrifstofa menningar- og upplýsingamála innan ráðuneytisins, en samkvæmt lögum ber utanríkisþjónustunni að gæta hagsmuna Íslands að því er snertir utanríkisviðskipti og menningarmál.
2. Viðskiptaþjónusta og útflutningsviðskipti
Undanfarin ár hefur alþjóðlegt viðskiptaumhverfi tekið gífurlegum breytingum. Frjálsræði hefur aukist og alþjóðleg samkeppni fer sífellt vaxandi. Atvinnulífið stendur frammi fyrir því að íslenskur markaður er orðinn alþjóðlegur og heimurinn allur eitt markaðssvæði. Útrás íslenskra fyrirtækja er rökrétt og nauðsynleg, þannig að þau verði færari um að mæta alþjóðlegri samkeppni, bæði erlendis og hér heima. Auk þess er útrás fyrirtækjanna grunnur að aukinni hagsæld.
Til að mæta nýjum þörfum atvinnulífsins, sem fylgja vaxandi alþjóðaviðskiptum og aukinni útrás íslenskra fyrirtækja, hefur verið komið á fót viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins sem tekur formlega til starfa 1. september næstkomandi. Utanríkisþjónustan hefur ætíð verið reiðubúin að vera útflutningsfyrirtækjum innan handar. Nú hefur þeirri þjónustu hins vegar verið komið í fastar skorður og hún aðlöguð þeim breytingum sem eru orðnar á alþjóðlegum viðskiptum. Þetta er í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar þar sem viðskiptaþjónusta hefur verið efld verulega á undanförnum árum.
Hlutverk viðskiptaþjónustunnar verður meðal annars að útvega upplýsingar, koma á samböndum og miðla þekkingu til fyrirtækja sem stunda alþjóðaviðskipti. Í upphafi verður viðskiptaþjónusta boðin á tíu stöðum í heiminum. Í náinni framtíð er æskilegt að þessi þjónusta nái til fleiri landa.
Enginn aðili hér á landi ræður yfir jafnvíðtæku alþjóðlegu neti og utanríkisþjónustan, sem starfrækir 14 sendiráð og fastanefndir erlendis og hefur aðgang að um 200 kjörræðismönnum um allan heim. Þá er innan utanríkisþjónustunnar víðtæk þekking og áratuga reynsla í alþjóðlegum samskiptum.
Við Íslendingar búum yfir sérþekkingu, reynslu og vel menntuðu vinnuafli og eigum því að geta náð langt, bæði á hefðbundnum sviðum sjávarútvegs og tengdra greina. Einnig eru möguleikar iðnaðar og þjónustu miklir. Hugbúnaðargerð hefur ennfremur verið í miklum vexti. Ástæðulaust er að ætla annað en önnur íslensk fyrirtæki, sem hingað til hafa ekki verið virk á erlendum mörkuðum, geti einnig haslað sér völl á alþjóðavettvangi.
Alþjóðavæðing kallar á nýtt hugarfar hjá starfsmönnum fyrirtækja og stjórnkerfis. Með tilkomu viðskiptaþjónustunnar verður utanríkis-þjónustan betur í stakk búin til þess að sinna hlutverki sínu og stuðla að enn öflugri útrás íslenskra fyrirtækja.
3. Norðurlönd og grannsvæði
Virk þátttaka í samstarfi Norðurlanda er sem fyrr grundvallarþáttur í íslenskum utanríkismálum. Í kjölfar breytinga á starfsskipulagi Norðurlandaráðs eru Evrópumál og grannsvæðasamstarf nú tvö af þremur helstu samstarfssviðum Norðurlanda.
Svæðisbundið samstarf innan vébanda Barentsráðsins, Eystrasaltsráðsins og Norðurskautsráðsins hefur aukist verulega. Íslendingar hafa tekið virkan þátt í þessu samstarfi og í athugun er hvort og á hvern hátt Ísland geti lagt meira af mörkum. Sérstök áhersla verður lögð á málefni þar sem sérþekking Íslendinga og reynsla gæti nýst samstarfsríkjum okkar.
Tæp tvö ár eru frá því að Íslendingar gerðust aðilar að Eystrasaltsráðinu. Meginhlutverk ráðsins er að efla hvers konar samskipti aðildarríkja með því að bæta efnahagsumhverfi og stuðla að auknum viðskiptum, styrkja undirstöður lýðræðis, mannréttindi og öryggi borgaranna. Starf ráðsins á sviði umhverfismála er ennfremur mikilvægt. Þótt ráðið sé tiltölulega nýstofnað hefur starfsemi þess þegar skilað verulegum árangri.
Mér er það sérstakt fagnaðarefni að geta þess að 4. apríl síðastliðinn var undirritaður samningur á milli Íslands og Litáen um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritana. Hillir undir frágang sams konar samninga Íslands við Eistland og Lettland á næstu dögum. Samningar þessir eru mikilvægir fyrir Eystrasaltsríkin og táknrænir fyrir aukin tengsl þeirra við vestræn lýðræðisríki.
