Ávarp ráðherra á hátíðarfundi UNIFEM á Íslandi
25. október 1997
Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra,
á hátíðarfundi UNIFEM á Íslandi
á hátíðarfundi UNIFEM á Íslandi
Heiðruðu fundargestir,
Ég vil hefja mál mitt með því að þakka UNIFEM-félaginu á Íslandi fyrir að hafa boðið mér að flytja ávarp á þessum hátíðarfundi, sem haldinn er í tengslum við dag Sameinuðu þjóðanna, hinn 24. október.
Utanríkisráðuneytið hefur um nokkurt skeið átt gott samstarf við UNIFEM á Íslandi og haft tök á að styrkja félagið til góðra verka í þróunarlöndunum. Í því sambandi var einkar ánægulegt að frétta á sínum tíma, að þróunarverkefnið, sem UNIFEM á Íslandi styrkti í Andesfjöllum, hefði fengið sérstaka viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna fyrir góðan árangur, og að fulltrúi verkefnisins hafi getað heimsótt Ísland í fyrra. Við getum verið stolt af því, að Ísland er eitt af sautján ríkjum, þar sem starfandi er sérstakt UNIFEM-félag.
Það er mér einnig ánægjuefni, að UNIFEM á Íslandi ætli að verja mestum hluta af styrk ráðuneytisins árið 1997 til þróunarverkefnis í þágu fátækra Mayakvenna á Yucatanskaga í Mexíkó. Afar mikilvægt er, að hið alþjóðlegt samfélag leggi sitt af mörkum, til að renna stoðum undir efnahagslegt sjálfstæði þeirra þjóðfélagshópa, sem minna mega sín.
Íslensk stjórnvöld hafa einnig um nokkurt skeið greitt frjálst framlag til UNIFEM-þróunarsjóðsins, sem skrifstofu hefur í New York og starfar sem sjálfstæð stofnun innan Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP), með því markmiði að styrkja konur í þróunarlöndunum efnahagslega og stjórnmálalega og að tryggja þátttöku kvenna á öllum stigum þróunarverkefna.
Á síðustu misserum hafa stjórnvöld leitast við að endurmeta þróunarsamstarf Íslendinga, bæði hvað snertir tvíhliða samstarf og þátttöku okkar í fjölþjóðlegu samstarfi. Við höfum reynt að láta markvisst til okkar taka í þróunarsamvinnu, og beina kröftum þangað sem þörfin hefur verið mikil, til dæmis í þágu kvenna, en einnig þar sem við höfum haft eitthvað umtalsvert fram að færa, eins og á sviði nýtingar lífrænna auðlinda hafsins og nýtingar vistvænnar orku.
Á sama hátt hefur verið reynt að styrkja þátttöku okkar í fjölþjóðlegu þróunarstarfi, einkanlega í tengslum við þær stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem leitast við að aðstoða fátækustu ríkin. Þess má geta til dæmis að í ársbyrjun tók Ísland sæti í Efnahags- og félagsmálaráði samtakanna, en ársfundur hans í sumar var að miklu leyti helgaður þróunarsamvinnu og vanda þróunarríkjanna.
Utanríkisráðuneytið hefur nú tekið við forsvari málefna Alþjóðabankans af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Í tengslum við þetta hef ég tekið sæti í þróunarmálanefnd Alþjóðabankans fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, en nefndin er sá aðili, sem einna helst mótar stefnu bankans og stofnana hans í þróunarmálum.
Innan ramma Alþjóðabankans hafa íslensk stjórnvöld reitt af hendi framlag til sérstaks sjóðs Alþjóðaframfarastofnunarinnar, IDA, sem aðstoðar fátækustu þróunarríkin, auk þess sem greitt hefur verið um nokkurra ára skeið í sérstakan sjóð innan bankans sem styrkir íslenska sérfræðinga til þátttöku í tækniaðstoðarverkefnum í þágu þróunarríkjanna. Stefnt er að framlagi í sérstaka aðstoðaráætlun Alþjóðabankans fyrir þau ríki sem bera þyngstu skuldabyrðirnar.
