Ávarp ráðherra á ráðstefnu f. lögmenn og dómara
Ráðstefna utanríkisráðuneytisins fyrir lögmenn og dómara
Haldin í Borgartúni 6, föstudaginn 22. janúar 1999
Ég vil byrja á að bjóða ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu. Lengi var litið svo á að embættismenn utanríkisráðuneytisins væru undantekningalítið lögfræðingar. Ég held ég geti þó staðhæft að aldrei hafi fleiri lögfræðingar komið saman á vegum ráðuneytisins.
Klókindi og refskapur.
Ekki þykir það alltaf athyglisvert þó við endurskoðendur eigum fundi saman en það er alltaf viss ljómi yfir fundum lögmanna ekki síst vegna þess að það fer mörgum sögum af refskap þeirra og klókindum. Þeir eru jafnvel ekki taldir eftirbátar stjórnmálamanna í þessum efnum.
Til vitnisburðar um það var sögð saga af því þegar einn af heldri borgurum lá á dánarbeðinu kallaði hann til þrjá bestu vini sína, alla mikla merkismenn, en þeir voru presturinn, endurskoðandinn og lögfræðingurinn. Hann sagði þessum vinum sínum að hann hefði unnið mikið um dagana og safnað miklum auði en þætti sárt að þurfa að byrja líf í nýjum heimkynnum algjörlega snauður. Því hefði hann tekið þá ákvörðun að taka með sér fjársjóð. Afhenti hann síðan vinum sínum hverjum um sig eina milljón og bað þá um að leggja sjóðinn með sér í kistuna áður en hann yrði jarðsettur.
Þegar félagarnir þrír hittust í erfidrykkjunni spurðu þeir hvern annan að því hvort þeir hefðu lagt féð í kistuna. Presturinn var fyrstur til svars og sagðist hafa lagt helminginn. Sagðist hann vita að höfðinginn myndi engin not hafa af sjóðnum í þeim vistarverum sem hann færi í og hefði hann gefið mismuninn til þurfandi sóknarbarna. Endurskoðandinn taldi prestinn ekki hafa farið drengilega að, því þeim hafi borið að virða síðustu óskir hins látna. Sjálfur hafi hann greitt alla fjárhæðina að frádregnum kostnaði vegna umsýslustarfa í þágu hins látna. Lögfræðingurinn gat ekki orða bundist og lýsti mikilli vanþóknun á athæfi vina sinna. Hann ætlaði ekki að fara taka einhverja þóknun af deyjandi vini og kvaðst hafa greitt fjárhæðina að fullu með ávísun.
Flókið samspil.
Fáir meta meira störf lögmanna en sá er hér stendur og vil ég eftir þennan formála bjóða ykkur aftur sérstaklega velkomna hingað.
Eftir því sem ég best veit er þetta í fyrsta sinn sem lögmönnum og dómurum er boðið sameiginlega til kynningar af utanríkisráðuneytinu. Í kjölfar fundar lögmannafélagsins í Brussel í fyrra sem boðað var til fyrir atbeina sendiráðs Íslands, var ég gestur hjá ykkur á afar áhugaverðum fundi á Þingvöllum s.l. sumar. Þessi tíðu samskipti lögmanna og dómara með fulltrúum utanríkisráðuneytisins er engin tilviljun. Þróun undanfarinna ára, sérstaklega með tilkomu EES samningsins, hefur gert það að verkum að skilin milli utanríkismála og mála á innanlandsvettvangi eru ekki eins skýr og áður.
Á fjölmörgum sviðum eru hefðbundin landamæri milli ríkja að hverfa. Við erum, fyrir tilstuðlan EES samningsins, hluti af hinum innri markaði Evrópusambandsins og þurfum á fjölmörgum sviðum að fara eftir sambærilegum leikreglum og 17 önnur ríki. Þá þurfa þátttakendur í atvinnulífinu að þekkja til réttarkerfis alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þekkja til fjölmargra tvíhliða viðskiptasamninga sem Ísland hefur gert á undanförnum árum, þ. á m. eru þriðjulanda samningar EFTA. Auk þess þarf að standa skil á ýmsum öðrum réttarkerfum sem móta umgjörð um þessi svið svo sem mannréttindasamningi Evrópu.
Túlkun leikreglna er því flóknari en áður, lögfræðingum nægir ekki lengur að kunna skil á landslögum, einnig er nauðsynlegt að hafa skilning á þjóðarétti og Evrópurétti. Lögfræði hefur líklega aldrei boðið upp á fleiri möguleika en er um leið flóknari fræðigrein en hún hefur áður verið.
Tæknin auðveldar.
Á sama tíma hefur tæknin auðveldað mörg störf lögmanna. Aðgengi að upplýsingum hefur líklega aldrei verið auðveldara. Alnetið gerir það að verkum að flókin og umfangsmikil gagnaöflun er nú einfaldari og í mörgum tilvikum öruggari en áður.
Utanríkisráðuneytið hefur lagt sitt af mörkum til að auðvelda störf lögmanna. Fyrir utan að sinna daglegum fyrirspurnum um EES-samninginn hefur ráðuneytið sett hann á heimasíðu ráðuneytisins, sem verður kynnt hér á eftir af Birni Friðfinnssyni. Þar er að finna upplýsingar um þá lagatexta sem eru hluti EES-samningsins, en eins og ykkur er kunnugt breytist EES-samningurinn mánaðarlega með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Réttaróvissu eytt.
Þrátt fyrir að greiður aðgangur að EES-gerðum sé nauðsynlegur fyrir lögmenn, er hann oft ekki nægjanlegur þar sem EES-reglur hafa ekki bein réttaráhrif hér á landi. Alþingi eða stjórnvöld setja reglurnar sem innleiða EES-gerðir í landsréttinn. Lögmenn hafa af þessum sökum kvartað yfir því að hafa ekki yfirlit yfir þessar reglur þegar þeir eru að fjalla um réttarstöðu einstaklinga og lögaðila. Hafa sumir jafnvel gengið svo langt að líkja þessu við ástandið á einveldistímanum þegar mjög var á reiki hver gildandi réttur var og hvar hann var að finna. Þurfti þá Magnús Stephensen, stiftamtmaður, að greiða úr þeirri flækju og þegar hann andaðist árið 1833 var réttaróvissu að mestu eytt.
Við njótum því miður ekki lengur krafta Magnúsar Stephensens til þess að eyða þessari nútíma réttaróvissu en getum þó huggað okkur við að aðstaðan nú á dögum er á engan hátt eins alvarleg og á einveldistímanum. Utanríkisráðuneytið hefur unnið að þessu úrlausnarefni með aðstoð þeirra alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að.
Nú rétt fyrir áramót kynnti Eftirlitsstofnun EFTA nýjan gagnagrunn sem veitir greinargott yfirlit um íslenskar reglur sem lögleiða EES-gerðir í íslenskan rétt þar sem gerð er sérstök grein fyrir þeim gerðum sem leiddu til þess að reglurnar voru settar. Þessi aðgangur er mikilvæg og kærkomin breyting og segja má að framkvæmdavaldið hafi aftur tekið að sér að greiða úr réttaróvissu en að nú hafi tölvurnar tekið við hlutverki Magnúsar Stephensens að þessu leyti.
Heimasíður utanríkisráðuneytisins og ESA verða kynntar nánar síðar á þessari ráðstefnu auk þess sem upplýsingum um önnur gagnleg netföng verður dreift. Á meðal þeirra eru netföng EFTA-dómstólsins og dómstóla Evrópusambandsins. Afar mikilvægt er að fylgjast vel með niðurstöðum þessara aðila enda ber að taka tilhlýðilegt tillit til fordæma þeirra við framkvæmd EES samningsins hér á landi.
Sóknarfæri EES.
Jafnframt því að huga að möguleikum til að auka gagnsæi og draga úr réttaróvissu telur utanríkisráðuneytið einnig mikilvægt að aðilar notfæri sér þau sóknartækifæri sem EES samningurinn býður uppá. Evrópusamvinnan hefur gefið Íslendingum tækifæri á fjölmörgum sviðum sem mikilvægt er að einstaklingar, fyrirtæki og samtök nýti sér. Í dag eru fjöldinn allur af aðilum hér á landi sem veitir upplýsingar um þessa möguleika.
Utanríkisráðuneytið hefur gefið út upplýsingaefni undir heitinu njóttu réttinda þinna í nýrri Evrópu í því augnamiði að kynna möguleika Íslendinga á EES svæðinu. Þrátt fyrir aukið upplýsingastarf hafa ýmsir fundið að því hversu erfitt það er að nálgast á einum stað upplýsingar um þessi sóknartækifæri. Það er skiljanlegt m.a. í ljósi þess hversu margir aðilar koma að þessum málum og hversu fjölbreyttir möguleikarnir eru. Má þar nefna málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja, upplýsingasamfélagið, rannsóknir og þróun, menntamál, starfsþjálfun, æskulýðsmál, menningu og listir, heilbrigðismál, félags- og atvinnumál og ferðaþjónustu svo að dæmi séu nefnd.
Hver veitir upplýsingar?
Erfitt er að rekja þennan upplýsingavef ef aðilar búa ekki yfir vissri yfirsýn. Ég bið fundargesti um að sýna mér biðlund þar sem ég ætla að rekja í stuttu máli yfirlit yfir þá aðila sem veita upplýsingar um þessi sóknartækifæri hér á landi.
Fyrst vil ég nefna hlutverk sendiráðs okkar í Brussel og síðan minnast á hlutverk Útflutningsráðs, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Evrópusambandsins sem m.a. reka Upplýsinga-skrifstofu um Evrópumál (,,Euro Info Centre") fyrst og fremst varðandi möguleika lítilla og meðalstórra fyrirtækja, Kynningarskrifstofu Evrópu-rannsókna, Ker, er þjónustuaðili Rannsókna og tækniáætlana. Síðan má nefna:
· Landsskrifstofu Sókrates
· Midas-net skrifstofuna
· Media upplýsingarþjónustuna á Íslandi
· Raphael menningaráætlun ESB
· Landsskrifstofu Leonardo
· Ungt fólk í Evrópu og Evrópska sjálfboðaþjónustu
· Jafnréttisáætlun ESB
· EES-vinnumiðlun
· OPET á Íslandi auk ýmissa annarra aðila sem veita almennar upplýsingar um sóknarmöguleika í Evrópu.
Upplýsingafulltrúi.
Í ljósi þessarar upptalningar er ekki að furða að mörgum finnist erfitt að feta sín fyrstu fótspor í þessu völundarhúsi, og telji það einungis á færi sérfróðra aðila. Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins er sá aðili sem veitt getur almennar leiðbeiningar um þessi sóknartækifæri, og eflaust má efla hlutverk þeirrar skrifstofu á þessu sviði. Að teknu tilliti til slíkra sjónarmiða hefur utanríkisráðuneytið tekið ákvörðun um að stofna stöðu upplýsingafulltrúa á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins um Evrópu-mál.
Það er ekki markmið ráðuneytisins að þessi vinna skarist við það mikilvæga upplýsingastarf sem unnið er af öðrum í stjórnkerfinu heldur fyrst og fremst að hafa svokallaðan fyrsta leitarstað. Þar er hægt að veita upplýsingar á hvaða sviði sem er, um hvar leita megi eftir fyrirgreiðslu í sambandi við sóknarfæri eða aðra möguleika á hinu evrópska efnahagssvæði. Þannig yrði upplýsingadeildin að þessu leyti fyrst og fremst tengiliður milli almennings, fyrirtækja eða samtaka annars vegar og hins vegar þeirra aðila sem veita upplýsingar um þessa möguleika.
Hraðvirk aðfinnsluaðferð.
Þessi fyrsti leitarstaður leysir hins vegar aðeins hluta vandans. Ekki verður á móti mælt eftir að Svíþjóð, Finnland og Austurríki ákváðu að gerast aðili að ESB og Sviss tók ákvörðun um að standa fyrir utan EFTA stoð EES samningsins, hefur samningurinn verið notaður minna en annars hefði verið gert. Því er viss hætta til staðar að einstakir starfsmenn eða embættismenn í aðildarríkjum Evrópusambandsins þekki ekki sem skyldi ákvæði EES samningsins. Kynning á ákvæðum samningsins er því mikilvægari en áður.
Kæruleiðin eða dómstólaleiðin er oft tímafrek og nýleg skoðunarkönnun sem gerð var af Evrópusambandinu leiddi í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þeirra aðila sem synjað var um réttindi samkvæmt Rómarsamningnum, fylgdi réttindum sínum ekki eftir því að slíkt svaraði ekki fyrirhöfn eða tilkostnaði að þeirra mati.
Meðal annars í ljósi slíkra sjónarmiða var ákveðið með Amsterdamsamningnum árið 1997 að bjóða upp á valkost fyrir utan hefðbundnar kæru- og dómstólaleiðir. Þá var tekin upp hraðvirk aðfinnslumeðferð, þar sem hægt er að leiðrétta misskilning með skjótum og ódýrum hætti, jafnvel samdægurs, sem annars gæti tekið vikur mánuði eða ár eftir hefðbundnum kæruleiðum.
Tengiliðanet.
Þetta er gert með stofnun tengiliðanets sem starfrækt er í öllum aðildarríkjum ESB og nær núna einnig yfir EES svæðið. Hugmyndin með starfi tengiliða er sú, að þeir starfi á svipaðan hátt og umboðsmenn þegar vandamál koma upp á hinum innri markaði. Þessir aðilar eiga hver í sínu ríki að vera sérfróðir um leikreglur á hinu Evrópska efnahagssvæði og eiga að geta kippt málum í liðinn ef niðurstaða stjórnvalda byggist á vanþekkingu.
Sem dæmi má nefna hugsanlegt tilvik þar sem uppskipun á fiski t.d. í Bretlandi væri stöðvuð vegna vanþekkingar á EES samningnum. Í slíku tilviki ætti íslenskur tengiliður að geta fengið leiðréttingu samdægurs með því að hafa samband beint við tengiliðinn í Bretlandi, sem upplýsir viðkomandi stjórnvöld um gildandi rétt á þessu sviði. Þetta fyrirkomulag felur í sér mikla réttarbót og utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að tilnefna Einar Gunnarsson sem hinn íslenska tengilið.
Auk þess hefur annarri nýjung verið komið á fót í þeim tilgangi að tryggja skjótari málsmeðferð í slíkum málum þegar um flókin viðfangsefni er að ræða. Mögulegt er að taka slík mál upp á reglulegum fundum háttsettra yfirmanna samræmingaskrifstofa ráðgjafanefndar Evrópusambandsins um innri markaðsmál. Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytis-ins mun sjá um fyrirsvar Íslands á þessum vettvangi.
Íslensk hagsmunagæsla.
Ég hef í erindi mínu vikið í stuttu máli að gagnsæi og bættu aðgengi lögfróðra að reglum þeim sem gilda á hinu evrópska efnahagssvæði. Megináherslu hef ég hins vegar lagt á það hvernig aðilar geta notað EES samninginn sem tæki til að notfæra sér möguleika og sóknartækifæri sem Evrópusamvinnan býður uppá, og leiðir til að fá skjótari úrlausn ágreiningsmála. EES samningurinn er lang umfangsmesti samningur sem Ísland hefur gert og hefur aðlögun hans að íslenskum aðstæðum verið vandasamari en margir gerðu ráð fyrir.
Nauðsynlegt hefur verið að gera talsverðar breytingar á íslenskri stjórnsýsluframkvæmd og er þeirri vinnu engan veginn lokið. Ýmsir hafa bent á atriði sem betur hefðu mátt fara og vinnur utanríkisráðuneytið nú ötullega að leiðréttingum á fjölmörgum sviðum m.a. að því er varðar skýrari birtingar lagatexta.
Margir hafa bent á að sumar reglur taki ekki nægilega tillit til séríslenskra aðstæðna. Hluti þeirrar gagnrýni er réttmætur. Til þess að hægt verði að fylgja betur eftir íslenskri hagsmunagæslu þarf að skilgreina hagsmuni okkar fyrr í ákvarðanaferlinu en nú er almennt gert.
Reglurnar bera oft með sér að verið er að leysa flókin vandamál sem ná yfir landamæri. Við nánari skoðun kemur oft í ljós að lagasetningin nær yfir svið sem mörg ráðuneyti fara með hérlendis. Öflug hagsmunagæsla krefst því nánara samráðs í íslenskri stjórnsýslu en nokkru sinni fyrr.
Það er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld komi alltaf fram sem ein heild gagnvart öðrum ríkjum eða alþjóða-stofnunum. Þá er það mitt mat að efla verður hlutverk og samráð við Alþingi á þessu sviði til muna. Einnig þarf að byggja traustari brýr til hagsmunaaðila í landinu og reyna eftir því sem kostur er að taka tillit til þeirra sjónarmiða. Það verður eitt meginhlutverk utanríkisráðuneytisins að efla samráð þessara aðila á næstu misserum.
Aukið samstarf.
Ég hef orðið var við vaxandi áhuga á nánara samstarfi dómara og lögfræðinga við utanríkisráðuneytið á undanförnum árum og er það fagnaðarefni. Ráðstefna lögmanna í Brussel á síðasta ári markaði ákveðna braut í þeim efnum. Mér er kunnugt um að sendiráð Íslands í Brussel hefur boðist til aðstoða félag dómara við að halda svipaða ráðstefnu á þessu ári og er það einlæg von mín að félagið eigi þess kost að þiggja það boð.
Í Hávamálum eru spakmæli sem ég vil nota sem mín lokaorð:
Það er von mín að þessi fundur marki viss tímamót um aukið samstarf milli lögmanna, dómara og utanríkisráðuneytisins, og að gagnvegir megi liggja milli okkar um ókomna tíð.