Íslensk stjórnvöld ákváðu að leggja sitt af mörkum til að treysta undirstöður lýðræðis í Eistlandi. Hefur umboðsmaður Alþingis aðstoðað Eista við að koma á fót embætti umboðsmanns í Eistlandi, en stefnt er að stofnun slíks embættis þar í landi síðar á þessu ári.
Með stofnun Norðurskautsráðsins hefur verið myndaður vettvangur víðtæks samstarfs aðildarríkjanna átta, en einungis öryggis- og varnarmál falla utan starfssviðs ráðsins samkvæmt stofnyfirlýsingunni. Eitt mikilvægasta verkefni ráðsins verður að tryggja jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar auðlinda á norðurslóðum. Unnið er að því að setja ráðinu starfsreglur og leggja grunninn að sjálfbærri nýtingu auðlinda á svæðinu.
Eftir því sem Norðurskautsráðinu vex fiskur um hrygg er full ástæða til að endurmeta enn frekar skipulag grannsvæðasamstarfsins á norður-slóðum. Leita þarf leiða til að fyrirbyggja hvers konar tvíverknað. Í þessu skyni voru nýlega lagðar fram af Íslands hálfu frumhugmyndir um samhæfingu á starfi Norðurskautsráðsins og Barentsráðsins, en það síðarnefnda hefur einkum verið vettvangur samstarfsverkefna sem miða að efnahagslegum framförum og umhverfisvernd í Norðvestur-Rússlandi og nærlægum svæðum. Hafa þessar hugmyndir hlotið góðar undirtektir og verður þeim fylgt eftir.
4. EFTA/EES
Eftir gildistöku EES-samningsins hefur starfsemi Fríverslunar-samtaka Evrópu, EFTA, einkum falist í samskiptunum við ESB. Í opinberri umræðu gera menn gjarnan minna úr áhrifum EFTA-ríkjanna en efni standa til. EFTA-ríkin hafa að undanförnu nýtt sér í vaxandi mæli réttinn til þess að fylgjast með störfum nefnda á vegum framkvæmda-stjórnarinnar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þannig hafa áhrif þeirra á endanlega mótun evrópskra reglna sífellt verið að aukast.
EFTA-ríkin og EFTA-skrifstofan eiga samvinnu sín á milli til að tryggja að skortur á mannafla hindri ekki virka þátttöku í öllum sérfræðinganefndum. Auk þess eiga EFTA-ríkin þess kost að gera skriflegar athugasemdir við tillögur ráðherraráðsins eftir að framkvæmdastjórnin hefur lagt fram tilllögur sínar og er þetta gert í vaxandi mæli. Ísland og Noregur njóta þeirrar sérstöðu að geta nýtt samstarfið við hin Norðurlöndin þrjú sem aðild eiga að ESB. Mikilvægt er að efla þá samvinnu þannig að norræn sjónarmið komist enn betur til skila á alþjóðlegum vettvangi.
EES-samningurinn felur ekki aðeins í sér viðskiptalegan ávinning. Hann færir íslenskum þegnum einnig umtalsverð réttindi. Má þar nefna réttinn til þess að starfa, stunda rannsóknir og nám eða þjálfun í öllum aðildarríkjunum á hinu evrópska efnahagssvæði. Til þess að auka þekkingu almennings á þessum réttindum mun utanríkisráðuneytið á næstu mánuðum gefa út kynningarefni um upplýsingaátak Evrópusambandsins.
Aðildarríki ESB eru meðal nánustu samstarfsríkja okkar á sviði utanríkis- og öryggismála. EES-samningurinn hefur gert EFTA-ríkjunum kleift að eiga samráð við ESB um utanríkispólitísk mál. Samstarfið gengur vel og er Ísland nú aðili að fjölda yfirlýsinga ESB. Þá eru í vaxandi mæli haldnir upplýsinga- og samsráðsfundir um utanríkispólitísk málefni milli ESB og EFTA-ríkjanna í EES.
5. Evrópusambandið
Ríkjaráðstefna Evrópusambandsins hefur nú staðið á annað ár og miðar hægt. Væntingar til ráðstefnunnar eru orðnar minni en þegar lagt var upp og ekki eru horfur á því að grundvallarbreytingar verði gerðar. Hins vegar má búast við að niðurstöður ráðstefnunnar leiði til þess að staða Evrópuþingsins styrkist nokkuð, að ákvörðunum sem taka má með vegnum meirihluta fjölgi og að umfjöllun um utanríkismál verði skilvirkari. Einnig að samstarf að lögreglumálum, umhverfismálum og félagsmálum verði eflt. Ennfremur má búast við einhverjum breytingum á hlutfallslegu vægi atkvæða aðildarríkja og betur verði skilgreint með hvaða hætti megi standa að samstarfi sem ekki tekur til ríkjanna allra.
