Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. desember 1997 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Hátíð lífs og ljóss - grein birt í dagblaðinu Degi

23. desember 1997

Grein utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar
Hátíð lífs og ljóss
Birt í dagblaðinu Degi

Í myrkasta skammdegi hins íslenska vetrar, sem samkvæmt legu landsins er oft harður og erfiður, hefur almættið í visku sinni gefið okkur hlýrra jólaveður en menn muna. Boðskapur jólanna lýsir því bjart í fleiri en einum skilningi, þegar við þufum helst á ljósi að halda. Sá boðskapur á auðvitað jafnmikið erindi við þá, sem búa annars staðar, en fáir gætu mælt því í mót, að tímasetning jólanna er landsmönnum hagstæð. Fróðlegt væri að velta því fyrir sér, hvernig jólahald yrði ef það félli á mitt sumar, á þeim tíma sem best hentar til sumarleyfa og þegar ýmis störf sem aðeins er þá hægt að vinna standa sem hæst, en best er að geyma þær vangaveltur .

Velmegun og skyldur
Þegar jólin nálgast leitar margt á hugann. Flestir huga að undirbúningi jólanna, en hann er orðinn býsna umfangsmikill hjá okkar kynslóð. Undirbúningur jólanna miðar nær allur að því að tryggja vellíðan fjölskyldu og vina yfir hátíðarnar. Jafnframt er mörgum ofarlega í sinni, að leggja því fólki lið, sem hefur mætt andstreymi og hörmungum. Þörfin er mikil og neyðin víða sár. Þróunarsavinnustofnun Íslands hefur með höndum þau erlendu hjálparverkefni, sem kostuð eru af skattfé landsmanna samkv. ákvörðun Alþingis og fjölmörg frjáls félög með Rauða Kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar í broddi fylkingar vinna sömuleiðis mjög giftudrjúgt starf heima og erlendis. Nauðsynlegt er að landsmenn allir, bæði stjórnmálamenn og aðrir, skilji, að velmegun landsins leggur okkur þær skyldur á herðar að liðsinna þjáðum meðbræðrum sem landfræðileg tilviljun hefur fært ógæfu, fátækt, hungur, eða ófrelsi.

Hátíð barnanna
Við segjum oft að jólin séu hátíð barnanna.Það eru þau ekki síst vegna þess að jólin eru fæðingarhátíð, fæðingarhátíð sjálfs frelsarans. Kærleikurinn sem hann boðaði verður einna tærastur í sambandi barna og þeirra sem fullorðnir eru. Mikilvægt er hverju barni að upplifa kærleika jólanna og boðskap þeirra um frið á jörð. Barnstrú er hugtak sem okkur er tamt að nota. Hjá flestum táknar hún kærleik án skilyrða, án þess að flækja hann hann í viðjar eigin reynsluheims, sem oft er yfirfullur af ýmsu sem er síður mikilvægt, en sú barnstrú, sem margir glata um sinn. Ekki má þó gleyma, að trúin verður ekki til af sjálfri sér heldur sprettur hún af þeim fræjum, sem fullorðnir sá í barnssálina. Öll erum við sammála um að barnstrúin er eftirsóknarverð, æskileg og fögur. Þeim mun mikilvægara er hlutverk okkar við að koma til barnanna þeim boðskap sem trúin sprettur af. Barnstrúin nærist síðan á því sem fyrir þeim er haft og því er dyggðugt líferni hvorutveggja í senn, sáning og uppskera.

Breyttur heimur
Við sem nú erum á miðjum aldri höfum lifað miklar breytigar og þeir sem aldnir eru horfa um öxl, yfir sitt æviskeið, fullir undrunar yfir breyttum aldarháttum. Jól barnanna minna eru töluvert frábrugðin þeim, sem mér voru ánægjuefni sem barn og jólin sem foreldrar mínir sögðu mér frá voru með allt öðrum hætti. Heimurinn sem ég bjó í sem barn er allur annar, en sá sem mín börn fæddust til. Landamæri minnar heimsmyndar voru skýr. Tignarlegur fjallahringur og tvísýn vötnin lokuðu byggðina af. Yfir þessi landamæri var ekki farið nema nauðsyn bæri til. Nú eru þessar hindranir náttúruperlur og til ánægju sem slíkar og einu hindranirnar á ferðum manna milli landshluta og landa eru fjárhagslegar. Í stöku löndum hafa vondir og grimmir stjórnendur lokað löndum sínum. Í þessum löndum er fólk miskunnarlaust kúgað. Þeir sem hafa áhuga geta fyrirhafnarlítið kynnt sér menningu og siði annarra þjóða og víst er að framfarir hér á landi hafa að miklu leyti byggt á samskiptum við önnur ríki, bæði viðskiptum og menntun. Ekki er allt hollt sem flæðir á milli landa og óvandaðir menn reyna að græða fé með því að spilla æsku heimsins með eiturlyfjum. Gegn alþjóðlegri ógn verður að bregðast með alþjóðlegu átaki.

Mikil mengun er nú af mörgum talin tefla framtíð komandi kynslóða í tvísýnu. Í margar aldir hafa iðnríki heims safnað gríðarlegum auðæfum með ýmiskonar atvinnurekstri, sem gengið hefur nærri náttúru landa þeirra og nýlendna með tilheyrandi mengun andrúmsloftsins fyrir okkur öllum. Það er lán Íslendinga, að efnahagur okkar hvílir að mestu á endurnýjanlegum auðlindum og því berum við mjög litla ábyrgð á því ástandi sem blasir við.

Okkur er til mikils sóma að hafa verið fyrstir þjóða til að setja reglur um umgengni við auðlindir sjávar. Ábyrg afstaða okkar og forysta við gerð hafréttarsáttmála S.Þ. vakti sömuleiðis athygli víða um heim. Við þurfum áfram að sýna fyllstu gætni og ábyrgð í umgengni okkar við umhverfi og auðlindir, hér heima og í hnattrænu tilliti. Við erum ekki sökudólgar í þessu tilliti. Við höfum verið til fyrirmyndar á flestum sviðum. Íslendingar þurfa því ekki að fara með veggjum þegar sérstaða okkar er kynnt og eðlilegt að taka tilliti til.

Friður jóla
Sá heimur sem við blasir nú um þessi jól, er ekki eingöngu heimur í anda Krists og ekki svífur boðskapur jólanna alls staðar yfir vötnum. Oft fallast okkur hreinlega hendur, þegar við máttvana verðum vitni að þeirri illsku og mannvonsku, sem víða er að finna í veröldinni. Samt eru tækifærin, tækin og tæknin til að berjast gegn því illa betri en nokkru sinni fyrr. Grimmd, misþyrming og misnotkun á börnum viðgengst víða um heim og eru þau mál blettur á samfélagi þjóðanna og til smánar. Þjóðir heims hljóta að gera baráttuna gegn illri meðferð á æskufólki að forgangsmáli, og við Íslendingar getum lagt mikið af mörkum, þrátt fyrir að við séum fáir.

Á morgun er aðfangadagur jóla og hátíð lífs og ljóss gengur í garð. Jólin boða okkur frið og kærleika. Öllum er hollt að nota helgi og næði jólanna til að huga að framtíð sinni og fjölskyldu sinnar. Erum við sátt við þann farveg sem líf okkar er í? Getum við glatt fleiri en við höfum hingað til gert?

Á jólunum eiga menn að reyna að finna sálarró og þá er stund til að ýta frá sér firringu hinnar nýju tækni, sem gefur okkur mikla möguleika, en lítinn frið. "Guðs ríki er hið innra með yður" segir Jesús. Kærleikshugsjón jólanna og það friðsamlega andrúmsloft, sem þá ríkir gefur okkur tækifæri til að skerpa með okkur hugsunina um hvað í okkur býr og hvaða innri mann við höfum að geyma. Síðan eigum við að nota tímann til næstu jóla, til að lifa i sátt við þann mann. Að lokum vil ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla, og bið Guð að líkna þjáðum og þreyttum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta