Uppbyggingarstarfið í Bosníu Herzegóvínu - grein birt í Morgunblaðinu
14. desember 1997
Grein utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar
Uppbyggingarstarfið í Bosníu og Herzegóvínu
Birt í Morgunblaðinu
Uppbyggingarstarfið í Bosníu og Herzegóvínu
Birt í Morgunblaðinu
Nú eru liðin tvö ár frá því að Dayton friðarsamningurinn var undirritaður í París. Á þessum tímamótum er við hæfi að beina sjónum að því mikilvæga uppbyggingarstarfi sem nú fer fram í Bosníu og Herzegóvínu. Við undirritun samningsins hafði blóðugt borgarastríð geisað í landinu í meira en þrjú ár. Í þessu stríði er áætlað að 250.000 manns hafi látið lífið, 200.000 hafi særst og a.m.k. 13.000 manns orðið fyrir varanlegu heilsutjóni. Strax að lokinni undirritun hófst öflugt uppbyggingarstarf sem í megin dráttum er þríþætt: Samkvæmt umboði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna tryggir herlið Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess, SFOR, frið og skapar öruggt umhverfi fyrir aðrar alþjóðastofnanir er sinna uppbyggingarstarfi. Í öðru lagi, gegnir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, veigamiklu hlutverki varðandi undirbúning og eftirlit með framkvæmd kosninga í landinu, stuðlar að eflingu mannréttinda og er vettvangur afvopnunarviðræðna. Í þriðja lagi, leiða Evrópusambandið og Alþjóðabankinn samstarf u.þ.b. 50 ríkja og 10 alþjóðastofnana um að koma efnhagslífi landsins á réttan kjöl. Í mars 1996 samþykkti ríkisstjórn Íslands að verja 110 milljónum króna til uppbyggingarstarfsins. Tíu milljónir fóru til bráðabirgðaaðgerða og voru þær lagðar í sérstakan neyðarsjóð Alþjóðabankans. Jafnframt var ákveðið allt að 100 milljóna króna framlag sem varið yrði til endurreisnar og uppbyggingar á árunum 1996 til 1999. Þessu til viðbótar starfar nú íslensk heilsugæslusveit, skipuð tveimur læknum og tveimur hjúkrunarfræðingum, í SFOR undir verkstjórn breska hersins. Auk þess sem þrír íslenskir lögreglumenn starfa í alþjóðalögreglu Sameinuðu þjóðanna.
Íslensk aðstoð við fórnarlömb stríðsins
Uppbyggingarstarfið í Bosníu og Herzegóvínu er umfangsmikið og flókið. Það er því mikilvægt fyrir lítil ríki eins og Ísland að aðstoð þeirra sé skýrt afmörkuð og vel skilgreind. Strax í upphafi mörkuðu íslensk stjórnvöld þá stefnu að beina meginþorra framlaga að tveimur verkefnum á sviði heilbrigðismála og hefur gott samstarf myndast við Alþjóðabankann um framkvæmd og eftirlit með framvindu þessara verkefna.
Að höfðu samráði við heilbrigðisyfirvöld í Bosníu og Herzegóvínu var boðin aðstoð við þau fórnarlömb stríðsins sem misst hafa fætur neðan við hné. Stoðtækjafyrirtækið Össur hf. er á meðal hinna fremstu á sínu sviði í heiminum og þótti því tilvalið að leita eftir samstarfi við fyrirtækið um framkvæmd verkefnisins. Gerður var samningur um að Össur hf. þjálfi starfsmenn á stoðtækjaverkstæðum í Bosníu og Herzegóvínu og leggi til allan búnað til framleiðslu gervifóta. Nú þegar hafa sérfræðingar Össurar hf. þjálfað starfsólk á þremur stoðtækjaverkstæðum og er meðferð sjúklinga sem þarfnast gervifóta í fullum gangi. Þegar verkefninu lýkur munu allt að 600 einstaklingar hafa notið góðs af frumkvæði Íslendinga.
Það er samdóma álit þeirra er koma að þessu verkefni að árangurinn sé ótvíræður og er það skoðun mín að vel hafi tekist til af hálfu Íslendinga. Þörfin á þessu sviði er mikil og íslensk sérfræðiþekking í hæsta gæðaflokki. Ég var svo heppinn að hafa tækifæri til að heimsækja Bosníu og Herzegóvínu í júní síðastliðnum. Þar sá ég með eigin augum hvers vænta má af þessu starfi. Stór hluti sjúklinga eru börn sem misst hafa útlimi af völdum jarðsprengja og eru örkuml þeirra yfirleitt slæm og vandasöm meðhöndlunar. Með réttri aðstoð gerast lítil kraftaverk og börn sem misst hafa báða fætur geta nú hlaupið um og tekið þátt í leikjum jafnaldra sinna. Eins sá ég hvernig ungt fólk með brostna framtíð öðlast nýtt líf með aðstoð stoðtækja og getur tekið fullann þátt í enduruppbyggingu landsins.
Sálarkvöl fórnarlamba stríðsins er mikil og þau sár gróa seint. En þakklætið í augum þess fólks sem ég hitti á ferðalagi mínu sannaði svo ekki verður um villst að hvert framlag getur skipt sköpum.
Áframhald aðstoðar Íslands
Annar meginþátturinn í aðstoð Íslendinga er á sviði barnalækninga, kvensjúkdómalækninga og mæðraverndar. Nýlega var íslensk sendinefnd á ferð í Bosníu og Herzegóvínu til að leggja drög að þessu verkefni sem mun hefjast á fyrri hluta næsta árs. Ástand heilbrigðismála í landinu er mjög alvarlegt og sem dæmi hefur ungbarnadauði tvöfaldast frá árinu 1990. Verkkunnátta á sviði barnalækninga, kvensjúkdómalækninga, og mæðraverndar er til staðar í landinu, en skortur er á vinnureglum og þjálfuðum mannafla. Auk þess er aðbúnaður á sjúkrastofnunum ekki viðunandi.
Frá lokum stríðsins hefur þessum málaflokki ekki verið sinnt sem skyldi og því er Ísland að taka þarft frumkvæði. Aðstoð Íslands mun fyrst og fremst beinast að þjálfun og endurmenntun. Hópur lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra frá þremur borgum í Bosníu og Herzegóvínu, Sarajevo, Mostar og Tuzla kemur til Íslands til að endurnýja þekkingu sína á þessu sviði. Í framhaldi af því munu íslenskir sérfræðingar og hjúkrunarfólk heimsækja Bosníu og Herzegóvínu til að fylgja málum eftir og annast þjálfun og kennslu í samvinnu við þarlenda aðila. Íslensk stjórnvöld munu leggja til allan nauðsynlegan kennslubúnað og þýdd kennslugögn.
Íslensk þekking á sviði læknavísinda er með því besta sem þekkist og í þessu verkefni mun hún nýtast einstaklega vel. Heimamenn í Bosníu og Herzegóvínu eru afskaplega áhugasamir um framkvæmd verkefnisins og viðbrögð annarra landa er sinna hjálparstörfum eru mjög jákvæð. Ég er því vongóður um árangur og sannfærður að með þessum hætti sé framlagi Íslands vel varið. Það er þó nauðsynlegt að sýna þolinmæði, því hér er hugsað til framtíðar, og áþreifanlegur árangur mun ekki koma í ljós fyrr en að nokkrum árum liðnum.
Til viðbótar fyrrnefndum verkefnum er vert að minnast á stuðning stjórnvalda við lofsvert framtak Blindrafélags Íslands til aðstoðar systurfélögum í Bosníu og Herzegóvínu, og átak Stúdentaráðs Íslands, sem safnað hefur kennslugögnum og tækjum og sent háskólum í hinu fyrrum stríðshrjáða landi.
Allir verða að leggjast á eitt
Uppbyggingarstarfið í Bosníu og Herzegóvínu mun taka mörg ár og hörmungar stríðsins munu lifa með íbúum landsins um ókomna framtíð. Á þeim tveimur árum sem nú eru liðin frá undirritun friðarsamningsins hefur ýmislegt áunnist með góðri samvinnu heimamanna og samfélags þjóðanna. Lögð hefur verið áhersla á húsnæðis- og menntamál, ríkisstofnanir hafa verið endurreistar, og félagsleg þjónusta styrkt. Þá hefur mikil áhersla verið lögð á uppbyggingu atvinnulífsins og sköpun nýrra atvinnutækifæra. Í heild má segja að árangur uppbyggingarstarfsins sé ásættanlegur og hefur efnahagsbati Bosníu og Herzegóvínu verið hraðari en vonir stóðu til. En betur má ef duga skal. Ótryggt stjórnmálaástand hefur hamlað ábyrgri efnahagsstjórn og enn er langt í land á sviði samgöngumála, orkumála, fjarskiptamála og heilbrigðismála svo dæmi séu tekin.
Það er mikilvægt að Ísland taki þátt í uppbyggingarstarfinu sem nú fer fram í Bosníu og Herzegóvínu og skorist ekki undan ábyrgð á alþjóðavettvangi. Áætlað er að það uppbyggingarstarf sem nú stendur yfir muni kosta rúmlega 5 milljarða bandaríkjadala. Í því samhengi virðast framlög Íslands lítilvæg. En hér snýst þátttakan ekki einungis um krónur og aura, heldur einnig um siðferði og samkennd. Aðstoð Íslands getur skipt sköpum fyrir þúsundir íbúa landsins og ég þori að fullyrða að þeim peningum er vel varið.