Allar breytingar geta haft sín áhrif á það hvernig framtíðarsamskipti okkar við ESB þróast en það eru einkum tvö atriði sem standa upp úr. Annars vegar er það hvernig háttað verður tengingu Vestur-Evrópu-sambandsins við ESB og hins vegar hvernig Schengen-samstarfið fellur að Evrópusambandinu.
Það er áhyggjuefni að af og til koma upp raddir meðal Evrópu-sambands-ríkjanna um að réttast sé að innlima VES í ESB og gera það að varnararmi þess. Við höfum lagst hart gegn slíkum hugmyndum, enda gæti það stefnt í hættu þeirri farsælu samstöðu um evrópsk öryggismál sem myndast hefur milli Evrópuríkja innan og utan ESB og bandamanna okkar í Norður-Ameríku.
Vaxandi líkur eru á því að Schengen samstarfið tengist stofnunum ESB nánar. Ein lausn gæti verið að starfslið ESB tæki að sér þjónustuhlutverk við framkvæmd samningsins en einnig er rætt um að reglugerðir Schengen verði hluti af reglugerðarverki ESB. Hver sem niðurstaðan verður hefur í umræðunni ávallt verið tekið fram að fullt tillit verði tekið til samstarfssamnings Noregs og Íslands við Schengen-ríkin.
Ekkert einstakt mál kemur til með að hafa meiri áhrif á innri markað ESB og þar með EES en það hvernig sambandinu tekst að hrinda í framkvæmd upptöku sameiginlegrar myntar. Utanríkisráðuneytið, önnur ráðuneyti og stofnanir sem málið varðar, fylgjast grannt með framvindunni. Engin heildstæð athugun hefur farið fram og er ríkisstjórnin með í undirbúningi að skipa sérstaka nefnd sem samræmi sjónarmið og safni upplýsingum á einn stað.
6. Evrópuráðið
Evrópuráðið er lykilstofnun samstarfs á sviði mannréttinda, lýðræðis-uppbyggingar og bættra samskipta ólíkra þjóða yfir landamæri. Starf ráðsins er einkum mikilvægt vegna aðlögunar ríkja Mið- og Austur-Evrópu að vestrænum samfélags- og stjórnarháttum. Mörg þeirra hafa þegar fengið aðild og eru aðildarríkin nú orðin fjörutíu talsins.
Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á þátttöku í Evrópuráðinu og hafa málefni þess verið til umfjöllunar í flestum ráðuneytum, auk þess sem Alþingi og fjöldi alþingismanna hafa tekið þátt í starfi þess með ýmsum hætti. Eftir tvö ár fellur það í hlut Íslands að fara með formennsku í ráðinu, en það er vandasamt hlutverk, sem krefst þekkingar og mannafla. Því hefur verið ákveðið að setja á stofn fastanefnd Íslands í Strassborg frá og með sumrinu.
7. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu
Í þeim öru breytingum, sem nú eiga sér stað, verður mikilvægi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, stöðugt ljósara. 55 ríki eiga aðild að stofnuninni, það er öll ríki Evrópu og öll fyrrverandi Sovétlýðveldi, auk Bandaríkjanna og Kanada. Í því samstarfi Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, sem nú er í mótun, er lögð lykiláhersla á þann ramma sem ÖSE markar samskiptum ríkja og á að efla stofnunina og virða ákvæði Helsinki-samningsins. Ísland hefur ekki haft starfandi fastanefnd við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu síðan 1993. Í ljósi vaxandi hlutverks stofnunarinnar í öryggismálum Evrópu er nauðsynlegt að taka þá skipan mála til endurskoðunar.
8. Atlantshafsbandalagið
Þrátt fyrir mikilvægi þess ramma sem ÖSE veitir mun Atlantshafsbandalagið áfram verða þungamiðja öryggissamstarfs innan Evrópu. Árið 1997 er mikilvægt í sögu bandalagsins, en á næstunni verða teknar merkar ákvarðanir er varða framtíð þess.
Innri aðlögun bandalagsins felur í sér endurskoðun herstjórnarkerfisins með það að markmiði að gera það einfaldara í sniðum og sveigjanlegra. Þannig verður bandalaginu gert auðveldara um vik að bregðast við staðbundnum verkefnum eins og friðargæslu. Sveigjanlegra herstjórnarkerfi mun einnig greiða fyrir eflingu evrópskrar varnarstoðar innan bandalagsins og gera Evrópuríkjum kleift að grípa til aðgerða í þeim tilfellum sem bandamenn okkar í Norður-Ameríku kjósa að standa til hlés. Þær aðgerðir verða væntanlega undir stjórn Vestur-Evrópusambandsins, sem þá nýtir búnað og stjórnunarkerfi NATO.