Á síðustu árum hefur þróunarsamvinna tekið miklum breytingum. Aðstoð við þróunarríkin tekur nú æ meira mið af frammistöðu viðkomandi ríkja. Ísland hefur einnig haft þetta að leiðarljósi í þróunarsamvinnu með góðum árangri, eins og umsvif okkar í suðurhluta Afríku bera vott um. Nauðsyn ber til að halda áfram á sömu braut og styrkja tvíhliða þróunarsamvinnu.
Veigamesti þáttur í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslendinga er viðleitni til að kenna fólki að bjarga sér sjálft og fjarfesta þannig í fólki. Í samstarfsverkefnum okkar í Afríku höfum við kennt sjómönnum og skipstjórnarmönnum að veiða, fólki í landi að vinna aflann og koma honum síðan á markað.
Það er ánægjulegt að sjá, að aðstoðarverkefni UNIFEM lúta sömu lögmálum; konum er kennt að nýta þá möguleika, sem fyrir eru á viðkomandi svæði, og að koma seljanlegum vörum á markaðinn.
Í þróunarsamvinnu verður ávallt að hafa heildarmyndina í huga. Lítil framþróun mun eiga sér stað, þar sem ófriður ríkir, jafnrétti og mannréttindi eru fótum troðin, heilsugæsla fyrirfinnst ekki, menntun forsmáð og félagslegar þarfir fólks hafðar að engu.
Á næsta ári verða fimmtíu ár liðin frá því aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu mannréttindayfirlýsinguna. Hún er í eðli sínu algild og leiðarljós í baráttu fyrir mannréttindum, hvar sem er í heiminum. Mannréttindi eru órjúfanlegur þáttur í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna. Varnalegum friði verður ekki komið á á ófriðarsvæðum án þess að mannréttindi séu tryggð.
Auk mannréttindayfirlýsingarinnar er Samningurinn um afnám allrar mismununar gagvart konum grundvöllur að starfi okkar í þágu kvenna. Ég vil einnig minna á niðurstöður kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking í þessu sambandi, en starfandi er samráðshópur hér á landi um framfylgd ákvarðana hennar.
Mikilvægt er að aðstoða þá þjóðfélagshópa, sem eiga undir högg að sækja og búa við skert réttindi. Konur eru einn slíkur hópur og með þetta í huga hafa íslensk stjórnvöld meðal annars greitt í UNIFEM-þróunarsjóðinn, og leitast þannig við að stuðla að efnahagslegu sjálfstæði þeirra kvenna, sem verkefni UNIFEM ná til.
Í þessu sambandi vil ég geta þess að í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september hafði ég tækifæri til að minna á mikilvægi þess að auka möguleika kvenna til menntunar og atvinnu. Víða er sótt að réttindum kvenna undir yfirskini hefða og trúarbragða og leitast við að skerða möguleika þeirra til menntunar og eðlilegrar þátttöku í samfélaginu.
Í umfjöllun og tillögum í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf hefur sérstaklega verið gætt að mannréttindum kvenna og stúlkna, og hefur Ísland þar gerst meðflytjandi að mörgum slíkum tillögum um mannréttindaástand víða um heim.
Góðir áheyrendur,
Að mínu mati er starfsemi sjálfstæðra félaga eins og UNIFEM á Íslandi afar mikilvæg fyrir starf stjórnvalda að þróunarmálum, mannréttinda- og jafnréttismálum. Utanríkisráðuneytið hefur leitast við að koma á samstarfi við sem flest félög af þessu tagi. Samráð var til dæmis haft við Mannréttindaskrifstofu Íslands um málflutning um mannréttindamál á ársfundi Efnahags- og félagsmálaráðsins í sumar, sömu sögu er að segja um samráð við samtökin Barnaheill um málflutning á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en þau hafa jafnframt verið styrkt til þátttöku í alþjóðaráðstefnum um málefni barna. Markvisst er stefnt að því að auka slíkt samráð og stendur til að boða til samráðsfundar ráðuneytisins með sjálfstæðum félögum um málefni Sameinuðu þjóðanna innan tíðar.
Ég vil að lokum láta í ljós von um að starf félagsins verði sem öflugast í framtíðinni.
- Takk fyrir.