Samskipti Íslands og Færeyja - grein birt í dagblaðinu Degi
28. apríl 1998
Samskipti Íslands og Færeyja
Birt í dagblaðinu Degi
Færeyingar standa Íslendingum mjög nærri og mikil hlýja einkennir samskipti þjóðanna. Íslendingar tala stundum um frændur sína á Norðurlöndum en bræður sína í Færeyjum. Mikill áhugi er fyrir Færeyjum á Íslandi og fylgist íslenska þjóðin grannt með því sem gerist í Færeyjum. Færeyingar horfa nú fram á bjartari tíma í efnahagsmálum eftir margra ára örugleika á því sviði. Það er afar mikilvægt fyrir Færeyinga að traust stjórn verði mynduð á eyjunum í kjölfar þingkosninganna sem eiga sér stað eftir nokkra daga.
Samofin saga
Sögur þjóðanna eru á margan hátt svipaðar. Íslendingasögur greina ekki jafn glöggt frá landnámi Færeyja og Íslands enda byggðust Færeyjar nokkuð fyrr. Færeyingar og Íslendingar yfirgáfu Noreg á svipuðum tíma. Líkt og á Íslandi settust írskir munkar fyrst að í Færeyjum en eyjarnar voru síðar byggðar frá Noregi. Þeirra er oft getið í Íslendingasögunum og ein þeirra, Færeyingasaga, fjallar um þá atburði sem gerðust þar fyrstu aldirnar eftir að Norðmenn námu eyjarnar. Víkingatímabilið er á margan hátt glæsilegt skeið í sögu beggja þjóða. Í kjölfar þess komu margar aldir örbirgðar og fátæktar. Það var ekki fyrr en seint á síðustu öld og á þessari sem verulegar breytingar til batnaðar áttu sér stað.
Tvær atvinnugreinar, sjávarútvegur og landbúnaður, hafa skipað mikilvægan sess í efnahagslífi þjóðanna og svo er einnig í dag. Fyrir nokkrum áratugum var algengt að færeysk fiskiskip væru gerð út frá Íslandi á sumrin. Færeyskir sjómenn réðu sig einnig á íslensk fiskiskip og jafnframt unnu Færeyingar við fiskvinnslu í landi. Settu þeir mikinn svip á bæjarlíf fiskibæja á þessum árum, einkum á Austurlandi, og sumir hverjir ílendust.
Færeyingar hófu veiðar á Íslandsmiðum 1872 og þær náðu hámarki upp úr 1930 þegar yfir 3.000 sjómenn stunduðu veiðar við Íslandsstrendur á rúmlega 150 skipum. Ekki er fjarri lagi að ætla að nær öll færeyska sjómannastéttin og allur færeyski flotinn hafi verið við landið á þessum tíma.
Færeyingar voru á margan hátt frumherjar í smábátaútgerð á Austfjörðum. Bátasmíði þeirra var rómuð og þeir höfðu mikil áhrif á útgerðarhætti og öll vinnubrögð Austfirðinga, bæði hvað varðaði bátasmíði og meðferð á veiðarfærum og fiski. Umsvif þeirra á Austfjörðum sköpuðu mikla atvinnu því þeir seldu fiskinn þar og renndu þannig víða stoðum undir atvinnulíf á Austurlandi. Bátar þeirra voru léttir og rennilegir. Þeir vöktu aðdáun og voru kallaðir Færeyingar. Frægasti bátasmiður þeirra á Íslandi, Jákup í Biskupastöð, kom fyrst til Austfjarða 1889 og talið er að hann hafi á 67 ára tímabili smíðað a.m.k. 1000 báta. Á árunum 1903-05 var meirihluti báta á Austfjörðum smíðaður í Færeyjum.
Færeyingar þóttu almennt mjög fisknir, voru miklir vinnuþjarkar og sváfu lítið. Eitt þúsund Færeyingar voru í vinnu um aldamótin á Íslandi, flestir á Austfjörðum. Færeyingar voru þá um 10.000 talsins. Mjög sterk bönd mynduðust milli Færeyinga og Íslendinga. Almennt má segja að til skamms tíma hafi aldrei verið litið á Færeyinga sem útlendinga á Íslandi heldur miklu frekar eins og t.d. Vestmannaeyinga. Þannig eiga Íslendingar og Færeyingar samofna sögu sem varðar mikilvægustu atvinnugrein beggja landa, sjávarútveginn.
Hvalveiðar
Líkt og Íslendingar hafa Færeyingar nýtt sér auðlindir hafsins með skynsamlegum hætti allt frá því sögur hófust. Veiðar á stórhvölum hófust í löndunum fyrir tilstilli Norðmanna seint á síðustu öld, þótt nýting grindarhvals í Færeyjum sé mun eldri. Engin vísindaleg rök mæla gegn skynsamlegri nýtingu hvala.
Vegna áhrifa umhverfissamtaka hafa þjóðir á norðurslóðum þurft að hætta nýtingu hvala tímabundið. Ofstæki sumra umhverfissamtaka í garð hvalveiða hefur leitt til þess að hefðbundnar veiðar, vinnsla og sala afurðanna hafa verið lagðar niður og í sumum tilfellum, eins og á Grænlandi, hafa nokkur samfélög mannanna lagst í eyði eða boðið mikinn skaða af þessum sökum.
