Ávarp ráðherra í tilefni af fimmtíu ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna
Ávarp Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra
í tilefni af fimmtíu ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna,
10. desember 1998.
Góðir áheyrendur,
þess er nú minnst víða um heim, að fimmtíu ár eru liðin síðan mannréttindayfirlýsingin var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í París hinn 10. desember 1948.
Þessi tímamót eru tilefni til að fagna hinum mikla árangri, sem náðst hefur í baráttu fyrir mannréttindum um heim allan og minnast þess, hve mannréttindayfirlýsingin og aðrar samþykktir og yfirlýsingar um mannréttindi hafa reynst traustur grunnur að bættum réttindum fjölda fólks og ýmissa þjóðfélagshópa. Í krafti hugsjóna mannréttindayfirlýsingarinnar hefur fólk um gjörvallan heim barist gegn þrælahaldi, nýlendustefnu, kynþáttaaðskilnaði og mismunun kynjanna.
Það er von mín, að fimmtíu ára afmælið verði til þess að styrkja mannréttindabaráttuna, auka alþjóðlegan þrýsting á þá valdhafa, sem brjóta mannréttindi, og veita þeim þúsundum einstaklinga styrk, sem hætta lífi sínu og frelsi í baráttunni fyrir réttindum sem okkur finnast sjálfsögð.
Mannréttindayfirlýsingin er, ásamt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, grundvöllur mannréttindabaráttunnar. Á þessum tveimur skjölum byggja fjölmargir alþjóðasamingar um einstök mannréttindi, yfirlýsingar og framkvæmdaáætlanir hinna miklu ráðstefna, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa staðið fyrir á undanförnum árum.
Nú stendur yfir hinn alþjóðlegi áratugur mannréttindakennslu, í þágu menntunar og upplýsingar um mannréttindi. Þetta framtak hefur mikla þýðingu, því almenn meðvitun almennings um mannréttindi og almenn þátttaka í mannréttindastarfi er besta tryggingin fyrir árangri á þessu sviði.
Helstu verkefni um þessar mundir
Þjóðir heims hafa með alþjóðasamningum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna skapað virk tæki í þágu mannréttinda. Nauðsynlegt er að tryggja framkvæmd þessara samninga.
Í því skyni þarf að efla eftirlit með því að þeim sé framfylgt, auka aðhald með upplýsingaskyldu og skýrslugjöf ríkja og styrkja starf nefndanna, sem fara með eftirlit með viðkomandi samningum. Einnig þarf að auka möguleika einstaklinga til að leggja fram kæru og samþykkja viðauka um kæruleiðir við helstu mannréttindasaminga.
Mikilvægt er, að hið alþjóðlega samfélag fylgist með því að yfirvöld í ríkjum standi við skuldbindingar sínar, sem þau hafa gengist undir með undirritun mannréttindasamninga.
Ísland situr ekki hjá í mannréttindabaráttu
Ísland hefur lagt þessu starfi lið með margvíslegum hætti. Við höfum undirritað og fullgilt alla helstu mannréttindasamninga, nú síðast samninginn, sem beint er gegn pyntingum og ómannúðlegri meðferð, og hvatt önnur ríki til að gera slíkt hið sama.
Ísland hefur skilað reglulega landsskýrslum til eftirlitsnefnda samninganna, sem við erum aðilar að. Fyrsta skýrslan vegna samningsins gegn pyntingum var tekin fyrir í síðasta mánuði og jafnframt þriðja skýrslan vegna alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Við höfum tekið þátt í mikilvægustu verkefnum á þessu sviði í seinni tíð, svo sem gerð Rómarsamþykktarinnar um alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn, sem við undirrituðum í sumar. Þarna er um að ræða eitt mikilvægasta framlag til aukins frelsis, réttlætis og mannréttindaverndar í heiminum í seinni tíð. Vonir standa til að dómstóllinn geti tekið sem fyrst til starfa og sinnt því hlutverki sínu, að dæma í málum einstaklinga, sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu.
Markvisst hefur verið unnið að því að auka málflutning Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um mannréttindamál. Fulltrúar Íslands hafa tekið þátt í umræðum um mannréttindamál í Efnahags- og félagsmálaráðinu, þar sem Ísland á sæti, og á yfirstandandi allsherjarþingi tókum við virkan þátt í umræðum um réttindi barna og framkvæmd niðurstaðna Pekingáætlunarinnar um réttindi kvenna.
Góð samvinna hefur tekist við Mannréttindaskrifstofu Íslands og aðildarfélög hennar um undirbúning málflutnings af Íslands hálfu um mannréttindamál, auk hefðbundins samráðs við önnur ráðuneyti, sem fara með mannréttindamál; dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið.
Á fundum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York og mannréttindaráðsins í Genf hefur Ísland lagt lið veigamestu mannréttindamálum, sem þar er fengist við, og gerst meðflytjandi að fjölda ályktanatillagna. Um þau mál eigum við gott samtarf við önnur Norðurlönd.
Norðurlöndin hafa beitt sér innan Sameinuðu þjóðanna í þágu minnihlutahópa, ennfremur fyrir alþjóðlegum áratugi frumbyggja og fyrir vettvangi fyrir þá innan Sameinuðu þjóðanna. Ég tel mikilvægt að tryggja frumbyggjahópum rétt til lands og nátturauðlinda og nýtingar þeirra.
Norðurlöndin beita sér einnig fyrir lágmarks mannúðarmörkum, gegn pyntingum og dauðarefsingu og í þágu þeirra sem verja mannréttindi. Við höfum stutt ályktanir til að bæta stöðu barna og kvenna, gegn mannsali kvenna og stúlkna og gegn umskurði stúlkna.
Auk þess hefur Ísland stutt á þessum vettvangi ályktunartillögur um mannréttindaástandið í einstökum löndum, svo sem Búrma, Afghanistan, Írak, Íran, Súdan, Kúbu og fyrrum-Júgóslavíu og yfirlýsingar um stöðuna í Austur-Tímor.
Mikilvægt er, að allsherjarþingið og mannréttindaráðið séu virkur vettvangur fyrir umræður um mannréttindamál og að sem flest aðildarríki láti þar til sín taka.
Rétt að huga að setu í mannréttindaráði S.þ. í framtíðinni
Þátttaka ráðuneytisins í norrænu samráði um mannréttindamál hefur verið aukin, m.a. í tengslum við mannréttindaráðið í Genf, þar sem Norðurlöndin hafa ávallt átt fulltrúa. Að allsherjarþinginu frátöldu, er mannréttindaráðið mikilvægasti vettvangurinn fyrir mannréttindamál. Enn hefur Íslendingum þó ekki verið unnt að taka þátt í norrænu hringrásinni um framboð til ráðsins. Ég tel mikilvægt að það verði skoðað vel, hvort Ísland geti boðið fram til mannréttindaráðsins í framtíðinni og þar með lagt sitt af mörkum til virkara starfs að mannréttindamálum. Til þess að það geti orðið þarf að styrkja starf ráðuneytisins að mannréttindamálum. Í því sambandi er samstarf við sjálfstæð félagasamtök mjög mikilvægt.
Gott samstarf við Mannréttindaskrifstofuna og
Mannréttindastofnun HÍ
Mannréttindastofnun HÍ
Í mannréttindastarfi er afar þýðingarmikið að góð samvinna náist, ekki síst á milli stjórnvalda og hinna frjálsu félagasamtaka. Á síðustu árum hefur starfsemi frjálsra félagasamtaka orðið æ umfangsmeiri í umræðum og stefnumótun í utanríkismálum á alþjóðavettvangi, einkanlega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þegar efnt er til alþjóðlegra ráðstefna, er frjálsum félagasamtökum á viðkomandi sviði yfirleitt boðin áheyrnaraðild og málfrelsi. Í flestum tilfellum hefur þátttaka slíkra félaga orðið til að auka gæði umræðunnar.
Á Íslandi starfa mörg félagasamtök, sem láta sig mannréttindamál og utanríkismál varða. Þau byggja á góðum grunni og hafa mörg hver rótgróin tengsl við erlend systurfélög eða stofnanir. Má þar nefna Amnesty International á Íslandi, samtökin Barnaheill og UNIFEM-félagið á Íslandi. Ég hef leitast við að efla samstarfið við þessi félög, styðja starfsemi þeirra og taka tillit til sjónarmiða þeirra við stefnumótun. Að mörgu leyti eru þau hentugur vettvangur fyrir áhugamenn um alþjóðamál til að láta til sín taka og hafa áhrif á stefnu Ísland í viðkomandi máli.
Utanríkisráðuneytið hefur leitast við að efla samstarfið við Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Að hvatningu ráðuneytisins hafa þessir aðilar nú gert með sér samstarfssamning, sem styrkir mjög starf þeirra að mannréttindamálum, bæði hvað snertir mannréttindabaráttu og fræðimennsku á sviði mannréttinda. Samstarfsamningurinn hefur verið ríkisstjórinni ástæða til að auka árlegt framlag til starfs þeirra og veita einnig sérstaka aðstoð á þessu ári.
Á verði gagnvart mismunun á Íslandi
Við Íslendingar höfum blessunarlega búið við gott ástand í mannréttindamálum. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt að vera sífellt á verði til að tryggja mannréttindi allra þjóðfélagshópa, sérstaklega þeirra, sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu, eins og kvenna, barna og fatlaðra.
Mikill árangur hefur náðst í réttindabaráttu kvenna og er unnið ötullega að því að koma niðurstöðum Pekingráðstefnunnar í framkvæmd hér á landi. Utanríkisráðuneytið hefur stutt starfsemi Barnaheilla og hefur félaginu nýlega verið veittur styrkur til að taka þátt í sérstöku þróunarverkefni í þágu barna. Mikilvægt er að hið alþjóðlega samfélag taki umbúðarlaust á vandamálum eins og vinnuþrælkun barna og misnotkun þeirra. Ákvæði barnasáttmálans hafa verið til umfjöllunar í mannréttindanefnd Eystrasaltsráðsins og ég hef beitt mér fyrir því, að Norðurlöndin láti málefni barna sérstaklega til sín taka undir formennsku Íslands í Norðurlandasamstarfinu á næsta ári. Við munum einnig leggja okkar af mörkum til að samkomulag náist um viðauka við samninginn um réttindi barnsins, þar sem kveðið er á um bann við því að börn undir 18 ára aldri verði kölluð í heri.
Ísland styður með fjárframlagi starf hins sérstaka fulltrúa Sameinuðu þjóðanna fyrir málefni fatlaðra og styður utanríkisráðuneytið hugmyndir um að halda hér á landi alþjóðlega ráðstefnu, þar sem fjallað verður um mannréttindi fatlaðra.
Íslenskt þjóðfélag hefur breyst á margan hátt á síðustu árum. Það er orðið alþjóðlegra og hér býr nú stærri hópur fólks af öðru þjóðerni, trúarbrögðum og litarhætti en áður. Markvisst verður að vinna að því að þessir samborgarar okkar verði sem virkastur hluti af íslensku samfélagi og þeir búi hér við sömu aðstæður og réttindi og aðrir. Við verðum að vera vakandi gagnvart mismunun hér á landi,því hún getur víða leynst.
Mannréttindi eru algild
Mannréttindi eru algild og óaðskiljanleg. Baráttan fyrir mannréttindum er jafnframt samofin baráttunni gegn fátækt, ófriði og réttinum til þróunar. Þróunar sem felur í sér rétt allra einstakling og þjóða til að taka þátt í, eiga aðild að og njóta ávaxta efnahagslegrar, félagslegrar , menningarlegrar og stjórnmálalegrar þróunar, þar sem allra grundvallarmannréttinda nýtur við.
Vernd mannréttinda er einn veigamesti þátturinn í starfi Sameinuðu þjóðanna og er litið svo á að mannréttindi séu óaðskiljanlegur þáttur í öllu starfi samtakanna, hvort sem er í þróunarsamstarfi eða friðargæslu. Þetta á einnig við um starf annarra fjölþjóðasamtaka að friði og öryggi, eins og sést best af hinu víðtæka hlutverki í þágu mannréttinda, réttarfars og lýðræðis, sem friðargæslusveitum samtakanna er ætlað.
Vernd mannréttinda hefur verið einn veigamesti þátturinn í viðleitni svæðisbundinna stofnanna eins og Atlantshafsbandalagins, Evrópuráðsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Eystrasaltsráðsins til að tryggja öryggi, stöðugleika og lýðræðisþróun í Evrópu eftir lok kalda stríðsins.
Góðir áheyrendur.
Fimmtíu ár eru skammur tími í sögunni. Á þessum fimmtíu árum, sem liðin eru frá samþykkt mannréttindayfirlýsingarinnar, hefur Grettistaki verið lyft. Aldrei áður hafa konur og karlar verið jafn meðvituð um grundvallarréttindi sín og leikreglur hins siðmenntaða samfélags. En mikið verk er framundan við að tryggja öllum þessi réttindi. Ég er vongóður um árangur í þessari baráttu og vil að lokum að vitna í orð Einars Benediktssonar: "Þeim, sem vilja vakna og skilja, vaxa þúsund ráð".