Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. nóvember 1998 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða ráðherra um utanríkismál á Alþingi

    Ræða utanríkisráðherra um utanríkismál á Alþingi
    5. nóvember 1998


    Talað orð gildir


    Á tímum örra breytinga og aukinnar alþjóðavæðingar, sem nær til allra meginþátta í lífi þjóðarinnar, starfa hennar og menningar, er öflug utanríkisþjónusta nauðsynleg. Íslendingar eru háðari umheiminum um afkomu en gengur og gerist meðal þjóðanna. Óvíða er stærri hluti heildarframleiðslu á vöru og þjónustu fluttur út. Mörkin milli innanríkis- og utanríkismála verða sífellt óljósari. Tengsl íslensku utanríkisþjónustunnar við atvinnuvegina í landinu hafa markvisst verið efld á undanförnum misserum. Utanríkisþjónustan er eðlilegasti vettvangurinn til að styðja við markaðssetningu íslenskra afurða erlendis. Alhliða tengsl hennar við íslenskt atvinnulíf er mikilvægur liður í að geta veitt þennan stuðning.


    Aukið vægi alþjóðamála.

    Nú er talið að um eitt hundrað milljónir manna hafi aðgang að alnetinu. Því er spáð að árið 2005 verði notendur orðnir um þúsund milljónir í heiminum. Vegalengdir á milli notendanna styttast, hvar svo sem þeir búa. Þetta hefur skapað okkur ný tækifæri, enda eru Íslendingar meðal forystuþjóða í þessari þróun og hugvits- og athafnamenn okkar hafa fært umtalsverðar tekjur í þjóðarbúið. Aftur á móti ber að hafa hugfast, að þrír fjórðu mannkyns eiga ekki síma, hvað þá tölvu og nettengingu. Allt of stór hluti íbúa heimsþorpsins svokallaða býr við sára fátækt og hefur engin tök á að njóta þó ekki væri nema brotabrots af þeim lífsgæðum, sem við búum við og teljum sjálfsögð. Iðnríkjunum ber skylda til að aðstoða þróunarlöndin og hefur ríkisstjórnin ákveðið að efla íslenska þróunaraðstoð.
    Mikilvægi auðlinda- og umhverfismála eykst stöðugt í samskiptum ríkja. Stofnun sérstakrar skrifstofu í utanríkisráðuneytinu sem fer með þau mál endurspeglar þetta og er unnið að því hörðum höndum að afla íslenskum sjónarmiðum fylgis á alþjóðavettvangi. Meginmál ræðu minnar á 53. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (S.þ.) var helgað nýtingu sjávarauðlinda í tilefni af hinu alþjóðlega ári hafsins.


    Í gær tók Ísland við varaformennsku í Evrópuráðinu og í maí á næsta ári munum við taka þar við formennsku í fyrsta sinn.

    Næsta ár verður Ísland í fyrirsvari fyrir norrænu ráðherranefndinni og mun m.a. bera ábyrgð á samræmingu norrænnar ríkisstjórnasamvinnu og eiga nauðsynlegt frumkvæði að málum. Samstarf Norðurlandanna hefur sennilega aldrei verið jafnöflugt og nú, þrátt fyrir aðild þriggja þeirra að Evrópusambandinu (ESB). Jafnframt er athyglisvert hve virkan þátt öll Norðurlöndin taka í alþjóðlegu og evrópsku samstarfi. Á meðan Ísland gegnir formennsku í norræna samstarfinu og Evrópuráðinu á næsta ári mun Noregur fara með formennsku í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og Finnland mun leiða starf ESB seinni helming ársins.


    Eftir hálft ár munum við minnast þess í Washington D.C. að fimmtíu ár eru liðin frá stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO). Saga bandalagsins og velgengni er ólygnust um réttmæti þeirrar framsýnu öryggisstefnu, sem forystumenn núverandi stjórnarflokka og Alþýðuflokksins mörkuðu fyrir hálfri öld, er Ísland gerðist stofnaðili að bandalaginu.

    Í ræðu minni í dag mun ég fjalla nánar um helstu þætti utanríkismálanna, Sameinuðu þjóðirnar (S.þ.), NATO, auðlindamál, samstarf Norðurlandanna, utanríkisviðskiptamál, Evrópuráðið, ÖSE, þróunarmál og fleira. Gefur augaleið að hvorki er hægt að gefa tæmandi yfirlit í þessari ræðu né fjalla um alla þá fjölbreytilegu þætti sem koma til kasta utanríkisþjónustunnar.

    Norrænt samstarf og grannsvæði.


    Norrænt samstarf verður í brennidepli á Íslandi árið 1999 þegar Ísland gegnir formennsku í norrænu ráðherranefndinni. Samstarf Norðurlandaþjóðanna, sem á sér langa sögu, er afar umfangsmikið og hefur nýst okkur á nánast öllum sviðum þjóðlífsins, milli ríkisstjórna, þingmanna, embættismanna, stofnana og félagasamtaka. Hin hefðbundna norræna samvinna fer m.a. fram á sviði menningar-, mennta- og rannsóknamála, efnahags,- félags-, löggjafar-, atvinnu- og umhverfismála auk landbúnaðar-, samgöngu- og fiskveiðimála. Óumdeilt er að norrænt samstarf er einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu.

    Norræn samvinna hefur aukist með nýjum straumum á alþjóðavettvangi. Ýmsir töldu að norrænt samstarf glataði merkingu sinni þegar þrjú norrænu ríkjanna gerðust aðilar að ESB. Raunin hefur orðið sú, að samráð Norðurlandanna er nú mikilvægara en nokkru sinni fyrr og hefur aukist á mörgum sviðum. Næsta víst er að frekari stækkun ESB leiðir til stóraukins svæðasamstarfs. Þar standa Norðurlöndin vel að vígi með sitt rótgróna samstarf og samnorrænu stofnanir.

    Nauðsynlegt er fyrir Íslendinga að staldra við og meta stöðu norræns samstarfs þegar við tökum við formennsku þess um næstu áramót. Á formennskuárinu gefst okkur tækifæri til að leggja áherslu á málefni sem við teljum sérstaklega brýn og koma Norðurlöndunum í heild til góða. Umhverfismálefni verða efst á baugi, einkum sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins á norðurslóðum, ekki síst í tengslum við ár hafsins og það starf sem unnið er á vettvangi S.þ. um þau málefni. Áhersla verður lögð á samstarf til að koma í veg fyrir mengun og tryggja skynsamlega nýtingu auðlinda hafsins, þar með talda nýtingu sjávarspendýra.


    Við munum leitast við að marka samnorræna stefnu varðandi norðlægu víddina, en þar er um að ræða tillögu sem Finnar hafa lagt fram innan Evrópusambandsins og miðar að því að ESB móti áætlun fyrir norðlægari hluta Evrópu líkt og gert hefur verið varðandi Miðjarðarhafssvæðið. Aukin áhersla ESB á norðlægu víddina getur haft mjög mikla þýðingu fyrir umhverfis-, atvinnu- og efnahagsmál á norðurslóðum og ekki síst evrópskt samstarf við Rússland. Áherslur Finna verða ofarlega á baugi á næsta ári þegar þeir taka í fyrsta sinn við formennsku í ESB. Á formennskuárinu er ennfremur stefnt að því að móta norrænt samráð varðandi Evrómyntina og fylgjast vel með reynslu Finna hvað það varðar. Við teljum einnig mikilvægt að tengja norrænt samstarf nýrri öld og landafundaárinu. Með því gefst gott tækifæri fyrir Ísland og önnur lönd, sem teljast til vesturhluta Norðurlandanna, til að verða í norrænu sviðsljósi.


    Þessar áherslur í norrænu samstarfi sýna glöggt vilja íslenskra stjórnvalda til að tengja norrænt samstarf alþjóðasamstarfi í víðara samhengi. Sú var tíð að tæpast mátti ræða utanríkismál á norrænum vettvangi, en nú þykir slíkt eðlilegur þáttur í því að laga samstarf Norðurlandanna að hinni hröðu þróun í alþjóðamálum. Þrískipting norræna samstarfsins í hefðbundin norræn málefni, grannsvæðamálefni og evrópsk málefni hefur gefist vel.
    Samstarf norrænu utanríkisráðherranna er náið og samskipti tíð, formlegt sem óformlegt. Í þessu samhengi má nefna norrænt samráð um málefni ESB, S.þ., Norðurskautsmál, þróunarmál, varnar- og öryggismál og mannréttindamálefni. Þetta samráð er afar mikilvægt fyrir Ísland og veitir okkur innsýn í ýmis málefni sem við eigum ekki kost á að sinna ein og sér.


    Á vegum norrænu utanríkisráðherranna var tekin saman skýrsla í ágúst sl. um norrænt samstarf. Niðurstaða hennar er sú að norræn samvinna hafi aldrei verið eins náin og mikilvæg sem nú.


    Tveir fundir utanríkisráðherra Norðurlanda verða haldnir hér í formennskutíð okkar á næsta ári. Í tengslum við seinni fundinn verður haldinn fundur með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja.


    Starfsemi Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og Norðurskautsráðsins stuðlar að jákvæðri þróun í samskiptum aðildarríkja á hinum ýmsu sviðum. Nefna má umhverfismál, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, efnahagssamvinnu og mannréttindamál. Utanríkisráðuneytið hefur í samstarfi við Flugmálastjórn boðið tveimur sérfræðingum frá hverju Eystrasaltsríkjanna til þjálfunar hjá Flugmálastjórn. Þetta er gott dæmi um hagnýta aðstoð á sviði þar sem Íslendingar hafa yfir sérþekkingu að ráða.


    Á utanríkisráðherrafundi Norðurskautsráðsins í september sl. var mörkuð stefna fyrir starfsemi ráðsins næstu tvö árin og samþykkt aðgerðaáætlun um verndun hafsins á norðurslóðum gegn mengun frá landstöðvum. Um er að ræða yfirgripsmikla áætlun sem krefst náins samstarfs aðildarríkja í framkvæmd. Til að stuðla að framkvæmd þeirrar áætlunar og samhæfa aðgerðir bauðst ríkisstjórnin til að vista skrifstofu hér á landi og kosta hana til hálfs við önnur aðildarríki Norðurskautsráðsins. Þessu boði var vel tekið og verður skrifstofan opnuð í byrjun næsta árs.


    Evrópuráðið.


    Evrópuráðinu í Strassborg er ætlað að efla samvinnu og samkennd meðal ríkja álfunnar, standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og auka stöðugleika. Í þágu þessara markmiða sinnir Evrópuráðið málaflokkum eins og sveitarstjórnarmálum, félagsmálum, umhverfismálum, menningu, menntun og samvinnu á sviði löggjafar. Ljóst er að með fyrirbyggjandi aðgerðum gegnir Evrópuráðið mikilvægu hlutverki í hinu nýja öryggisfyrirkomulagi Evrópu sem er enn í mótun. Margþætt samstarf aðildarríkjanna, sveitarstjórnarmanna og þingmanna, sem eiga sæti á þingmannasamkomu ráðsins, er mikilvægt fyrir tengslin á milli þjóða Evrópu.
    Aðild að Evrópuráðinu er opin öllum ríkjum álfunnar sem viðurkenna reglur réttarríkis og tryggja íbúum sínum mannréttindi og grundvallarfrelsi. Aðild að ráðinu felur því í sér viðurkenningu á að viðkomandi ríki teljist uppfylla lágmarksskilyrði að því er varðar þessi mikilvægu gildi.


    Mikilvægi Evrópuráðsins hefur vaxið eftir lok kalda stríðsins. Ráðið gegnir nú stóru hlutverki í aðlögun ríkja Mið- og Austur-Evrópu að lýðræðislegum stjórnarháttum. Sextán ríki, sem áður bjuggu við kommúnisma, hafa fengið aðild að ráðinu, en aðildarríkin eru fjörutíu talsins. Flest hinna nýju aðildarríkja bjuggu við ólýðræðislega stjórnarhætti og meginreglur nútímaréttarríkja voru þeim framandi. Evrópuráðið hefur aðstoðað þau við að breyta þessu. Aðild að Evrópuráðinu hefur jafnframt skapað þessum ríkjum skilyrði fyrir þátttöku í evrópsku samstarfi og styrkt þau í öðru alþjóðlegu samstarfi.


    Á utanríkisráðherrafundi Evrópuráðsins, sem haldinn var í gær, lagði ég sérstaka áherslu á að öll aðildarríki ráðsins standi við þær skuldbindingar sem aðild hefur í för með sér. Í þeim efnum verður að ríkja jafnræði milli aðildarríkjanna. Stækkun Evrópuráðsins má ekki leiða til lakari mælikvarða á þeim sviðum, sem það fjallar um. Virðing fyrir mannréttindum er grundvallarforsenda fyrir öryggi og jafnvægi í Evrópu.


    Eftirlit með því hvort aðildarríkin uppfylli skyldur sínar er mikilvægur þáttur í starfi Evrópuráðsins. Nýr mannréttindadómstóll Evrópu tók til starfa sl. þriðjudag og leysir hann af hólmi mannréttindanefndina og fyrri dómstól. Þessi breyting var gerð í þeim tilgangi að hraða málsmeðferð og auka skilvirkni vegna aukins málafjölda í kjölfar fjölgunar aðildarríkja. Ráðherranefndin og þingmannasamkoma Evrópuráðsins gegna einnig veigamiklu hlutverki í eftirlitskerfi ráðsins. Fyrirhugað er að stofna embætti sérstaks umboðsmanns mannréttinda við Evrópuráðið. Ísland hefur heils hugar stutt þessi framfaraskref í starfsemi ráðsins.


    Á utanríkisráðherrafundi Evrópuráðsins í gær tók Ísland við varaformennsku þess. Ísland tekur síðan við formennsku í Evrópuráðinu í fyrsta sinn í maímánuði á næsta ári, á hálfrar aldar afmæli ráðsins. Undirbúningur fyrir formennskuna er þegar hafinn og fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu hefur verið efld. Ísland situr nú í stjórnarnefnd ráðsins og fastafulltrúi okkar hjá Evrópuráðinu stýrir afmælisnefnd þess.


    Í formennsku felst að stjórna fundum ráðherranefndarinnar, hafa málefnalegt frumkvæði í störfum ráðsins og að vera í fyrirsvari fyrir Evrópuráðið gagnvart öðrum alþjóðastofnunum eins og ÖSE, ESB, NATO og S.þ.
    Formennska í Evrópuráðinu, á hálfrar aldar afmæli þess, gefur okkur kærkomið tækifæri til að árétta stuðning við lýðræðisþróun, varðveislu mannréttinda og friðsamlega lausn deilumála í álfunni.


    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE).


    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er eini samstarfsvettvangurinn þar sem öll ríki Evrópu eru þátttakendur ásamt ríkjum Norður-Ameríku, samtals 54 ríki. Í tuttugu ár var Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, pólitískur viðræðuvettvangur, en henni var í ársbyrjun 1995 breytt í stofnun, ÖSE, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Vínarborg.