Í þeirri aðlögun, sem nú fer fram, þarf stöðugt að leggja áherslu á mikilvægi þess að tengslin yfir Atlantshafið verði áfram á styrkum grunni og að áframhaldandi öflug viðvera Bandaríkjamanna í Evrópu og þátttaka þeirra innan herstjórnarkerfisins verði tryggð. Þau tengsl má ekki á nokkurn hátt veikja.
Á leiðtogafundi bandalagsins í júlí næstkomandi verður ákveðið hvaða ríkjum skuli boðið til aðildarviðræðna í fyrstu stækkun bandalagsins eftir lok kalda stríðsins. Frjálsum og fullvalda ríkjum er í sjálfsvald sett að skilgreina hvernig öryggishagsmunum þeirra er best þjónað, hvort heldur er innan bandalaga eða utan. Þetta grundvallarsjónarmið er skýrt tekið fram í grunnskjölum ÖSE og var ítrekað á leiðtogafundi ÖSE í Lissabon í desember síðastliðnum. Vert er þó að hafa í huga að ákvörðun um stækkun verður að vera samhljóða ákvörðun allra aðildarríkja og mikilvægt að góð sátt verði innan bandalagsins um þau ríki sem fyrst verður boðin aðild.
Væntanleg stækkun NATO hefur þegar haft jákvæð áhrif á öryggisumhverfi Evrópu. Hafa mörg ríki Mið- og Austur-Evrópu gengið frá, eða eru um það bil að ganga frá samningum við nágranna sína sem leysa áður óleyst deilumál, enda nauðsynlegt skilyrði aðildar að NATO. NATO hefur einnig gefið út einhliða yfirlýsingar að undanförnu og meðal annars lýst því yfir að kjarnavopn muni ekki verða á landsvæði nýrra aðildarríkja, enda væri það ekki samræmi við þá þróun að draga úr kjarnavopnaviðbúnaði bandalagsins. Þess má geta að þegar hefur kjarnavopnum á meginlandi Evrópu fækkað um ríflega 80% og er stefnt að enn frekari fækkun. Ennfremur hefur bandalagið lýst því yfir að ekki verði ástæða til langdvalar erlends herliðs í nýjum aðildarríkjum.
Eins og kunnugt er hefur Ísland lagt til að öllum umsóknarríkjum verði boðin aðild á sama tíma, en framgangur látinn ráðast í aðildarviðræðum. Þetta er ekki hvað síst með hagsmuni Eystrasalts-ríkjanna fyrir augum, enda yfirlýst stefna okkar að styðja aðild þeirra í fyrstu umferð.
Að öðrum kosti tel ég skynsamlegt að stækkunin verði mjög takmörkuð og einungis fáum ríkjum boðin aðild í fyrstu. Það ætti að tryggja að stækkunarferlið gæti gengið snurðulaust fyrir sig. Einnig eykur það líkurnar á því að næsta stækkun verði fyrr en síðar. Leggja ber ríka áherslu á að Atlantshafsbandalagið verður eftir sem áður opið nýjum aðildarríkjum og að þessi stækkun verði ekki sú síðasta.
Jafnframt er mikilvægt að efla samstarf við þau ríki sem ekki hljóta aðild í fyrstu umferð, svo og þau ríki sem ekki hafa sóst eftir aðild. Því ber að leggja kapp á stofnun nýs Atlantshafssamstarfsráðs (APC) sem byggja mun á starfi aðildarríkjanna innan Friðarsamstarfsins (PfP) og Norður-Atlantshafs-samvinnuráðsins (NACC). Ennfremur er mikilvægt að efla Friðarsamstarfið til muna og tryggja hlutverk og þátttöku samstarfsríkjanna í mótun og starfsemi þess og að í boði sé eins náið samstarf við NATO og kostur er.
Friðarsamstarfið hefur reynst afar árangursríkt og hefur þjappað saman ríkjum Atlantshafsbandalagsins og flestum öðrum ríkjum Evrópu. Þannig hefur verið unnið saman að því að efla öryggi um alla álfuna og má til sanns vegar færa að án reynslunnar af friðarsamstarfinu hefði friðaraðgerðin í Bosníu-Hersegóvínu verið mun erfiðari í framkvæmd.
Í júlílok nú í sumar verður haldin hér á landi alþjóðleg almanna-varna-æfing, Samvörður 97, sem íslensk stjórnvöld hafa boðið til. Æfingin er liður í Friðarsamstarfi NATO og er fyrsta almannavarnaæfing sem haldin er undir merkjum þess. Æfð verða viðbrögð stjórnvalda og björgunarsveita við öflugum jarðskjálfta. Æfingin er mikilvægt framlag til friðarsamstarfsins og einstakt tækifæri fyrir íslenskar björgunarsveitir til að vinna með erlendum sveitum og leiða í ljós styrkleika og veikleika íslenska almannavarnakerfisins.
Um 20 erlend ríki hafa tilkynnt þátttöku og er búist við að allt að 500 erlendir hjálpar- og björgunarliðar taki þátt í æfingunni. Hún fer fram á Suðvesturlandi en íslenskar björgunarsveitir víða af landinu taka þátt í henni. Áætlað er að liðsmenn sveitanna gætu orðið fjögur til fimm hundruð. Æfingin er skipulögð í nánu samstarfi við viðkomandi almannavarnanefndir og er framkvæmd hennar fyrst og fremst í höndum Almannavarna ríkisins.
Í samskiptum Atlantshafsbandalagsins við ríki utan þess skipa Rússland og Úkraína sérstakan sess. Stefnt er að því að samningar náist milli Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu um samstarf, enda er frjáls og fullvalda Úkraína mikilvægur hluti heildarmyndarinnar í öryggismálum Evrópu.
Öflugt og farsælt samstarf við Rússland mun hafa lykilþýðingu fyrir framtíðarþróun öryggismála í Evrópu. Samningaviðræður standa nú yfir milli bandalagsins og Rússlands um hvernig treysta megi samstarf þeirra í sessi, enda mikilvægt að þróa frekar þá samvinnu sem þegar er komin á. Markmiðið með slíku samkomulagi er að tryggja víðtækt samráð og samstarfsmöguleika, jafnvel þannig að hægt verði að grípa til sameiginlegra aðgerða. Bundnar eru vonir við að undirrita megi slíkt samkomulag nú í vor, eða snemma sumars.
9. Varnarsamstarfið
Varnarsamstarfið við Bandaríkin er sem fyrr hornsteinn öryggismála landsins og er eftirlits- og varnarhlutverk varnarliðsins á Íslandi óbreytt. Töluverðar breytingar hafa hins vegar orðið á liðsafla og búnaði varnarstöðvarinnar á síðustu fimm árum þar sem tekið hefur verið mið af breyttum og batnandi aðstæðum í öryggismálum.
Samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framkvæmd varnarsamningsins, sem undirritað var í Reykjavík 9. apríl 1996, gengur samkvæmt áætlun. Meginmálið er að hér sé ávallt til staðar sá öryggisviðbúnaður, sem við teljum þurfa.
Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa hliðsjón af þeim breytingum sem nú eiga sér stað í öryggismálum Evrópu og tryggja að Ísland lendi ekki á jaðri þeirrar þróunar. Meginforsenda bandalagsins hefur ávallt verið jafnt öryggi fyrir öll aðildarríkin og hlýtur það því ávallt að vera kjarninn í afstöðu Íslands. Öryggishagsmunir þjóðanna á norðurvæng Atlantshafs-bandalagsins þurfa því áfram að vera tryggðir eftir stækkun þess í austurátt.
10. Afvopnunarmál
Frá því í byrjun síðasta árs hefur Ísland átt áheyrnaraðild að Afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, en á vettvangi hennar hafa náðst umtalsverðir áfangar í afvopnunarmálum. Samningurinn um bann við tilraunakjarnasprengingum (CTBT) er annar af tveimur tímamótasamningum sem eiga rætur að rekja til afvopnunarráðstefnunnar eftir lok kalda stríðsins. Hinn er efnavopnasamningurinn frá 1993 (CWC), sem öðlast mun gildi á ráðstefnu samningsaðilanna þann 29. þessa mánaðar. Unnið er að því að Ísland fullgildi báða þessa samninga sem fyrst.
Helstu framtíðarverkefni, sem rætt er um, eru samningur um bann við notkun, framleiðslu og geymslu á jarðsprengjum sem beint er gegn fólki, samningur um bann við framleiðslu kjarnkleyfra efna til hernaðarnota, og kjarnaafvopnun í víðu samhengi. Ekki virðast líkur á samkomulagi á Afvopnunarráðstefnunni um þessi nýju viðfangsefni á næstunni. Vinna við samning um jarðsprengjubann hefur þó farið fram utan ráðstefnunnar, svokallað "Ottawa-ferli". Vonir eru bundnar við að hægt verði að ljúka slíkum samningi á þessu ári. Ísland hefur stutt þá vinnu hvar sem því hefur verið við komið.
Í Vín hafa einnig farið fram samningaviðræður um aðlögun samningsins um hefðbundinn herafla í Evrópu að nýjum aðstæðum, í kjölfar breyttra aðstæðna í Evrópu og í ljósi fyrirhugaðrar stækkunar Atlantshafs-bandalagsins. Mikilvægt er að í þeim viðræðum náist niðurstaða sem varðveiti lykilhlutverk samningsins í takmörkun hefðbundins vígbúnaðar og áframhaldandi samdrátt í hefðbundnum vopnum. Sú niðurstaða verður að fela í sér að tillit verði tekið til eðlilegra öryggishagsmuna Rússa, en jafnframt að samningurinn hindri ekki fjölgun aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins.