Þjóðirnar eiga skýlausan rétt til að nýta auðlindir sínar á ábyrgan hátt. Umhverfisvernd af þessu tagi er engin umhverfisvernd. Hún miðar einungis að því að eyðileggja aldagamla lífshætti á norðurslóðum. Umhverfisvernd á að beinast gegn þeim sem spilla náttúrunni og útrýma einstökum tegundum fyrir komandi kynslóðum en ekki gegn þeim sem vilja nýta endurnýjanlegar auðlindir og ganga um þær af virðingu og ábyrgð. Fyrir fámennar þjóðir eins og Ísland og Færeyjar er á brattann gegn ofstæki sumra umhverfissinna í baráttunni fyrir hvalveiðum, enda þótt þessar þjóðir eigi í raun mörg sameiginleg baráttumál með þeim.
Íslendingar og Færeyingar eiga í sameiningu að kynna fyrir umheiminum menningu og lífshætti þjóðanna, sem eru um margt mjög lík. Þótt töluvert hafi verið gert í þessum efnum þurfa þjóðirnar að efla sem mest með sér samstarf á þessu sviði.
Á ári hafsins ætti það að vera ríkjum heims kappsmál að vernda hafið gegn mengun til að tryggt verði að komandi kynslóðir geti nýtt sér lifandi auðlindir þess til fæðuöflunar. Losun geislavirkra efna í hafið eða hætta á geislamengun frá endurvinnslustöðvum er ekki einkamál þeirra ríkja sem heimila slíkt. Geislamengun frá endurvinnslustöðvunum í Dounreay og Sellafield í Skotlandi hlýtur að valda Íslendingum og Færeyingum miklum áhyggjum og í síðustu viku mótmæltu íslensk stjórnvöld samkomulagi Breta og Bandaríkjamanna um flutning af auðugu úrani frá Georgíu til stöðvarinnar í Dounreay.
Nauðsynlegt er að Íslendingar og Færeyingar snúi bökum saman gegn mengun hafsins. Lífríki hafsins er of viðkvæmt til þess að fiskveiðiþjóðirnar Ísland og Færeyjar geti sætt sig við að Norður-Atlantshafið verði gert að ruslahaugum fyrir kjarnorkuúrgang.
Viðskipti Íslands og Færeyja
Viðskipti landanna geta ekki talist mikil þegar litið er á tölur um inn- og útflutning og þær bornar saman við heildarviðskiptin við útlönd. Færeyski útflutningsmarkaðurinn nemur innan við einum af hundraði af heildarútflutningi Íslands og innflutningurinn sömuleiðis innan við einum af hundraði. Þetta segir þó alls ekki alla söguna, því að baki þessum viðskiptum standa lítil og meðalstór fyrirtæki sem skipta þessi viðskipti miklu.
Færeyjar skipa sérstakan sess sem markaður fyrir útfluttar neytendaafurðir og ýmsan iðnaðarvarning. Í þessum hópi má m.a. telja unnar kjötvörur, mjólkurafurðir, tilbúnar fiskafurðir og umbúðir fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Vegna nálægðar Færeyja og Íslands og vegna þess hversu líkur færeyski neytendamarkaðurinn er þeim íslenska, er á vissan hátt hægt að segja að hann sé framhald af heimamarkaði íslenskra fyrirtækja. Útflutningur Færeyinga til Íslands hefur verið nokkuð sveiflukenndur í gegnum árin. Þó er ánægjulegt að hann hefur aukist nokkuð hin síðari ár.
Bein þátttaka íslenskra fyrirtækja í færeysku atvinnulífi hefur ekki verið mikil í gegnum tíðina. Þó má nefna vissar undantekningar eins og rekstur útgerðar frystitogara og nótaskips sem er samstarfsverkefni íslenskra og færeyskra aðilja. Þá stundar íslenskt flutningafyrirtæki starfsemi í Færeyjum. Einnig hefur verið samstarf á sviði fisksölu og fiskvinnslu milli íslenskra og færeyskra fyrirtækja. Þá er mikilvægt að geta þeirrar staðreyndar að Norræna, ferjan sem siglir reglulega milli Íslands og Færeyja á sumrin, hefur átt mikinn þátt í að aukningu ferðamannastraums á Íslandi, ekki síst á Austurlandi.
Í síðasta mánuði var haldin kaupstefna í Færeyjum, TórRek, þar sem íslensk og færeysk fyrirtæki kynntu vörur sínar og þjónustu. Þátttakendur hafa lýst yfir mikilli ánægju með þetta framtak og stefnt er að því að halda sams konar kaupstefnu í Reykjavík á næsta eða þar næsta ári undir yfirskriftinni RekTór. Kaupstefna að þessu tagi er mikilvægur vettvangur til að efla viðskipti milli landanna. Ég trúi því að samvinna milli færeyskra og íslenskra fyrirtækja geti verið veigamikill þáttur í aukinni velgengni beggja þjóða á komandi árum. Góð samvinna milli færeyskra og íslenskra fyrirtækja er tvímælalaust beggja hagur.
Samheldni
Færeyingar hafa ávallt brugðist fyrstir við þegar náttúruhamfarir hafa dunið á okkur Íslendingum og stutt rausnarlega við bakið á okkur. Sá stuðningur og hlýja sem Færeyingar hafa sýnt Íslendingum á ögurstundum mun aldrei líða okkur úr minni og ber hann þess glögglega merki hve fámennar þjóðir geta sýnt mikinn styrk þegar þær standa þétt saman. Í þessu samhengi er viðeigandi að vitna í eitt vers færeyska skáldsins Mikkjal á Ryggi, þar sem hann segir:
,,undur tykist øllum monnum
andi tín og verk;
flótt er undir køldum fonnum,
fáment tjóð er sterk."
Þetta er skáldsins lofgjörð til Íslands en innihald kvæðisins gæti jafnvel átt við vini okkar og frændþjóð, Færeyjar.