    Í lokasamþykktinni frá Helsinki 1975 voru skráðar reglur um grundvallaratriði í samskiptum ríkja og um aðgerðir til að skapa gagnkvæmt traust á hernaðarsviðinu. Jafnframt var þar fjallað um grundvallarfrelsi og mannréttindi. Þar var einnig fjallað um efnahags-, menningar-, tækni- og vísindamál. Þáttur RÖSE í að binda enda á kalda stríðið var ótvírætt mikill.


    Á síðustu árum hefur ÖSE tekið að sér æ viðameira hlutverk í því nýja öryggiskerfi sem er í mótun í Evrópu. Þar má nefna margháttaðar aðgerðir til að koma í veg fyrir átök, starf sérstakra sendimanna og sveita til að finna friðsamlegar lausnir á deilumálum, friðargæslustörf, starf sem miðar að vernd mannréttinda og takmörkun vígbúnaðar. Starf ÖSE í nýfrjálsum ríkjum álfunnar, þar á meðal í Eystrasaltsríkjunum og öðrum fyrrverandi hlutum Sovétríkjanna, allt austur í Mið-Asíu, hefur verið þeim ómetanlegur stuðningur. ÖSE rekur sérstaka skrifstofu í Vínarborg sem sérhæfir sig í átakavörnum. Í Varsjá er mannréttindaskrifstofa ÖSE og í Haag er skrifstofa sérstaks fulltrúa ÖSE fyrir þjóðernisminnihluta.


    NATO og ÖSE hafa bundist sífellt sterkari böndum. Það sést best með ákvörðuninni um að senda á vettvang 2000 manna eftirlitssveit á vegum ÖSE sem fylgjast á með því að samkomulagið um Kosovo sé haldið.
    Um nokkurt skeið hefur Ísland verið eina Evrópuríkið án fastanefndar hjá ÖSE í Vínarborg. Ákveðið hefur verið að opna skrifstofu fastanefndar Íslands þar á ný strax eftir áramótin. Ekki er síður mikilvægt að hafa íslenska fastanefnd í Vínborg en í Strassborg.


    Næsti fundur utanríkisráðherra aðildarríkja ÖSE verður haldinn í Osló í desemberbyrjun, en leiðtogafundur á næsta ári.


    Sameinuðu þjóðirnar.


    Þótt þátttaka okkar í starfi Sameinuðu þjóðanna hafi verið einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar og að við höfum látið til okkar taka á flestum sviðum í starfsemi samtakanna höfum við aldrei tekið sæti í öryggisráðinu. Þátttaka í starfi þess er eitt mikilsverðasta framlag hvers aðildarríkis til veigamestu markmiða samtakanna, varðveislu friðar og öryggis í heiminum. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að stefnt skuli að framboði til sætis í öryggisráðinu. Ísland er reiðubúið að axla þessa ábyrgð, eins og önnur aðildarrríki, og leggja sitt af mörkum til að styrkja hlutverk öryggisráðsins og efla það traust sem er því nauðsynlegt til að geta sett niður deilur og verið samnefnari hins alþjóðlega samfélags þegar nauðsyn ber til að knýja fram friðaraðgerðir.


    Norðurlöndin hafa með sér náið samráð um framboð til ráðsins og hafa lagt áherslu á að um norræn framboð sé að ræða. Ég hef rætt við norræna starfsbræður mína um framboð Íslands og fengið einróma stuðning þeirra við þá fyrirætlun. Ljóst er að nokkuð mörg ár munu líða þar til af framboði getur orðið, og mun sá tími nýtast vel til undirbúnings og til að styrkja alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og fastanefndina í New York. Má segja að framboð til öryggisráðsins sé næsta stórverkefni utanríkisráðuneytisins. Á undanförnum árum hafa aðildarrríki unnið að því að ná samkomulagi um að endurbæta starfsemi öryggisráðsins og fjölga aðildarríkjum þess. Fari svo að aðildarríkjum verði fjölgað gæti framboð Íslands orðið að veruleika fyrr en ella.


    Hinn 10. desember nk. mun allsherjarþing S.þ. minnast þess sérstaklega að fimmtíu ár eru liðin frá því að mannréttindayfirlýsingin, aðalsmerki mannréttindabaráttu í heiminum, var samþykkt. Ekki er hægt að undanskilja mannréttindi alþjóðastjórnmálum. Þau eru algild og það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls að tryggja virðingu fyrir þeim. Fyrir þessu höfuðatriði er vaxandi skilningur meðal þjóða. Í því sambandi er því fagnað að Kínverjar ætla senn að fullgilda alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Við Íslendingar viðurkennum ekki að gengið sé á mannréttindi í nafni trúarbragða, menningar eða annarra hefða. Við megum ekki láta okkar eftir liggja í alþjóðlegu mannréttindastarfi.


    Íslendingar hafa um nokkurt skeið tekið þátt í friðargæslu og friðaruppbyggingu í Bosníu. Þar hafa að jafnaði starfað þrír íslenskir lögreglumenn í alþjóðlegri lögreglusveit S.þ. við eftirlit og þjálfun innlendra lögreglusveita. Ásamt lækna- og hjúkrunarsveitinni, sem starfað hefur í alþjóðlega herliðinu undir stjórn NATO í Bosníu, hafa íslensku lögreglumennirnir sannað að Ísland hefur á að skipa fagfólki sem við getum verið stolt af í alþjóðlegu friðarsamstarfi.


    Ísland hefur einnig leitast við að leggja sitt af mörkum til neyðaraðstoðar og til að leysa vanda flóttamanna, en ljóst er að sá vandi er mjög mikill og að allar þjóðir verða að leggja sitt af mörkum í þeim efnum. Íslensk stjórnvöld hafa átt samstarf við Flóttamannastofnun S.þ. í Genf um að taka við nokkrum hópum flóttamanna. Í sumar kom þriðji hópur flóttamanna frá fyrrum Júgóslavíu til landsins og settist hann að á Blönduósi. Flóttamannaráð hefur umsjón með viðtöku þessara hópa í samvinnu við marga aðra aðila, svo sem Rauða krossinn og bæjarfélög. Vel hefur tekist til með viðtöku flóttamannanna. Nú er verið að undirbúa að taka á móti nýjum hópi flóttamanna á næsta ári.
    Miklar vonir eru bundnar við samkomulag Ísraela og Palestínumanna sem náðist í Maryland nú á dögunum. Með samkomulaginu eykst mönnum bjartsýni á að friðarferlið, sem kennt er við Osló fari í réttan farveg á ný, þrátt fyrir tortryggni harðlínumanna í hópi beggja aðila.
    Hryðjuverkasprengingar á Norður-Írlandi og við sendiráð Bandaríkjanna í Kenýa og Tansaníu, þar sem fjöldi saklausra borgara lét lífið eða limlestist, sýna þörfina á alþjóðlegri samvinnu gegn glæpastarfsemi hryðjuverkamanna. Við upphaf allsherjarþingsins í haust hafði ég tækifæri til að undirrita fyrir Íslands hönd alþjóðlegan samning sem beint er gegn hryðjuverkasprengingum.
    Nauðsyn er einnig á auknu alþjóðlegu samstarfi til að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og eiturlyfjasölu. Mikilvægt er að fylgja eftir niðurstöðum aukaallsherjarþings S.þ. í sumar um fíkniefnavandann.
    Gerð samningsins um stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls í Róm í sumar sýnir skýran vilja hins alþjóðlega samfélags til að berjast gegn glæpum gegn mannkyninu á borð við hópmorð og stríðsglæpi. Stofnun dómstólsins er tvímælalaust eitt mikilvægasta framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum frá stofnun S.þ. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn verður staðsettur í Haag, er varanlegur og hefur almenna lögsögu. Hann er því frábrugðinn alþjóðastríðsglæpadómstólunum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og Rúanda, sem hafa takmarkaða lögsögu bæði í tíma og rúmi. Ísland var í hópi fyrstu ríkja til að undirrita Rómarsamninginn og hér á landi er nú unnið að undirbúningi fullgildingar hans.
    Ítarlegum bæklingi, Ísland og Sameinuðu þjóðirnar. Málefnayfirlit – 53. allsherjarþing, hefur verið dreift hér á Alþingi. Þar er mikinn fróðleik að finna.
    Auðlinda- og umhverfismál.
    Auðlinda- og umhverfismál skipa æ mikilvægari sess í alþjóðasamstarfi, einkanlega á vettvangi S.þ. Nauðsynlegt er að efla markvissa þátttöku Íslands í þessu samstarfi.
    Umfjöllun um sjávarútveg á vettvangi S.þ. tengist í síauknum mæli umræðu um umhverfismál. Þessi þróun þarf ekki að vera neikvæð. Fyrir þjóð, sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi í þeim mæli sem við Íslendingar gerum, er þó nauðsynlegt að vera á varðbergi. Umræða um algera friðun fiskstofna eða heilla hafsvæða og tillögur um að fela fjölþjóðlegu yfirvaldi eða stofnunum miðstýringu á nýtingu auðlinda hafsins vegna umhverfissjónarmiða varða lífshagsmuni okkar Íslendinga. Við verðum að standa vörð um hagsmuni okkar og kynna öðrum þjóðum árangur okkar í sjálfbærri nýtingu fiskistofna.
    Nú á ári hafsins gefst einstakt tækifæri til að treysta vernd hafsins og sjálfbæra nýtingu auðlinda þess. Ljóst er að ríkisstyrkir og önnur óæskileg opinber fyrirgreiðsla til handa sjávarútvegi hafa stuðlað að ofveiði víðs vegar í heiminum. Styrkir af þessu tagi hamla frjálsri samkeppni og stuðla ekki að sjálfbærri nýtingu fiskstofna. Sjávarútvegur er í mörgum löndum olnbogabarn þar sem ekki er hugað að fiskveiðistjórnun með ábyrgum hætti. Þetta hefur leitt til að fiskistofnar eru víða ofnýttir eða hafa hreinlega hrunið. Afnám ríkisstyrkja yrði áhrifamikið framlag til verndar og sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda um heim allan.
    Ýmis náttúruverndarsamtök og stofnanir, sem beita sér á vettvangi S.þ., halda því fram að strandríkin hafi brugðist í fiskveiðistjórnun sem er í þeirra verkahring samkvæmt hafréttarsamningnum. Flest þessara samtaka átta sig á afleiðingum ofnýtingar fiskstofna en fara villur vegar hvað varðar orsakirnar. Ég hef lagt ríka áherslu á að grannt verði fylgst með þróun mála á vettvangi S.þ. þar sem málefni hafsins fá sífellt meiri umfjöllun.
    Hafið verður meginumræðuefni á fundum nefndarinnar um sjálfbæra þróun í apríl á næsta ári. Aðildarríkjum S.þ. gefst þar tækifæri til að kynna stefnu sína og sjónarmið í umræðum, en einnig með sérstökum kynningum á fundum nefndarinnar og í tengslum við þá. Embættismenn þriggja ráðuneyta, utanríkis-, sjávarútvegs-, og umhverfismála, samhæfa framlag Íslands á fundum nefndarinnar um sjálfbæra þróun. Á fundum hennar í apríl nk. gefst kærkomið tækifæri til að kynna fyrir fulltrúum ríkisstjórna, hagsmunasamtaka og umhverfissamtaka hvernig Ísland hefur staðið að vernd fiskstofna.
    Í ræðu minni á allsherjarþinginu vakti ég athygli þingheims á athyglisverðri skýrslu sem umhverfisverndarsamtökin World Wildlife Fund gáfu út um nýtingu fiskstofna í heiminum. Í þessari skýrslu segir berum orðum að einungis þrjú ríki í heiminum hafi komið sér upp fiskveiðistjórnunarkerfi sem leiði til sjálfbærrar og skynsamlegrar nýtingar fiskistofna: Ástralía, Nýja-Sjáland og Ísland. Ýmsum umhverfisverndarsamtökum hættir til að vera með alhliða fullyrðingar um slæmt ástand fiskstofna. Hættan er sú að órökstuddar og rangar fullyrðingar komi því inn hjá fólki að öll neysla sjávarafurða sé neikvæð frá sjónarmiði umhverfisverndar. Þessu þurfum við að vinna gegn.
    Samningar tókust í maímánuði milli Íslands, Noregs og Grænlands um stjórn veiða og skiptingu afla úr loðnustofninum á hafsvæðinu milli Íslands, Grænlands og Jan Mayen. Gerður var einn heildarsamningur um skiptingu stofnsins og fyrirkomulag kvótaúthlutunar. Niðurstaðan varð sú að hlutur Íslands jókst úr 78% í 81%, hlutur Grænlands hélst óbreyttur 11%, en hlutur Noregs minnkaði úr 11% í 8%. Jafnframt voru gerðir tvíhliða samningar um aðgang að lögsögu landanna. Í tengslum við þessa samningagerð var einnig gert gagnkvæmt samkomulag við Grænlendinga um veiðar á úthafskarfa, þannig að hvorum aðila er heimilt að veiða 50% af úthlutuðum veiðiheimildum innan fiskveiðilögsögu hins. Samningar þessir gilda til aprílloka árið 2001. Með þeim náðum við meginmarkmiðum okkar og þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þeirra fyrir íslenskan sjávarútveg og þjóðarbúið í heild.
    Nýlega lauk samningaviðræðum um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á næsta ári milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og ESB. Það var stefna okkar í þessum viðræðum að draga verulega úr veiðum úr stofninum í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og að ná samkomulagi um langtíma- nýtingarstefnu til að jafna sveiflur og auka afla þegar fram í sækir. Því miður náðist ekki samstaða um þetta. Enn og aftur sannaðist að við eigum töluvert í land með að sannfæra önnur ríki um að við ákvarðanir um nýtingu auðlinda hafsins verði að taka mið af langtímasjónarmiðum og sjálfbærri nýtingu.
    Þessa dagana stendur yfir í Buenos Aires fjórði aðildarríkjafundur rammasamnings S.þ. um loftslagsbreytingar. Miklu skiptir að við Íslendingar tökum virkan þátt í því mikilvæga alþjóðlega átaki að draga úr gróðurhúsaáhrifum, m.a. með aðild að Kýótóbókuninni. Aftur á móti hefur margoft verið tekið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að ekki getur orðið um slíka aðild að ræða feli hún í sér að Ísland taki á sig langtum meiri byrði hlutfallslega en önnur iðnríki. Úrslitaatriði í þessu efni er að samþykkt verði skynsamleg útfærsla á ákvæðinu um hlutfallsleg áhrif einstakra verkefna í litlum hagkerfum.
    Þróunarsamvinnumál.
    Á síðustu misserum hefur Ísland aukið umsvif sín í þróunarsamvinnu og sér þess merki bæði í tvíhliða þróunarsamstarfi við nokkur Afríkuríki og þátttöku í starfi fjölþjóðlegra þróunarstofnana.
    Fyrir ári ákvað ríkisstjórnin að stórauka framlög til tvíhliða þróunarsamvinnu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ). Þessa sér glögg merki í fjárlögum ársins 1999 þar sem fjárveitingin er aukin um þriðjung. Stofnunin hefur á þessu ári lagt aukna áherslu á undirbúning nýrra verkefna.
    Fyrir skemmstu kom ég úr fyrstu heimsókn utanríkisráðherra til samstarfslanda ÞSSÍ í sunnanverðri Afríku og var hún mjög áhugaverð. Ör lýðræðisþróun og batnandi efnahagsástand einkennir nú ástandið víða í Afríku. Til að viðhalda þeirri þróun þarf að auka erlenda fjárfestingu, byggja upp einkafyrirtæki, styrkja menntun og bæta heilsugæslu. Tryggja verður frið, því átök geta hæglega breiðst út og ógnað jákvæðum árangri sem þegar hefur náðst.
    Ég er sannfærður um að starfsfólk ÞSSÍ vinnur gott starf í sunnanverðri Afríku og samstarfsaðilar okkar voru hvarvetna mjög ánægðir með samvinnuna.
    Stærstu verkefni ÞSSÍ í þessum löndum, Namibíu, Malaví og Mósambík, eru á sviði sjávarútvegs og er mikilvægt að sú aðstoð haldi áfram þó bróðurparturinn af nýjum verkefnum verði á sviði heilsugæslu og menntamála.