11. Málefni S.þ.
Mörg helstu viðfangsefni sem ríki heims þurfa að takast á við á komandi árum, verða því aðeins leyst að margir leggi hönd á plóginn. Þetta á við um vaxandi fátækt, hungur, rányrkju, mengun, fíkniefnavanda, glæpastarfsemi og margs konar aðra vá, sem einstökum ríkjum er í flestum tilvikum ofviða að leysa upp á sitt einsdæmi. Ekki síst af þessum sökum munu Sameinuðu þjóðirnar áfram gegna afar veigamiklu hlutverki, enda eini vettvangurinn þar sem öll ríki heims eiga þess kost að leggja sitt af mörkum til lausnar sameiginlegum vanda okkar sem jörðina byggjum.
Til að Sameinuðu þjóðirnar geti uppfyllt vaxandi kröfur, sem til þeirra eru gerðar, er hins vegar óhjákvæmilegt að ráðist verði í umfangsmiklar umbætur á starfsemi þeirra. Það er því fagnaðarefni að nýr framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Kofi Annan, sem tók við embætti um síðustu áramót, hefur sett umbótastarfið á oddinn. Ísland mun styðja það starf.
Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála. Nú er að ljúka 53. þingi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf, og hefur Ísland, sem á áheyrnaraðild að þinginu, gerst meðflytjandi að fjölmörgum ályktunartillögum þar sem ástand mannréttindamála í ýmsum löndum heims, til dæmis í Íran, Írak, Kína, á Kúbu og Austur Tímor, er gagnrýnt. Enginn þarf að fara í grafgötur um stuðning íslenskra stjórnvalda við baráttu fyrir mannréttindum. Enginn þarf heldur að efast um einlægni okkar og jákvæðan tilgang með þátttöku á þessum vettvangi.
Íslensk stjórnvöld hafa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna stutt tilraunir til að koma á varanlegum friði í Mið-Austurlöndum. Það er mikið áhyggjuefni að ástandið þar hefur farið hríðversnandi, ekki síst vegna ólöglegra og ögrandi aðgerða núverandi stjórnvalda í Ísrael í Austur-Jerúsalem, sem aftur eru vatn á myllu öfgamanna í röðum Araba. Ekki verður hægt að tryggja varanlegan frið á svæðinu fyrr en allir aðilar virða bókstaf og anda friðarsamkomulagsins.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru ýmis helstu hagsmunamál íslensku þjóðarinnar til umfjöllunar. Á síðustu árum hafa því stjórnvöld reynt að styrkja stöðu sína innan samtakanna. Frá og með síðustu áramótum er Ísland aðili að Efnahags- og félagsmálaráðinu og á nú einnig fulltrúa í nefnd samtakanna um nýja og endurnýjanlega orkugjafa. Fyrr í þessum mánuði gerðist Ísland ennfremur áheyrnaraðili að sérstakri nefnd Sameinuðu þjóðanna um friðargæslu.
Sérstakt aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verður haldið í New York í júní næstkomandi í tilefni af því að fimm ár eru liðin frá því að umhverfisráðstefnan var haldin í Ríó. Sérstakur fundur umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna til undirbúnings aukaallsherjar-þinginu stendur nú yfir í New York. Umræður á fundinum bera því vitni að verndun lífríkis sjávar er vaxandi þáttur sjálfbærrar þróunar.
Þótt umræðan á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafi til þessa einkum tekið mið af mengun hafsins, má gera ráð fyrir að knúið verði á um það með vaxandi þunga að veiðar og veiðiaðferðir sæti auknu alþjóðlegu eftirliti. Þetta er umræða sem Ísland þarf að taka virkan þátt í, svo að tryggt verði að mikilvægir hagsmunir íslensku þjóðarinnar verði á engan hátt fyrir borð bornir. Lögð verður sérstök áhersla á það að hálfu utanríkisráðuneytisins að fylgjast vel með þessum þætti í starfsemi Sameinuðu þjóðanna.
Sjávarútvegsdeild háskóla Sameinuðu þjóðanna tekur til starfa á Íslandi á næsta ári og mun byggja á sérþekkingu þeirri sem fyrir hendi er í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og rannsóknarstofnunum. Er þess vænst að starfræksla skólans geti orðið mikilsvert framlag Íslands til þróunarmála.
Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað næsta ár, 1998, málefnum hafsins. Stjórnvöld munu skipa vinnuhóp til að athuga með hvaða hætti Íslendingar, sem framar öðrum þjóðum tengjast hafinu, geta miðlað af mikilli reynslu sinni á þessu sviði.
12. Þróunarmál
Utanríkisráðuneytið hefur nú tekið við forsvari málefna Alþjóðabankans af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Í tengslum við þetta hef ég tekið sæti í þróunarmálanefnd bankans og gegni formennsku þar fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Þróunarmálanefndin markar stefnu bankans í þeim þróunarmálum sem hæst bera hverju sinni. Síðustu árin hefur þróunarsamvinna á alþjóðavettvangi tekið miklum breytingum. Aðstoð við þróunarríkin tekur nú æ frekar mið af frammistöðu viðkomandi ríkja. Ísland hefur haft þetta að leiðarljósi í tvíhliða þróunarsamvinnu með góðum árangri, eins og umsvif okkar í sunnanverðri Afríku bera vott um.
Nauðsynlegt er að styrkja þátttöku okkar í fjölþjóðlegu þróunarstarfi, ekki síst með það í huga að liðsinna fátækustu þjóðunum. Í þróunarmálum verður samt að hafa heildarmyndina í huga. Lítil framþróun mun eiga sér stað, þar sem ófriður ríkir, jafnrétti og mannréttindi eru fótum troðin og félagslegar þarfir fólks hafðar að engu. Íslensk stjórnvöld hafa nú um nokkurra ára skeið greitt í sérstakan Þróunarsjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir konur. Einnig hefur UNIFEM-félagið á Íslandi verið styrkt til þess að aðstoða við verkefni í Andesfjöllum og á Yukatan-skaga í Mexíkó, sem miða að því að renna efnahagslegum stoðum undir lífsbaráttu kvenna á þessum svæðum.
Á sama hátt hefur þátttaka Íslands í uppbyggingarstarfinu í Bosníu og Herzegóvínu miðast við aðstoð við þær þúsundir, sem örkumlast hafa í styrjöldinni. Aðstoðarverkefnið er unnið í samvinnu við stoðtækjafyrirtækið Össur h/f, Alþjóðabankann og heilbrigðisyfirvöld í Bosníu og Herzegóvínu. Ákveðin eru nú einnig verkefni á sviði ungbarna- og mæðraverndar.
13. Alþjóðaviðskiptastofnunin
Árangur ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í desember síðastliðnum endurspeglar að stofnunin hefur reynst starfi sínu vaxin sem útvörður hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis og hreyfiafl frjálsræðis í heimsviðskiptum. Samningaviðræður um frelsi í grunnfjarskiptaþjónustu fengu byr undir báða vængi og hafa þær nú verið leiddar til lykta og taka skuldbindingar gildi frá og með 1. janúar 1998. Þar tók Ísland á sig skuldbindingar um almennan markaðsaðgang í takt við nágrannaríki sín og þá frjálsræðisþróun, sem átt hefur sér stað innan ramma EES.
Samkomulag hefur tekist um afnám tolla á ýmsar vörur tengdar upplýsingatækni, svo sem tölvur, hugbúnað og fjarskiptatæki. Að þessu tímamótasamkomulagi standa 40 ríki og er þátttaka Íslands í samræmi við framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið. Með henni er almenningi og atvinnuvegum þjóðarinnar tryggður greiður aðgangur að upplýsingasamfélaginu og er jafnframt stuðlað að útflutningi á þeirri auðlind sem finnst í íslensku hugviti.
Með grunnfjarskipta- og upplýsingatæknisamningunum hefur WTO lagt hornstein að viðskiptakerfi 21. aldarinnar og treyst grundvöll undir hagsæld aðildarríkja.
Um þessar mundir eru að hefjast á ný eftir nokkurt hlé flóknar viðræður um frekara frjálsræði á sviði fjármálaþjónustu. Vonast er til að þeim megi ljúka á árinu og sem fyrr mun Ísland leggja sitt af mörkum til að það megi takast.
Viðræður um tengsl viðskipta- og umhverfismála hafa verið áberandi innan WTO síðustu árin, en árangurinn hefur því miður látið á sér standa. Á þessu sviði sem og öðrum verður stofnunin að sýna að hún sé starfi sínu vaxin, en um gífurlega flókið og fjölþætt viðfangsefni er að ræða.
14. Hafréttar- og auðlindamál
Undanfarin ár hafa veiðar íslenskra skipa utan efnahagslögsögunnar fært þjóðarbúinu verulegar tekjur. Vonandi verður framhald á því, en á það ber að líta að sókn í fiskimiðin á úthafinu hefur stóraukist og er Norðaustur-Atlantshafið þar ekki undanskilið. Brýnt er að koma stjórn á þær veiðar sem ekki lúta neinni stjórn enn.
Ísland fullgilti nýverið úthafsveiðisamninginn. Kjarni hans eru reglur um samstarf strandríkja og úthafsveiðiríkja á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistofnana um verndun og stjórnun veiða úr fiskstofnum sem ganga inn og út úr lögsögu ríkja.
Um þessar mundir á sér stað endurskipulagning ýmissa svæðisstofnana í ljósi þessarar þróunar á alþjóðavettvangi. Hafa Íslendingar tekið virkan þátt í því starfi og lagt á það mikla áherslu.
Undanfarin misseri hafa íslensk stjórnvöld, sem kunnugt er, átt viðræður við nágrannaríkin um stjórnun veiða úr einstökum fiskstofnum. Á ársfundi NEAFC var endurnýjað það samkomulag sem náðist í fyrra um skiptingu veiðiheimilda á úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Brýnt er koma heildarstjórn á veiðarnar með fullri þátttöku allra aðila.
Í desember síðastliðnum var í Osló undirritaður sögulegur samningur milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Þar með hefur í fyrsta skipti náðst stjórn á veiðum allra þeirra landa sem stundað hafa veiðar úr stofninum. Hlutur Íslands er viðunandi. Á nýafstöðnum aukafundi NEAFC var gengið frá samkomulagi um stjórn veiða úr stofninum utan lögsögu aðildarríkja NEAFC, það er í Síldarsmugunni svokölluðu, á þessu ári. Samkvæmt samkomulaginu er aðilum síldarsamningsins heimilt að veiða allan sinn kvóta í Síldarsmugunni.
Á fundi Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, síðastliðið haust var ákveðið að beita áfram sóknarstýringu við rækjuveiðar á Flæmingjagrunni nú í ár. Í kjölfarið tóku íslensk stjórnvöld einhliða ákvörðun um 6.800 lesta heildaraflamark fyrir íslensk skip á svæðinu á þessu ári, sem felur í sér að dregið er verulega úr veiðunum frá því í fyrra. Þessi ákvörðun var óhjákvæmileg í ljósi ástands rækjustofnsins og hefur hlotið skilning nágrannaþjóða okkar.
Nýlega fóru fram viðræður Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga um ástand grálúðu- og karfastofna og veiðar úr þeim. Afar mikilvægt er að gott samstarf náist við grannþjóðir okkar um sameiginlegar aðgerðir til verndunar þessum stofnum.
Óhætt er að segja að vaxandi skilningur sé meðal fiskveiðiþjóða á Norður Atlantshafi um mikilvægi samstarfs um verndun og nýtingu auðlinda sjávar. Undanfarið hefur staðið yfir undirbúningur ráðuneyta að tvíhliða viðræðum við Rússa um sjávarútvegsmál, sem vonast er til að ljúki á næstu mánuðum og muni efla samvinnu þjóðanna í sjávarútvegi og viðskiptum.
Samningaviðræður um þorskveiðar okkar í Barentshafi hafa enn ekki borið árangur og er það miður. Ljóst er að íslensk stjórnvöld hafa sýnt vilja til að leysa þetta mál, en að okkar mati hefur nokkuð skort á hjá viðsemjendum okkar. Mikilvægt er að koma stjórn á veiðar íslenskra skipa á svæðinu og verður haldið áfram að leita leiða til samkomulags.
Í kjölfar loðnuveiða danskra skipa innan íslenskrar lögsögu norður af Kolbeinsey kom á ný upp ágreiningur milli Íslendinga og Dana um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Grænlands, svo og hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja. Stjórnvöld beggja landanna hafa lagt áherslu á að leita varanlegrar lausnar á málinu og farið hafa fram samningaviðræður embættismanna í þessu skyni. Hafa þær verið vinsamlegar og gagnlegar og verður fram haldið á næstu mánuðum.
Það er afdráttarlaus stefna Íslands að nýta beri með sjálfbærum hætti allar lifandi auðlindir hafsins, þar með talið hvali, enda skipa sjávarspendýr stóran sess í lífríki íslenska hafsvæðisins. Afstaða til verndunar og nýtingar hvala hlýtur því að stjórnast af sömu grundvallarreglum og gilda um aðrar auðlindir Íslands. Spurningin er ekki hvort – heldur hvenær – Íslendingar hefja hvalveiðar hér við land að nýju. Mikilvægt er í því sambandi að hafa náið samráð og samstarf við öll ríki sem málið varðar.
*
Ljóst er að miklar breytingar eiga sér stað um þessar mundir og búast má við nokkrum kaflaskiptum með haustinu. Þá verður til dæmis væntanlega lokið ríkjaráðstefnu ESB, jafnframt því sem leiðtogafundur NATO mun hafa tekið ákvörðun um fyrsta hóp nýrra aðildarríkja.
Því tel ég rétt að gefa Alþingi yfirlitsskýrslu um utanríkismál almennt og víðtækar en kostur er í yfirlitsræðu sem þessari. Sú skýrsla verður lögð fram á komandi vetri, samhliða reglulegri haustumræðu um utanríkismál.
*
Herra Forseti,
Það eru alkunn sannindi að fáar þjóðir eiga jafnmikið undir alþjóða samskiptum og við Íslendingar. Án öflugra utanríkisviðskipta væru lífskjör hér á landi ekki sambærileg við það sem best gerist hjá nágrannaþjóðum okkar, eins og raunin er. Að sama skapi erum við háð nánu samstarfi við bandamenn okkar hvað varðar öryggi og varnir landsins. Fáar þjóðir eiga eins mikið undir því að vel sé staðið að verki varðandi mótun og rekstur utanríkisþjónustunnar og að breið samstaða verði áfram um grundvallarþætti utanríkisstefnunnar.