    Ég hef nú um tveggja ára skeið setið í þróunarnefnd Alþjóðabankans fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Þá flutti ég ræðu fyrir hönd Norðurlandanna á nýafstöðnum ársfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mikilvægi þessara systurstofnana hefur sjaldan verið meira en nú þegar óvissa í efnahagsmálum ríkir víða. Bankinn er stærsta þróunarstofnun heims en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðstoðar ríki heims við að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og með neyðarlánum.


    Íslensk þátttaka í störfum þróunarnefndarinnar er gott dæmi um hvernig við getum haft áhrif á alþjóðlegum vettvangi. Ég tel nauðsynlegt að Ísland beiti sér frekar á sviði þróunarmála.


    Á nýafstöðnum fundi nefndarinnar var mikið rætt um efnahagsöngþveitið í Asíu og Rússlandi. Þar lagði ég áherslu á að hlutverk Alþjóðabankans sé fyrst og fremst að veita ráðgjöf og fjárhagslega aðstoð við langtíma efnahagsuppbyggingu. Skammtímaaðgerðir séu þó nauðsynlegar til að tryggja fæðuöryggi, stuðla að atvinnuskapandi verkefnum, og standa vörð um menntun og heilbrigðisþjónustu hinna fátæku.


    Forseti Alþjóðabankans heimsótti Ísland í júní sl. og átti hér fund með ráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Við sama tækifæri átti ég fund með honum og ræddum við m.a. samskipti Íslands og Alþjóðabankans. Þar lýsti ég m.a. yfir ánægju með samvinnu okkar vegna uppbyggingarstarfsins í Bosníu og Herzegóvínu. Eins ræddum við mögulegt samstarf á sviði fjarkennslu, þar sem yfirfæra má íslenska tækniþekkingu til þróunarlanda með aðstoð nútíma upplýsingatækni.


    Á fundum Efnahags- og félagsmálaráðs S.þ., þar sem þróunarmál hafa verið til umfjöllunar, hefur Ísland lagt áherslu á að þróunarrríkin innleiði markaðsbúskap heima fyrir, en jafnframt verði þróuð iðnríki að tryggja aðgang þróunarríkjanna að mörkuðum fyrir vörur sínar til að þau geti nýtt sér hnattræna þróun í verslun og viðskiptum. Með setu í ráðinu hefur gefist gott tækifæri til að leggja okkar af mörkum í umfjöllun um mannréttindi, umhverfis- og þróunarmál og orku- og auðlindamál.


    Sem dæmi um árangursríka samvinnu við þróunarstofnanir S.þ. má nefna að Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hóf starfsemi hér á landi í haust með sex nemendum frá þremur Afríkuríkjum. Þar hefur markið verið sett hátt og byggt á farsælli reynslu Jarðhitaskóla S.þ. undanfarin ár, en þaðan hafa á fjórða hundrað sérfræðinga frá þróunarlöndum útskrifast á undanförnum árum.


    Rektor Háskólans heimsótti Ísland fyrir skömmu í tilefni af tuttugu ára starfsafmæli Jarðhitaskólans. Á fundi með honum var ítrekaður vilji okkar til að auka þátttöku Íslands í starfi þróunarstofnana S.þ. á borð við Matvæla- og landbúnaðarstofnunina (FAO) og Þróunarstofnunina (UNDP).


    Efnahags- og viðskiptamál.


    Ísland gegndi formennsku innan EFTA fyrri hluta þessa árs og hafði því orð fyrir EFTA-hópnum í samskipum við Evrópusambandið. Aldrei hafa fleiri ákvarðanir verið teknar af sameiginlegu nefndinni en á fyrri helming þessa árs.
    Mikilvægasta EES-ákvörðunin fyrir íslenska hagsmuni var tekin í júlí, en þá samþykkti sameiginlega nefndin að samræmdar reglur skyldu gilda innan EES-svæðisins um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Auk þess gilda sömu reglur um eftirlit með innfluttum sjávarafurðum og tekur ákvörðunin gildi 1. janúar á næsta ári. Ísland tekur með þessu að sér eftirlit með því að samræmdum reglum sé fylgt jafnt innan lands sem gagnvart innflutningi frá ríkjum utan svæðisins, eins og Rússlandi. Á móti kemur að útfluttar íslenskar sjávarafurðir eiga greiðari leið inn á evrópskan markað og verða ekki fyrir sömu töfum á landamærum og áður.


    Það veldur því nokkrum áhyggjum að eitt aðildarríkja Evrópusambandsins, Spánn, hefur nú lýst því yfir að það muni standa í vegi fyrir frekari þróun EES-samningsins svo lengi sem kröfum Spánverja um áframhaldandi þróunaraðstoð frá EFTA/EES ríkjunum verði ekki sinnt. Ljóst er að samningsskuldbinding um þróunarsjóð starfræktan af EFTA var bundin við fimm ára umsaminn starfstíma. EFTA/EES ríkin hafa ekki ljáð máls á framlenginu hans. Ákvæði um vilja samningsaðila til að starfa saman að því að draga úr efnahagslegu misræmi á svæðinu eru hins vegar ótímabundin. Það er ekkert nýtt að í tengslum við fríverslunarsamninga séu settir á stofn þróunarsjóðir til að styðja við bakið á þeim sem teljast eiga erfitt með að nýta sér tækifæri fríverslunar. Þannig nutum við Íslendingar góðs af iðnþróunarsjóði, sem stofnsettur var í tengslum við aðild okkar að EFTA á sínum tíma. Slíkir sjóðir eiga hins vegar ekki að verða eilífir. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að við athugum hvort við getum eflt samstarf við þau ríki sem hér um ræðir, Spán, Portúgal, Grikkland og Írland, telji þessi ríki að þau beri skarðan hlut frá borði í viðskiptum við okkur.


    Ár er nú liðið frá því að Amsterdamsamningurinn var undirritaður og þar með staðfest að samstarf á grundvelli Schengensamningsins yrði fellt inn í Evrópusambandið. Það tók Evrópusambandið langan tíma að ræða innbyrðis hvernig halda mætti áfram samstarfi við Ísland og Noreg á nýjum forsendum. Viðræður eru nú loks hafnar. Ótvíræður vilji er fyrir því, jafnt af hálfu Íslands og Noregs sem Evrópusambandsins, að halda áfram því samstarfi um vegabréfaeftirlit og landamæravörslu sem gefið hefur góða raun frá því samstarfssamningurinn um Schengen var undirritaður í Luxembourg árið 1996. Auðveldara virðist að setja upp samstarfskerfi, sem er líklegt til að ganga vel, en að ganga frá því sem skuldbindandi samningstexta. Megináhersluatriði, jafnt Íslands sem Noregs, í þessum viðræðum hefur verið að tryggja fullan aðgang að allri umræðu um Schengen málefni innan Evrópusambandsins, en tryggja jafnframt að samningurinn haldi öllum einkennum venjulegs þjóðréttarsamnings. Útlínur samnings eru nú teknar að skýrast, en enn er of snemmt að segja fyrir um lyktir.


    Undirbúningur aðildarviðræðna umsóknarríkja að Evrópusambandinu er vel á veg kominn og hefjast viðræður við sex þeirra nú í nóvember. Evrópusambandsaðild fylgir yfirtaka allra samninga, einnig samningsins um EES. Eftir að aðlögunartíma lýkur verður að gera ráð fyrir frjálsu flæði vöru, fjármagns og þjónustu og frjálsri för fólks milli nýrra aðildarríkja og Íslands. Það er því mikilvægt að fylgjast grannt með. Til viðbótar má nefna að núgildandi fríverslunarsamningar okkar við þessar þjóðir tryggja fullan tollfrjálsan markaðsaðgang, einnig fyrir síld. Svo er ekki innan EES og verður að taka upp sérstakar viðræður vegna þessa þegar að aðild kemur.


    Stefnt er að því að fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna og Kanada ljúki á miðju næsta ári. Þetta eru fyrstu fríverslunarviðræðurnar við ríki handan Atlantsála, en áður hafa EFTA-ríkin gert fríverslunarsamninga við þrettán ríki og gefið út samstarfsyfirlýsingar við sjö ríki. Undir formennsku Íslands í EFTA á fyrri hluta þessa árs hafði þetta mál forgang og var efst á baugi á ráðherrafundi EFTA í Reykjavík í júní sl.


    Samningaviðræður EFTA-ríkjanna og Jórdaníu um fríverslun eru einnig hafnar og viðræður standa yfir við Kýpur og Túnis. Þá eru í undirbúningi fríverslunarviðræður við Egyptaland og gerð samstarfsyfirlýsingar við MERCOSUR-ríkin fjögur, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Á ráðherrafundi EFTA í desember nk. er stefnt að undirritun fríverslunarsamnings við sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna.


    EFTA hefur tekist að aðlaga starfsemi sína að breyttu umhverfi og að efla hlutverk sitt fyrir núverandi aðildarríki. Aðild Íslands að EFTA tryggir eftir sem áður nauðsynlegan markaðsaðgang íslenskrar framleiðslu að erlendum mörkuðum.


    Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) í Genf er nú helsti vettvangur ríkja heims til að setja leikreglur um heimsviðskiptin og framfylgja þeim. Aðildarríkin eru nú 132 talsins. WTO-samningarnir og það viðamikla eftirlits- og tilkynningarferli, sem í þeim felst, takmarka möguleika ríkja til að innleiða viðskiptahömlur og mismuna ríkjum með einstökum viðskiptahindrunum. Í þeim fjármála- og efnahagserfiðleikum, sem nú hrjá ýmsa heimshluta, gegnir Alþjóðaviðskiptastofnunin og samningar hennar veigamiklu hlutverki við að hamla því að ríki grípi til ráðstafana sem fela í sér fráhvarf frá fríverslun og frjálsræði í viðskiptum.


    Íslensk stjórnvöld þurfa á næstunni að búa sig undir viðameiri þátttöku í starfi WTO vegna nýrrar samningalotu sem ýtt verður úr vör í lok næsta árs. Í þeim samningaviðræðum verða til umfjöllunar landbúnaður og þjónustuviðskipti. Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að viðræðurnar nái einnig til iðnaðarvara. Ísland hefur stutt þá tillögu, m.a. í ljósi þess að í síðustu samningalotu, Úrúgvæ-viðræðunum, var fjallað um tollalækkanir á sjávarafurðum undir hatti iðnaðarvara. Í hönd fer mikil vinna aðildarríkja WTO við að undibúa þessa nýju samningalotu.


    Ísland tekur sem fyrr virkan þátt í því margþætta alþjóðlega samstarfi sem á sér stað innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Má þar helst nefna víðtæka samvinnu á sviði efnahags-, viðskipta- og ríkisfjármála og ekki síður mikilvægt starf á sviði iðnaðar-, umhverfis-, fiski-, landbúnaðar-, heilbrigðis- og menntamála. Margar skýrslur stofnunarinnar hafa reynst mjög gagnlegar við stefnumótun íslenskra stjórnvalda. Ráðgjöf hennar hefur gegnt lykilhlutverki í hagræðingu og endurskipulagningu opinberrar stjórnsýslu hér innanlands. Flest ráðuneyti, auk Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka og Hagstofu, taka beinan þátt í starfsemi OECD.


    Efnahagsþrengingar í helstu viðskiptalöndum Íslands í Asíu hafa haft í för með sér töluverðan samdrátt í útflutningi þangað, einkum til Japans. Aukinn útflutningur á aðra markaði og hátt verð þar hefur komið á móti, þannig að efnahagssamdrátturinn í Asíu hefur ekki haft teljandi áhrif á íslenskt efnahagslíf. Mikilvægt er að Kína hefur hingað til getað varist að miklu leyti áhrifum erfiðleikanna í nágrannalöndunum og Kínverjum hefur tekist að halda gengi gjaldmiðils síns stöðugu. Talið er að gengisfelling hans auki enn frekar á efnahagsöngþveitið í álfunni og efalaust framkalli frekara gengishrun í öðrum Asíulöndum.


    Ætla verður að Asíuríkin vinni sig út úr þessum erfiðleikum og að viðskipti okkar Íslendinga aukist þá verulega við þennan heimshluta. Stöðugt stærri hluti innflutnings okkar kemur frá Asíu, eftir því sem vörugæði þar aukast og flutningar verða hagkvæmari. Enduruppbygging efnahags ríkja Suðaustur-Asíu skapar ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að ná fótfestu þar. Full ástæða er því til að huga grannt að þeim tækifærum sem nú gefast í Asíu. Í því sambandi ráðgeri ég ferð til nokkurra Asíulanda snemma næsta árs. Er hún fyrst og fremst ætluð til að ryðja íslenskum fyrirtækjum braut með hliðstæðum hætti og gert hefur verið á öðrum mörkuðum.


    Á síðustu árum hafa viðskipti milli Íslendinga og Rússa farið ört vaxandi. Þótt á bjáti nú er litlum vafa undirorpið að Rússlandsmarkaður verður áfram mjög mikilvægur. Af þeim sökum er okkur nauðsynlegt að treysta undirstöður góðra samskipta. Kappkostað verður að ljúka gerð samninga um fjárfestingar, afnám tvísköttunar, loftferðir og samstarf á sviði sjávarútvegs og hrinda þeim í framkvæmd.


    Mikilvægt er að efla tengsl Rússlands við Vesturlönd á vettvangi svæðisbundins samstarfs og alþjóðastofnana og styðjum við það. Jafnframt munum við Íslendingar freista þess að treysta tvíhliða samskipti enn við Rússland.
    Vegna þess ástands sem nú ríkir er bæði rétt og skylt að við látum nokkuð af hendi rakna til þeirra sem minnst mega sín í þessu nágrannaríki okkar. Í ljósi þess ákvað ríkisstjórnin að veita neyðaraðstoð sem nemur 14 milljónum kr. Aðstoðin verður veitt íbúum í norðvesturhluta Rússlands. Verður henni komið á framfæri með aðstoð Rauða krossins sem að auki leggur fram 10 milljónir til neyðaraðstoðarinnar.


    Vel fer á því að við sýnum á þessu ári einlægan hlýhug til rússnesku þjóðarinnar, því 55 ár eru liðin frá því að stjórnmálatengslum var komið á milli Íslands og Sovétríkjanna sem þá voru. Þau tengsl voru okkur mikils virði á þeim tíma þegar við þurftum sem víðast að leita skilnings á stöðu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.
    Starfsemi viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur verið öflug undanfarna mánuði. Útflutningsfyrirtækjum gefst nú kostur á sérhæfðri aðstoð við markaðssetningu vöru og þjónustu við öll sendiráð Íslands. Sérhæft starfsfólk, bæði íslenskt og erlent, hefur verið ráðið við sex sendiráð og er ætlunin að fjölga því í takt við umsvif viðskiptaþjónustunnar.


    Atlantshafsbandalagið.


    Öryggis- og varnarmál Evrópu hafa verið í brennidepli að undanförnu. Grimmileg ofbeldisstefna Milosevics Júgóslavíuforseta gagnvart Albönum í Kosovo varð til þess að Atlantshafsbandalagið setti forsetanum skýra afarkosti um að virða kröfur hins alþjóðlega samfélags eða sæta hernaðaraðgerðum bandalagsins ella.
    Mikilvægt er að árétta að yfirlýsingar bandalagsins um beitingu hervalds gagnvart stjórnvöldum í Belgrad hafa tekið mið af því að knýja fram friðsamlega lausn í deilum Serba og Albana. Áhersla hefur verið lögð á þjóðréttarlegar forsendur hugsanlegra hernaðaraðgerða, enda brýnt að komið verði í veg fyrir frekari hörmungar hinna fjölmörgu íbúa í héraðinu sem flosnað hafa upp frá heimkynnum sínum og týnt gætu lífi þegar vetur gengur í garð.


    Samkomulag sérlegs erindreka Bandaríkjastjórnar og forseta Júgóslavíu, sem gert var í krafti staðfestu Atlantshafsbandalagsins, lofar góðu um að takast megi að koma í veg fyrir frekari hernaðarátök á svæðinu. Gert er ráð fyrir að ÖSE annist ákveðna þætti eftirlits með framkvæmd samkomulagsins. Eftirlitinu er ætlað að tryggja að ákvæði ályktunar öryggisráðs S.þ. um brottflutning hers og öryggissveita Serba frá Kosóvó verði virt að fullu. Bandalagið sjálft annast eftirlit með framkvæmd samkomulagsins úr lofti.


    Friðargæsluhersveitir NATO og samstarfsríkja þess, SFOR, gegna áfram þýðingarmiklu hlutverki við framkvæmd friðarsamkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu. Sveitirnar áttu drjúgan þátt í að tryggja að kosningar í landinu 12. og 13. september sl. gætu farið fram á því sem næst eðlilegan hátt, en ÖSE bar ábyrgð á framkvæmd kosninganna. Samstarf sveitanna og annarra alþjóðastofnana er náið og veitir SFOR alþjóðastríðsglæpadómstólnum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og alþjóðlegum lögreglusveitum S.þ. mikilvægan stuðning.


    Atlantshafsbandalagið stendur að vissu leyti á tímamótum. Á leiðtogafundi bandalagsins í apríl á næsta ári verður þess minnst að fimmtíu ár verða liðin frá undirritun Norður-Atlantshafssamningsins. Merkum áfanga verður náð í ytri og innri aðlögun bandalagsins. Þrjú ný aðildarríki ganga formlega til liðs við bandalagið, endurskoðun á öryggismálastefnu bandalagsins verður lokið og stigin verða frekari skref í átt til eflingar Evrópusamstarfs á sviði öryggis- og varnarmála.


    Fulltrúar Póllands, Tékklands og Ungverjalands taka þátt í leiðtogafundinum sem fullgildir aðilar. Þegar samþykkt var í Madríd að bjóða þessum þremur ríkjum aðild var jafnframt ákveðið að endurskoða stækkunarferlið á næsta leiðtogafundi bandalagsins. Öll aðildarríki bandalagsins hafa margítrekað að dyr þess standi opnar ríkjum Evrópu. Íslensk stjórnvöld munu sem fyrr leggja áherslu á að Eystrasaltsríkjunum verði veitt aðild að bandalaginu, komi til þess að einstök ríki verði nafngreind.


    Núverandi öryggismálastefna Atlantshafsbandalagsins var samþykkt árið 1991, en síðan hafa augljóslega orðið miklar breytingar á öryggismálum Evrópu og starfsháttum bandalagsins. Í ljósi þessa var orðið brýnt að taka öryggismálastefnu bandalagsins til endurskoðunar. Endurskoðunin hófst fyrr á þessu ári og stendur fram að leiðtogafundinum. Íslensk stjórnvöld telja að styrkur bandalagsins felist fyrst og fremst í sameiginlegum varnarskuldbindingum og Atlantshafstengslunum og áfram beri öðru fremur að fást við sameiginleg öryggismál aðildarríkjanna. Því til viðbótar og stuðnings er nauðsynlegt að bandalagið efli getu sína til þátttöku í friðargæslu og friðarframkvæmd og auki samráð og samvinnu við samstarfsríki, enda er öryggishugtakið víðara nú en áður. Samhliða endurskoðun öryggismálastefnu bandalagsins munu íslensk stjórnvöld vinna að aðlögun stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum, eftir því sem við á.


    Af okkar hálfu hefur ekki einungis verið fjallað um nauðsynlega aðlögun, heldur verið brugðist við breyttum aðstæðum. Þetta endurspeglast í framlagi Íslands til SFOR og hinna alþjóðlegu lögreglusveita sem hefur vakið verðskuldaða athygli og sýnt að Ísland getur eins og önnur aðildarríki tekið þátt í friðargæslu eða friðarframkvæmd á vegum bandalagsins. Brýnt er að fengin reynsla nýtist og hægt verði að bregðast við með skömmum fyrirvara.
    Sú umræða sem farið hefur fram á vinstri væng stjórnmálanna undanfarið um aðildina að NATO kemur á óvart. Álitið hafði verið að nú ríkti meiri friður en nokkru sinni fyrr um þátttöku okkar í bandalaginu, einkum í ljósi ótvíræðs mikilvægis þess í öryggismálum í álfunni og ekki síst vegna þess hve þátttaka okkar Íslendinga í bandalaginu hefur aukist og orðið sýnilegri í hinu nýja öryggisumhverfi.


    Þátttaka okkar í bandalaginu er og verður einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Lögð hefur verið áhersla á virka þátttöku Íslands í störfum bandalagins og hefur fastanefnd Íslands í Brussel verið efld í þessu skyni.
    Töluvert hefur verið um atburði tengda bandalaginu hér á landi á þessu ári. Ráðgefandi nefnd þess um stefnumótun, APAG, kom saman til fundar á Egilsstöðum í september til að ræða óformlega framtíðarþróun á helstu sviðum öryggismála. APAG-fundur hefur ekki verið haldinn á Íslandi fyrr. Í október var í Reykjavík haldinn fundur í nefnd NATO um vandamál nútímasamfélags, CCMS, sem Íslendingar hafa tekið virkan þátt í, en ekki áður boðið til fundar hér á landi. Loks var haldin ráðstefna um störf heilbrigðisstétta í friðargæslu þar sem saman komu íslenskir friðargæsluliðar ásamt félögum sínum frá Noregi og Bretlandi til að miðla reynslu sinni. Töluvert var um heimsóknir á árinu, en hingað komu m.a. varaaðalframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnmáladeildar bandalagsins og yfirmaður Atlantshafsherstjórnar NATO. Tæplega hundrað nemendur Varnarmálaskóla NATO í Róm komu til Íslands í námsferð í maí sl., hittu þingmenn og embættismenn og kynntu sér viðhorf íslenskra stjórnvalda til öryggis- og varnarmála.


    Fimmtíu ára afmælis bandalagsins verður m.a. minnst með ráðstefnu þar sem fjallað verður um þátttöku Íslendinga á hinum ýmsu sviðum innan bandalagsins. Einnig er fyrirhugað að halda ráðstefnu í samvinnu við Atlantshafsherstjórn bandalagsins (SACLANT) árið 2000.


    Varnarmál.


    Framtíð varnarsamstarfsins við Bandaríkin hefur komið til umræðu síðustu misserin. Öryggisumhverfi okkar heimshluta hefur tekið gífurlegum breytingum á undanförnum árum og hafa útgjöld til varnarmála lækkað í samræmi við það. Í Bandaríkjunum hafa útgjöld til varnarmála lækkað um 40% frá því um miðjan síðasta áratug og hefur varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Miðnesheiði ekki farið varhluta af þeim niðurskurði. Frá hernaðarlegu sjónarmiði er þessi niðurskurður eðlilegur, enda eru átök á borð við þau, sem menn óttuðust á dögum kalda stríðsins, óhugsandi nú.


    Vera varnarliðsins hér samrýmist varnarhagsmunum beggja ríkja og tryggir öryggi Íslands og jafnframt stöðugleika á Norður-Atlantshafi, mikilvægustu samgönguæð í heimi, hvort heldur á friðar- eða ófriðartímum. Pólitískur styrkur Atlantshafsbandalagsins liggur í sameiginlegum hagsmunum, samræmdri stefnu aðildarríkjanna í öryggismálum og gagnkvæmum varnarskuldbindingum. Varnarstöðin á Miðnesheiði er órjúfanlegur hluti þess kerfis. Samruni hinna pólitísku og hernaðarlegu þátta gera Atlantshafsbandalagið að akkeri stöðugleika í ólgusjó þeirra breytinga sem eiga sér stað í öryggismálum álfunnar. Í þessu samhengi verður að meta framtíð varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna.


    Einn helsti styrkur varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna er sú gagnkvæmni og það gagnsæi sem er í samskiptum ríkjanna. Bandaríkin munu ekki án samþykkis íslenskra stjórnvalda breyta varnarviðbúnaðinum hér á landi. Að sama skapi þurfa íslensk stjórnvöld að laga sig að breyttu öryggisumhverfi og koma til móts við helsta bandamann sinn í varnarmálum, ekki síst á tímum niðurskurðar. Kostnaðarlækkun er lykilhugtak í því sambandi.
    Fyrirkomulagi verklegra framkvæmda á varnarsvæðunum hefur verið breytt til nútímalegri viðskiptahátta. Framkvæmdir, sem kostaðar eru af Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins, eru nú þegar boðnar út. Þær framkvæmdir, sem kostaðar eru af Bandaríkjastjórn, verða boðnar út í áföngum, fyrst á næsta ári, en verktakan verður að fullu gefin frjáls í janúar 2004. Þess má geta að ráðist hefur verið í framkvæmdir fyrir rúmlega 40 milljónir Bandaríkjadala árlega síðastliðin sex ár. Stór hluti þjónustuviðskipta er nú boðinn út af Varnarliðinu að undangengnu forvali utanríkisráðuneytisins.


    Mikið og gott starf hefur verið unnið í markaðs- og fjármálum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í kjölfar þeirra skipulagsbreytinga sem gerðar voru í fyrra. Skuldasöfnum hafði verið mikil fram að því. Tekjuaukningin var tæplega 202 milljónir króna fyrstu níu mánuði ársins. Áætluð tekjuaukning í ár er 245 milljónir króna, en það er 70% aukning milli ára. Verið er að hefjast handa við fyrsta áfanga stækkunar flugstöðvarinnar og hefur útboð vegna stækkunar flughlaða þegar verið auglýst. Á næsta ári verður hafist handa við suðurbyggingu flugstöðvarinnar og er ráðgert að ljúka verkinu í ársbyrjun 2001. Er hér um stórframkvæmd að ræða sem kostar um tvo milljarða króna. Með þessum áfanga fást sjö viðbótarstæði tengd landgöngubrúm auk þess sem byggð verður tæplega 4000 fm tengibygging. Verkefnið er brýnt því núverandi flugstöð er hönnuð fyrir um eina milljón farþega á ári. Flugtölur í september sýndu að þá höfðu tæplega milljón farþegar farið um flugstöðina.


    Lokaorð.


    Ég vil að lokum þakka háttvirtum þingmönnum, almenningi og atvinnulífinu þann aukna skilning, sem utanríkiþjónustunni hefur verið sýndur. Þessi stuðningur hefur eflt utanríkisþjónustuna og treyst hana í sessi. Stofnuð hefur verið fastanefnd í Strassborg, sendiráð í Helsinki var sett á laggirnar á síðasta ári og í frumvarpi til fjárlaga næsta árs er gerð tillaga um opnun fastanefndar hjá ÖSE í Vín, eins og ég gat um áðan. Ennfremur hafa innviðir aðalskrifstofu ráðuneytisins verið styrktir nokkuð. Verið er að gera átak í tölvumálum utanríkisþjónustunnar sem gerir öll boðskipti og úrvinnslu mála skilvirkari. Enn kreppir þó skórinn að í vissum málaflokkum. Þannig verður að telja nauðsynlegt að efla starf að Evrópumálum og þátttöku annarra ráðuneyta í framkvæmd EES-samningsins. Ekki verður heldur hjá því komist að stuðla að því að ráðuneytið geti betur sinnt menningar- og upplýsingamálum gagnvart erlendum þjóðum.


    Ég hygg að allir, sem láta sig alþjóðamál skipta, hljóti að vera sammála um mikilvægi þess að við Íslendingar höfum yfir að ráða nútímalegri og öflugri utanríkisþjónustu. Við verðum að horfa fram á veginn og opna ný sendiráð þar sem þörf er á, t.d. í Ottawa og Tókýó, eins og lagt var til í greinargerð nefndar um framtíð utanríkisþjónustunnar sem skilaði áliti í mars á þessu ári.


    Herra forseti.


    Ég hef nú fjallað nokkuð um helstu þætti utanríkis- og öryggismála. Stefna okkar Íslendinga í þeim mikilvægu málaflokkum hefur verið raunsæ og án skyndibreytinga allt lýðveldistímabilið. Hún hefur verið í anda friðar, vináttu og viðskipta við allar þjóðir og haft öryggi og velferð íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Sú vegferð hefur verið farsæl og það er okkar skylda að halda henni áfram af fyrirhyggju og víðsýni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta